Hoppa yfir valmynd

Úrskurður heilbrigðisráðuneytisins nr. 015/2020 - Beiðni um undanþágu frá takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar - (Klassíski listdansskólinn ehf.)

I. Beiðni um undanþágu.

Með tölvupósti, dags. 17. mars 2020, barst heilbrigðisráðuneytinu beiðni frá Klassíska listdansskólanum um undanþágu frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.

Í beiðninni kemur fram að listdans sé líkamleg grein og sé að mjög takmörkuðu leyti hægt að kenna í fjarkennslu. Skólinn vilji geta boðið upp á skerta þjónustu líkt og leik- og grunnskólar gera með mjög litlum hópum að því gefnu að tveggja metra reglunni sé fylgt samhliða aðgát vegna nándar og hreinlætis. Skólinn sé einnig með framhaldsbraut þar sem nemendur sem séu 16 ára og eldri stunda verklegan hluta náms á listdansbraut til stúdentsprófs og er óskað eftir undanþágu þar sem kennt yrði í litlum hópum.

II. Umsagnir.

Heilbrigðisráðuneytið óskaði eftir umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins um undanþágubeiðnina. Í umsögninni segir meðal annars eftirfarandi:

„Auglýsing um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar nr. 216/2020, er mjög skýr en fram kemur í 3. gr. hennar um leikskóla að leikskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi leikskólastarfi að þeim skilyrðum uppfylltum að börn séu í sem minnstum hópum og aðskilin eins og kostur er. Í 4. gr. auglýsingarinnar er fjallað um grunnskóla en þar kemur fram að grunnskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum að þeim skilyrðum uppfylltum að ekki séu fleiri en 20 nemendur í kennslu í sömu stofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, s.s. í mötuneyti eða frímínútum. Á báðum skólastigum er gert ráð fyrir að gerðar verði ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.

Samkvæmt beiðni skólans þá er óskað eftir að halda uppi skerta þjónustu með þeim hætti að hafa litla hópa þar sem tveggja metra reglunni er fylgt og mikilli aðgát gætt í nánd og hreinlæti.

Eins og fram kemur í leiðbeinandi viðmiðum heilbrigðisráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins um íþrótta- og æskulýðsstarf í ljósi takmörkunar á skólastarfi og samkomum þá fer kennsla í leik- og grunnskólum nú fram í litlum hópum og leitast er við að ekki verði blöndum milli þessara hópa til að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins. Samkvæmt auglýsingu um takmörkun á skólastarfi gilda sömu reglur um íþrótta- og æskulýðsstarf barna en ljóst er að ekki er unnt að halda þar sömu hópaskiptingu og í skólum og því óhjákvæmilegt að nemendur munu blandast í íþrótta- og æskulýðsstarfsemi sem stefnt gæti markmiðum sóttvarnarráðstafananna í tvísýnu.

Sökum þess og með vísan til jafnræðis, þess fordæmis sem ákvörðunin mögulega felur í sér og að aðrar lausnir eru hugsanlegar leggur mennta- og menningarmálaráðuneytið til að beiðninni verði hafnað. Ráðuneytið gerir umsögn þessa á þeim forsendum sem snýr að menntamálum í landinu en ef umsögn sóttvarnarlæknis er önnur mun ráðuneytið ekki leggjast gegn niðurstöðu hans.

Samkvæmt beiðni skólans er einnig óskað eftir undanþágu fyrir framhaldsbraut skólans þar sem nemendur eru 16 ára og eldri. 

Auglýsing um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar nr. 216/2020, er mjög skýr en fram kemur í 5. gr. hennar að framhalds- og háskólum skal lokað. Fjarkennslu skal sinnt eftir því sem unnt er og samkvæmt nánari ákvörðun menntamálayfirvalda.

Samkvæmt auglýsingu um takmörkun á skólastarfi gildir um íþrótta- og æskulýðsstarf ungmenna á framhaldsskólaaldri almennt sama regla og um framhaldsskóla, þ.e. að það fer ekki fram nema með fjarkennslu ef unnt er. Um skipulagt íþróttastarf fullorðinna gildir auglýsing um takmörkun á samkomum þannig að heimilt hefur verið að halda því áfram að því marki að ekki séu fleiri en 20 þar samankomnir og að almennt sé unnt að hafa um 2 metra á milli einstaklinga. Ljóst er þó að ekki er unnt að halda þeirri fjarlægð á milli einstaklinga í fjölda íþróttagreina.

Sökum þess og með vísan til jafnræðis, þess fordæmis sem ákvörðunin mögulega felur í sér og að aðrar lausnir eru hugsanlegar leggur mennta- og menningarmálaráðuneytið til að beiðninni verði hafnað. Ráðuneytið gerir umsögn þessa á þeim forsendum sem snýr að menntamálum í landinu en ef umsögn sóttvarnarlæknis er önnur mun ráðuneytið ekki leggjast gegn niðurstöðu hans.“

III. Niðurstaða.

Í 3. gr. auglýsingar nr. 216/2010 segir að leikskólum sé heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi leikskólastarfi með þeim skilyrðum að börn séu í sem minnstum hópum og aðskilin eins og kostur er. Samkvæmt 4. gr. auglýsingarinnar er grunnskólum heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum að þeim skilyrðum uppfylltum að ekki séu fleiri en 20 nemendur í kennslu í sömu stofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, svo sem í mötuneyti eða frímínútum. Jafnframt skulu gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.

Í 5. gr. auglýsingarinnar segir að framhalds- og háskólum skuli lokað og fjarkennslu skuli sinnt eftir því sem unnt er og samkvæmt nánari ákvörðun menntamálayfirvalda. Samkvæmt 6. gr. getur heilbrigðisráðherra veitt undanþágu frá takmörkun skólastarfs ef ekki er talin hætta á að slíkt fari gegn markmiðum opinberra sóttvarnaráðstafana. 

Við mat á því hvort heimila eigi undanþágu samkvæmt ákvæðinu þarf því meðal annars að líta til þess hvort undanþágan sem slík stefndi í hættu ráðstöfunum til að varna útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins en jafnframt hvort undanþágan yrði fordæmi sem ekki væri unnt að fylgja eftir vegna þess að samþykkt allra sambærilegra tilvika myndi grafa undan framangreindum ráðstöfunum. 

Að mati ráðuneytisins kemur einkum til greina að veita undanþágur þegar um mjög sérstakar aðstæður er að ræða og að takmörkun á skólahaldi kæmi sérstaklega þungt niður á viðkomandi nemendum, kennurum eða aðstandendum, svo sem í tilvikum þeirra sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. 

Heilbrigðisráðuneytið hefur farið yfir umsóknina og umsagnir umsagnaraðila. Ráðuneytið telur óhjákvæmilegt að líta til nýrrar auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, þar sem fram kemur að starfsemi og þjónusta sem krefst eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar er óheimil á gildistíma auglýsingar þessarar, svo sem allt íþróttastarf, og það eigi einnig við um íþróttastarf þar sem notkun sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér. Sömu sjónarmið komu fram í leiðbeinandi viðmiðum heilbrigðisráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins um íþrótta- og æskulýðsstarf í ljósi takmörkunar á skólastarfi og samkomum, sem birt var á vef Stjórnarráðs Íslands 20. mars sl. Að því er varðar börn á leik- og grunnskólaaldri tekur ráðuneytið undir þær röksemdir sem koma fram í umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins og telur að ekki sé unnt að halda sömu hópaskiptingu í íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og hægt er í leik- og grunnskólum, þar sem kennsla er heimil ef hún fer fram í sem minnstum hópum og með aðskilnaði barna og viðeigandi þrifum eða sótthreinsun bygginga. Ákveðin blöndun sé óhjákvæmileg í íþrótta- og æskulýðsstarfi sem geti stefnt í hættu markmiðum sóttvarnaráðstafana sem snúa að takmörkunum á skólastarfi.

Undanþágubeiðnin er einkum byggð á sjónarmiði sem eigi við um flest allt verknám, þar sem ekki sé hægt að sinna því nema að takmörkuðu leyti í fjarkennslu. Þrátt fyrir að ráðuneytið geti fallist á að takmörkun skólahalds í framhaldsskólum komi almennt þyngra niður á verknámi en bóknámi telur ráðuneytið ekki unnt að veita undanþágu á þeim grundvelli eingöngu, enda kynni það að leiða til þess að veita þyrfti fjölda nemenda sambærilega undanþágu í verknámsskólum um allt land. Það er því mat ráðuneytisins að það samræmist ekki markmiðum þeirra opinberu sóttvarnaráðstafana sem gripið hefur verið til að veita umbeðna undanþágu. Undanþágubeiðninni er því hafnað.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Klassíska listdansskólans um undanþágu frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira