Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/2020. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 17. apríl 2020
í máli nr. 12/2020:
Myparking ehf.
gegn
Ríkiskaupum
þjóðgarðinum á Þingvöllum
og Verkís hf.

Lykilorð
Stöðvunarkröfu hafnað. Bindandi samningur. Tilkynning um kæru.

Útdráttur
Kröfu kæranda um stöðvun útboðs sem varðaði innheimtuþjónustu fyrir þjóðgarðinn á Þingvöllum var hafnað þar sem kominn var á bindandi samningur, sbr. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru 14. mars 2020 kærði Myparking ehf. útboð Ríkiskaupa fyrir hönd þjóðgarðsins á Þingvöllum (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 21010 „Innheimtuþjónusta fyrir þjóðgarðinn á Þingvöllum“. Kærandi gerir aðallega þá kröfu að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að taka tilboði Verkís hf. Þá er gerð krafa um að kærunefndin veiti álit á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Jafnframt er gerð krafa um málskostnað. Varnaraðilar skiluðu athugasemdum 8. apríl sl. og krefjast þess að kröfu um stöðvun samningsgerðar verði hafnað. Verkís hf. hefur ekki látið málið til sín taka. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Hið kærða útboð var auglýst 20. desember 2019. Í útboðinu er óskað tilboða í innleiðingu og rekstur innheimtuþjónustu með einföldu og skilvirku innkaupakerfi sem byggi á myndgreiningu bílnúmera með snjalltækni og snjalltækjum. Meðal þeirra krafna sem gerðar eru til bjóðenda er að þeir hafi reynslu af rekstri sambærilegrar þjónustu í að minnsta kosti tvö ár á síðastliðnum þremur árum, sbr. grein 1.3.6 í útboðsgögnum. Valforsendur eru með þeim hætti að mest er hægt að fá 80 stig fyrir verð og 20 stig fyrir gæði, sbr. grein 1.4.1 í útboðsgögnum. Valforsendunni „gæði“ er annars vegar skipt í allt að 10 stig fyrir vottun starfsemi og allt að 10 stig fyrir „grunn kerfis“ eins og nánar er útlistað í grein 1.4.1.2.

Tilboð voru opnuð 25. febrúar 2020 og bárust tilboð frá sex bjóðendum, þar á meðal kæranda og Verkís hf. Varnaraðilar tilkynntu bjóðendum um val á tilboði Verkís hf. 4. mars 2020 og 16. sama mánaðar var tilkynnt að endanlegur samningur hefði verið gerður við fyrirtækið.

Kærandi byggir einkum á því að Verkís hf. uppfylli ekki hæfiskröfur útboðsins meðal annars þar sem fyrirtækið hafi ekki rekið sambærilegt kerfi í tvö ár. Þá telur kærandi að Verkís hf. hafi ekki átt hagstæðasta tilboðið enda hafi það fengið of háa einkunn fyrir gæði. Varnaraðilar krefjast þess að stöðvunarkröfu kæranda verði hafnað enda sé kominn á bindandi samningur og innkaupaferlinu lokið. Auk þess hafi Verkís hf. uppfyllt allar hæfiskröfur útboðsins og átt hagkvæmasta tilboðið sem barst í útboðinu.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er kaupanda óheimilt að gera samning í kjölfar ákvörðunar um val tilboðs fyrr en að liðnum fimm daga biðtíma, vegna innkaupa yfir innlendum viðmiðunarfjárhæðum skv. 1. mgr. 23 gr., og að liðnum tíu daga biðtíma, vegna innkaupa yfir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins. Í 2. mgr. 106. gr. laganna er fjallað um efni kæru og segir í lokamálslið ákvæðisins að kærandi skuli tilkynna kaupanda um kæru eins skjótt og mögulegt er. Ef ákvörðun um val tilboðs er kærð innan lögboðins biðtíma samkvæmt áðurnefndri 86. gr. laganna er gerð samnings óheimil þar til kærunefnd útboðsmála hefur endanlega leyst úr kærunni. Slík sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar vegna kæru tekur gildi þegar kaupanda má vera kunnugt um kæruna hvort heldur sem er vegna tilkynningar kæranda eða kærunefndarinnar.

Kærandi beindi kæru til nefndarinnar laugardaginn 14. mars 2020 en tilkynnti varnaraðilum ekki um kæruna. Lögboðinn biðtími samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga um opinber innkaup var liðinn sunnudaginn 15. mars 2020. Varnaraðilar tilkynntu að morgni mánudagsins 16. mars sl., kl. 11:06, að komist hefði á bindandi samningur. Kærunefndin tilkynnti varnaraðilum um kæruna kl. 11:19 sama dag en þá hafði samningur komist á án þess að varnaraðilar hefðu vitneskju um kæruna. Hefur þannig komist á bindandi samningur í samræmi við lög um opinber innkaup, en samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laganna verður slíkur samningur ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Samkvæmt framangreindu hafði kæran ekki þau réttaráhrif að stöðva samningsgerð sjálfkrafa samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laga um opinber innkaup og verður að hafna kröfu kæranda um að hið kærða útboð verði stöðvað, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Myparking ehf., um að stöðva samningsgerð og útboð varnaraðila, Ríkiskaupa fyrir hönd þjóðgarðsins á Þingvöllum, nr. 21010 „Innheimtuþjónusta fyrir þjóðgarðinn á Þingvöllum“, er hafnað.

Reykjavík, 17. apríl 2020

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir

Sandra Baldvinsdóttir

 Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira