Hoppa yfir valmynd

Kæra vegna ákvörðunar námsstyrkjanefndar vegna jöfnunar á námskostnaði

Ár 2002, miðvikudaginn 16. janúar, var kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svofelldur

 

 

ÚRSKURÐUR

 

 

I. Kröfur aðila.

 

Með bréfi, sem barst ráðuneytinu þann 17. september 2001, kærði A (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun námsstyrkjanefndar skv. lögum nr. 23/1989 (hér eftir nefndur kærði), að synja umsókn kæranda um styrk vegna jöfnunar námskostnaðar.

 

Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun nefndarinnar verði felld úr gildi og honum úrskurðaður fullur dvalarstyrkur.

 

Af hálfu kærða er því haldið fram að niðurstaða námsstyrkjanefndar sé í samræmi við ákvæði laga og reglna og er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

 

II. Málsatvik.

 

Kærandi sótti um styrk samkvæmt lögum nr. 23/1989 til jöfnunar á námskostnaði með umsókn, dags. 28. febrúar 2001. Samkvæmt umsókninni sótti kærandi um dvalarstyrk eingöngu fyrir vorönn 2001. Með bréfi kærða til kæranda, dags. 23. maí 2001, var kæranda tilkynnt að hann þyrfti að staðfesta sérstaklega tengsl sín við skráð lögheimili sitt, sbr. 4. og 6. gr. reglugerðar nr. 746/2000 um jöfnun námskostnaðar.

 

Með bréfi kærða, dags. 19. júní 2001, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið hafnað þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði 4. og 6. gr. reglugerðar nr. 746/2000. Var sú ákvörðun kærð til menntamálaráðuneytisins með bréfi kæranda, dags. 17. september 2001.

 

 

III. Málsmeðferð.

 

Þann 17. september 2001 tilkynnti ráðuneytið kærða að það hefði kæruna til meðferðar og var jafnframt óskað eftir umsögn og afstöðu kærða til kærunnar og að hann veitti ennfremur aðrar upplýsingar, ef einhverjar væru, sem að gagni kynnu að koma og ekki kæmu fram í gögnum málsins.

 

Kærði svaraði erindi ráðuneytisins með bréfi, dags. 26. september 2001. Með bréfi, dags. 1. október 2001, kynnti ráðuneytið kæranda athugasemdir kærða og var honum ennfremur veittur frestur til að bregðast við efni þeirra. Kærandi skilaði ekki athugasemdum við þeim sjónarmiðum sem fram komu í bréfi kærða.

 

 

IV. Málsástæður og lagarök kæranda.

 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veittur fullur dvalarstyrkur.

 

Kærandi telur að hann eigi rétt á dvalarstyrk fyrir vorönnina 2001. Honum hafi verið veittur slíkur styrkur fyrir árin 1998, 1999 og 2000, en synjað um styrk fyrir árið 2001 þrátt fyrir að aðstæður hans hefðu á engan hátt breyst frá því sem áður var. Kærandi telur að með því að synja honum um styrk nú sé brotin venja sem skapast hafi gagnvart honum og þeim forsendum, sem hann hafi gengið út frá, þegar hann hóf nám sitt.

 

Að mati kæranda uppfylli hann öll skilyrði, sem gerð séu til umsækjanda um námstyrk til jöfnunar á námskostnaði. Hann telur jafnframt að ómögulegt sé fyrir sig að uppfylla þau skilyrði, sem fram komi í bréfi kærða frá 23. maí 2001. Kærandi telur að þau skilyrði, sem finna megi í 1.-3. tl. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 746/2000 séu ólögmæt, skorti lagastoð og stríði gegn meginhugsun laga nr. 23/1989 um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. Megintilgangur laga nr. 23/1989 sé að jafna námskostnað og gera öllum, án tillits til búsetu, mögulegt að stunda það nám, sem þeir óski. Kærandi heldur því að lokum fram, að kærði hafi við meðferð málsins brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðum reglum um góða stjórnsýsluhætti, s.s. um framsetningu úrskurða, rökstuðning, tilgreiningu og tilvísun til lagaákvæða.

 

 

V. Málsástæður og lagarök kærða.

 

Kærði krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest þar sem hún fari eigi í bága við ákvæði laga og reglna um námsstyrkjanefnd.

 

Kærði heldur því fram, að 1.-3. tl. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 746/2000 séu sett á grundvelli 2. gr. laga nr. 23/1989 um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. Þar komi fram að skilyrði dvalarstyrks sé að nemandi verði að vista sig utan lögheimilis vegna námsins. Það sé jafnframt skilyrði að ekki sé unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað sem námsstyrkjanefnd metur jafngildan.

 

Kærði telur kæranda vista sig fjarri lögheimili af öðrum ástæðum en vegna námsins og eigi hann af þeim sökum ekki rétt á styrk til jöfnunar á námskostnaði. Í vafatilvikum sé kærða heimilt að telja annan dvalarstað en lögheimili jafngildan lögheimili. Í tilfelli kæranda reyni á þetta lagaákvæði, þar sem hann hafi eigi sýnt fram á tengsl við lögheimili skv. 1.-3. tl. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 746/2000 og beri af þeim sökum að synja honum veitingu námstyrkjar til jöfnunar á námskostnaði.

 

Kærði mótmælir því að hann hafi brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga og óskráðum meginreglum um góða stjórnsýsluhætti. Ákvörðun kærða frá 19. júní 2001 hafi verið tekin þrátt fyrir að einungis hafi borist óformlegt erindi um að fyrri afstaða kærða yrði endurskoðuð. Í ákvörðun kærða sé vísað til 4. gr. reglugerðar nr. 746/2000 um jöfnun námskostnaðar og þar tekið fram að ákvörðun kærða byggi á fyrirliggjandi gögnum. Í ákvörðun kærða hafi að lokum verið tekið fram, að kærandi geti óskað eftir endurupptöku á ákvörðun kærða eða skotið ákvörðuninni til menntamálaráðuneytisins.

 

 

VI. Rökstuðningur.

 

Gildissvið stjórnsýslulaga og kæruheimild.

Í stjórnsýsluframkvæmd hér á landi hefur ákvörðun stjórnvalds um bætur eða styrk til einstaklings verið talin stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að ákvæði stjórnsýslulaga eiga við um slíkar ákvarðanir. Kæra kærenda verður af þeim sökum talin byggjast á almennri kæruheimild samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga.

 

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 23/1989 um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði skipar menntamálaráðherra fimm manna nefnd, svokallaða námsstyrkjanefnd, sem leggja skal fyrir ráðuneytið tillögur um árlegar fjárveitingar í samræmi við markmið laganna. Þá skal nefndin úthluta námsstyrkjum til styrkhæfra nemenda.

 

Námsstyrkjanefnd er kærði í máli þessu. Samkvæmt auglýsingu nr. 96/1969 um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands fer menntamálaráðuneytið meðal annars með mál er varðar Lánasjóð íslenskra námsmanna og námsstyrki. Ákvörðun nefndarinnar er því réttilega kærð til menntamálaráðuneytisins.

 

Um skilyrði laga nr. 23/1989 um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði

Í lögum nr. 23/1989 um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði er mælt fyrir um þau skilyrði sem umsækjendur þurfa að fullnægja svo að af styrkveitingu geti orðið. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 23/1989 um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði njóta nemendur, sem stunda reglubundið framhaldsnám hér á landi sem ekki er á háskólastigi eða gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi og verða að vista sig utan lögheimilis og fjarri fjölskyldu sinni vegna náms, réttar til námsstyrkja samkvæmt lögunum. Það er skilyrði styrkveitingar að ekki sé unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað sem námsstyrkjanefnd metur jafngildan.

 

Í 3. gr. laganna er mælt fyrir um að styrkir sem nemendur njóta eru a) ferðastyrkir, b) fæðisstyrkir, c) húsnæðisstyrkir og d) sérstakir styrkir. Í einstökum töluliðum er mælt fyrir um nánari skilyrði þess að styrkir séu veittir.

 

Í lokamálsl. 1. mgr. 4. gr. laganna er mælt fyrir um að námsstyrkjanefnd úthluti námsstyrkjum til styrkhæfra nemenda. Í 6. gr. laganna segir að menntamálaráðuneytið setji reglugerð er mæli fyrir um með nánari hætti hvernig lögin skulu framkvæmd.

 

Reglugerð nr. 746/2000 um jöfnun námskostnaðar.

Menntamálaráðherra hefur mælt nánar fyrir um framkvæmd laganna. Í gildi er reglugerð nr. 605/2001 um jöfnun námskostnaðar en hún leysti af hólmi eldri reglugerð nr. 746/2000. Þann 28. febrúar 2001 sótti kærandi um námsstyrk til jöfnunar á námskostnaði. Þar sem umsókn kæranda barst kærða fyrir gildistöku reglugerðar nr. 605/2001 verður eingöngu byggt á eldri reglugerð nr. 746/2000 við úrlausn máls þessa.

 

Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni:

a)            Nemandi stundar reglubundið nám á framhaldsskólastigi hér á landi, sem ekki er á háskólastigi eða gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi, enda sé um að ræða a.m.k. eins árs skipulagt nám við framhaldsskóla sem falla undir ákvæði laga um framhaldsskóla nr. 80/1996.

b)            Nemandi nýti sér ekki rétt til láns úr Lánasjóði íslenskra námsmanna eða nýtur hliðstæðrar fyrirgreiðslu.

 

Í c-lið 1. mgr. 2. gr. áðurnefndrar reglugerðar segir að dvalarstyrkur samkvæmt reglugerðinni sé þríþættur, þ.e. ferðastyrkur, fæðisstyrkur og húsnæðisstyrkur. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er nánar mælt fyrir um skilyrðin fyrir úthlutun dvalarstyrks. Í ákvæðinu segir að þeir sem ekki geta stundað sambærilegt nám frá lögheimili sínu og dvelja þess vegna fjarri lögheimili og fjölskyldu sinni geta átt rétt á dvalarstyrk.

 

Heimilt er að víkja frá skilyrði um búsetu fjarri foreldri eð forráðamanni, ef eitthvert eftirtalinna skilyrða er uppfyllt:

a)            lögheimilishúsnæði er í eigu námsmanns;

b)            námsmaður hefur sótt fulla vinnu frá lögheimili sínu og hefur samfellt verið lengur en 7,5 mánuði á vinnumarkaði;

c)             námsmaður og maki hafa barn á framfæri sínu, maki dvelur í lögheimilishúsnæði og skráð sambúð á lögheimili hafi varað í a.m.k. eitt ár.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 23/1989 um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði er það skilyrði fyrir veitingu námstyrkjar að umsækjandi stundi reglubundið framhaldsnám hér á landi sem ekki er á háskólastigi eða gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Það er jafnframt skilyrði styrkveitingar að ekki sé unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað sem námsstyrkjanefnd metur jafngildan.

 

Kærandi stundar nám við B í Reykjavík. Hann er með skráð lögheimili úti á landi. Þar sem kærandi stundar nám við B dvelst hann á höfuðborgarsvæðinu, nánar tiltekið að C. Lögheimilishúsnæði kæranda er ekki hið sama og foreldra hans. Móðir kæranda er með lögheimili að D en faðir hans hefur skráð lögheimili í E.

 

Kærandi hefur samkvæmt framansögðu eigi sama lögheimili og foreldrar hans og fullnægir af þeim sökum eigi skilyrðum 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 746/2000 er varða veitingu námsstyrkjar. Í 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 746/2000 er að finna undantekningarákvæði frá framangreindu skilyrði laganna. Samkvæmt nefndu reglugerðarákvæði er kærða heimilt að víkja frá skilyrði um búsetu fjarri foreldri eða forráðamanni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í framkvæmd hefur við mat á 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar verið litið framhjá því að umsækjendur búi eigi á lögheimili foreldra sinna eða forráðamanna, ef umsækjendur eru eldri en 21 árs. Það hefur aftur á móti verið metið sem skilyrði til jöfnunar námskostnaðar í þessum tilvikum að lögheimili umsækjanda sé fjarri námsstað og að hann sýni fram á tengsl við lögheimilisstaðinn, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Þar sem kærandi hefur eigi sýnt fram á þau tengsl, sem mælt er fyrir um 1.-3. tl. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 746/2000, ber að staðfesta niðurstöðu kærða í máli þessu.

 

 

VII. Úrskurðarorð.

 

Ákvörðun kærða er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira