Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd jafnréttismála

Mál nr. 12/2020 - Úrskurður

Mál nr. 12/2020

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

B ehf.

 

Mismunun á grundvelli kyns við veitingu þjónustu.

Kærð var ákvörðun snyrtistofu um að synja kæranda um svokallað brasilískt vax á þeirri forsendu að þjónustan væri ekki í boði fyrir karlmenn. Kærunefndin taldi að skilja bæri málatilbúnað kærða á þann veg að félagið væri með ákvörðun sinni að reyna að gæta velsæmis og koma í veg fyrir að blygðunarkennd starfsfólks yrði særð. Við þær aðstæður varð að mati kærunefndarinnar að ljá kærða þó nokkurt svigrúm til að meta hvort bjóða ætti karlmönnum svo viðkvæma þjónustu. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem kærði tefldi fram taldi kærunefndin að kærði hefði ekki farið út fyrir það svigrúm með umræddri synjun. Taldist kærði þannig hafa sýnt fram á það að réttlæta mætti ólíka meðferð félagsins á kvenkyns viðskiptavinum og karlkyns viðskiptavinum á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná því markmiði væru viðeigandi og nauðsynlegar.

 

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 26. ágúst 2020 er tekið fyrir mál nr. 12/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 22. júní 2020, kærði A, ákvörðun B ehf. um að neita kæranda um að bóka tíma í svokallað brasilískt vax á þeirri forsendu að þjónustan væri ekki í boði fyrir karlmenn. Kærandi telur að með þessu hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 25. júní 2020. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 14. júlí 2020, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 20. júlí 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

     

    MÁLAVEXTIR

  4. Með rafrænni fyrirspurn óskaði kærandi eftir upplýsingum um það hvort unnt væri að bóka tíma í brasilískt vax hjá kærða. Kærandi hafði síðan samband símleiðis við kærða og fékk þau svör að umrædd þjónusta væri ekki í boði fyrir karlmenn.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  5. Kærandi segir að honum hafi verið neitað um að bóka tíma í brasilískt vax hjá kærða á þeirri forsendu að kærði veiti þjónustuna hvorki til karlmanna né transfólks.
  6. Öll mismunun á grundvelli kyns sé bönnuð samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá segi í 24. gr. a sömu laga að hvers konar mismunun á grundvelli kyns er varði aðgang að eða afhendingu á vöru sem og aðgang að eða veitingu á þjónustu sé óheimil.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  7. Kærði segir að frá upphafi starfsemi hans árið 2011 hafi aldrei verið boðið upp á umrædda þjónustu fyrir karlmenn. Þjónustan hafi alla tíð verið takmörkuð við konur. Ástæða þess sé einfaldlega sú að starfsmenn hafi hvorki reynslu né þekkingu á því hvernig eigi að framkvæma þjónustuna fyrir karlmenn. Auk þess hafi starfsmenn ekki haft vilja til þess að framkvæma þjónustuna fyrir karlmenn. Um sé að ræða mjög viðkvæma þjónustu sem feli það í sér að kynfæri viðskiptavina séu vöxuð.
  8. Kærandi hafi sent rafræna fyrirspurn til kærða og grennslast fyrir um hvort kærði veitti slíka þjónustu. Í kjölfarið hafi hann haft samband símleiðis og fengið þau svör að kærði byði ekki upp á umrædda þjónustu fyrir karlmenn og hefði aldrei gert.
  9. Fullkomlega málefnaleg rök liggi að baki því að þjónustan hafi aldrei verið veitt karlmönnum, enda kunni hún, sé hún veitt karlmönnum, að fara gegn blygðunarsemi starfsmanna sem séu allir kvenkyns. Þessi þjónusta sé ekki eins og venjuleg afhending á vöru eða kaup á bíl eða tryggingum sem dæmi. Um sé að ræða mjög viðkvæma þjónustu sem enginn af starfsmönnum kærða treysti sér til að veita og hafi auk þess ekki þekkingu eða reynslu af. Starfsfólk verði ekki þvingað til að veita slíka þjónustu.
  10. Transfólki sé alltaf velkomið að fá þjónustu hjá kærða en þjónustan sem kæran lúti að sé ekki og hafi aldrei verið í boði fyrir karlmenn.
  11. Um sé að ræða lítið fyrirtæki sem að undanförnu hafi staðið í margháttuðum erfiðleikum og rekstrarstöðvun vegna COVID-19. Kærði hafi hvorki áhuga né tök á að standa í einhverjum kærumálum. Þótt kæra þessi eigi ekki við nein rök að styðjast hafi kærði ákveðið að hætta að veita umrædda þjónustu fyrir konur. Þjónustan sem kæran lúti að sé því hvorki í boði fyrir konur né karlmenn.

     

    NIÐURSTAÐA

  12. Í 1. mgr. 24. gr. a laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir að hvers konar mismunun á grundvelli kyns er varðar aðgang að eða afhendingu á vöru sem og aðgang að eða veitingu þjónustu sé óheimil. Ákvæði þetta gildir þó ekki um aðgang að eða afhendingu á vöru annars vegar eða aðgang að eða veitingu þjónustu hins vegar á sviði einka- og fjölskyldulífs. Jafnframt gildir ákvæðið ekki um málefni er varða störf á vinnumarkaði. Í 3. mgr. sömu greinar segir að séu leiddar líkur að því að mismunun samkvæmt ákvæði þessu hafi átt sér stað, hvort sem hún sé bein eða óbein, skuli sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem legið hafi til grundvallar meðferðinni tengist ekki kyni nema unnt sé að réttlæta meðferðina á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar.
  13. Fyrir liggur að kærði hafði á umræddum tíma meinað karlmönnum um þá þjónustu sem felst í snyrtiaðgerðinni sem kennd er við brasilískt vax. Aftur á móti byggir kærði á því að sú afstaða stafi af lögmætum og málefnalegum ástæðum. Hjá kærða starfi einungis konur og þær vilji ekki framkvæma snyrtiaðgerðir á kynfærum karla og hafi að auki hvorki þekkingu né reynslu af slíkum aðgerðum. Af hálfu kærða er tekið fram að transfólki sé velkomið að nýta sér almenna þjónustu kærða en að sú þjónusta sem kæran lúti að sé ekki og hafi aldrei verið í boði fyrir karlmenn.
  14. Sú snyrtiaðgerð, sem mál þetta varðar, beinist að viðkvæmu svæði líkamans þar sem vax er borið á kynfæri viðskiptavinar. Af hálfu kærða hefur verið upplýst að hjá félaginu starfi einungis konur og þær hafi hvorki reynslu af né þekkingu á að framkvæma snyrtiaðgerð sem þessa á karlmönnum auk þess sem þær geti ekki hugsað sér að snyrta kynfæri karlmanna. Verður að skilja þessi rök kærða á þann veg að félagið reyni með ákvörðun sinni að gæta velsæmis og koma í veg fyrir að blygðunarkennd starfsfólks verði særð. Við þessar aðstæður verður að mati kærunefndarinnar að ljá þjónustuveitanda þó nokkurt svigrúm til að meta hvort bjóða eigi karlmönnum svo viðkvæma þjónustu. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem kærði hefur teflt fram telur kærunefndin að kærði hafi ekki farið út fyrir það svigrúm með umræddri synjun. Telst kærði þannig hafa sýnt fram á það að réttlæta megi ólíka meðferð félagsins á kvenkyns viðskiptavinum og karlkyns viðskiptavinum á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar.
  15. Að öllu þessu virtu er ekki unnt að fallast á það með kæranda að hann hafi af hálfu kærða sætt mismunun sem bann er lagt við samkvæmt 24. gr. a laga nr. 10/2008.
  16.  

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, B ehf., braut ekki gegn 24. gr. a laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þegar kæranda, A, var synjað um þjónustu sem kennd er við brasilískt vax.

 

Arnaldur Hjartarson

 

Björn L. Bergsson

 

Þórey S. Þórðardóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum