Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 3/2022 - Kæra vegna synjunar Þjóðskrár Íslands um skráningu á kjörskrá

Úrskurðarnefnd kosningamála

 

Ár 2022, laugardaginn 14. maí, kom úrskurðarnefnd kosningamála saman til að úrskurða um kæru A vegna synjunar Þjóðskrár Íslands um skráningu á kjörskrá og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

mál nr. 3/2022

Mál þetta úrskurða Berglind Svavarsdóttir, Anna Tryggvadóttir og Unnar Steinn Bjarndal.

I.

Með tölvupósti dags. 13. maí 2022 kærði kærandi, A, synjun Þjóðskrár Íslands dags. hinn sama dag um að skrá hana á kjörskrá, til úrskurðarnefndar kosningamála. Engin frekari gögn eða skýringar bárust frá kæranda þrátt fyrir beiðni þar að lútandi.

 

II.

Samkvæmt kæru er kærandi með lögheimili í Danmörku og hefur verið skráður þar með lögheimili síðastliðin fimm ár. Í synjun Þjóðskrár Íslands á beiðni kæranda er vísað til 4. gr. kosningalaga nr. 112/2021, þar sem fram kemur að einstaklingur þurfi að eiga lögheimili á Íslandi til að eiga rétt á að kjósa í sveitarstjórnarkosningum að undanskildum námsmönnum sem þurft hafa að flytja lögheimili sitt til Norðurlanda.  Samkvæmt 32. gr. fyrrgreindra laga sé heimilt að leiðrétta kjörskrá í nokkrum undantekningartilfellum en ekkert þeirra nái til þeirra aðstæðna sem kærandi lýsir. Beiðni kæranda sé því hafnað.

III.

Kærandi vísar til þess að ástæða lögheimilisskráningar hans í Danmörku sé sú að hann sé í tilraunameðferð á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn og hafi kæranda verið gert að skrá lögheimili sitt í Danmörku meðan á þeirri tilraunameðferð standi en um sé að ræða fimm ára meðferð sem sé að klárast. Kærandi vísar einnig til þess að hann hafi einungis dvalið í Danmörku fyrstu þrjá mánuðina en hafi síðan þá verið búsettur hér á landi og stundi hér vinnu.

 

Kærandi óskar eftir endurskoðun á synjun Þjóðskrár Íslands en kærandi telur mikilvægt að nýta atkvæðisrétt sinn.

IV.

Í 4. gr. kosningalaga nr. 112/2021 er kveðið á um kosningarétt við sveitarstjórnarkosningar.  Samkvæmt a-lið 1. mgr. á hver íslenskur ríkisborgari kosningarétt sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á skráð lögheimili í sveitarfélaginu.

 

Í 2. mgr. 4. gr. laganna kemur fram undantekning frá hinni almennu reglu a-liðar 1. mgr. er varðar námsmenn á Norðurlöndum. Undantekningin á eingöngu við um námsmenn en ekki aðra sem kunna að dvelja tímabundið á Norðurlöndum af öðrum ástæðum, svo sem vegna læknismeðferðar. Af kærunni verður ráðið að kærandi telji að hann eigi rétt á að halda kosningarétti sínum hér á landi þar sem nauðsynlegt sé að skráð lögheimili hans sé í Danmörku vegna læknismeðferðar. Fyrir liggur að kærandi er ekki í námi á Norðurlöndum og á því undantekningarákvæði þetta ekki við.

 

Þá er heimilt að leiðrétta rafræna kjörskrá samkvæmt 32. gr. kosningalaga nr. 112/2021 og tekur sú heimild til eftirtalinna tilvika:

 

  1. Þjóðskrá Íslands hefur láðst að skrá lögheimili kjósanda til samræmis við tilkynningu hans um flutning,
  2. Þjóðskrá Íslands berst vitneskja um andlát kjósanda,
  3. Þjóðskrá Íslands berst vitneskja um að erlendur ríkisborgari hafi öðlast íslenskt ríkisfang eða að kjósandi hafi misst íslenskt ríkisfang,
  4. Þjóðskrá Íslands berst vitneskja um að danskur ríkisborgari eigi kosningarétt hér á landi samkvæmt lögum um réttindi danskra ríkisborgara á Íslandi nr. 18/1944, sbr. 1. Gr. laga nr. 85/1946, um ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur,
  5. Íslenskur ríkisborgari sem aldrei hefur átt lögheimili hér á landi eða sem misst hefur kosningarétt skv. 2. Mgr. 3. Gr. flyst til landsins og skráir aftur lögheimili sitt hér á landi eftir viðmiðunardag kjörskrár,
  6. Þjóðskrá Íslands verður þess að öðru leyti áskynja að villa hafi verið gerð við skráningu kjósanda við kjörskrárgerðina.


Þar sem engar af ofangreindum ástæðum eru taldar eiga við í tilviki kæranda er ekki unnt að fallast á kröfu hans um leiðréttingu á kjörskrá á þessum grundvelli.

 

Með vísan til framangreindra lagaákvæða er það skilyrði að einstaklingur verði að vera með skráð lögheimili í sveitarfélaginu til að geta neytt kosningaréttar í sveitarstjórnarkosningum sem fram fara þann 14. maí 2022. Þar sem svo er ekki í tilviki kæranda er synjun Þjóðskrár Íslands staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Þjóðskrár Íslands um að synja A um skráningu á kjörskrá, er staðfest.

 

Reykjavík, 14. maí 2022.

 

Berglind Svavarsdóttir

 

Anna Tryggvadóttir                                                                          Unnar Steinn Bjarndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira