Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 443/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 443/2017

Mánudaginn 29. janúar 2018

A og B

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Jón Baldursson læknir og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. nóvember 2017, kæra A og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 30. október 2017, um synjun á umsókn þeirra um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda barns.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærendur þáðu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns þeirra sem fæddist X 2016. Með læknisvottorði, dags. 23. nóvember 2016 sóttu kærendur um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda barns. Með bréfi, dags. 5. desember 2016, var kærendum tilkynnt að Fæðingarorlofssjóður hefði samþykkt að framlengja sameiginlegan rétt þeirra til fæðingarorlofs í 18 daga eða sem nam þeim tíma sem barn þeirra dvaldist á sjúkrahúsi í kjölfar fæðingar. Með umsókn til Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. september 2017, sóttu kærendur á ný um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi og framvísuðu læknisvottorði. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 2. október 2017, var óskað eftir nánari rökstuðningi læknis fyrir því hvort hann teldi barnið þarfnast aukinnar umönnunar umfram önnur börn á sama aldri og í hverju sú umönnun væri þá fólgin. Þá var þess óskað að hann legði mat á tímalengd aukinnar umönnunarþarfar, væri hún til staðar. Nýtt læknisvottorð barst frá sama lækni, dags. 16. október 2017, og með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 30. október 2017, var kærendum synjað um frekari framlengingu fæðingarorlofs þar sem ekki yrði ráðið af læknisvottorðum að um alvarleg veikindi eða alvarlega fötlun væri að ræða sem krefðist nánari umönnunar umfram önnur börn. Kærendur óskuðu nánari rökstuðnings fyrir þeirri ákvörðun með tölvupósti 30. október 2017 og var hann veittur samdægurs. Í framhaldi þess barst læknisvottorð frá sama lækni, dags. 3. nóvember 2017, og með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 13. nóvember 2017, var kærendum tilkynnt að ekkert nýtt hefði komið fram í málinu. Með tölvupósti 13. nóvember 2017 óskuðu kærendur eftir frekari rökstuðningi fyrir synjun Fæðingarorlofssjóðs sem vísaði þá til fyrra svars frá 30. október.

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 27. nóvember 2017. Með bréfi, dags. 30. nóvember 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 18. desember 2017, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. desember 2017, var greinargerðin send kærendum til kynningar. Athugasemdir bárust frá kærendum með tölvupósti 3. janúar 2018 og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur greina frá því að sonur þeirra hafi fæðst með Downs-heilkenni og meðfæddan byggingargalla í hjarta. Kærendur vísa til þess að rökstuðningur Fæðingarorlofssjóðs um höfnun á framlengingu fæðingarorlofs sé verulega takmarkaður og ómögulegt að átta sig á því hvernig sjóðurinn fari að því að túlka hugtakið „alvarlegur sjúkdómur“ eða „alvarleg fötlun barns“ þannig að það nái ekki yfir aðstæður þeirra. Málsmeðferð sjóðsins sé verulega ábótavant og telja kærendur að það valdi ógildingu, sbr. 10. og 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærendur taka fram að sonur þeirra hafi dvalið á vökudeild í 18 daga frá fæðingu en eftir þau veikindi hafi fyrstu mánuðir í lífi hans verið svipaðir og hjá öðrum ungabörnum, fyrir utan lága vöðvaspennu. Í janúar 2017 hafi hann byrjað í vikulegri sjúkra- og þroskaþjálfun hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni og sé enn í þeirri þjálfun. Kærendur hafi sótt námskeið til að styrkja son sinn líkamlega og andlega frá því í mars 2017 hjá einkaaðilum. Þjálfunin hafi strax haft mikið að segja og lítill munur virtist vera á þroska hans og annarra barna á sama aldri í kringum þriggja til sex mánaða aldur. Frá sex mánaða aldri hafi bilið farið breikkandi í andlegum og líkamlegum þroska og hann hafi dregist töluvert aftur úr. Í dag sé sonur þeirra orðinn eins árs og geti til dæmis ekki skriðið, staðið upp né klappað saman höndum sem þyki eðlilegt fyrir börn á hans aldri. Kærendur benda á að erfðaefnið í frumum sonar þeirra geti haft áhrif á heilsufar hans og því sé hann í meira eftirliti en önnur börn. Sem dæmi megi nefna að virkni skjaldkirtils og heyrn hans hafi verið skoðuð og niðurstaðan í báðum tilvikum ekki nógu góð. Hann þurfi að fara aftur í skoðun hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands sem og blóðrannsókn til að athuga virkni skjaldkirtils.

Kærendur vísa til þess að læknar hafi ekki mælt með að sonur þeirra færi í dagvistun hjá dagforeldrum vegna fötlunar hans. Samkvæmt reglum þeirra sveitarfélags sé ekki gert ráð fyrir að börn fædd í X 2016 hefji leikskólagöngu sína fyrr en haustið 2018. Sonur þeirra hafi fengið vilyrði fyrir forgangi í leikskóla vegna fötlunar en hafi ekki enn fengið inngöngu vegna aldurs og þeirra sérþarfa sem hann þurfi að fá uppfylltar umfram önnur börn í leikskólanum. Þar af leiðandi sé talið best fyrir son þeirra að kærendur séu lengur í fæðingarorlofi til að veita honum þá umönnun sem hann þurfi til að styrkjast og þroskast á sem bestan mögulegan hátt. Kærendur telja að Fæðingarorlofssjóður meti aðstæður í málinu ekki með réttum hætti. Það sé eðlilegt og sanngjarnt að túlka ákvæði 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof á þann hátt að kærendum verði veitt framlenging á fæðingarorlofi. Þannig geti sonur þeirra og önnur börn notið samvista við þau bæði, auk þess sem hægt yrði að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf kærenda við mjög breyttar aðstæður vegna þeirrar ábyrgðar og umönnunar sem fylgi syni þeirra. Kærendur hafi lagt mikla áherslu á að sonur þeirra fengi eins mikla þjálfun og stuðning og hægt sé hverju sinni til að styrkja við þroskaferli hans til framtíðar. Kærendur sjái sig knúin til að kæra synjun Fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndarinnar þar sem ástæða synjunar um framlengingu sé hvorki í samræmi við rétta lagatúlkun né markmið laga nr. 95/2000. Kærendur krefjast þess að úrskurðarnefndin annað hvort ógildi hina kærðu ákvörðun eða samþykki beiðni þeirra um framlengingu fæðingarorlofs.

Í athugasemdum kærenda við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er bent á að rökstuðningur sjóðsins frá 30. október 2017 sé aðeins almennt svar og með vísun í lög en ekki sé tilgreint sérstaklega af hverju sonur þeirra falli ekki undir þau skilyrði sem þurfi að uppfylla. Kærendur eigi X börn fyrir og það fari ekki á milli mála að sonur þeirra þurfi meiri umönnun og þjálfun vegna fötlunar sinnar en önnur börn. Það sé einnig mat þess læknis sem hafi fylgst með honum frá fæðingu. Í læknisvottorði sé greint skýrt frá ástæðum þess að sonur þeirra þurfi frekari umönnun og þjálfun umfram önnur börn. Ekki sé hægt að skilja hvernig Fæðingarorlofssjóður túlki lögin þannig að þau nái ekki yfir aðstæður þeirra.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til þess að í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof sé að finna heimildarákvæði til að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði ef um sé að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefjist nánari umönnunar foreldris. Rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og stofnuninni sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið. Óskað hafi verið umsagnar sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs við matið.

Í athugasemdum með 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 megi finna ákveðna leiðbeiningu við matið. Þar komi meðal annars fram að litið verði til þess að ástand barnsins krefjist nánari umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna án tillits til þess hvort barn liggi í lengri eða skemmri tíma á sjúkrahúsi. Áfram eigi að miða við að barn greinist með alvarlegan sjúkdóm eða alvarlega fötlun og sé þá ekki átt við tilfallandi veikindi barna, svo sem hlaupabólu, eyrnabólgu eða aðra álíka sjúkdóma enda þótt veikindin geti verið þrálát. Af ákvæðinu og athugasemdunum sé ljóst að annars vegar þurfi að vera til staðar alvarlegur sjúkleiki barns eða alvarleg fötlun og hins vegar þurfi ástand barnsins að vera þannig að það krefjist nánari umönnunar foreldris og þá umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna. Sé ástand barnsins ekki þannig sé ekki þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi. Þá sé einnig ljóst að tímalengd lengingarinnar geti verið breytileg en þó að hámarki sjö mánuðir og fari þá eftir alvarleika sjúkdóms eða fötlunar barns og umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna. Þannig sé ekki útilokað, hafi foreldrum verið synjað um framlengingu fæðingarorlofs eða verið ákvarðaður skemmri tími en sjö mánuðir í lengingu, að til frekari framlengingar kunni að koma síðar gerist þess þörf og berist um það framhaldsvottorð með rökstuðningi þess sérfræðilæknis sem annast hafi barnið. Í framkvæmdinni sé slíkt alls ekki óalgengt.

Fjögur læknisvottorð vegna lengingar fæðingarorlofs hafi borist í málinu, dags. 23. nóvember 2016, 18. september, 16. október og 3. nóvember 2017, en einnig liggi fyrir umsögn sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs. Í læknisvottorði C, dags. 23. nóvember 2016, sé greining á veikindum barns Down´s syndrome, unspecified Q90.9+, Persistent fetal circulationa P29.3 og Ventricular septal defect Q21.0. Í vottorðinu segi: „Drengur sem greindist með trisomy 21 skömmu eftir fæðingu og einnig lungnaháþrýsting og þurfti hann að vera á öndunarvél um tíma og síðan á súrefnismeðferð. Fylgt eftir á göngudeild spítalans eftir útskrift. Enn sondumataður eftir útskrift.“ Dvöl á sjúkrahúsi sé skráð frá X til X 2016. Með bréfi, dags. 5. desember 2016, hafi verið samþykkt framlenging á sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns eða alvarlegrar fötlunar sem krefjist nánari umönnunar foreldris í 18 daga eða sem næmi þeim tíma sem barnið hafi dvalið á sjúkrahúsi í kjölfar fæðingar.

Næsta læknisvottorð í málinu sé frá D, dags. 18. september 2017, og er barnið þá orðið tæplega 11 mánaða gamalt. Greiningar á veikindum barns séu Downs-heilkenni og þroskafrávik því tengt Q90.0 og meðfæddur hjartagalli, AV canal defect Q21.2. Í vottorðinu segi síðan: „E er 10 mánaða gamall drengur, sem er skjólstæðingur smábarnateymis á Greiningarstöð. E var vísað til okkar við nokkurra daga aldur en hann fæddist á Landspítala og lagðist inn á vökudeild strax eftir fæðingu. Hann þurfti öndunarvélameðferð um tíma vegna lungnaháþrýstings og greindist með meðfæddan byggingargalla á hjarta. Hann hefur verið nokkuð heilsuhraustur eftir þessi veikindi á nýburaskeiði og dafnað ágætlega. Hann hefur verið í snemmtækri íhlutun hér á Greiningarstöð og þá mest í þjónustu hjá þroskaþjálfa og sjúkraþjálfara teymis. F félagsráðgjafi getur veitt nánari upplýsingar en hún hefur aðstoðað foreldra með stuðnings- og réttindamál. Stefnt var að leikskólagöngu nú á haustmisseri 2017 en vegna ástands á leikskólum G varðandi manneklu og sérfræðiþjónustu eru þau áform líklega eitthvað að frestast.“

Með bréfi, dags. 2. október 2017, hafi verið óskað nánari rökstuðnings læknisins fyrir því hvort hann teldi barnið þarfnast aukinnar umönnunar umfram önnur börn á þessum aldri og í hverju sú umönnun væri þá fólgin. Þá hafi þess verið óskað að hann legði mat á tímalengd aukinnar umönnunarþarfar væri hún til staðar. Nýtt læknisvottorð hafi borist frá sama lækni, dags. 16. október 2017. Í því hafði greiningunni Þroskahömlun ótilgreind F79 verið bætt við auk eftirfarandi texta: „Vegna þroskafrávika og þess álags sem fylgir að sinna barni með alvarlegt heilkenni, skort á aðlögunarfærni án stuðnings þá tel ég ástæðu til að veita hámarkslengingu á fæðingarorlofi. Öll þroskaörvun og tengslamyndun er jákvæð fyrir barn með svo alvarlegt heilkenni sem leiðir alltaf til fötlunar á barna- og fullorðinsárum. Við mælum aldrei með aðkomu þjónustu dagmæðra fyrir börn með Downs því það er ekki svigrúm fyrir eina manneskju að veita viðeigandi stuðning til margra barna á sama tíma. Óskað er eftir lengingu á fæðingarorlofi til 7 mánaða.“

Með bréfi, dags. 30. október 2017, hafi kærendum verið synjað um frekari framlengingu fæðingarorlofs en áður hafði verið búið að veita þar sem ekki yrði ráðið af læknisvottorðunum að um alvarleg veikindi eða alvarlega fötlun barns væri að ræða sem krefðist nánari umönnunar umfram önnur börn. Kærendur hafi óskað nánari rökstuðnings fyrir ákvörðuninni, dags. 30. október 2017, og hann verið veittur samdægurs. Í kjölfarið hafi borist þriðja læknisvottorðið frá sama lækninum, dags. 3. nóvember 2017, með efnislega sömu upplýsingum og áður en eftirfarandi viðbót: „Fötlun barns krefst nánari umönnunar foreldris.“ Með bréfi, dags. 13. nóvember 2017, hafi kærendum verið tilkynnt um að ekkert nýtt hefði komið fram í vottorðinu, sem ekki hefði komið fram áður í málinu og gæfi tilefni til frekari framlengingar á fæðingarorlofi en áður væri búið að veita. Þá hafi þeim verið bent á að hægt væri að senda nýtt læknisvottorð síðar yrði breyting á ástandi barnsins og þyrfti þá að leggja áherslu á að rökstyðja aukna umönnunarþörf þess umfram önnur börn.

Í umsögn H sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs, dags. 14. desember 2017, sem hafi komið að matinu ásamt I sérfræðilækni Fæðingarorlofssjóðs segi meðal annars: „Af læknisvottorðunum varð ekki séð að meðfæddi hjartagallinn væri þess eðlis að krefðist nánari umönnunar foreldris.“ Þá segi áfram í umsögn H um Downs-heilkennið og þroskafrávik því tengt: „Varðandi Downs-heilkenni og þroskafrávik því tengt og ótilgreinda þroskahömlun teljum við sérfræðilæknar Fæðingarorlofssjóðs að það geti ekki veitt sjálfkrafa rétt til framlengingar á fæðingarorlofi heldur verði að meta hvert og eitt tilvik fyrir sig með tilliti til ástands barns og þarfar fyrir nánari umönnun foreldris hverju sinni. Í umræddum læknisvottorðum komu engar upplýsingar fram að okkar mati um það að ástand barnsins væri með þeim hætti að krefðist nánari umönnunar foreldris umfram það sem eðlilegt er við umönnun ungbarna í skilningi 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 þannig að það gæfi tilefni til framlengingar á fæðingarorlofi.“

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála frá 9. september 2010 í máli nr. 25/2010 hafi verið fjallað um umsókn foreldra um framlengingu á fæðingarorlofi vegna barns þeirra með greiningarnar Downs-heilkenni og þroskaröskun og sé um margt sambærilegt því máli sem hér sé til umfjöllunar. Þar segi meðal annars í niðurstöðukafla nefndarinnar að leggja þurfi mat á hvort um sé að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefjist nánari umönnunar foreldris. Þannig sé ekki nægjanlegt til þess að skapa rétt til framlengingar fæðingarorlofs að um alvarlegan sjúkleika barns sé að ræða heldur sé einnig gert að skilyrði að sjúkleikinn krefjist nánari umönnunar foreldris. Að mati nefndarinnar hafi ekki verið sýnt fram á að umrætt heilkenni barns kæranda og þroskaröskun krefðist nánari umönnunar foreldris í skilningi þágildandi 2. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000.

Fæðingarorlofssjóður tekur fram að samkvæmt læknisvottorðum málsins sé staðfest að barn kærenda hafi fæðst með hjartagalla, lungnaháþrýsting, Downs-heilkenni og þroskafrávik því tengt. Þá komi næst til skoðunar hvort ástand barnsins af þessum völdum krefjist nánari umönnunar foreldris í skilningi 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000. Óumdeilt sé að barnið hafi þurft öndunarvélameðferð um tíma vegna lungnaháþrýstings og hafi greinst með meðfæddan byggingargalla á hjarta. Vegna þessa hafi sameiginlegur réttur foreldra til fæðingarorlofs verið framlengdur vegna tímabilsins X til X 2016. Eftir það virðist barnið hafa verið nokkuð heilsuhraust og dafnað ágætlega og ástandið ekki verið þannig vegna þessara greininga að krefðist nánari umönnunar foreldris í skilningi 1. mgr. 17. gr. laganna. Hvað varðar Downs-heilkenni og þroskafrávik því tengt og ótilgreinda þroskahömlun sé það mat Fæðingarorlofssjóðs að slíkar greiningar geti ekki veitt sjálfkrafa rétt til framlengingar á fæðingarorlofi heldur verði að meta hvert og eitt tilvik fyrir sig með tilliti til ástands barns og þarfar fyrir nánari umönnun foreldris hverju sinni, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála frá 9. september 2010 í máli nr. 25/2010. Af þeim þremur læknisvottorðum sem hafi borist frá D verði ekki annað ráðið en að barnið hafi verið nokkuð heilsuhraust og dafnað ágætlega. Það hafi verið í snemmtækri íhlutun á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og þá mest í þjónustu hjá þroskaþjálfa og sjúkraþjálfara teymi. Þannig verði ekki séð að umrætt heilkenni barnsins og þroskafrávik því tengt og ótilgreind þroskahömlun fram til þess tíma að læknisvottorðin hafi verið skrifuð, hafi krafist nánari umönnunar foreldris í skilningi 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000. Þá verði heldur ekki séð að breyting hafi orðið á eða sé að verða á ástandi barnsins þannig að það krefjist nánari umönnunar foreldranna í skilningi 1. mgr. 17. gr. laganna.

Að lokum þykir rétt að benda foreldrum barnsins á að verði breyting á ástandi þess þannig að leiði til nánari umönnunar umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna sé unnt að senda læknisvottorð þar um með rökstuðningi þess sérfræðilæknis sem annast hafi barnið og muni sjóðurinn taka afstöðu til þess.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kærenda um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda barns.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að heimilt sé að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði ef um sé að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefjist nánari umönnunar foreldris. Rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og stofnuninni sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið. Með 3. gr. laga nr. 143/2012 var ákvæði 17. gr. laga nr. 95/2000 breytt, en í athugasemdum með ákvæðinu segir að líta verði til þess að ástand barnsins krefjist nánari umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna án tillits til þess hvort barn liggi í lengri eða skemmri tíma á sjúkrahúsi. Áfram eigi að miða við að barn greinist með alvarlegan sjúkdóm eða alvarlega fötlun og er þá ekki átt við tilfallandi veikindi barna, svo sem hlaupabólu, eyrnabólgu eða aðra álíka sjúkdóma, enda þótt veikindin geti verið þrálát.

Samkvæmt gögnum málsins fæddist sonur kærenda með Downs heilkenni og byggingargalla í hjarta. Í læknisvottorði C, dags. 23. nóvember 2016, er sjúkdómi barnsins lýst á eftirfarandi hátt: „Drengur sem greindist með trisomy 21 skömmu eftir fæðingu og einnig lungnaháþrýsting og þurfti hann að vera á öndunarvél um tíma og síðan á súrefnismeðferð. Fylgt eftir á göngudeild spítalans eftir útskrift. Enn sondumataður eftir útskrift.“ Dvöl á sjúkrahúsi er skráð frá X til X 2016 og samþykkti Fæðingarorlofssjóður að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs í 18 daga eða sem nam þeim tíma sem barnið dvaldi á sjúkrahúsi í kjölfar fæðingar. Í læknisvottorði D, dags. 18. september 2017, er sjúkdómsgreining Downs-heilkenni og þroskafrávik því tengt og meðfæddur hjartagalli, AV canal defect. Þá er sjúkdómi barnsins lýst á eftirfarandi hátt:

„E er 10 mánaða gamall drengur, sem er skjólstæðingur smábarnateymis á Greiningarstöð. E var vísað til okkar við nokkurra daga aldur en hann fæddist á Landspítala og lagðist inn á vökudeild strax eftir fæðingu. Hann þurfti öndunarvélameðferð um tíma vegna lungnaháþrýstings og greindist með meðfæddan byggingargalla á hjarta. Hann hefur verið nokkuð heilsuhraustur eftir þessi veikindi á nýburaskeiði og dafnað ágætlega. Hann hefur verið í snemmtækri íhlutun hér á Greiningarstöð og þá mest í þjónustu hjá þroskaþjálfa og sjúkraþjálfara teymis. F félagsráðgjafi getur veitt nánari upplýsingar en hún hefur aðstoðað foreldra með stuðnings- og réttindamál. Stefnt var að leikskólagöngu nú á haustmisseri 2017 en vegna ástands á leikskólum G varðandi manneklu og sérfræðiþjónustu eru þau áform líklega eitthvað að frestast.“

Í vottorði sama læknis, dags. 16. október 2017, er greiningunni þroskahömlun ótilgreindri bætt við auk eftirfarandi texta:

„Vegna þroskafrávika og þess álags sem fylgir að sinna barni með alvarlegt heilkenni, skort á aðlögunarfærni án stuðnings þá tel ég ástæðu til að veita hámarkslengingu á fæðingarorlofi. Öll þroskaörvun og tengslamyndun er jákvæð fyrir barn með svo alvarlegt heilkenni sem leiðir alltaf til fötlunar á barna- og fullorðinsárum. Við mælum aldrei með aðkomu þjónustu dagmæðra fyrir börn með Downs því það er ekki svigrúm fyrir eina manneskju að veita viðeigandi stuðning til margra barna á sama tíma. Óskað er eftir lengingu á fæðingarorlofi til 7 mánaða.“

Í umsögn H sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs, dags. 14. desember 2017, kemur meðal annars fram að Downs-heilkenni og þroskafrávik því tengt og ótilgreind þroskahömlun geti ekki veitt sjálfkrafa rétt til framlengingar á fæðingarorlofi heldur verði að meta hvert og eitt tilvik fyrir sig með tilliti til ástands barns og þarfar fyrir nánari umönnun foreldris hverju sinni. Í fyrirliggjandi læknisvottorðum hafi ekki komið fram neinar upplýsingar um að ástand barns kærenda væri með þeim hætti að það krefðist nánari umönnunar foreldris umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna í skilningi 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 þannig að það gæfi tilefni til framlengingar á fæðingarorlofi.

Í ljósi þess sem að framan greinir og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, að fram hafi komið að barn kærenda hafi fengið sjúkdómsgreiningar sem eftir atvikum geti talist alvarlegar. Hins vegar telur úrskurðarnefnd að ekki hafi komið fram að ástand barnsins sé með þeim hætti að þörf sé á meiri umönnun en almennt gerist um ungbörn. Af því leiðir að ekki eru forsendur fyrir lengingu fæðingarorlofs samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000. Úrskurðarnefndin telur rétt að benda á að líkt og fram kemur í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs geta kærendur sótt á ný um framlengingu fæðingarorlofs, reynist barn þeirra þurfa á aukinni umönnun að halda sökum veikinda. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 30. október 2017, um synjun á umsókn A og B, um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda barns er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira