Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 2/2017. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Með kæru 30. janúar 2017 kærði Bílaumboðið Askja ehf. innkaup Ísafjarðarbæjar á götusóp fyrir Þjónustumiðstöð Ísafjarðarbæjar. Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun um val á tilboði Krafts hf. og að varnaraðila verði gert að auglýsa innkaupin að nýju. Þá er þess krafist til vara að kærunefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Þess er jafnframt krafist að varnaraðila verði gert að greiða kæranda málskostnað.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 23. febrúar 2017

í máli nr. 2/2017:

Bílaumboðið Askja ehf.

gegn

Ísafjarðarbæ

og Krafti hf.

Með kæru 30. janúar 2017 kærði Bílaumboðið Askja ehf. innkaup Ísafjarðarbæjar á götusóp fyrir Þjónustumiðstöð Ísafjarðarbæjar. Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun um val á tilboði Krafts hf. og að varnaraðila verði gert að auglýsa innkaupin að nýju. Þá er þess krafist til vara að kærunefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Þess er jafnframt krafist að varnaraðila verði gert að greiða kæranda málskostnað. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um að nefndin aflétti banni við samningsgerð samkvæmt 2. mgr. 107. gr. og 110. gr. laga um opinber innkaup, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Hinn 9. janúar 2017 sendi varnaraðili tölvupóst þar sem óskað var eftir tilboðum í götusóp fyrir áhaldahús Ísafjarðarbæjar. Gerðar voru kröfur um að „afl sogkrafts [þyrfti] að vera 80-100 kw, glussastýrður barki að aftanverðu, skriðgír og beinskiptur“. Tvö tilboð bárust, annars vegar frá kæranda að fjárhæð 24.220.000 krónur en hins vegar frá Krafti hf. að fjárhæð 26.590.000 krónur. Varnaraðili tilkynnti kæranda 26. janúar 2017 að tilboð Krafts hf. hefði verið valið. Fram kom í bréfi sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar til bæjarráðs frá 29. janúar 2017 að tilboð Krafts hf. uppfyllti öll þau skilyrði sem gerð voru til tækisins. Í tilboði kæranda hefði aftur á móti verið boðið tæki sem væri sjálfskipt, án skriðgírs og afls sogkrafts 55,4 kw.

            Kærandi telur að tilboð hans hafi verið hagstæðast og að boðið tæki hafi uppfyllt allar tæknikröfur. Komið hafi fram í tilboði kæranda að hægt væri að fá tækið með gírkassa með skriðgír og að tilboðsfjárhæð myndi þá lækka um 500.000 krónur. Þá telur kærandi að sogkraftur tækisins sem hann bauð sé um 20-30% meiri en tækis Krafts hf. Sogkrafturinn sé 18.000 m3/klst., en það sé mælikvarði sem almennt sé notaður til þess að mæla sogkraft en ekki kílówött mótors. Kærandi telur að innkaupin séu að líkindum undanþegin útboðsskyldu en engu að síður hafi sveitarfélaginu boðið að auglýsa innkaupin, gæta að jafnræðisreglu og ákvæðum um tæknilýsingar.

            Varnaraðili telur að vísa beri kærunni frá nefndinni þar sem innkaupin séu undir viðmiðunarfjárhæðum fyrir innkaup sveitarfélaga. Verði ekki fallist á það telur varnaraðili að hafna beri öllum kröfum kæranda enda hafi tilboð hans ekki uppfyllt tilsett skilyrði.  

Niðurstaða

            Í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup kemur fram að öll innkaup opinberra aðila yfir innlendum viðmiðunarfjárhæðum skuli bjóða út og gera í samræmi við þau innkaupaferli sem nánar er kveðið á um í IV. kafla laganna. Samkvæmt 4. mgr. 123. gr. laganna öðlast regla 1. mgr. 23. gr. þó ekki gildi fyrr en 31. maí 2019 að því er varðar innkaup sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila á þeirra vegum. Fram til þess tíma eru innkaup á vegum sveitarfélaga því ekki útboðsskyld nema þau nái  viðmiðunarfjárhæðum fyrir opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 4. mgr. greinarinnar. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 120/2016 kemur skýrt fram að ætlunin sé að viðhalda óbreyttu fyrirkomulagi hvað varðar innkaup sveitarfélaga til 31. maí 2019 og gefa sveitarfélögum þannig svigrúm til þess að laga innkaupareglur sínar og ferla að hinum nýju lögum. Samkvæmt þessu fjallar kærunefnd útboðsmála aðeins um lögmæti innkaupa sveitarfélaga að því marki sem þau eru útboðsskyld á Evrópska efnahagssvæðinu fram að áðurgreindu tímamarki.

Samkvæmt reglugerð nr. 904/2016 um auglýsingu innkaupa á útboðsvef, viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa og innkaup samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup nema viðmiðunarfjárhæðir vegna innkaupa sveitarfélaga á vörum 32.219.440 krónur. Samkvæmt gögnum málsins voru bæði tilboðin sem bárust í áðurlýstum innkaupum töluvert undir þessari fjárhæð. Verður því að leggja til grundvallar að hin kærðu innkaup hafi ekki náð viðmiðunarfjárhæðum vegna útboðsskyldu á EES-svæðinu og fellur ágreiningur aðila þar af leiðandi ekki undir úrskurðarvald kærunefndar útboðsmála. Samkvæmt þessu gat kæra ekki leitt til sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar á grundvelli 1. mgr. 107. gr. laga um opinber innkaup. Ber þar af leiðandi að vísa kröfu varnaraðila um að aflétt verði sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar frá nefndinni.

Ákvörðunarorð:

Kröfu varnaraðila, Ísafjarðarbæjar, um að aflétt verið stöðvun samningsgerðar milli varnaraðilans og Krafts hf. um kaup á götusóp fyrir Þjónustumiðstöð Ísafjarðarbæjar er vísað frá kærunefnd útboðsmála.

                    Reykjavík, 23. febrúar 2017.

                                                                                  Skúli Magnússon

                                                                                  Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                  Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira