Hoppa yfir valmynd

Nr. 61/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. febrúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 61/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU20120039

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. desember 2020 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. nóvember 2020, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi. Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi þann 10. nóvember 2017 á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara. Var það leyfi endurnýjað tvisvar sinnum, síðast með gildistíma til 28. ágúst 2020. Þann 16. júlí 2020 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. nóvember 2020, var umsókninni synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 28. nóvember 2020 og þann 12. desember 2020 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 18. janúar 2021 ásamt fylgigagni.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er fjallað um ákvæði 58. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefði fengið útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þann 10. nóvember 2017 og hefði því ekki dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Þá hefði kærandi ekki verið með dvalarleyfi í þrjú ár og uppfyllti því ekki skilyrði b-liðar 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun hafi synjað umsókn um dvalarleyfi á grundvelli þess að hann hafi fyrst fengið útgefið dvalarleyfi á Íslandi þann 10. nóvember 2017 þótt ákvörðunin sé dagsett þann 20. nóvember 2020. Þá hafi ákvörðunin komið honum á óvart þar sem vinur hans sem sé í sambærilegri stöðu hafi fengið útgefið ótímabundið dvalarleyfi í nóvember 2020.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a – e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. 58. gr. er heimilt í vissum tilvikum að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi án þess að skilyrði um fyrri dvöl skv. 1. mgr. og b-lið 2. mgr. séu uppfyllt en þau tilvik eru rakin í stafliðum a-d. Samkvæmt b-lið 3. mgr. ákvæðisins er heimilt að víkja frá skilyrðum um fyrri dvöl þegar útlendingur er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og hefur búið með hinum íslenska ríkisborgara hér á landi og haft dvalarleyfi samfellt í þrjú ár eftir stofnun hjúskapar en sama gildir um útlending sem hefur verið í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara enda sé hvorugur aðila giftur.

Líkt og áður er rakið hefur kærandi dvalið hér á landi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara frá 10. nóvember 2017 en samkvæmt gögnum málsins gengu þau í hjúskap þann 6. apríl 2017. Þegar kærandi lagði fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi þann 16. júlí 2020 hafði hann dvalið hér á landi í rúmlega tvö ár og átta mánuði samkvæmt útgefnu dvalarleyfi en leyfið rann út um mánuði síðar, eða þann 28. ágúst 2020. Þegar Útlendingastofnun tók hina kærðu ákvörðun var ljóst að kærandi hafði dvalið hér á landi í lengur en þrjú ár, en eftir að dvalarleyfi kæranda rann út þann 28. ágúst 2020 dvaldi kærandi hér samkvæmt heimild 6. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, en að mati kærunefndar ber að túlka ákvæðið til samræmis við 2. mgr. 57. gr. laganna á þann veg að kærandi hafi eftir 28. ágúst 2020 og fram að hinni kærðu ákvörðun dvalið hér samkvæmt fyrra dvalarleyfi. Með vísan til þess er það mat kærunefndar að kærandi uppfylli skilyrði ákvæðis b-liðar 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um samfellda þriggja ára dvöl. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki tekin afstaða til annarra skilyrða 58. gr. laganna. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka málið til meðferðar á ný. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Gunnar Páll Baldvinsson                                                          Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira