Hoppa yfir valmynd

7/2021 A gegn Háskóla Íslands

Ár 2022, 22. apríl, lauk áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, þau Einar Hugi Bjarnason lögmaður og formaður nefndarinnar, Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður og Eva Halldórsdóttir lögmaður málinu 

nr. 7/2021

A

gegn

Háskóla Íslands

með svohljóðandi

Ú R S K U R Ð I 

I.

Málsmeðferð

Mál þetta hófst með kæru A, dags. 2. nóvember 2021, sem barst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema með tölvupósti þann sama dag, þar sem kærð er sú ákvörðun sviðsforseta Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands („“ eða „skólinn“), 1. nóvember 2021, að víkja kæranda úr skólanum að fullu. Gerir kærandi þá kröfu að hann standist alla áfanga af haustönn 2021. Viðbrögð HÍ við kærunni bárust 19. janúar 2022 þar sem kröfum kæranda var hafnað.

II.

Málsatvik

Kærandi var nemandi við sálfræðideild HÍ. Fyrir liggur að hann sendi samnemanda sínum við deildina tölvupósta sem umræddur nemandi leit alvarlegum augum og tilkynnti til sviðsforseta Heilbrigðisvísindasviðs skólans. Í póstunum var m.a. að finna eftirfarandi ummæli: „Ég veit þú ert brjáluð, en ef þú hjálpar mér þá skal ég hjálpa þér“. „Ég skal hjálpa þér að læra fyrir prófið, annars fellur þú. Ég er nokkuð góður í stærðfræði. Ég skal ábyrgjast að þú nærð, annar [sic] mátt þú refsa mér eins og þér sýnist“. „Þær deyja“. „Þér er nauðgað ef þú segir mér hvernig?“. „Það er nauðgunarher á leiðinni til þín en þú verður að segja mér hvernig ég á að leysa heimadæmi níu og fjórtán þess í stað. Sendu mér línu fyrir næsta miðvd.“

Þann 21. október 2021 boðaði sviðsforseti kæranda á sinn fund til að fara yfir málið. Kærandi svaraði póstinum samdægurs á þann hátt að hann hafnaði fundarboðinu. Sviðsforseti sendi annan tölvupóst til kæranda daginn eftir og tjáði honum að til skoðunar væri ætlað brot kæranda á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglum fyrir HÍ nr. 569/2009. Í tölvupóstinum var ítrekað boð til kæranda um að mæta á fund sviðsstjóra til að ræða málið og koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Sama dag svaraði kærandi og hafnaði því að mæta á fund sviðsforseta en lýsti sig reiðubúinn til að funda í gegnum fjarfundarbúnað. Þann 25. október 2021 sendi sviðsforseti annan tölvupóst til kæranda og boðaði hann á fjarfund ásamt deildarforseta sálfræðideildar. Þessu boði hafnaði kærandi þennan sama dag.

Deildarforseti sálfræðideildar sendi kæranda í kjölfarið bréf, dags. 25. október 2021, þar sem vísað var í ummæli kæranda í áðurnefndum tölvupóstum til samnemanda hans. Í bréfinu var kæranda tilkynnt um þá niðurstöðu deildarforseta að með ummælunum hafi kærandi brotið gegn 2. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008, sbr. 1. mgr. 51. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009. Í niðurlagi bréfsins var tekið fram að deildarforseti hefði með því lokið þeim þætti málsins er lyti að ákvörðun um brot og að málið yrði sent til sviðsforseta Heilbrigðisvísindasviðs til ákvörðunar um agaviðurlög.

Með bréfi sviðsforseta til kæranda, dags. 26. október 2021, var þeim síðarnefnda tilkynnt um að sviðsforseti hefði til athugunar að veita kæranda áminningu eða víkja honum úr skóla á grundvelli 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008 vegna brota gegn reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Brotið hafi falist í því að hann hafi sent samnemanda sínum tölvupósta sem hafi verði óforsvaranlegir, ógnandi og til þess fallnir að valda umræddum nemanda ótta. Í bréfinu var kæranda veittur frestur til 2. nóvember 2021 til andmæla. Svör bárust frá kæranda þann 31. október 2021.

Með bréfi sviðsforseta til kæranda, dags. 1. nóvember 2021, var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun að víkja kæranda úr skóla að fullu, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008. Í bréfinu var vísað til þess að ummælin sem um ræddi hefðu verið til þess fallin að valda samnemanda kæranda ótta og væru með öllu óboðleg. Ekkert hefði komið fram í andmælum kæranda sem afsakaði eða útskýrði ummælin og þau bæru ekki merki iðrunar eða eftirsjár. Brotið væri það alvarlegt að ekki kæmi annað til greina en að víkja kæranda úr skóla að fullu. Í niðurlagi bréfsins var kæranda bent á rétt hans til að kæra ákvörðunina til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema.

III.

Málsástæður aðila

Kærandi byggir á því í kæru til nefndarinnar að í meðferð málsins felist ásökun um refsivert athæfi og kærandi telji dóminn rangan, líkt og það er orðað í kæru. Kærandi vísar til þess að hann hafi beðið sviðsforseta Heilbrigðisvísindasviðs um að útskýra brot hans með fullnægjandi hætti eftir að málið var tekið til meðferðar. Sú beiðni hafi verið tekin til skoðunar af hálfu sviðsforseta og vísar kærandi í því sambandi til bréfs sviðsforseta, dags. 26. október 2021 þar sem m.a. hafi komið fram: „Brot nemandans felst í því að hafa í frammi hótanir við samnemanda sinn. Ummæli hans í tölvupóstum til nemandans voru dónaleg, ógnandi og til þess fallin að valda ótta. Framkoma af þessu tagi telst einfaldlega óásættanleg.“ Kærandi telur að í tilvitnuðu orðalagi felist misskilningur af hálfu sviðsforseta sem forseti hafi gengist við og að málsvörn hans hafi „fyrnst“ sökum þessa. Kærandi bendir á að umræddur samnemandi hans hafi svarað tölvupósti hans með eftirfarandi hætti: „Nei takk. Mér finnst þú dónalegur og ég hef ekki áhuga á þessu.” Af þessu telur kærandi leiða að umræddur samnemandi hafi ekki dregið sömu ályktanir af samskiptunum og sviðsforseti gerir.

Þá vísar kærandi til þess að samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 sé  ekki heimilt að byggja úrlausn mála á því að lög brjóti í bága við stjórnarskrána. Það komi hvergi fram í stjórnarskrá hvaða tjáning sé rétt. Eingöngu dómstólar geti skorið úr um hvað teljist vera hæfilegt siðferði, ekki aðilar sem dæmi samkvæmt siðareglum eða siðferðislegu áliti.

Þá bendir kærandi á að siðareglur HÍ hafi verið samþykktar á háskólaþingi og staðfestar af háskólaráði HÍ. Í lögum um dómstóla nr. 50/2016 komi hvergi fram að HÍ sé dómsvald og geti dæmt í málum sem feli í sér brot á stjórnarskrá og sviðsforseti Heilbrigðisvísindasviðs uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu til dómara í málum sem varða lög og geti því ekki ákveðið hvaða tjáning sé æskileg. Kærandi hafi stjórnarskrárvarinn rétt til tjáningar, sem ekki sé unnt að takmarka nema samkvæmt dómsorði, og því sé ekki unnt að refsa honum fyrir agabrot og víkja honum úr skóla. Þá bendir kærandi á að sviðsforseti Heilbrigðisvísindasviðs hafi verið kærður fyrir lögbrot af hálfu kæranda og hann hafi því ekki verið hæfur til þess að „dæma“ í málinu.

Af hálfu HÍ er um málsástæður skólans vísað alfarið til þeirra röksemda sem fram koma í bréfum deildar- og sviðsforseta sem rakin eru hér að framan í málavaxtalýsingu.

IV.

Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa snýr að þeirri ákvörðun sviðsforseta Heilbrigðisvísindasviðs HÍ frá 1. nóvember 2021 að víkja kæranda úr skólanum að fullu á grundvelli tölvupóstsamskipta kæranda við annan nemanda.

Af 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, leiðir að allir eru frjálsir skoðana sinna og hafa rétt til að miðla upplýsingum með öllum formum tjáningar. Tjáningarfrelsið nær þannig bæði til prentaðs og talaðs máls, auk tjáningar sem kann að felast í annars konar athöfnum. Samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans, er eingöngu heimilt að setja tjáningarfrelsinu skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Í 19. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 er fjallað um réttindi og skyldur nemenda. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. skal nemandi forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða í framkomu sinni innan og utan skólans sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám hans eða skóla. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. setur Háskólaráð, að fenginni umsögn heildarsamtaka nemenda innan háskólans, reglur um réttindi og skyldur nemenda. Í 1. mgr. 51. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009 er sambærileg regla og í 2. mgr. 19. gr. laganna.

Að mati áfrýjunarnefndarinnar fullnægir framangreind lagaheimild áskilnaði áðurnefndrar 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar enda stefnir lagareglan að lögmætum markmiðum. Innan reglu 2. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskóla getur meðal annars fallið háttsemi sem felst í því að senda tölvupósta til annars nemanda. Eðli málsins samkvæmt verður aldrei talin upp með tæmandi hætti sú háttsemi sem er nemanda til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám eða skólann. Er það þannig matskennt hverju sinni hvort háttsemi nemanda telst uppfylla skilyrði ákvæðisins. Það samrýmist 73. gr. stjórnarskrárinnar að það mat sé í þessum tilvikum hjá stjórnendum háskóla en nemandi getur svo fengið það endurskoðað hjá áfrýjunarnefndinni og dómstólum.

Í 3. mgr. 19. gr.  laganna, sbr. 3. mgr. 51. gr. reglna fyrir HÍ, er mælt fyrir um að ef nemandi gerist sekur um háttsemi skv. 2. mgr. eða sem sé andstæð lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim skuli forseti þess skóla þar sem hann er skráður til náms taka mál hans til meðferðar. Að teknu tilliti til alvarleika brots geti forseti veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu. Áður en ákvörðun um brottrekstur sé tekin skuli gefa nemanda kost á að tjá sig um málið. Nemanda sé heimilt að skjóta ákvörðun forseta til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um háskóla en málskot fresti ekki framkvæmd ákvörðunar forseta.

Að mati nefndarinnar eru samskipti kæranda við samnemanda sinn í skólanum honum til vanvirðu og álitshnekkis. Með samskiptunum vó kærandi gegn réttindum nemandans sem meðal annars eru varin af 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þannig sendi kærandi t.a.m. þau skilaboð til samnemandans að „nauðgunarher“ væri á leiðinni til hennar auk fjölda annarra óviðeigandi og ógnandi skilaboða.

Ekkert hefur komið fram í málinu af hálfu kæranda sem réttlætir eða afsakar þessa háttsemi heldur virðist kærandi ganga út frá því í málatilbúnaði sínum að hann hafi fullan rétt til þess að svívirða og ógna samnemendum sínum í skólanum án þess að unnt sé að grípa til viðurlaga af nokkru tagi af því tilefni. Eins og áður segir hefur kærandi ekki slíkt ótakmarkað tjáningarfrelsi án afleiðinga. Samkvæmt framangreindu stefndi sú takmörkun á tjáningarfrelsi kæranda, sem fólst í því að víkja honum úr skóla, að lögmætu markmiði, þ.e. að vernda virðingu skólans og vernda réttindi annars nemanda. Við ákvörðunina voru þannig uppfyllt skilyrði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar um lögmætt markmið, skerðingin var nauðsynleg og í samræmi við lýðræðishefðir. Í ljósi alvarleika ummælanna er það niðurstaða nefndarinnar að meðalhófs hafi verið gætt enda hafi vægari úrræði ekki verið tæk til þess að ná því markmiði sem stefnt var að.

Málsástæður kæranda er tengjast vanhæfi sviðsforseta á grundvelli laga um dómstóla nr. 50/2016 eiga ekki við í þessu máli enda er HÍ er ekki dómstóll. Þá eru ekki til staðar tengsl eða aðstæður sem falla undir vanhæfisástæður 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekkert hefur komið fram í málinu um að málsmeðferð innan HÍ hafi verið ábótavant að öðru leyti. Verður hin kærða ákvörðun HÍ því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er sú ákvörðun sviðsforseta Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands frá 1. nóvember 2021 að víkja kæranda úr skólanum að fullu.

 

Einar Hugi Bjarnason

Daníel Isebarn Ágústsson                                 Eva Halldórsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira