Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 603/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 603/2021

Fimmtudaginn 10. febrúar 2022

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 10. nóvember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hennar um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 10. nóvember 2021 og greindi þar frá aðstæðum sínum og húsnæðisleysi. Með bréfi, dags. 16. nóvember 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 10. janúar 2022 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. janúar 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi tilgreinir ekki stjórnvald sem tók hina kærðu ákvörðun eða dagsetningu ákvörðunar í kæru sinni, dagsettri 7. september 2021 en móttekinni hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 10. nóvember 2021. Þar lýsir hún greiningum sínum, veikindum, sögu sinni og húsnæðismálum. Fram kemur í kæru að kærandi sé húsnæðislaus. 

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé einhleyp og barnlaus kona sem hafi um langt skeið átt við margvísleg þung félagsleg- og heilsufarsleg vandamál að stríða, bæði andleg og líkamleg. Kærandi hafi verið heimilislaus um tíma en átt erfitt með að halda húsnæði sökum alls þessa, þrátt fyrir úthlutun frá félagslega kerfi Reykjavíkurborgar. Kærandi hafi fengið úthlutað „housing first íbúð“ að B þann 10. mars 2021 en hún hafi ráðið illa við þá búsetu og Félagsbústaðir hafi rift leigusamningi við hana í júní sama ár, meðal annars vegna vangoldinnar leigu. Þá hafi kæranda verið úthlutað öðru húsnæði að C í nóvember 2021 sem hafi verið talið henta betur hennar þörfum en sem liður í því ferli hafi þurft að gera upp eldri skuld við Félagsbústaði. Með umsókn þann 8. nóvember 2021 hafi kærandi sótt um styrk að fjárhæð 262.000 kr. og lán að fjárhæð 262.000 kr.

Með hliðsjón af málsatvikum öllum og í ljósi takmarkaðrar greiðslugetu kæranda hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar talið rétt að samþykkja bæri styrk til handa kæranda, sbr. 24. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð, fyrir allri skuldinni í stað þess að skipta fjárhæðinni að jöfnu með láni og styrk. Kærandi hafi því fengið það sem sótt hafi verið um og meira til. Ekki verði séð að hún hafi lögvarða hagsmuni af því að kæra samþykkt erindi Reykjavíkurborgar sem gangi lengra en umsókn hennar, auk þess sem henni hafi verið úthlutað húsnæði. Umræddur styrkur hafi verið nauðsynlegur liður í að koma kæranda í viðeigandi húsnæði. Kærandi sé nú skuldlaus við Félagsbústaði og sé með þak yfir höfuðið.

Samkvæmt framansögðu sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991.

IV.  Niðurstaða

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála vegna afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hennar um félagslegt leiguhúsnæði. Úrskurðarnefndin leit svo á að kærður væri dráttur á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Í greinargerð Reykjavíkurborgar var greint frá því að kærandi hefði fengið úthlutað húsnæði í mars 2021 og aftur í nóvember 2021 og fengið samþykktan styrk til að gera upp húsaleiguskuld við Félagsbústaði að fullu. Að virtum þeim upplýsingum er það mat úrskurðarnefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki lengur til staðar. Af þeim sökum er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira