Hoppa yfir valmynd

Nr. 376/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 5. nóvember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 376/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20070024

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 21. júlí 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Íran (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 17. desember 2019. Með ákvörðun, dags. 9. mars 2020, komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi sendur til Ítalíu á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 24. mars 2020. Þann 6. apríl 2020 afturkallaði Útlendingastofnun ákvörðunina í ljósi ástandsins sem hafði skapast vegna Covid-19 faraldursins. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 22. apríl 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 2. júlí 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 21. júlí 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 12. ágúst 2020 ásamt fylgigögnum. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.III. Ákvörðun ÚtlendingastofnunarÍ ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana.Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi heldur því fram í greinargerð að hann sé fæddur og uppalinn í Teheran, höfuðborg Íran, og hafi búið þar áður en hann hafi lagt á flótta frá heimaríki. Um ástæður flótta hafi kærandi greint frá því að hann hafi tekið þátt í mótmælum gegn ríkisstjórninni í nóvember 2019. Í kjölfarið hafi honum borist smáskilaboð, að líkindum frá byltingarvarðsveit Íran (e. the Islamic Revolutionary Guard Corps), sem hafi staðfest vitneskju þeirra um þátttöku kæranda í mótmælunum. Í skilaboðunum komi m.a. fram að eftirmálar muni verða af þátttöku fólks í mótmælunum. Bróðir kæranda hafi verið handtekinn vegna þátttöku kæranda í mótmælunum en sleppt nokkrum tímum síðar. Þá hafi byltingarverðir mætt heim til móður kæranda og hótað henni að annar bróðir kæranda yrði einnig handtekinn, gæfi kærandi sig ekki fram. Sá bróðir kæranda sem hafi verið handtekinn hafi fengið dómkvaðningu í hendur nokkrum dögum síðar. Þar sem bróðir kæranda hafi ekki sinnt kvaðningunni hafi byltingarverðir komið á heimili hans og handtekið hann að nýju. Hafi honum þá verið gert að undirrita skjal þess efnis að hann myndi upplýsa yfirvöld um verustað kæranda í Íran svo að hægt væri að handtaka hann.

Í greinargerð kemur fram að fyrrum talsmanni kæranda hafi láðst að leggja fram ofangreind smáskilaboð við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Í kjölfar þess að þýðing á ofangreindri dómskvaðningu hafi legið fyrir hafi hann auk þess ekki svarað beiðni stofnunarinnar um skýringar á meintu ósamræmi í framburði kæranda og efni skjalsins. Að framangreindu virtu telur kærandi ljóst að hin kærða ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi hafi framvísað umræddum smáskilaboðum til kærunefndar og veitt skýringar á meintu ósamræmi og hafi þau atriði sem ákvörðunin byggir á því verið leiðrétt. Þegar af þessari ástæðu telur kærandi engin rök standa til annars en að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Kærandi vísar í greinargerð sína til Útlendingastofnunar, dags. 11. maí 2020, hvað varðar almennar aðstæður í Íran. Kærandi telur nær öruggt að hann sé á svokölluðum „svörtum lista“ íranskra yfirvalda vegna þátttöku hans í ofangreindum mótmælum og sé því ljóst að hann verði yfirheyrður við endursendingu til heimaríkis. Í því sambandi vísar kærandi til umfjöllunar í hinni kærðu ákvörðun um að einstaklingar frá Íran, sem sótt hafi um alþjóðlega vernd í öðru ríki og fengið synjun, séu yfirheyrðir og jafnvel settir í varðhald við endurkomu til landsins. Þrátt fyrir það hafi Útlendingastofnun talið að ekkert í frásögn kæranda gefi til kynna að hann sé í sérstakri hættu á að vera handtekinn við heimkomuna, enda hafi hann „bara“ tekið þátt í mótmælum í nóvember 2019 og ekki borið því við að hafa tilheyrt neinum stjórnmálaflokki. Kærandi telur að um hrópandi mótsögn sé að ræða hjá Útlendingastofnun, sem viðurkenni að íranskir ríkisborgarar séu handteknir við heimkomu eftir að hafa sótt um alþjóðlega vernd í öðru ríki, en segi svo að „ekkert í frásögn kæranda“ bendi til þess að hann muni hljóta slík örlög. Þá gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi talið það rýra trúverðugleika frásagnar hans að hann hafi ferðast löglega frá heimaríki, fengið áritun inn á Schengen svæðið og ekki sagst hafa lent í vandræðum á flugvellinum í Teheran. Kærandi hafi verið heppinn að hann hafi ekki verið stöðvaður á flugvellinum í Teheran þegar hann hafi farið úr landi á grundvelli umræddrar áritunar, sem hafi verið gefin út rúmu ári fyrir þátttöku hans í téðum mótmælum.

Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki, annars vegar vegna stjórnmálaskoðana, skv. skilgreiningu e-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, þar sem hann hafi tekið þátt í mótmælum í heimaríki, og hins vegar vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi, skv. skilgreiningu d-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, þar sem hann sé andvígur yfirvöldum og hafi sótt um alþjóðlega vernd í öðru ríki gegn ofsóknum af hálfu þeirra. Með vísan til frásagnar kæranda, umfjöllunar í hinni kærðu ákvörðun um ástand mannréttindamála í Íran og heimilda um aðstæður stjórnarandstæðinga þar í landi, sé ljóst að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir, ofbeldi, fangelsisvist, pyndingar og jafnvel aftöku vegna framangreinds. Kærandi óttist yfirvöld og sé því ljóst að hann geti ekki fært sér í nyt vernd þeirra.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað írönsku vegabréfi. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé íranskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Íran, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

 • 2019 Country Reports on Human Rights Practices: Iran (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
 • Country Policy and Information Note. Iran: Actors of protection (UK Home Office, nóvember 2019);
 • Country Policy and Information Note: Iran (UK Home Office, október 2019);
 • Country Policy and Information Note. Iran: Illegal exit (UK Home Office, febrúar 2019);
 • Country Policy and Information Note. Iran: Medical and healthcare issues (UK Home Office, nóvember 2019);
 • DFAT Country Information Report - Iran (Australian Government: Department of Foreign Affairs and Trade, 14. apríl 2020);
 • Freedom in the World 2020 – Iran (Freedom House, 4. mars 2020);
 • Human Rights in Iran: Review of 2019 (Amnesty International, 18. febrúar 2020);
 • Iranian Authorities Send Text Messages Warning People Not to Protest (Radio Farda, 16. nóvember 2019); 
 • Iran: COI Compilation (ACCORD, 31. júlí 2018);
 • Iran - Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer: situationen per den 30 juni 2019 (Utrikesdepartementet, 18. desember 2019);
 • Iran: No Justice for Bloody Crackdown (Human Rights Watch, 25. febrúar 2020);
 • Iran: Internal Politics and U.S. Policy and Options (United States Congressional Research, 20. maí 2020);
 • Situation of human rights in the Islamic Republic of Iran. Report of the Special Rapporteur (United Nations Human Rights Council, 28. janúar 2020);
 • Stjórnarskrá Íran (https://www.wipo.int/edocs/lexdocs/laws/en/ir/ir001en.pdf);
 • Trampling Humanity. Mass Arrests, Disappearances and Torture since Iran’s November 2019 Protests (Amnesty International, 2. september 2020); World Report 2020 – Iran. Events of 2019 (Human Rights Watch, 15. janúar 2020) og
 • The World Factbook. Middle East: Iran (Central Intelligence Agency, 27. október 2020).

 

Íslamska lýðveldið Íran er klerkaveldi, leitt af æðsta klerki (e. the supreme leader), sem hefur frá árinu 1989 verið Ayatollah Ali Khamenei. Sem æðsti klerkur fer Khamenei með beint eða óbeint vald yfir framkvæmdar- löggjafar- og dómsvaldi, auk þess sem hann hefur vald yfir her landsins, öryggissveitum og ríkisreknum fjölmiðlum. Þá er hann ábyrgur fyrir innanríkis- og utanríkisstefnu landsins. Þann 24. október 1945 gerðist Íran aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1968. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1975. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1994.

Samkvæmt ofangreindum skýrslum bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 11. mars 2019, breska innanríkisráðuneytisins frá nóvember 2019 og ástralska utanríkisráðuneytisins (DFAT) frá 14. apríl 2020 hafi byltingarvarðsveit Íran (e. Iran Revolutionary Guard Corps, IRGC) verið komið á fót í kjölfar byltingarinnar árið 1979 til að framfylgja hugmyndum Ruhollah Khomeini, upphaflegs æðsta klerk Íran, um íslamskt ríki. IRGC, sem heyri beint undir æðsta klerk, hafi átt stóran þátt í að kveða niður andóf gegn ríkisstjórn Ruhollah Khomeini og að varna gegn innrás hersveita Saddam Hussein árið 1980. Frá þeim tíma hafi umsvif IRGC orðið meiri en öryggis- og hersveita ríkisins. IRGC sinni bæði innra og ytra öryggi ríkisins og sé leiðandi í stjórnmálalegu- og efnahagslegu landslagi ríkisins. Þá hafi áhrif IRGC er varðar utanríkisstefnu aukist. IRGC hafi, ásamt öðrum öryggissveitum, átt stóran þátt í að kveða niður fjölmenn mótmæli á undanförnum árum, þ. á m. mótmæli í nóvember 2019, og sætt ásökunum um ólögmæta og banvæna notkun valds gegn óbreyttum borgurum.

Í skýrslum Freedom House og DFAT frá 2020 kemur fram að íranskir ríkisborgarar standi frammi fyrir hömlum á opinni og frjálsri umræðu þar sem skilgreiningar laga um takmarkanir á tjáningarfrelsinu séu óljósar, refsingar vegna meiðyrða séu þungar og ríkið hafi eftirlit með rafrænum samskiptum. Þrátt fyrir áhættuna og framangreindar takmarkanir láti margir í ljós óánægju sína, bæði meðal almennings og á samfélagsmiðlum. Í stjórnarskrá Íran komi fram að það megi halda almenn mótmæli ef þau ógni ekki íslömskum grunngildum. Undanfarin ár hafi mótmæli, sem ekki séu samþykkt fyrirfram af yfirvöldum, hins vegar verið leyst upp með valdi af öryggissveitum ríkisins sem hafi hneppt mótmælendur í varðhald.

Samkvæmt ofangreindum skýrslum, sem og skýrslum bandaríska utanríkisráðuneytisins og sérstaks eftirlitsmanns Sameinuðu þjóðanna (e. Special Rapporteur) frá árinu 2020, hafi fjölmenn mótmæli brotist út í Íran þann 15. nóvember 2019 í kjölfar þess að tilkynnt var um 50 % hækkun eldsneytisverðs og skömmtun eldsneytis. Að minnsta kosti 200 þúsund einstaklingar hafi tekið þátt í mótmælunum sem hafi teygt anga sína til 29 af 31 héruðum landsins og staðið yfir til 21. nóvember. Þrátt fyrir að mótmælin hafi, að mestu leyti, farið friðsamlega fram hafi yfirvöld brugðist við með harkalegum og jafnvel banvænum aðgerðum, s.s. notkun táragass og skotvopna gegn mótmælendum. Til að hindra frekari mótmæli hafi yfirvöld auk þess lokað fyrir aðgang flestallra að interneti í hartnær viku og sent fjöldaskilaboð á borgara landsins þar sem þeir hafi verið varaðir við frekari þátttöku í mótmælunum, skv. ofangreindri frétt Radio Farda frá 16. nóvember 2019.

Samkvæmt ofangreindri frétt Human Rights Watch frá 25. febrúar 2020 og skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins hafi yfirvöld ekki dregið öryggissveitir sem hafi gerst sekar um óhóflega og ólöglega notkun banvæns valds gegn mótmælendum til ábyrgðar. Þá hafi yfirvöld ekki tilkynnt um fjölda þeirra sem hafi verið handteknir eða látið lífið í mótmælunum. Heimildir fyrrgreinds Special Rapporteur beri þó með sér að a.m.k. 304 mótmælendur hafi látið lífið vegna aðgerða lögregluyfirvalda og aðrir sjö þúsund verið hnepptir í varðhald, en tölur alþjóðastofnana og fréttamiðla hvað það varðar eru ósamhljóða.

Samkvæmt ofangreindri skýrslu DFAT eigi einstaklingar sem hafi haft sig mest í frammi í mótmælunum í nóvember 2019 á hættu mismunun af hálfu yfirvalda, þ. á m. handtöku, eftirliti og áreiti. Ólíklegt sé að aðrir almennir þátttakendur í mótmælunum, sem hafi haft það að markmiði að mótmæla efnahagslegum erfiðleikum, veki áhuga yfirvalda. Hins vegar geti skortur á réttlátri málsmeðferð haft það í för með sér að þeir verði ákærðir fyrir rangar sakir. Í skýrslunni kemur auk þess fram að ólíklegt sé að íranskir ríkisborgarar, sem sótt hafi um alþjóðlega vernd í öðru ríki og fengið synjun, veki athygli yfirvalda við endurkomu til landsins. Íranskir ríkisborgarar hafi yfirgefið landið í miklum mæli undanfarna áratugi og hafi yfirvöld sætt sig við það að margir kjósi að búa erlendis af efnahagslegum ástæðum. Meðferðin sem þeir eigi von á velti þó á stöðu þeirra gagnvart yfirvöldum áður en þeir yfirgáfu Íran og háttsemi þeirra við endurkomu. Líklegra sé að pólitískir aðgerðarsinnar (e. political activists) og aðrir sem hafi þegar verið undir sérstöku eftirliti yfirvalda fyrir brottför frá landinu veki athygli yfirvalda við endurkomu.

Í ofangreindri skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2019 um heilbrigðismál kemur fram að stjórnarskrá Íran kveði á um að stjórnvöld landsins séu ábyrg fyrir því að tryggja að landsmenn hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu. Yfirvöld hafi innleitt ríkisrekið tryggingarkerfi árið 2014 (e. the Health Reform Plan), en samkvæmt því geti ríkisborgarar fengið allt að 90% af meðferðarkostnaði endurgreiddan frá yfirvöldum. Samkvæmt skýrslunni hafi heilbrigðiskerfið í Íran, sem sé bæði ríkis- og einkarekið, tekið markverðum framförum undanfarna áratugi. Yfirvöld verji um 7% af landsframleiðslu til heilbrigðismála og séu um 950 spítalar, 3700 heilsugæslustöðvar og 6400 endurhæfingarstöðvar í Íran. Þar af bjóði yfir 50 spítalar, flestir í Teheran, upp á geðheilbrigðisþjónustu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd er byggð á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu, Íran, vegna þátttöku hans í mótmælum gegn ríkisstjórninni í nóvember 2019. Kærandi hafi fengið smáskilaboð frá byltingarvarðsveit Írans þar sem honum hafi verið tilkynnt um að yfirvöldum væri kunnugt um þátttöku hans í mótmælunum og hafi hann því flúið land. Af þeim sökum telji kærandi að hann sé á svokölluðum „svörtum lista“ hjá yfirvöldum. 

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram afrit af bréfi á farsí. Samkvæmt greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 11. maí 2020, sé um að ræða kvaðningu frá dómstól í Teheran sem bróðir hans hafi borist „í tengslum við mótmæli“ kæranda. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þýðing á umræddu afriti hafi leitt í ljós að innihald þess sé ekki það sama og kærandi hafi haldið fram, heldur hafi verið um að ræða tilkynningu til bróður kæranda um að hann gæti sótt afrit rafrænnar ákvörðunar/dóms. Þá kemur fram í ákvörðuninni að skýringar á meintu ósamræmi hafi ekki borist stofnuninni fyrir veittan frest og jafnframt hafi kærandi ekki framvísað afriti af smáskilaboðum sem hann kvaðst hafa fengið frá byltingarvarðsveitinni. Í ljósi þess hafi stofnunin metið frásögn kæranda hvað varðar vitneskju íranskra yfirvalda um þátttöku hans í mótmælum ótrúverðuga.

Í greinargerð kæranda til kærunefndar kemur fram að efni skjalsins sé í samræmi við staðhæfingar kæranda, en fyrrum talsmanni kærandi hafi láðst að koma þeim skýringum á framfæri við Útlendingastofnun. Skjalið sé kvaðning til handa bróður kæranda um að skrá sig inn á tiltekinni vefsíðu, ellegar þurfi hann að mæta fyrir dóm, svo sem kærandi hafi greint frá. Ekki sé minnst á mótmælin í skjalinu, enda hafi kærandi ekki haldið því fram. Þar sem skjalið hafi borist nokkrum dögum eftir handtöku bróður kæranda hafi hann talið augljóst að um sama mál væri að ræða, enda hafi bróðir hans engra annarra saka að verja. Ekki verður séð að skjalið tengist kæranda á nokkurn hátt. Nafn kæranda kemur þar hvergi fram. Þá verður af skjalinu ekki lesið hvert sakarefnið sé, hvenær dómur hafi verið kveðinn upp eða hver réttaráhrif hans séu. Að mati kærunefndar er ekki hægt að fallast á þær skýringar kæranda að augljóst sé að umrætt skjal tengist honum þar sem að skjalið hafi borist nokkrum dögum eftir handtöku bróður hans, enda kemur ekkert fram á skjalinu sem tengir það við kæranda og hans aðstæður. Þá hefur kærandi engin gögn lagt fram, svo sem afrit af dómnum/ákvörðuninni, sem styðja frekar þá staðhæfingu hans um að dómur/ákvörðun sem liggur til grundvallar útgáfu skjalsins leggi þær skyldur á bróður kæranda að aðstoða yfirvöld við að handsama kæranda vegna þátttöku hans í mótmælunum í nóvember 2019. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að skjalið sé ekki til sönnunar um þá fullyrðingu kæranda að hann sé undir eftirliti stjórnvalda í heimaríki eða eigi yfir höfði sér handtöku vegna þátttöku í stjórnmálum.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann hefði fengið smáskilaboð frá yfirvöldum þess efnis að þau vissu um þátttöku hans í mótmælunum. Í viðtalinu kvaðst kærandi ekki vera með þessi skilaboð á sér en hann gæti sent talsmanninum sínum mynd af þeim. Eins og áður segir voru umrædd skilaboð ekki lögð fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram skjáskot af smáskilaboðum. Þann 13. ágúst var kæranda boðið að koma með síma sinn til skoðunar hjá kærunefnd. Degi síðar var sími kæranda skoðaður með hans samþykki. Aðspurður kvaðst kærandi ekki geta sýnt smáskilaboðin sem hann hafi fengið frá stjórnvöldum þar sem hann hafi eytt þeim áður en hann hafi flúið heimaríki. Þá greindi kærandi frá því að hann hafi sótt skjáskotið sem hann framvísaði til kærunefndar af erlendri vefsíðu (Deutsche Welle) til að sýna hvers konar skilaboð yfirvöld hefðu sent á mótmælendur.

Vegna skýringa kæranda á umræddum skilaboðum sendi kærunefnd fyrirspurn á talsmann kæranda og óskaði eftir skýringum á því af hverju fram kæmi í greinargerð til kærunefndar að umrætt skjáskot væri af smáskilaboðum sem kæranda hefði borist þann 16. nóvember 2019. Talsmaður kvaðst hafa haldið að þetta væru smáskilaboðin sem kæranda hefði borist og væri þetta því misskilningur af hans hálfu. Að teknu tilliti til framangreinds telur kærunefnd ljóst að umrætt skjáskot af skilaboðum sé ekki af þeim skilaboðum sem kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun hafa undir höndum, og sem skilja má af framburði hans að hann teldi sýna fram á að stjórnvöld hafi með notkun eftirlitsmyndavéla komið auga á hann í umræddum mótmælum. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að umrætt gagn sé ekki til þess fallið að styðja frekar við við frásögn kæranda um að hann sé undir eftirliti stjórnvalda í heimaríki.

Kærandi kvaðst vera mótfallinn stjórnvöldum í heimaríki sínu og hafi tekið þátt í fyrrgreindum mótmælum. Hann kvaðst ekki vera í sérstökum stjórnmálaflokki, hafa tekið þátt í stjórnmálastarfi eða að tilheyra minnihlutahópi af öðrum sökum. Kærandi hefur ekki lagt fram frekari gögn sem varpa ljósi á þá hættu sem hann telur sig vera í heimaríki, umfram aðra borgara, svo sem um vitneskju yfirvalda af þátttöku hans í mótmælum eða komu lögreglu á heimili móður hans. Í málinu liggja því ekki fyrir nein gögn sem renna stoðum undir þá frásögn kæranda að hann sé á sérstakri skrá yfirvalda eða að hans bíði málsókn og fangelsisvist. Þá liggja ekki fyrir nein gögn um að lögregla eða önnur yfirvöld í heimaríki hafi haft afskipti af honum áður en hann yfirgaf heimaríki. Frásögn kæranda um að hann sé í hættu í heimaríki sökum þess að yfirvöldum sé kunnugt um þátttöku hans í mótmælum verður því ekki lögð til grundvallar.

Kærunefnd telur hins vegar ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi kunni að hafa tekið þátt í mótmælum gegn ríkisstjórninni í nóvember 2019, líkt og þúsundir annarra borgara landsins, og sé andvígur stjórnvöldum í heimaríki. Líkt og kemur fram að ofan leystu stjórnvöld upp mótmælin í nóvember 2019 með valdi. Það verður hins vegar ekki ráðið af ofangreindum skýrslum að einstaklingar sem ekki hafi gegnt lykilhlutverki í umræddum mótmælum veki sérstakan áhuga yfirvalda vegna þátttöku þeirra í mótmælunum. Þá verður ekki ráðið að einstaklingar veki athygli íranskra yfirvalda við endurkomu til landsins vegna þess eins að þeir hafi sótt um alþjóðlega vernd í öðru ríki og fengið synjun. Það er mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á eða leitt líkur að því að hann sé á einhvern hátt eða af öðrum ástæðum í annarri eða verri stöðu vegna stjórnmálaskoðana sinna en aðrir ríkisborgarar í heimaríki hans í sambærilegri stöðu. Þá telur kærunefnd gögn málsins að öðru leyti ekki benda til þess að kærandi eigi á hættu ofsóknir af því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í komunótum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 7. febrúar 2020 til 15. september sl., kemur m.a. fram að kærandi hafi verið greindur með [...] (e. [...]) í heimaríki sínu. Þá hafi kærandi greint frá því sé að hann sé með [...]. Samkvæmt gögnunum liggur fyrir að kæranda hafi verið ávísað lyfjum við veikindum sínum. Þá kemur fram að kærandi hafi mætt í viðtöl til sálfræðings á Göngudeild sóttvarna þar sem hann hafi m.a. greint frá einkennum þunglyndis.

Að mati kærunefndar er ekki um skyndilega og lífshættulega sjúkdóma að ræða. Í gögnum um heimaríki kæranda komi fram, líkt og að ofan er rakið, að allir ríkisborgarar hafi rétt rétt á heilbrigðisþjónustu og sé grunnþjónusta endurgjaldslaus, en hún feli m.a. í sér heilbrigðisfræðslu, bólusetningar og aðgang að lyfjum. Þá greindi kærandi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi fengið alla þá heilbrigðisþjónustu og lyf sem hann hafi þurft á að halda vegna veikinda sinna í heimaríki.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Þegar framangreindar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 17. desember 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Að mati kærunefndar, með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi COVID-19 faraldursins er athygli kæranda einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                                   Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira