Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 82/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 82/2017

Fimmtudaginn 8. júní 2017

A
gegn
Félags- og skólaþjónustu Austur Húnavatnssýslu

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. febrúar 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, afgreiðslu Félags- og skólaþjónustu Austur Húnavatnssýslu vegna samninga um notendastýrða persónulega aðstoð.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi er með samning um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) við Félags- og skólaþjónustu Austur Húnavatnssýslu á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Kærandi leggur fram kæru á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vegna vinnulags, skorts á svörum og afgreiðslu af hálfu Félags- og skólaþjónustunnar vegna NPA samningsins.

Með bréfi, dags. 15. mars 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Félags- og skólaþjónustu Austur Húnavatnssýslu þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Félags- og skólaþjónustunnar barst með bréfi, dags. 29. mars 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. apríl 2017, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi setur fram fjórar sundurliðaðar athugasemdir við málsmeðferð sveitarfélagsins í kæru til úrskurðarnefndarinnar. Í fyrsta lagi að Félags- og skólaþjónustan hafi ekki svarað tveimur tölvupóstum frá kæranda og þremur tölvupóstum frá föður kæranda og hafi þar með að engu málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga og rétt fatlaðs einstaklings til að kæra niðurstöðu samkvæmt 5. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Í öðru lagi að hafa ítrekað svarað fyrirspurnum í síma um afgreiðslu uppgjörs á þann hátt að ákvarðana væri að vænta á næstu dögum. Í þriðja lagi að hafa skorast undan ábyrgð sinni að greiða umframkostnað vegna NPA samninga á árunum 2014 og 2015, þrátt fyrir að fullnægjandi bókhaldi hafi verið skilað sem sýni fram á að um sé að ræða vanmetinn rekstrarkostnað, meðal annars vegna kjarasamningshækkana. Í fjórða lagi að hafa skorast undan endurmati á tímafjölda í þjónustu NPA samningsins en endurmat á stuðningsþörf hafi farið fram í október 2014 og skýrsla um endurmat á SIS mati hafi verið komin til félagsþjónustunnar í janúar 2015. Kærandi vísar til þess að samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 1054/2010 eigi endurmat á þjónustu að fara fram að lágmarki einu sinni á ári. Sömu reglu sé að finna í 10. gr. reglna byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra um NPA. Samningur um NPA greiðslur fyrir árið 2015 hafi verið gerður á fundi í desember 2015 en um sé að ræða óbreyttan samning frá árinu 2014, þrátt fyrir ítrekaðar óskir um endurskoðun, enda hafi kærandi skrifað undir samninginn með fyrirvara.

Kærandi tekur fram að Sveitarfélagið Skagafjörður hafi þann 1. janúar 2016 tekið við umsjón á málefnum fatlaðra í Húnavatnssýslum og þar með ábyrgð á NPA samningum. Kærandi hafi gert NPA samning við sveitarfélagið í júní 2016 og þá samkvæmt mati á stuðningsþörf frá október 2014. Samningurinn hafi gert ráð fyrir 285 vinnustundum á mánuði í stað 203 á mánuði árin 2014 og 2015 sem vísi greinilega til vanmetinnar stuðningsþarfa af hálfu Félags- og skólaþjónustu Austur Húnavatnssýslu. Kærandi bendir á að sama stuðningsþörf, 285 tímar á mánuði, sé metin fyrir árið 2017 en allt önnur vinnubrögð hafi verið við gerð þess samnings í byrjun febrúar 2017.

Kærandi óskar eftir að úrskurðarnefndin taki afstöðu til kæruatriðanna og í kjölfarið fari fram viðeigandi uppgjör hjá Félags- og skólaþjónustunni vegna NPA samninga frá árunum 2014 og 2015 með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og nýju mati á þjónustuþörf kæranda ásamt vöxtum vegna óhóflegs dráttar á afgreiðslur.

III. Sjónarmið Félags- og skólaþjónustu Austur Húnavatnssýslu

Í greinargerð Félags- og skólaþjónustu Austur Húnavatnssýslu kemur fram að farið hafi verið yfir tölvupóstsamskipti kæranda við fyrrum félagsmálastjóra og sú yfirferð hafi borið saman við fyrsta kæruliðinn, þ.e. að afgreiðsla máls af hendi Félags- og skólaþjónustunnar hafi verið ábótavant og skortur hafi verið á svörum við fyrirspurnum kæranda og föður hans.

Hvað varðar athugasemd kæranda í öðrum lið kærunnar vísar sveitarfélagið til þess að vegna starfsmannabreytinga væri ekki hægt að segja til um hvort tilgreind símasamskipti á milli fyrrum félagsmálastjóra og kæranda hafi átt sér stað þar sem skráning væri ekki til staðar. Afgreiðsla á máli kæranda hafi dregist í of langan tíma og skortur hafi verið á svörum af hálfu Félags- og skólaþjónustunnar. Í febrúar 2017 hafi verið rætt við kæranda í síma þar sem honum hafi verið gerð grein fyrir því að drög að niðurstöðum í málinu lægju fyrir sem ætti eftir að leggja fyrir á fundi félagsmálaráðs og fyrir framkvæmdastjóra byggðasamlags Austur Húnavatnssýslu. Niðurstöður í málinu liggi nú fyrir en höfðu ekki verið kynntar kæranda þegar bréf hafi borist frá úrskurðarnefndinni þann 22. mars 2017.

Varðandi athugasemdir kæranda í kæruliðum þrjú og fjögur þá hafni Félags- og skólaþjónustan beiðni kæranda um greiðslu vegna taps sem fram komi í ársreikningi 2014. Samningur félagsþjónustunnar við kæranda hafi verið gerður á forsendum tilraunaverkefnis og byggður á ákvörðun stjórnar Róta bs. og þjónustuhóps Róta bs. Félagsþjónustan hafi á fundi þjónustuhóps 8. júlí 2014 lagt fram ósk kæranda um aukningu tímamagns. Beiðninni hafi verið hafnað með tilvísun í samþykkt stjórnar Róta bs. frá 5. febrúar 2014 þar sem samþykkt hafi verið að byggðarsamlagið héldi áfram þátttöku í reynsluverkefninu árið 2014 og þeir samningar sem rynnu út 31. desember 2013 yrðu endurnýjaðir til ársloka 2014 væri þess óskað. Kæranda hafi mátt vera ljóst við undirskrift samningsins í september 2014 að ekki yrði aukið við tímamagn en tímagjald hefði hækkað á milli ára. Meðferð þess fjármagns sem notandi fái úthlutað þurfi að fara eftir samningi þar sem meðal annars komi fram að fjöldi tíma sé sú grundvallarstærð sem notandinn hafi til að ráða starfsfólk. Ábyrgð notenda sé að upplýsa félagsþjónustu um það án tafar ef upp komi erfiðleikar við umsjón greiðslnanna en ekki hafi verið um slíkt að ræða heldur beiðni um fjölgun tímamagns í samningi. Félags- og skólaþjónustan vísar til þess að við úrvinnslu málsins hafi komið í ljós að samskipti/upplýsingar af þess hálfu til kæranda virðist hvorki hafa verið skriflegar né skráðar og þar af leiðandi vanti gögn í málið. Til dæmis liggi ekki ljóst fyrir með hvaða hætti kærandi hafi fengið upplýsingar frá félagsþjónustu um afgreiðslu þjónustuhóps, hvorki finnist tölvupóstur né bréf þess eðlis en kærandi hafi skrifað undir samning í september en þjónustuhópurinn hafi fundað um ósk hans í júlí sama ár.

Félags- og skólaþjónustan tekur fram að tekin hafi verið ákvörðun um að samþykkja beiðni kæranda um greiðslu vegna taps sem fram komi í ársreikningi 2015 að fjárhæð 829.118 kr. Samningur félagsþjónustunnar við kæranda hafi verið gerður á forsendum tilraunaverkefnis og byggður á ákvörðun sem lögð hafi verið fram á fundi þjónustuhóps 10. nóvember 2015 en kærandi hafi óskað eftir aukningu tímamagns 12. október 2015 á þeim forsendum að SIS þjónustumat hefði hækkað úr fimm stigum í níu stig í janúar sama ár. Fram komi í bókun þjónustuhóps að það sé á ábyrgð Félags- og skólaþjónustunnar að fjalla um tímamagn í samningum og endurmeta samninga með kæranda. Enn fremur komi fram að tillögur með breytingu á tímamagni með rökstuðningi þurfi að leggja fyrir þjónustuhóp til afgreiðslu. Ekki verði séð að félagsþjónustan hafi endurmetið samning og sent til þjónustuhóps eða skráð formleg samskipti vegna þess en kærandi hafi skrifað undir samning með fyrirvara 21. desember 2015. Meðferð þess fjármagns sem kærandi hafi fengið úthlutað hafi ekki farið eftir tímafjölda þess samnings og það frávik verði að skrifa alfarið á ábyrgð kæranda. Félags- og skólaþjónustan vísar til þess að NPA samningar séu ekki gerðir á forsendum SIS þjónustumats en eigi að síður komi stuðningsþörf kæranda fram í matinu og ljóst sé að hún hafi breyst umtalsvert, eða úr fimm stigum í níu stig. Það hefði því verið tilefni af hálfu Félags- og skólaþjónustunnar til að endurmeta tímamagn í samningi og leggja fyrir þjónustuhóp til afgreiðslu. Vegna þessa og framangreinds samskiptaleysis sé samþykkt að greiða tap ársins 2015.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um afgreiðslu Félags- og skólaþjónustu Austur Húnavatnssýslu vegna samninga kæranda um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Kærandi leggur fram kæru á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vegna vinnulags, skorts á svörum og afgreiðslu af hálfu Félags- og skólaþjónustunnar vegna NPA samningsins en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Kærandi hefur gert athugasemd við að Félags- og skólaþjónustan hafi ekki svarað tilgreindum tölvupóstum og að fyrirspurnum um afgreiðslu uppgjörs hafi ítrekað verið svarað í síma á þann hátt að ákvarðana væri að vænta á næstu dögum. Félags- og skólaþjónustan hefur viðurkennt að framangreindum tölvupóstum hafi ekki verið svarað og að afgreiðsla á máli kæranda hafi dregist í of langan tíma. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því ljóst að Félags- og skólaþjónustan hafi ekki hagað málsmeðferð sinni í máli kæranda í samræmi við ákvæði 9. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin brýnir fyrir sveitarfélaginu að gæta þess framvegis að afgreiðsla mála sé í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga.

Hvað varðar athugasemdir kæranda í kæruliðum þrjú og fjögur um uppgjör vegna NPA samninga frá árunum 2014 og 2015 vísar úrskurðarnefndin til 1. mgr. 5. gr. a laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra þar sem fram kemur að fötluðum einstaklingi sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf því að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Af greinargerð Félags- og skólaþjónustunnar, dags. 29. mars 2017, má ráða að þá fyrst hafi verið tekin afstaða til framangreindrar beiðni kæranda um uppgjör. Sveitarfélagið hafði því ekki tekið endanlega ákvörðun í máli kæranda þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Að því virtu og í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að sá þáttur málsins sé ekki tækur til efnismeðferðar. Með hliðsjón af framangreindu er þeim þætti kærunnar er lýtur að uppgjöri vegna NPA samninga vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Félags- og skólaþjónustu Austur Húnavatnssýslu í máli A, var ekki í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þeim hluta kærunnar er varðar uppgjör vegna NPA samninga er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira