Hoppa yfir valmynd

Nr. 299/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 12. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 299/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23030036

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 7. mars 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. febrúar 2023, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og brottvísa honum frá landinu. Var kæranda gert að yfirgefa landið án tafar ellegar sæta endurkomubanni í tvö ár. Hinn 13. febrúar 2023 var ákvörðun Útlendingastofnunar birt fyrir kæranda.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í ákvæði 7. gr. kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar sé heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Ákvörðun Útlendingastofnunar var birt kæranda 13. febrúar 2023. Kærandi kærði ákvörðunina 7. mars 2023. Ljóst er að kærufresturinn, sem var til 28. febrúar 2023, var liðinn þegar kæran barst.

Með tölvubréfi til kæranda, dags. 24. apríl 2023, óskaði kærunefnd eftir skýringum á því hvers vegna kæra hafi borist utan frests. Í tölvubréfi kæranda sem barst kærunefnd sama dag kemur fram kærandi hafi fengið ákvörðun Útlendingastofnunar senda frá fyrri talsmanni sínum 21. febrúar 2023 en kæran hafi verið lögð fram 7. mars 2023 og því hafi kæran borist innan frestsins. Engar frekari skýringar voru lagðar fram af hálfu kæranda.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um réttaráhrif þess þegar kæra berst æðra stjórnvaldi að liðnum kærufresti. Þar segir í 1. mgr.:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.“

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er því að finna tvær undantekningarreglur frá þeirri meginreglu laganna að kærumáli skuli vísað frá æðra stjórnvaldi ef kæra berst að liðnum kærufresti. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um ákvæðið að í fyrsta lagi sé gerð undantekning þegar afsakanlegt sé að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Hér getur t.a.m. fallið undir þau tilvik ef stjórnvald lætur hjá líða að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna eða veitir rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í öðru lagi megi taka mál til meðferðar ef veigamiklar ástæður mæli með því. Við mat á því hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar hefur í stjórnsýsluframkvæmd m.a. verið litið til hagsmuna aðila máls svo og almannahagsmuna, t.a.m. hvort mál hafi fordæmisgildi.

Ákvörðun Útlendingastofnunar var sem fyrr segir birt kæranda 13. febrúar 2023. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var, í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, gerð grein fyrir kæruheimild, kærufresti og hvert kærandi skyldi beina kæru. Ekki verður séð að þær upplýsingar sem kæranda voru veittar í ákvörðun Útlendingastofnunar varðandi kæru til kærunefndar útlendingamála hafi verið ófullnægjandi eða að leiðbeiningarskyldu hafi ekki verið gætt.

Í 7. gr. laga um útlendinga kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar sé heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Kveðið er á um útreikning frests í 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga á eftirfarandi hátt: ,,Þar sem kveðið er á um frest í lögum telst sá dagur, sem fresturinn er talinn frá, ekki með í frestinum.“ Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til stjórnsýslulaga segir: ,,Í 8. gr. er að finna skýringarreglu á því hvernig reikna beri út fresti í lögum er varða stjórnsýsluna, en stundum kemur upp ágreiningur um þetta atriði í framkvæmd. Samkvæmt reglunni skal sá dagur, sem frestur er talinn frá, ekki teljast með innan frestsins.“ Samkvæmt þessu var fyrsti dagur kærufrests í máli kæranda 14. febrúar 2023 og var síðasti dagur 15 daga frestsins því 28. febrúar 2023. Var kærufrestur því liðinn er kæran barst kærunefnd útlendingamála 7. mars 2023. Af gögnum málsins er ljóst að annar talsmaður gætti hagsmuna kæranda þegar mál hans sætti meðferð hjá Útlendingastofnun. Kærunefnd telur að það sé ábyrgð kæranda og eftir atvikum talsmanna hans að kynna sér hvenær ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið birt og hvenær kærufrestur málsins leið.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að afsakanlegt hafi verið að kæra hafi borist of seint. Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að ekki beri að taka kæruna til meðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Þá hefur kærunefnd farið yfir gögn málsins, þ.m.t. ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda. Að mati nefndarinnar verður hvorki séð af gögnum málsins að hagsmunir kæranda eða almannahagsmunir krefjist þess að málið verði tekið til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þótt fallast megi á það með kæranda að ákvarðanir er lúta að umsókn um alþjóðlega vernd séu veigamiklar og hagsmunir aðila slíkra mála miklir þá er í 7. gr. laga um útlendinga mælt fyrir um kærufrest til kærunefndar vegna slíkra ákvarðana og verður ekki vikið frá honum nema veigamikil rök mæli með því. Að öðrum kosti væri kærufresturinn til lítils í ljósi eðlis málaflokksins. Við það mat er horft til þess að kærandi er handhafi alþjóðlegrar verndar í Grikklandi og er með dvalarleyfi þar í landi til 21. september 2024. Kærunefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum talið endursendingu til Grikklands tæka í tilvikum líkt og í máli kæranda. Þá telur kærunefnd að ekki verði séð að ágallar hafi verið á vinnslu málsins hjá Útlendingastofnun. Kærunefnd vekur athygli á því að kærandi getur lagt fram endurtekna umsókn hjá Útlendingastofnun samkvæmt 35. gr. a laga um útlendinga.

Með vísan til framangreinds er kærunni vísað frá.

Úrskurðarorð:

 

Kæru kæranda á ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað frá.

 

The applicants appeal of the decision of the Directorate of Immigration is dismissed.

 

 

 

F.h. kærunefndar útlendingamála,

 

Þorsteinn Gunnarsson, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum