Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 414/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 414/2021

Fimmtudaginn 4. nóvember 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. ágúst 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. ágúst 2021, um að fella niður bótarétt hans í þrjá mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 4. desember 2020 og var umsókn hans samþykkt 20. janúar 2021. Þann 29. júní 2021 bárust Greiðslustofu Vinnumálastofnunar upplýsingar um að kærandi hefði hafnað fullu starfi hjá B en ferilskrá kæranda hafði verið send til umrædds fyrirtækis þann 28. júní 2021. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. júlí 2021, var kæranda veittur sjö virkra daga frestur til að koma að frekari athugasemdum vegna höfnunar á starfi. Skýringar bárust frá kæranda þann 12. júlí 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 16. ágúst 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 3. september 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. september 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið sviptur rétti til atvinnuleysisbóta vegna þess að hann hafi hafnað atvinnutilboði í kjölfar atvinnuviðtals. Hann hafi í júní 2021 stofnað fyrirtæki þar sem hann starfi í 30% vinnu. Kærandi kveðst hafa samþykkt að vinna hjá B í 70% starfi samhliða vinnu í eigin fyrirtæki. Atvinnurekandinn hafi hins vegar verið að leita að starfsmanni í 100% starf og hafi því ekki haft áhuga á að fá hann til starfa.

Eftir að hafa starfað hjá C á lágmarkslaunum hafi kærandi ákveðið að láta á það reyna að starfa sjálfstætt. Hann hafi því gert viðskiptaáætlun og nýtt tímann vel samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta frá því í mars. Hafi hann meðal annars fundið staðsetningu fyrir verkstæði, gert nauðsynlega pappírsvinnu, keypt verkfæri og aflað sér aukinna ökuréttinda (flokkur E) til að geta dregið bíla og aukið eigin hæfni. Hann hafi ekki enn efni á að vera í fullu starfi í eigin fyrirtæki en hafi lagt allan kraft í að það verði möguleiki á næstu mánuðum.

Kærandi taki fram að atvinnuleysisbætur hafi haldið honum gangandi á markaðnum og í einkalífi. Vinnumálastofnun hafi í skýringum sínum til kæranda tekið fram að hann ætti engin börn sem þyrfti að annast og að vinnufærni kæranda væri ekki skert af öðrum ástæðum. Því teldust ástæður kæranda ekki gildar. Kærandi segi það rétt, hann sé duglegur og heiðarlegur einstaklingur sem sé að reyna að reka eigið fyrirtæki. Kærandi óski því eftir endurskoðun á ákvörðun Vinnumálastofnunar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 29. júní 2021 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað fullu starfi hjá B. Í skýringum atvinnurekanda komi fram að kærandi hafi ekki viljað vinna við þrif á bílum. Ferilskrá kæranda hafi verið send til umrædds fyrirtækis þann 28. júní 2021.

Með erindi, dags. 9. júlí 2021, hafi kæranda verið veittur sjö virkra daga frestur til að koma að frekari athugasemdum vegna höfnunar á umræddu starfi. Þann 12. júlí 2021 hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda. Þar komi fram að kærandi hafi verið í 30% starfi hjá eigin fyrirtæki og honum hafi ekki staðið til boða 70% starf hjá B. Kærandi segi jafnframt „Job interview that I went on was offering position as a car cleaner. Even though job is below my competence I was ready to take it, but for 70% as I work 30% elsewhere.“ Fyrir liggi að kærandi hafi hafnað atvinnutilboði hjá B. Ágreiningur máls þessa snúi að því hvort ástæður kæranda vegna umræddrar höfnunar séu gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í tímabundnu atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði að þeir hafi til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. 

Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnuviðtali. Ákvæðið sé svohljóðandi: 

,,Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segi orðrétt í 4. mgr. sömu greinar:

,,Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitenda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu.

Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs hins tryggða, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna. Enn fremur sé Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfu um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Þær skýringar sem kærandi hafi veitt Vinnumálastofnun vegna höfnunar á umræddu atvinnutilboði og þær skýringar sem hann hafi borið fyrir sig í kæru til nefndarinnar snúi meðal annars að því að kærandi hafi verið í 30% starfi hjá eigin fyrirtæki og hafi þar af leiðandi einungis getað tekið 70% starf hjá B, sem hafi ekki staðið til boða.

Vinnumálastofnun telji að atvinnuleitendur geti ekki hafnað störfum á þeim forsendum að starfið henti þeim ekki vegna þess að viðkomandi sé í 30% starfi hjá öðru fyrirtæki. Mikilvægt sé að atvinnuleitendur séu reiðubúnir til að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, séu reiðubúnir að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafi til þess vilja og getu óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða eða vaktavinnu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.

Líkt og áður hafi verið rakið hvíli rík skylda á atvinnuleitendum að taka því starfi sem þeim bjóðist, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Að mati Vinnumálastofnunar séu skýringar kæranda ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á atvinnutilboði, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að þær skýringar sem kærandi hafi fært fram í máli þessu geti ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun telji því að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, í þrjá mánuði frá ákvörðunardegi en um sé að ræða niðurfellingu bótaréttar öðru sinni.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Óumdeilt er að kærandi hafnaði atvinnutilboði hjá B. en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður kæranda fyrir þeirri höfnun hafi verið réttlætanlegar í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi hefur gefið þær skýringar að hann hafi verið tilbúinn til að ráða sig í 70% starf þar sem hann væri að vinna í 30% starfi hjá eigin fyrirtæki. Þá hefur kærandi vísað til þess að hann sé að byggja upp fyrirtækið og hafi því ekki tök á að vera þar í fullu starfi.

Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki réttlætanlegt að hafna tilboði um 100% starf  á þeirri forsendu að unnið sé í hlutastarfi. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að þær ástæður og skýringar sem kærandi hefur gefið séu ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á starfinu, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006. Úrskurðarnefndin bendir á að í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. en í því felst meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir, sbr. c-lið 1. mgr. ákvæðisins.

Í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. eða 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Samkvæmt gögnum málsins var  bótaréttur kæranda felldur niður í tvo mánuði þann 20. janúar 2021 á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006. Þar sem um sama bótatímabil er að ræða, sbr. 29. gr. laganna, bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 61. laga nr. 54/2006, staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. ágúst 2021, um að fella niður bótarétt A, í þrjá mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira