Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 123/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 14. febrúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 123/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23110125

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 27. nóvember 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Bretlands ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. nóvember 2023, um að synja umsókn hennar um endurnýjun dvalarleyfis vegna samninga Íslands við erlend ríki, sbr. 66. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að fallist verði á umsókn hennar um endurnýjun umbeðins dvalarleyfis.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi vegna samninga Íslands við erlend ríki, sbr. 66. gr. laga um útlendinga 14. júní 2023, með gildistíma til 15. janúar 2024. Hinn 3. september 2023 sótti kærandi um endurnýjun leyfisins. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. nóvember 2023, var umsókn kæranda synjað.

Í ákvörðun sinni fjallar Útlendingastofnun um efni samnings Íslands og Bretlands, undirritaðan 27. júlí 2021, og vísaði til þess að kærandi hafi yfirgefið Ísland í september 2023, og hygðist koma aftur til landsins sumarið 2024. Taldi Útlendingastofnun kæranda því ekki uppfylla skilyrði samningsins er lúti að samfelldum dvalartíma og var umsókn kæranda synjað.

Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 20. nóvember 2023. Hinn 27. nóvember 2023 barst kærunefnd útlendingamála stjórnsýslukæra ásamt röksemdum kæranda. Með tölvubréfi, dags. 4. desember 2023, lagði kærandi fram frekari röksemdir fyrir máli sínu.

Með vísan til 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga frestaði stjórnsýslukæra réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar og hefur kærandi því heimild til dvalar á meðan mál hennar er til meðferðar á kærustigi.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í kæru lýsir kærandi aðstæðum sínum. Hún kveðst hafa varið sumrinu 2023 á Íslandi og starfað sem [...] í [...], en hún sé [...]að mennt. Starfið sé árstíðabundið en dvalarleyfi kæranda væri í gildi til janúar 2024. Umsókn hennar um endurnýjun hafi tekið mið af störfum um sumarið 2024 þar sem kærandi njóti vinnunnar og hafi yfirgefið landið vegna þess að hún væri ekki að störfum. Kærandi sé óviss hvað henni standi til boða nú þegar umsókn hennar hafi verið synjað. Með viðbótarathugasemdum, dags. 4. desember 2023, áréttaði kærandi beiðni sína um að dvalarleyfi sitt yrði endurnýjað. Vísað er til þess að umsókn hennar hafi verið synjað þar sem dvöl hennar væri ekki samfelld, en kærandi hafi ekki áttað sig á því. Þá vísar kærandi til þess að hún hafi nýlokið námi og hafi enga reynslu í því að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi í öðrum löndum. Kæranda sé mjög annt um Ísland og störf sín hér á landi og vilji geta starfað hér á landi sumarið 2024 við [...] í [...].

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita ríkisborgurum tiltekinna ríkja á aldursbilinu 18-31 árs dvalarleyfi hér á landi á grundvelli samnings sem íslensk stjórnvöld hafa gert við heimaland viðkomandi útlendings um dvöl ríkisborgara þess hér á landi í þeim tilgangi að kynna sér landið og menningu þess. Samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga um útlendinga skal dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu að jafnaði veitt til eins árs að hámarki. Þó er heimilt að endurnýja leyfið um allt að eitt ár þegar samningur við ríki heimilar lengri dvöl en til eins árs.

Hinn 27. júlí 2021 undirrituðu Ísland og Bretland samkomulag um hreyfanleikaáætlun sem gerir ungum ríkisborgurum hvors ríkis kleift að búa í öðru menningarsamfélagi og eiga þess kost að ráða sig í tilfallandi störf meðan á dvöl þeirra stendur. Samkomulagið er hvort tveggja undirritað á íslensku og ensku og eru báðir textarnir jafn gildir. Rísi ágreiningur um túlkun samkomulagsins skuli enski textinn þó ráða. Í b-lið 2. gr. samkomulagsins kemur fram að heimilað dvalartímabil megi ekki vera lengra en 24 mánuðir. Að því er breska ríkisborgara varðar, sem óski eftir því að dvelja á Íslandi í þann hámarkstíma sem leyfður er, geti verið um að ræða tvö samfelld 12 mánaða dvalartímabil.

Við undirritun samkomulagsins, sem mælir fyrir um hámarksdvöl í allt að 24 mánuði, heimilaði 3. mgr. 66. gr. eingöngu 12 mánaða hámarksdvöl, án möguleika á endurnýjun. Með lögum nr. 58/2022, um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, var ákvæðinu þó breytt á þá leið að það heimili endurnýjun, þegar samningar við erlend ríki heimila lengri dvöl en til eins árs. Í athugasemdum í frumvarpi því er varð að umræddum breytingalögum kemur m.a. fram að með frumvarpinu væri brugðist við gildandi samningsskuldbindingum Íslands við Bretland. Þá mælir 66. gr. laga um útlendinga fyrir um tilteknar takmarkanir, svo sem gagnvart ótímabundnu dvalarleyfi, grunnskilyrðum dvalarleyfis, sbr. 1. og 2. mgr. 55. gr., og áður útgefnum dvalarleyfum á sama grundvelli, sbr. 2. og 4. mgr. 66. gr. laga um útlendinga. Þar að auki getur leyfið hvorki orðið grundvöllur sérstakra tengsla, sbr. 5. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, né heimildar til dvalar á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga.

Í hinni kærðu ákvörðun vísar Útlendingastofnun til b-liðar 2. gr. samkomulagsins þar sem fjallað er um heimilað dvalartímabil. Stofnunin vísar því næst til dvalartíma kæranda, sem yfirgaf landið í september 2023 og hyggst koma aftur til landsins sumarið 2024. Taldi stofnunin kæranda ekki uppfylla skilyrði samkomulagsins um að tímabilið þurfi að vera samfellt.

Kærunefnd hefur yfirfarið hina kærðu ákvörðun, aðstæður kæranda, og umrætt samkomulag Íslands og Bretlands. Víðsvegar í lögum um útlendinga er fjallað um samfellda (e. continuous) dvöl, svo sem í 6. mgr. 57. gr., 1. mgr. 58. gr., 5. mgr. 68. gr., og 87. gr. laga um útlendinga. Gagnstætt þessu er vísað til samfelldra (e. consecutive) dvalartímabila í b-lið 2. gr. samkomulags íslenskra og breskra stjórnvalda. Telur kærunefnd ekki hægt að leggja framangreint að jöfnu og túlka umrætt samningsákvæði með jafn þröngum hætti og Útlendingastofnun gerir í ákvörðun sinni. Þvert á móti telur kærunefnd að túlka verði ákvæðið með rýmri hætti og líta til tveggja samfelldra (e. consecutive) dvalartímabila, sem geta orðið 24 mánuðir að hámarki. Innan þeirra marka er það undir dvalarleyfishöfum komið hvernig dvalartímanum skuli ráðstafað, enda mælir ákvæðið ekki fyrir um samfellda dvöl. Í því samhengi lítur kærunefnd einnig til ii-liðar a-liðar 4. gr. samkomulagsins sem mælir fyrir um það að ríkisborgarar sem dvelja á grundvelli samkomulagsins geti komið og farið til beggja landa án takmarkana frá fyrstu komu. Er það því mat kærunefndar að samfellt dvalartímabil, með þeim hætti sem Útlendingastofnun miðar við í ákvörðun sinni, sé ekki meðal þeirra takmarkana sem áðurnefnd ákvæði laga um útlendinga og ákvæði samkomulagsins gera ráð fyrir við úrlausn dvalarleyfisumsókna á grundvelli 66. gr. laga um útlendinga. Líkt og fram kemur í atvikalýsingu sótti kærandi um endurnýjun leyfisins fyrir lok gildistíma fyrra leyfis. Telur kærunefnd því dvalartímabil kæranda vera samfelld í skilningi b-liðar 2. gr. samkomulags íslenskra og breskra stjórnvalda.

Að öllu framangreindu virtu verður felld úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli 3. mgr. 66. gr. laga um útlendinga og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn hennar til meðferðar að nýju.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants’ case.

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum