Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 49/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 49/2023

Föstudaginn 17. mars 2023

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. janúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Reykjavíkurborgar, dags. 21. desember 2022, um að synja umsóknum hans um styrk til greiðslu húsaleiguskuldar og til greiðslu lögmannskostnaðar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 13. desember 2022, sótti kærandi um styrk hjá Reykjavíkurborg að fjárhæð 2.700.000 kr. vegna húsaleiguskuldar og með umsókn, dags. 15. desember 2022, sótti kærandi um styrk að fjárhæð 66.712 kr. vegna lögmannskostnaðar. Umsóknum kæranda var synjað með bréfum þjónustumiðstöðvar, dags. 15. desember 2022, með þeim rökum að þær samræmdust ekki 24. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti þær synjanir með ákvörðunum, dags. 21. desember 2022.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 25. janúar 2023. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 15. febrúar 2023, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. febrúar 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi leigt íbúð frá janúar 2020 til eins árs í senn og endurnýjað leigusamninginn á hverju ári. Á árinu 2022 hafi kærandi ekki fundið leigusalann því að íbúðin hafði þá verið seld til fyrirtækis sem eigi þúsundir húsa og íbúða á Íslandi og í öðrum löndum. Fyrirtækið hafi gleymt því að það ætti þetta hús og því hafi nýi leigusalinn verið horfinn í um 10 mánuði sem kærandi hafi búið í íbúðinni. Þegar fyrirtækið hafi munað eftir því að það ætti íbúðina hafi gleymst að endurnýja leigusamninginn. Kærandi hafi fengið bréf um að hann ætti að borga 10 mánaða leigu. Hann hafi sagt að hann myndi ekki borga nema vera með löglegan leigusamning þar sem hann væri flóttamaður á Íslandi. Ef kærandi væri með löglegan leigusamning gæti hann fengið greiddar húsnæðisbætur, sérstakan húsnæðisstuðning og fjárhagsaðstoð frá félagsmálaskrifstofu. Þá hafi kærandi verið beðinn um að greiða 2.700.000 kr. í peningum fyrir 12 mánaða húsaleiguskuld. Þar sem kærandi hafi ekki átt til svo háa fjárhæð hafi hann beðið félagsþjónustuna um að borga og líka beðið um ókeypis lögfræðiaðstoð vegna málsins. Því miður hafi lögmaður kæranda ekki getað gert neitt fyrir hann og svo beðið um 66.000 kr. fyrir sína vinnu.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gamall karlmaður sem sé fæddur og uppalinn í B. Hann hafi komið til Íslands sem hælisleitandi árið 2013 og hafi þegið fjárhagsaðstoð frá árinu 2014. Hann hafi leigt íbúð á almennum leigumarkaði síðastliðinn fimm ár. Í byrjun árs 2022 hafi leigufélagið C keypt húsið af fyrrum leigusala kæranda. Kærandi hafi ekki fengið neina greiðsluseðla vegna húsaleigu í heimabanka sinn frá leigufélaginu C og hafi því ekki greitt leigu fyrir tímabilið 1. janúar 2022 til 31. desember 2022. Leigusamningur kæranda hafi runnið út í lok árs 2021 en kærandi hafi búið áfram í umræddri íbúð án þess að greiða húsaleigu þar sem honum hafi ekki verið kunnugt um hver hafði keypt húsið og þá hvert hann ætti að greiða leiguna. Kæranda hafi borist ábyrgðarbréf frá C um vangoldna leigu en hafi ekki brugðist strax við bréfinu. Kærandi hafi verið kvaddur fyrir dóm tveimur mánuðum síðar og gert að greiða 2.700.000 kr. vegna vangoldinnar húsaleigu fyrir árið 2022. Kærandi hafi leitað sér aðstoðar lögmanns vegna framangreinds og reikningur fyrir þá aðstoð nemi 66.712 kr. sem kærandi hafi ekki greitt.

Kærandi hafi sótt um styrk hjá Reykjavíkurborg fyrir húsaleiguskuld að upphæð 2.700.000 kr. sem og skuld vegna lögmannskostnaðar að upphæð 66.712 kr. samkvæmt 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er víki að aðstoð vegna sérstakra erfiðleika. Umsóknum kæranda um framangreinda styrki hafi verið synjað með bréfum Vesturmiðstöðvar þann 15. desember 2022. Kærandi hafi skotið þeim ákvörðunum til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem hafi tekið mál hans fyrir á fundi þann 21. desember 2022 og staðfest synjanir starfsmanna Vesturmiðstöðvar.

Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi tekið gildi 1. apríl 2021 og verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 24. febrúar 2021, á fundi borgarráðs þann 4. mars 2021 og á fundi borgarstjórnar þann 16. mars 2021. Reglurnar séu settar á grundvelli laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Ákvæði 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð sé svohljóðandi:

„Heimilt er að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika, að uppfylltum öllum neðangreindum skilyrðum:

  1. Umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum undanfarna sex mánuði eða lengur.
  2. Staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana.
  3. Fyrir liggi yfirlit starfsmanns velferðarsviðs eða umboðsmanns skuldara um fjárhagsstöðu umsækjanda og tillögur að úrbótum þegar við á.
  4. Fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni styrkja félagslega stöðu umsækjanda til hins betra þegar til lengri tíma er litið.
  5. Fyrir liggi samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf þegar það á við.

Þegar um lán er að ræða skal greiðsluáætlun fylgja með umsókn.

Eigi er heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skulda við banka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir, s.s. greiðslukortafyrirtæki. Þá er hvorki heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skattaskulda og sekta, né heldur til greiðslu skulda við einkaaðila.

Gildistími umsóknar er þrír mánuðir frá samþykkisdegi.“

Samkvæmt framangreindu ákvæði verði öll skilyrði að vera uppfyllt svo að heimilt sé að veita lán eða styrk vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika. Kæranda hafi verið synjað um styrk vegna sérstakra erfiðleika þar sem öll skilyrði 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi ekki verið uppfyllt. Talið sé að skilyrði a-liðar 24. gr. sé fullnægt þar sem kærandi hafi fengið fjárhagsaðstoð sér til framfærslu frá árinu 2014. Skilyrði b-liðar 24. gr. sé ekki uppfyllt þar sem ekki sé staðfest að kærandi hafi ekki hlotið aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana. Þá sé c-liður 24. gr. uppfylltur að hluta þar sem yfirlit yfir fjárhagsstöðu kæranda sé að einhverju leyti að finna í greinargerð ráðgjafa fyrir áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar en ekki liggi fyrir yfirlit umboðmanns skuldara um fjárhagsstöðu kæranda og tillögur að úrbótum þegar við eigi. Skilyrði d-liðar sé ekki uppfyllt þar sem ekki liggi fyrir á hvern hátt styrkur muni styrkja félagsstöðu kæranda til hins betra þegar til lengri tíma sé litið. Þá sé talið að e-liður 24. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar eigi ekki við í tilviki kæranda.

Þá komi fram í 2. málslið 3. mgr. 24. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð að eigi sé heimilt að veita styrk til greiðslu skulda við einkaaðila. Þess megi einnig geta að samkvæmt greinargerð frá ráðgjafa til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar, dags. 13. desember 2022, sé búið að skipta skuld vegna lögmannskostnaðar upp í þrjár greiðslur og miðað við yfirlit yfir fjárhagsstöðu kæranda ætti hann að ráða við að greiða þá skuld sjálfur.

Með hliðsjón af framansögðu hafi það verið það mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs að skilyrði 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar væru ekki uppfyllt og því hafi synjun Vesturmiðstöðvar um styrki að upphæð 2.700.000 kr. vegna húsaleiguskuldar annars vegar og 66.712 kr. vegna lögmannskostnaðar hins vegar verið staðfest.

Með hliðsjón af öllu framansögðu sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, né öðrum ákvæðum laganna.

IV.  Niðurstaða

Kærðar eru ákvarðanir Reykjavíkurborgar um að synja umsóknum kæranda um annars vegar styrk að fjárhæð 2.700.000 kr. til greiðslu húsaleiguskuldar og hins vegar styrk að fjárhæð 66.712 kr. til greiðslu lögmannskostnaðar.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um aðstoð vegna sérstakra erfiðleika. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er heimilt að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk að hámarki 300.000 kr. vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika, að uppfylltum öllum neðangreindum skilyrðum:

  1. Umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum undanfarna sex mánuði eða lengur.
  2. Staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana.
  3. Fyrir liggi yfirlit starfsmanns velferðarsviðs eða umboðsmanns skuldara um fjárhagsstöðu umsækjanda og tillögur að úrbótum þegar við á.
  4. Fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni styrkja félagslega stöðu umsækjanda til hins betra þegar til lengri tíma er litið.
  5. Fyrir liggi einstaklingsáætlun og/eða fjármálaráðgjöf þegar það á við.

Í 3. mgr. 24. gr. reglnanna kemur fram að eigi sé heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skulda við banka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir, svo sem greiðslukortafyrirtæki. Þá sé hvorki heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skattaskulda og sekta né til greiðslu skulda við einkaaðila.

Við meðferð kærumáls þessa hefur komið fram að kærandi uppfylli einungis skilyrði a. liðar 1. mgr. 24. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Einnig að um sé að ræða skuldir við einkaaðila og því sé skilyrði ákvæðis 3. mgr. 24. gr. reglnanna ekki uppfyllt.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið gögn málsins og telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við framangreint mat Reykjavíkurborgar. Þegar af þeirri ástæðu eru ákvarðanir Reykjavíkurborgar um að synja umsóknum kæranda um styrk á grundvelli 24. gr. reglnanna staðfestar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Reykjavíkurborgar, dags. 21. desember 2022, um að synja umsóknum A, um styrk að fjárhæð 2.700.000 kr. vegna húsaleiguskuldar og um styrk að fjárhæð 66.712 kr. vegna lögmannskostnaðar, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum