Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 6/1992

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 6/1992:

A
gegn
stjórn Skálatúnsheimilisins.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála fimmtudaginn 17. september 1992 var samþykkt eftirfarandi niðurstaða máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með kæru dags. 27. febr. 1992 óskaði A eftir því, að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess, hvort ráðning B í stöðu framkvæmdastjóra við Skálatúnsheimilið í Mosfellsbæ, sem staðfest var á aðalfundi stjórnar Skálatúnsheimilisins þ. 24. febrúar síðastliðinn bryti í bága við ákvæði laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Með auglýsingu í Morgunblaðinu í febrúar sl. var auglýst laus til umsóknar staða framkvæmdastjóra við Skálatúnsheimilið í Mosfellsbæ. Þrjátíu og þrjár umsóknir bárust í samvinnu við ráðningarstofuna Hagvang fór stjórn Skálatúnsheimilisins yfir umsóknirnar og valdi úr sjö umsækjendur, sem taldir voru koma til greina. Kærandi máls þessa var ekki í þessu úrtaki. Stjórnin skipaði síðan þriggja manna starfshóp, sem falið var að ræða við þá aðila, sem til greina komu. Eftir þær viðræður var starfshópurinn sammála um að mæla með B í stöðuna og var það síðan einróma samþykkt af stjórn Skálatúnsheimilisins.

Þegar kæranda varð ljóst, að hún kom ekki til álita hafði hún samband við nokkra stjórnarmenn, þ.á.m. formann stjórnar og varð það til þess, að umsókn hennar fékk sérstaka umfjöllun. Það breytti hins vegar ekki ákvörðun stjórnarinnar.

Kærandi telur að gengið hafi verið fram hjá sér við ráðninguna vegna kynferðis síns og þar með hafi 6. gr. 1. 28/1991 verið brotin. Stjórn Skálatúnsheimilisins vísar því á bug að kynferði hafi nokkru ráðið um stöðuveitinguna. Kærandi hafi ekki verið valin í úrtak þeirra sem til greina komu í starfið. Kærði bendir á að um 95% starfsmanna Skálatúnsheimilisins séu konur, þ.á.m. nýráðinn forstöðumaður.

C, stjórnarformanni Skálatúnsheimilisins var kynnt kæran með bréfi dags. 14. apríl sl. og þess farið á leit, að upplýst yrði um menntun og starfsreynslu þess er ráðinn var svo og hvaða sérstaka hæfileika umfram kæranda hann hefði til að bera, sbr. 8. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Báðir aðilar málsins komu á fund kærunefndar jafnréttismála og lögðu fram skrifleg gögn í málinu. Samkvæmt þeim er menntun og starfsreynsla kæranda og þess sem ráðinn var sem hér segir:

A er fædd 1956. Hún stundaði nám við háskólann í Gautaborg 1985 - 1989 og lauk eftirfarandi námi: Stjórnun (heilbrigðismál) 60 einingar, starfsmannastjórn 20 einingar, rekstrarhagfræði 40 einingar og stærðfræði 10 einingar. Til að öðlast starfsheitið hagfræðingur kveðst hún þurfa að ljúka ritgerð, sem hún vinnur nú að. A starfaði hjá Ríkisspítölum við sérverkefni sumrin 1986 og 1987, við ráðgjafarstörf hjá Sahlgrenska Sjukhuset árið 1988, við embætti borgarlæknis sumarið 1989, hún var sparisjóðsstjóri við Sparisjóð Súðavíkur frá sept. 1989 til jafnlengdar 1990, sumarið 1991 vann hún við úttekt á íslenskri heilbrigðisþjónustu hjá Ríkisspítölum og frá hausti 1991 við þýðingar hjá Málvísindastofnun H.I.

B er fæddur 1934. Hann starfaði hjá Tryggingarstofnun ríkisins, lífeyrisdeild, um stuttan tíma var hann bæjarstjóri á Seyðisfirði, vann hjá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda (S.Í.F) og Samlagi skreiðarframleiðenda til ársins 1987. Frá 1. jan. 1988 rak hann eigið fyrirtæki, en lagði það niður í lok árs 1991. Hann hefur sinnt félagsmálum, bæði innan íþróttahreyfingarinnar og kirkjunnar. Ekkert kemur fram í gögnum málsins um menntun hans.

Í auglýsingu vegna umrædds starfs segir m.a., að leitað sé að manni með haldgóða þekkingu á fjármálastjórnun og bókhaldi. Að viðkomandi þurfi að vera ákveðinn og stjórnsamur og eiga auðvelt með mannleg samskipti. Þekking og áhugi á málefnum fatlaðra sé æskileg.

NIÐURSTAÐA

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er tilgangur laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Í lögunum er sérstaklega fjallað um stöðuveitingar, sbr. 5., 6. og 8. gr. laganna, en veigamikill þáttur í því að koma á jafnrétti er að þess sé gætt við ráðningar í störf og stöðuveitingar. Það er hins vegar ekki tilgangur laganna að skerða valfrelsi atvinnurekenda að öðru leyti.

Hvorki í auglýsingu um starfið né í starfslýsingu eru settar fram sérstakar menntunarkröfur. Það var því álitamál hversu þungt menntun skyldi vega við val í stöðuna að mati atvinnurekandans. Tilgangur laga nr. 28/1991 er ekki að setja vinnuveitendum mörk við skilgreiningu starfa, heldur að koma í veg fyrir að umsækjendum sé mismunað á grundvell kynferðis að öðru jöfnu. Í því tilviki er hér um ræðir er um sérstaka starfsemi að ræða, þar sem er rekstur heimilis fyrir vangefna. Því má leiða að því rök, að nokkuð aðrar kröfur séu gerðar til stjórnenda slíkrar stofnunar en ella. Stjórn Skálatúnsheimilisins hefur lagt áherslu á, að sá er ráðinn var hafi haft góða þekkingu á málefnum fatlaðra og hafi það verið talið vega þyngra en menntun annarra umsækjenda, en margir umsækjenda hafi verið með langskólanám að baki.

Samkvæmt framansögðu og þegar litið er til eftirfarandi atriða: að kærandi var ekki í því úrtaki umsækjenda um stöðuna sem valið var til lokaákvörðunar, að í því úrtaki voru bæði konur og karlar, að kærandi hefur ekki sérstaka þekkingu á málefnum fatlaðra, að yfirgnæfandi meirihluti starfsmanna kærða eru konur, að kona gegnir öðru aðalstjórnunarstarfi stofnunarinnar, þá verður ekki fallist á það með kæranda að stjórn Skálatúnsheimilisins hafi brotið lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 28/1991 með því að ráða hana ekki í starf framkvæmdastjóra.

Eftirtalin sátu í kærunefnd jafnréttismála við afgreiðslu máls þessa:

Hjördís Hákonardóttir, héraðsdómari, formaður, Sigurður H. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og Margrét Heinreksdóttir, sýslufulltrúi.

 

Hjördís Hákonardóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður H. Guðjónsson 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum