Hoppa yfir valmynd

Nr. 181/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 4. maí 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 181/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22040036

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála hinn 31. mars 2021 var staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja dvalarleyfisumsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Pakistans (hér eftir nefndur kærandi), á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Þáverandi umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina hinn 7. apríl 2022.

Hinn 20. apríl 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku en meðfylgjandi beiðninni voru fylgigögn. Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku aðallega á þeim grundvelli að aðstæður hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Telur kærandi augljóst að aðstæður hans hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp enda hafi stjórnvöld ekki enn beitt úrræðum gagnvart honum sem heimil sé samkvæmt XII. kafla laga um útlendinga. Feli hver og einn dagur í reynd í sér breyttar aðstæður enda hafi stjórnvöld heimild til þess að beita fyrrgreindum úrræðum og sé því fullt tilefni til að endurupptaka málið, þrátt fyrir að ár sé liðið frá úrskurðinum. Auk þess hafi kærandi verið í sambandi með maka sínum síðan sumarið 2019, þ.e í um þrjú ár og hafi hann gengið börnum hennar í föðurstað líkt og nánar sé rakið í fylgigögnum með beiðni hans um endurupptöku. Þá vísar kærandi til nýlegra úrskurða kærunefndar nr. 418/2021 og 27/2022 en í málunum hafi nefndin fallist á beitingu 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga og séu málsatvik í fyrra málinu að öllu leyti sambærileg og málsatvik í máli hans. Vísar kærandi til þess að mál þetta snúist eingöngu um hvort taka skuli umsókn hans til afgreiðslu á meðan hann sé staddur hér á landi en ekki hvort skilyrðum fyrir dvalarleyfi sé fullnægt. Með vísan til framangreinds sé því fullt tilefni til að endurupptaka málið og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í 2. málsl. 2. mgr. 24. gr. kemur þó fram að mál verði ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Með úrskurði nr. 151/2021 frá 31. mars 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Í úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að ekki væru uppi ríkar sanngirnisástæður í málinu, sbr. 3. mgr. 51. gr. laganna. Vísaði kærunefnd til þess að samband kæranda og maka hefði staðið í tiltölulega skamman tíma og þá væri enn fremur ljóst að þau hefðu ekki gengið í hjúskap fyrr en kærandi hafði fengið lokasynjun hjá stjórnvöldum á umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Var úrskurðurinn tilkynntur þáverandi umboðsmanni kæranda hinn 7. apríl 2021 og því ljóst að meira en ár liðið frá því að hann öðlaðist réttaráhrif. Verður málið því ekki endurupptekið nema veigamiklar ástæður mæli með því, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd hefur í nýlegum úrskurðum sínum vikið að einhverju leyti frá fyrri framkvæmd um beitingu 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga þegar a-liður ákvæðisins er til skoðunar, sbr. m.a úrskurð nefndarinnar nr. 27/2022, dags. 23. febrúar 2022. Kom þar m.a. fram að kærunefnd teldi að sá lögformlegi gerningur að ganga í hjúskap teldist ekki einn og sér til ríkra sanngirnisástæðna. Yrði í slíkum málum að gera þá kröfu að sýnt væri fram á að samvistir og samband milli hjóna til að hægt væri að líta til ríkra sanngirnisástæðna en að sama nái hjúskapur, þar sem engin gögn sýna fram á samvistir hjóna, ekki því marki.

Með beiðni sinni um endurupptöku lagði kærandi fram undirrituð bréf frá maka, börnum maka og vinafólki þeirra þar sem sambandi þeirra er gerð frekari skil sem og tengslum kæranda við börn maka. Er efni bréfanna á þann veg að kærandi sé mikilvægur hluti af fjölskyldu maka, m.a. við uppeldi barna hennar.

Með hliðsjón af breyttri stjórnsýsluframkvæmd kærunefndar, efni framangreindra bréfa sem og þeirri staðreynd að kærandi og maki hafa nú verið í hjúskap vel á þriðja ár er það mat kærunefndar að veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku málsins og að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til framangreinds er því fallist á beiðni kæranda um endurupptöku. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar frá 31. mars 2021 því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

 


 

Úrskurðarorð:

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

The appellants request for re-examination of his case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                  Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira