Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 682/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 682/2020

Miðvikudaginn 25. ágúst 2021

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 23. desember 2020, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 28. september 2020 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 1. október 2019, sem barst Sjúkratryggingum Íslands sama dag, vegna afleiðinga meðferðar sem fram fór á Landspítalanum X. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 28. september 2020, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 1. eða 4. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. desember 2020. Með bréfi, dags. 4. janúar 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 22. janúar 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. janúar 2021, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 28. september 2020, verði endurskoðuð og að úrskurðað verði að tjón kæranda sé að fullu greiðsluskylt samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Til vara er þess krafist að úrskurðarnefndin felli hina kærðu ákvörðun úr gildi og feli Sjúkratryggingum Íslands að taka nýja ákvörðun í málinu.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi fengið [flogakast] X. Við rannsóknir á Landspítala í kjölfarið hafi komið í ljós að hún væri með stórt góðkynja æxli við heila, nánar tiltekið í groppustokk (cavernous sinus). Á þeim tímapunkti hafi hún ekki verið með lömunareinkenni, hvorki hægra megin né vinstra megin.

Í framhaldinu hafi fimm vikna sterameðferð hafist en samkvæmt skilningi lögmanns kæranda sé það gert til að minnka bólgur. Eftir það hafi verið reynt að loka fyrir æðar til æxlisins en það hafi ekki [tekist]. Það hafi því verið álitið nauðsynlegt að fjarlægja æxlið með skurðaðgerð sem hafi farið fram X. Sama dag og aðgerðin hafi verið framkvæmd hafi að nýju verið reynt að loka fyrir æðar til æxlisins í þeim tilgangi að draga úr áhættu sem óumflýjanlega fylgi aðgerð sem þessari. Það hafi aftur á móti ekki tekist.

Í skurðaðgerðinni, sem hafi tekið átta klukkustundir, hafi allt æxlið verið fjarlægt. Þegar kærandi hafi vaknað eftir aðgerðina hafi hún verið með algera lömun í vinstri líkamshluta. Í kjölfarið hafi síðan tekið við margra mánaða endurhæfing á C. Að miklu leyti hafi lömunareinkennin sem betur fer gengið nokkuð til baka en séu þó enn mjög mikil og valdi algerri óvinnufærni og mjög skertum lífsgæðum. Ekki sé mikilla breytinga að vænta í framtíðinni varðandi heilsufar og lífsgæði.

Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 28. september 2020 sé því hafnað að tjón kæranda megi rekja til atvika sem falli undir 1. eða 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Þá segi sömuleiðis að það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að 3. tölul. 2. gr. laganna eigi ekki við.

Í gögnum málsins komi fram að við skurðaðgerðina X hafi allt æxlið verið fjarlægt.

Meðal þeirra atriða sem bent hafi verið á í kvörtun til Embættis landlæknis og vikið sé að í greinargerð læknisins sem hafi framkvæmt aðgerðina og sé meðal gagna, sem Sjúkratryggingar Íslands hafi haft undir höndum við ákvörðunartöku í málinu, sé að fjarlægður hafi verið meiri eða stærri hluti af æxlinu en forsvaranlegt og öruggt hafi verið að gera.

Í greinargerð læknisins, dags. 28. nóvember 2019, segi meðal annars: „Alltaf er lögð áhersla á að fjarlægja æxlin í heild ef þess er nokkur kostur til að minnka líkur á endurkomu og endurtekinni aðgerð“.

Kærandi vísar til tveggja fræðigreina um meðferð sjúklinga sem greinist með æxli í groppustokk. Í þeim báðum sé vikið að því að við meðferðina hafi á sínum tíma verið lagt upp með að fjarlægja æxlin í skurðaðgerð. Sökum mikillar hættu á fylgikvillum, þar á meðal lömunareinkennum, hafi þessi nálgun verið endurskoðuð og nú sé frekar notast við blöndu af skurðaðgerðum þar sem hluti æxlisins sé fjarlægður til að létta á þrýstingi á taugar og geislameðferð (radiation therapy). Árangur af þess háttar meðferð sé mun betri en þegar þess sé freistað að fjarlægja æxlið í heild sinni.

Með vísan til þessa telji lögmaður kæranda það koma sterklega til greina að fella tjón kæranda undir 1. og/eða 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands 1. október 2019. Sótt hafi verið um bætur vegna meðferðar sem fram hafi farið á Landspítalanum X. Aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðilum og málið tekið fyrir á fundi fagteymis sem skipað sé læknum og lögfræðingum Sjúkratrygginga Íslands. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 28. september 2020, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað.

Vísað er til þess að í kæru sé byggt á því að málið sé bótaskylt á grundvelli 1. eða 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu þar sem betra hefði verið að notast við blöndu af skurðaðgerð þar sem hluti æxlisins væri fjarlægður og síðan geislameðferð frekar en að reyna að fjarlægja allt æxlið með skurðaðgerð eins og gert hafi verið í meðferð kæranda. Í þeim greinum sem kærandi vísi til í kæru sé fjallað um hvernig bera skuli sig að við aðgerðir þegar æxli séu í sinus cavernosus (groppustokk) og vaxi þá á milli æða og tauga sem þar séu. Þá sé megnið af æxlinu tekið og restin, sem sé óaðgengileg fyrir skurðaðgerð, jafnvel geisluð eða fylgt eftir. Þetta sé gert þar sem mikil hætta sé á að augnhreyfingar truflist þegar æxli sé fjarlægt úr sinus cavernosus.

Aðstæður í máli kæranda hafi ekki verið með þessum hætti. Æxli kæranda hafi ekki verið staðsett í groppustokk heldur „medialt á sphenoidal væng og clinoidal process“ og því ekki rétt að skilja hluta af æxlinu eftir og geisla síðar. Þá hefði verið mikil hætta á endurkomu æxlisins og að endurtaka þyrfti aðgerðina og aukið enn frekar hættuna á fylgikvillum. Æxlið í höfði kæranda hafi verið svo stórt að það hafi verið aðliggjandi á stóru svæði innan höfuðkúpunnar og skýri það meðal annars orðalagið „gengið úr frá sinus cavernosus“ í aðgerðarlýsingu og hinni kærðu ákvörðun. Það að æxlið hafi ekki verið staðsett í groppustokk hafi gert það að verkum að hægt hafi verið að fjarlæga allt æxlið og er vísað til röntgenskýrslu sem sýni hvar æxlið hafi verið staðsett. Þá séu einkenni kæranda í kjölfar aðgerðar ekki tengd groppustokk. Því telji Sjúkratryggingar Íslands að rétt hafi verið að fjarlægja allt æxlið í höfði kæranda og því sé ekki til staðar bótaskylda á grundvelli 1. eða 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Með vísan til framangreinds og þeirra röksemda sem fram komi í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 28. september 2020, beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að afleiðingar meðferðar á Landspítala X séu bótaskyldar samkvæmt 1. og/eða 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. og/eða 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að meðferð hennar hafi ekki verið hagað eins vel og unnt hefði verið X þegar framkvæmd var aðgerð á Landspítala og stórt æxli í höfði hennar var fjarlægt í heild.

Í greinargerð meðferðaraðila, dags. 28. nóvember 2019, segir:

„A veiktist að kvöldi þann X. Fær þá grand mal krampakast heima hjá sér. Hún er í framhaldi af þessu flutt á bráðamóttöku Landspítala. Tölvusneiðmynd fljótlega eftir komu sýndi risastórt æxli framan til og á gagnaugasvæði hægra megin í höfði.

Varðandi sjúkrasögu tengt þessum veikindum kemur fram persónuleikabreyting og minnistruflanir undanfarin misseri annað ekki. Segulómmynd var tekin til að kortleggja æxlið betur. Eins og áður segir var æxlið gríðarstórt, á stærð við appelsínu eða um 7 cm í diameter og mjög blóðríkt. Augljóst var að þetta æxli yrði að fjarlægja enda myndi það valda enn frekari einkennum fljótlega ef ekkert yrði aðhafst og leiða, í framhaldinu, til dauða. Hún fór í æðamyndatöku af höfði sem sýndi mjög blóðríkt æxli og spurning var þá hvort mögulega væri hægt að minnka blóðflæðið í æxlið fyrir nauðsynlega aðgerð og gera hana þannig öruggari og hættuminni. A var sett á krampalyf og stera.

Eftir sterameðferð í 5 vikur til að minnka bólgur í kringum æxlið og þar með lækka innankúpuþrýsting var gerð æðarannsókn sjálfan aðgerðardaginn, gerð til þess að freista þess að komast að æxlinu og loka fyrir æðar að því til að minnka áhættu aðgerðarinnar. Það tókst ekki og það þá fullreynt og ekki um annað að ræða en að fjarlægja æxlið í opinni aðgerð.

Fyrir aðgerðina var A nokkuð brött enda fengið stera til að minnka heilabjúg. Hún var ekki með nein lömunareinkenni hvorki hægra né vinstra megin og vel vakandi. Ljóst var strax í upphafi að aðgerðin yrði langt frá því hættulaus, mjög umfangsmikil raunar og myndi taka marga klukkutíma. Um var að ræða mjög blóðríkt æxli eins og áður hefur komði fram og hætta á fylgikvillum umtalsverð og augljós.

Fram kemur í nótu lögfræðings A að staðsetning æxlis hefði verið sögð heppileg þ.e.a.s. gott væri að komast að því og fjarlægja. Þetta er að hluta til misskilningur, staðsetningin var heppileg í því tilliti að það var síður hætta á truflunum á tali og málskilningi af því að æxlið var staðsett hægra megin í höfðinu en ekki vinstra megin sem hefði gert hætturnar á taltruflunum verulegar. Hvað varðar hættu á lömunareinkenni var ljóst að þau gætu fylgt aðgerðinni. Fram kemur í innlagnarskrá deildarlæknis að sjúklingur var upplýstur um helstu áhættuþætti svo sem blæðingar, sýkingar og skaða á vef í heila við opna heilaaðgerð fyrir aðgerðina sjálfa. Öllum mátti vera ljóst að um stóra aðgerð var að ræða þó æxlið væri í eðli sínu góðkynja.

Aðgerðin fór fram þann X eftir að búið var að undirbúa sjúklng eins vel og hægt var og eins og fyrr hefur komið fram var strax um morguninn á röntgendeildinni enn einu sinni reynt að loka fyrir stórar æðar að æxlinu sjálfu til að minnka blæðingar í aðgerðinni. Það gekk hinsvegar ekki og því var aðgerð gerð í sömu svæfingu og æðamyndatakan enda ekki um annað að velja þar sem að hætta á yfirvofandi umtalsverðum skemmdum lá fyrir ef ekkert yrði að gert. Aðgerðin tók tæpar 8 klukkustundir og gekk vel. Það tókst að ná öllu æxlinu, heilavefurinn leit sjálfur á yfirborðinu vel út, allar æðar voru í góðu lagi en mjög teygðar og strekktar vegna stærðar æxlisins.

Eftir aðgerðina þegar sjúklingur er vakinn, er hún með algera lögmun í vinstri líkamshluta. Alls ekki óvænt en alltaf erfitt og von um batnandi ástand þegar frá líður.

Í framhaldinu eftir vist á gjörgæslu í sólarhring er sjúklingur fluttur á legudeild heila- og taugaskurðdeildar til áframhaldandi meðferðar og svo í framhaldi til endurhæfingar.

Hún fór á C í endurhæfingu X og þá farin að hreyfa vinstri ganglim lítillega en lítið hendi og sömuleiðis kraftleysi í vinstri andlitshelmingi. Var vel vakandi og áttuð. Vonir stóðu til að endurhæfingin gæti skilað miklum bata hvað lömunareinkennin varðar.

Vistunin á C urðu margir mánuðir og á þeim tíma styrktist A til mikilla muna. Í dag er, samkvæmt nótum C, A á fótum, hefur fengið talsvert góðan kraft í vinstri ganglim en síður í handlegg og andlit.

Ekki er líklegt að umtalsverður frekari bati verði í framtíðinni.

Samantek.

A fór í skurðaðgerð þann X vegna risastórs æxlis í heila sem greindist eftir flogakast. Fór í strangan undirbúning með sterum og endurteknum tilraunum að stoppa blóðflæðið í æxlið til að gera fyrirsjáanlega erfiða aðgerð öruggari. En þrátt fyrir tvær tilraunir tókst það ekki þannig að ekki var um annað að ræða en að gera aðgerð í þeim tilgangi að fjarlægja æxlið sem annars hefði leitt til vaxandi lömunar og enn alvarlegra einkenna á næstu vikum og mánuðum.

Aðgerðin gekk vel engar óvæntar uppákomur. Aðgerðartími tæpar 8 klukkustundir.

Eftir aðgerðina var A lömuð í vinstri líkamshluta, til að byrja með, alls ekki óvænt en fór síðan hægt batnandi og í kjölfar legunnar á heilaskurðdeild fer hún á C til endurhæfingar þar sem hún hélt áfram að lagast.

Talað er um það í kvörtun A til landlæknis að um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða en því er hafnað og ekkert sem styður þá fullyrðingu nema síður sé, um var að ræða óvenjustjórt æxli, sem olli mikilli tilfærslu og klemmu á viðkvæmum heilavef. Æxlið var mjög blóðríkt. Heppilegt var að það var hægra megin í höfði en ekki vinstra megin vegna fylgikvillahættu varðandi tal en hætta á lömunareinkennum og öðrum truflunum mikil tengt æxli af þessari stærð.

Í dag hafa myndir sýnt að æxlið er algjörlega farið sem er mikilvægt og ætti að koma í veg fyrir endurtekna aðgerð síðar sem hefði mögulega þurft ef það hefði aðeins verið tekið að hluta. Æxlið var góðkynja sem augljóslega er mjög gott. Það að tekið hafði hafi verið of mikið af æxlinu eins og látið er liggja að í kvörtuninni til landlæknis og það orsakað hina miklu lömun er ekki rétt. Alltaf er lögð áhersla á að fjarlægja æxlin í heild ef þess er nokkur kostur til að minnka líkur á endurkomu og endurtekinni aðgerð. Það er sömuleiðis ekki rétt að A hafi ekki fengið neinar upplýsingar um mögulegar afleiðingar tengt þessarri stóru aðgerð og allan tímann meðan á legunni stóð hér á spítalanum, var […] hennar vel upplýstur og hann látinn vita reglulega um líðan A og fékk þær útskýringar sem beðið var um varðandi einkenni hennar og mögulegar horfur.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Kærandi greindist með stórt góðkynja æxli á gagnaugasvæði (fronto temporalt) hægra megin sem var gengið út frá groppustokk í X. Mikil æðateikning var í æxlinu sem var 7 cm í þvermál. Hún fékk flog X og hafði sýnt merki um persónuleikabreytingar og minnistruflanir fyrir krampakastið. Reynt var að meðhöndla æxlið með íhaldssömum hætti sem gekk ekki. Hún fór því í aðgerð X þar sem æxlið var fjarlægt. Ljóst er að áhættan við slíka aðgerð er mikil og hætta á fylgikvillum rík. Hættan af því að gera aðgerðina ekki er einnig mikil og stærri. Kærandi fékk í kjölfarið vinstri helftarlömun með þvoglumælgi. Ljóst er að það er þekktur fylgikvilli og því miður allnokkrar líkur á að slíkt mundi gerast. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki ráðið að eitthvað hafi farið úrskeiðis í aðgerðinni og að meðferð hafi verið hagað eins vel og unnt var í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Verður því ekki fallist á að tjón kæranda sé bótaskylt á grundvelli 1. eða 4. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kærandi byggir einnig á að bótaskylda sé fyrir hendi á grundvelli 3. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum segir að það eigi við sé unnt að slá því föstu á grundvelli upplýsinga sem liggi fyrir um málsatvik þegar bótamálið sé til afgreiðslu að líklega hefði mátt afstýra tjóni hefði verið beitt annarri jafngildri aðferð eða tækni. Í kæru er því haldið fram að sökum mikillar hættu á fylgikvillum, þar á meðal lömunareinkennum, hafi sú nálgun að fjarlægja æxli í groppustokk í skurðaðgerð verið endurskoðuð og nú sé frekar notast við blöndu af skurðaðgerðum þar sem hluti æxlisins sé fjarlægður til að létta á þrýstingi á taugar og geislameðferð. Árangur af þess háttar meðferð sé mun betri en þegar þess sé freistað að fjarlægja æxlið í heild sinni. Miðað við framlögð gögn virðist æxlið ekki hafa verið bundið við groppustokk og því lítið annað að gera en að fjarlægja það heildstætt líkt og gert var í tilviki kæranda. Vegna staðsetningar æxlisins í höfði kæranda er ljóst að umfjöllun í þeim greinum sem lögmaður kærandi lagði fram með kæru, um meðferð sjúklinga sem greinast með æxli í groppustokki, á ekki við í tilviki kæranda. Ekki verður því talið að bótaskylda sé fyrir hendi á grundvelli 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 28. september 2020, um synjun á umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira