Hoppa yfir valmynd

1062/2022. Úrskurður frá 24. febrúar 2022

Úrskurður

Hinn 24. febrúar 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1062/2022 í máli ÚNU 21050001.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 30. apríl 2021, kærði A f.h. Frigus II ehf., afgreiðslu Lindarhvols ehf. á beiðni um aðgang að gögnum. 

Með erindi, dags. 5. mars 2021, óskaði kærandi eftir öllum fundargerðum Lindarhvols þar sem málefni Klakka ehf. voru til umræðu eða nafn Klakka kom fyrir. Ekki var óskað eftir fundargerðum af fundum nr. 10 og 11, frá 18. og 20. október 2016, þar sem þær hefðu þegar verið afhentar kæranda á því formi að strikuð var út umfjöllun um önnur mál en málefni Klakka. Var þess óskað að þær fundargerðir sem eftir stæðu yrðu afhentar á sama formi.

Lindarhvoll hafði áður afhent kæranda útdrætti úr sex fundargerðum, þ.e. af fundum nr. 2 (4. maí 2016) og 5–9 (8. og 30. júní 2016, 4. og 31. ágúst 2016 og 5. október 2016). Útdrættirnir samanstóðu af umfjöllun um Klakka úr viðeigandi fundargerðum, en strikaðar höfðu verið út upplýsingar um annan aðila á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, sem finna mátti í sömu umfjöllun.

Þá fylgdu erindi kæranda til Lindarhvols fundargerðir af fundum nr. 12 og 13, frá 4. og 9. nóvember 2016, með útstrikunum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og 2. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem kærandi hafði fengið aðgang að hjá þriðja aðila. Þrátt fyrir það næði gagnabeiðni kæranda einnig til þessara fundargerða að svo miklu leyti sem þar væri fjallað um Klakka.

Loks var þess krafist í erindinu að við afhendingu fundargerða af fundum nr. 6 og 7, frá 30. júní og 4. ágúst 2016, yrðu ekki strikaðar út upplýsingar um þann aðila sem ljúka ætti samkomulagi við áður en hlutur í Klakka yrði settur í sölumeðferð. Ástæða þess væri sú að kærandi hefði þegar fengið upplýsingar um að aðilinn væri Glitnir HoldCo ehf. í greinargerð Lindarhvols og íslenska ríkisins í skaðabótamáli sem kærandi hefði höfðað.

Í svari Lindarhvols, dags. 15. apríl 2021, kemur fram að félagið líti svo á að allar þær upplýsingar sem óskað var eftir í erindi kæranda hafi nú þegar verið veittar, með afhendingu útdrátta úr fundargerðum af fundum nr. 2 og 5–9 til kæranda. Útstrikanir í útdráttunum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga hafi verið staðfestar í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 978/2021. Þá hafi Lindarhvoll upplýst um efni hluta af útstrikununum, umfram lagaskyldu.

Svari Lindarhvols fylgdu fundargerðir af fundum nr. 2 og 5–9, sem kærandi hafði áður fengið aðgang að í formi útdrátta. Um væri að ræða sömu útgáfur fundargerðanna og fjármála- og efnahagsráðuneytið afhenti fréttamanni haustið 2020 samkvæmt beiðni. Í fundargerðunum voru afmáðar upplýsingar á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og 2. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Afgreiðsla ráðuneytisins hefði verið staðfest með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 976/2021.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar er ítrekað að óskað hafi verið eftir öllum fundargerðum Lindarhvols þar sem málefni Klakka voru til umræðu, ekki aðeins þeim sem vörðuðu söluferlið á félaginu. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol hafi leitt í ljós að fundir þar sem málefni Klakka voru rædd hafi verið sex talsins. Síðar hafi komið í ljós að þeir hafi verið a.m.k. tíu. Kærandi mótmælir því að leggja megi að jöfnu rétt sinn til aðgangs að upplýsingum um söluferli Klakka og rétt fréttamannsins sem fékk fundargerðir Lindarhvols afhentar; kærandi eigi ríkari rétt til aðgangs að þeim upplýsingum sem þátttakandi í söluferlinu.

Samkvæmt kærunni lýtur hún að þremur atriðum:

  1. Að Lindarhvoll skuli afhenda fundargerðir funda nr. 6 og 7, frá 30. júní og 4. ágúst 2016, á því formi að ekki séu afmáðar upplýsingar sem varða frestun á söluferli Klakka, þar á meðal upplýsingar um þann aðila sem ljúka ætti samkomulagi við áður en hlutur í Klakka yrði settur í sölumeðferð.
  2. Að Lindarhvoll skuli afhenda fundargerðir funda nr. 12 og 13, frá 4. og 9. nóvember 2016, og að ekki verði afmáðar upplýsingar sem varða Klakka.
  3. Að úrskurðarnefndin yfirfari allar fundargerðir Lindarhvols með hliðsjón af tilvísunum til Klakka, sér í lagi þær sem afhentar voru kæranda, og meti sjálfstætt hvaða upplýsingar sé rétt að afmá. Kærandi eigi rétt til aðgangs að öllu sem viðkemur söluferlinu á Klakka, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 727/2018, auk annarra gagna sem varði Klakka.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Lindarhvoli með erindi, dags. 3. maí 2021, og félaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Lindarhvols, dags. 25. maí 2021, kemur fram að kæranda hafi verið afhent öll þau gögn sem hann eigi rétt til aðgangs að og falli undir gagnabeiðni hans. Í fyrsta lagi hafi Lindarhvoll afhent öll gögn vegna söluferlis á nauðasamningskröfum Klakka í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 727/2018. Þá hafi kærandi fengið afhenta útdrætti úr sex fundargerðum, frá tímabilinu 4. maí til 5. október 2016, þar sem málefni Klakka hafi verið til almennrar umræðu. Þær upplýsingar hafi ekki varðað söluferlið sem slíkt, heldur málefni Klakka almennt. Með birtingu auglýsingar hinn 29. september 2016 hafi söluferlið fyrst hafist, en ekki með almennri umfjöllun stjórnar um málefni Klakka eða almennri umfjöllun um það hvenær hentugast gæti verið að setja nauðasamningskröfurnar í opið söluferli, sem á hverjum tíma gæti breyst. 

Með því að veita kæranda aðgang að útdráttum úr fundargerðum (öðrum en fundargerðum funda frá 18. og 20. október 2016, sem kærandi hefði þegar fengið afhentar) þar sem málefni Klakka voru almennt til umræðu hafi Lindarhvoll litið svo á að gagnabeiðni kæranda væri fullnægt. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 978/2021 hafi nefndin staðfest ákvörðun Lindarhvols að strika út umfjöllun í útdráttunum um annan aðila en Klakka á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Lindarhvoll telur að í samræmi við þann úrskurð nefndarinnar sé félaginu óheimilt að afhenda upplýsingarnar. Kæranda voru hins vegar afhentar fundargerðir af þessum fundum, með sama hætti og fjármála- og efnahagsráðuneytið afhenti fréttamanni sömu fundargerðir, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 976/2021, þ.e. með útstrikunum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og 2. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Hvað varði aðgang að fundargerðum funda nr. 12 og 13, frá 4. og 9. nóvember 2016, telur Lindarhvoll slíka beiðni kæranda vera óþarfa, enda hafi kærandi fundargerðirnar undir höndum með nákvæmlega þeim hætti sem úrskurðarnefndin staðfesti í úrskurði sínum nr. 976/2021 og vísaði til í úrskurði nr. 978/2021. Tilvísun kæranda til úrskurðar nr. 727/2018 geti ekki gefið kæranda ríkari rétt að þessu leyti. Loks er bent á að kærandi hafi höfðað skaðabótamál á hendur Lindarhvoli og íslenska ríkinu.

Umsögn Lindarhvols var kynnt kæranda með erindi, dags. 25. maí 2021, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust með erindi, dags. 3. júní 2021. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

1.

Gagnabeiðni kæranda í máli þessu hljóðar þannig að óskað sé aðgangs að öllum fundargerðum Lindarhvols, utan fundargerða funda nr. 10 og 11 frá 18. og 20. október 2016, þar sem málefni Klakka ehf. eru rædd eða nafn Klakka kemur fyrir. Óskað er eftir því að þær séu afhentar ekki í formi endurritaðra útdrátta heldur í formi fundargerðanna sjálfra, með útstrikunum annarra mála en málefna Klakka. Í ljósi þessarar afmörkunar á beiðni kæranda lýtur úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál einvörðungu að útstrikunum á upplýsingum í fundargerðunum er varða málefni Klakka.

Þau gögn og upplýsingar sem kærandi hefur þegar fengið aðgang að og tengjast gagnabeiðni hans eru eftirfarandi:

1. Fundargerðir funda nr. 2 (4. maí 2016) og 5–9 (8. og 30. júní 2016, 4. og 31. ágúst 2016 og 5. október 2016). 
    a. Afhentar af Lindarhvoli í sama formi og fjármála- og efnahagsráðuneytið afhenti fréttamanni í tengslum við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 976/2021, þ.e. með útstrikunum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og 2. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
2. Útdrættir úr fundargerðum funda nr. 2 og 5–9. 
    a. Afhentir af Lindarhvoli og innihalda upplýsingar um málefni Klakka almennt, ekki um söluferlið. Upplýsingarnar voru strikaðar út í fundargerðunum sjálfum, sem kæranda voru afhentar, sbr. lið 1.
3. Fundargerðir funda nr. 10 og 11 frá 18. og 20. október 2016.
    a. Afhentar af Lindarhvoli í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 727/2018, á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga, þar sem þær innihalda upplýsingar um söluferli Klakka. 
4. Fundargerðir funda nr. 12 og 13 frá 4. og 9. nóvember 2016.
    a. Afhentar frá þriðja aðila. Um er að ræða sömu útgáfur fundargerðanna og fjármála- og efnahagsráðuneytið afhenti fréttamanni í tengslum við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 976/2021, þ.e. með útstrikunum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og 2. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

2.

Úrskurðarnefndin hefur farið yfir fundargerðir af fundum nr. 2 og 5–9, sem afhentar voru nefndinni í heild sinni, með hliðsjón af tilvísunum til Klakka ehf. Í ljósi efnis gagnanna telur nefndin ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við það mat Lindarhvols að upplýsingarnar varði málefni Klakka almennt en ekki hið opna söluferli félagsins sem slíkt. Um aðgang kæranda að þessum upplýsingum fer því samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga en ekki 14. gr. laganna um upplýsingarétt aðila sjálfs.

Nefndin bar fundargerðirnar saman við útdrætti fundargerðanna sem kærandi fékk afhenta, til að staðreyna hvort finna mætti frekari umfjöllun um Klakka í fundargerðunum en þá sem afhent var kæranda í formi útdrátta. Niðurstaðan er að í fundargerðunum séu ekki frekari vísanir til Klakka en þær sem kærandi hefur þegar fengið aðgang að, að undanskilinni einni vísun til Klakka í fundargerð fundar nr. 6 frá 30. júní 2016, undir lið 3 sem ber heitið Framsal eigna á grundvelli stöðugleikasamninga. Þar er Klakki nefndur í samhengi við tvo aðra lögaðila. Það er mat nefndarinnar að í umfjölluninni sé að finna ýmsar upplýsingar um fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þessara lögaðila, sem eftir atvikum falla undir 2. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki eða 9. gr. upplýsingalaga, og Lindarhvoli sé þannig óheimilt að veita aðgang að umfjölluninni. Vísast um þetta jafnframt til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 976/2021, þar sem komist var að sömu niðurstöðu.

Kærandi fer fram á fá afhentar fundargerðir af fundum nr. 6 og 7, frá 30. júní og 4. ágúst 2016, í því formi að ekki séu strikaðar út upplýsingar um þann aðila sem ljúka ætti samkomulagi við áður en hlutur í Klakka yrði settur í sölumeðferð. Kærandi telur ekki forsendur fyrir því að þeim upplýsingum sé haldið leyndum þar sem kærandi hafi þegar fengið þessar upplýsingar í skaðabótamáli gegn Lindarhvoli og íslenska ríkinu.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 978/2021 staðfesti nefndin þá ákvörðun Lindarhvols að strika þessar upplýsingar út á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Það er mat nefndarinnar að um aðgang kæranda að upplýsingum um viðkomandi lögaðila fari samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings, en ekki 14. gr. upplýsingalaga, þar sem ljóst er að upplýsingarnar tengjast ekki söluferlinu á Klakka með þeim hætti að síðarnefnda lagagreinin eigi við.

Af gögnum málsins verður ráðið að Lindarhvoll hafi lagt umræddar upplýsingar fram í dómsmáli og með því brugðist við áskorun kæranda þar að lútandi. Í ljósi þess að Lindarhvoll hefur þannig lagt fram upplýsingarnar af eigin rammleik án þess að bera fyrir sig ákvæði um þagnarskyldu á borð við 9. gr. upplýsingalaga, verður ekki séð að Lindarhvoll geti borið fyrir sig þá takmörkun á upplýsingarétti í máli þessu. Með vísan til þess fellst nefndin ekki á að Lindarhvoli sé heimilt að strika yfir umræddar upplýsingar, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að Lindarhvoli sé óheimilt að afhenda fundargerðir funda nr. 2 og 5–9 með öðrum hætti en gert var, sbr. einnig úrskurð nefndarinnar nr. 976/2021, að undanskildum upplýsingum um þann aðila sem ljúka ætti samkomulagi við áður en hlutur í Klakka yrði settur í sölumeðferð. Hið sama á við um útdrætti úr viðkomandi fundargerðum, sbr. einnig úrskurð nefndarinnar nr. 978/2021. Verður því ákvörðun Lindarhvols staðfest að þessu leyti.

3.

Kærandi óskar í annan stað eftir því að sér verði afhentar fundargerðir funda nr. 12 og 13, frá 4. og 9. nóvember 2016, og að ekki verði afmáðar upplýsingar um Klakka, enda eigi kærandi skýlausan aðgang að upplýsingunum á grundvelli úrskurðar nr. 727/2018.

Svo sem að framan greinir liggur fyrir að kærandi hefur fundargerðir þessara tveggja funda undir höndum, með útstrikunum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og 2. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Úrskurðarnefndin hefur borið saman fundargerðirnar sem kærandi hefur undir höndum og þær sem fjármála- og efnahagsráðuneytið afhenti fréttamanni í tengslum við úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 976/2021. Ljóst er að um sömu útgáfur fundargerðanna er að ræða.

Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið fundargerðir þessara tveggja funda án útstrikana með hliðsjón af því hvort í þeim sé að finna umfjöllun um Klakka. Í fundargerð af fundi nr. 12 frá 4. nóvember 2016 er fjallað um Klakka undir lið 5, sem ber heitið Söluferli eigna, í tengslum við tiltekið félag sem gengið var til samninga við í kjölfar söluferlis Klakka.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að um aðgang kæranda að þessum upplýsingum fari samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Það er enda ljóst að aðgangsréttur á grundvelli 14. gr. laganna í tengslum við opinber söluferli nær aðeins til útboðsgagna, þar á meðal gagna frá öðrum þátttakendum í útboði, sem verða til áður en til samninga er gengið við tiltekinn bjóðanda. Eftir það tímamark, líkt og hér á við, fer um upplýsingarétt samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga.

Líkt og staðfest var í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 976/2021 telur nefndin að upplýsingarnar varði mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni umrædds félags og að Lindarhvoli hefði verið óheimilt að veita aðgang að þeim, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Var afhending Lindarhvols á þessari fundargerð því í samræmi við ákvæði upplýsingalaga.

Í fundargerð fundar nr. 13 frá 9. nóvember 2016 er fjallað um Klakka undir lið 6, sem ber heitið Opið söluferli Glitnir Holdco ehf., Klakki ehf. og Gamli Byr Eignarhaldsfélag ehf. Þar er fjallað um fyrirhugaða birtingu tilkynningar á vef Lindarhvols um niðurstöðu söluferlisins. Úrskurðarnefndin telur að um aðgang kæranda að þessari umfjöllun fari samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt aðila sjálfs, enda varðar hún með beinum hætti söluferlið sem kærandi var þátttakandi í. Þá telur úrskurðarnefndin að takmarkanir samkvæmt 2. og 3. mgr. 14. gr. laganna eigi ekki við um upplýsingarnar. Er því Lindarhvoli skylt að afhenda kæranda þessa umfjöllun, svo sem greinir í úrskurðarorði. Ekki er að finna frekari umfjöllun um Klakka ehf. í framangreindum tveimur fundargerðum.

4.

Nafn Klakka ehf. kemur fyrir í þremur fundargerðum Lindarhvols til viðbótar. Um er að ræða fundi nr. 15 og 16 (1. og 14. desember 2016) og nr. 18 (1. febrúar 2017). Í málinu liggur ekki fyrir að Lindarhvoll hafi tekið afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að þessum fundargerðum. Hins vegar liggur fyrir að í tengslum við úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 976/2021 fékk fréttamaður afhentar þessar fundargerðir, með útstrikunum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og 2. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, þar á meðal varðandi Klakka. Þá er ljós sú afstaða Lindarhvols að um aðgang kæranda að gögnum í málinu, að undanskildum þeim sem þegar hafa verið afhent á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga, skuli fara samkvæmt 5. gr. laganna um upplýsingarétt almennings. Í ljósi þess telur úrskurðarnefndin að fyrir liggi afstaða Lindarhvols til afhendingar þessara fundargerða sem nefndinni sé fært að endurskoða.

Í fundargerðum funda nr. 15 og 16 er fjallað um Klakka undir liðnum Önnur mál. Tilefni umfjöllunarinnar á báðum stöðum er bréf frá kæranda frá 24. nóvember 2016 vegna Klakka. Úrskurðarnefndin telur augljóst að um aðgang kæranda að þessum upplýsingum fari samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga og að takmarkanir samkvæmt 2. og 3. mgr. greinarinnar eigi ekki við. Lindarhvoli ber því að veita kæranda aðgang að þessum upplýsingum, svo sem greinir í úrskurðarorði.

Í fundargerð fundar nr. 18 er fjallað um Klakka undir lið 8 sem ber heitið Önnur mál. Umfjöllunin varðar tiltekið félag sem gengið var til samninga við í kjölfar söluferlis Klakka. Líkt og staðfest var í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 976/2021 telur nefndin að upplýsingarnar varði mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni félagsins og að Lindarhvoli sé óheimilt að veita aðgang að þeim, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.

 

Úrskurðarorð

Lindarhvoll ehf. skal veita A, f.h. Frigus II ehf., aðgang að eftirfarandi gögnum:
  1. Fundargerðir funda Lindarhvols nr. 6 og 7, frá 30. júní og 4. ágúst 2016, þannig að sýnilegar séu upplýsingar um þann aðila sem ljúka ætti samkomulagi við áður en hlutur í Klakka yrði settur í sölumeðferð.
  2. Fundargerð fundar Lindarhvols nr. 13 frá 9. nóvember 2016, þannig að sýnileg sé umfjöllun undir lið 6 (Opið söluferli Glitnir Holdco ehf., Klakki ehf. og Gamli Byr Eignarhaldsfélag ehf.).
  3. Fundargerð fundar Lindarhvols nr. 15 frá 1. desember 2016, þannig að sýnileg sé umfjöllun undir lið 8 (Önnur mál) með fyrirsögnina Bréf vegna Klakka ehf.
  4. Fundargerð fundar Lindarhvols nr. 16 frá 14. desember 2016, þannig að sýnileg sé umfjöllun undir lið 4 (Önnur mál) með fyrirsögnina Bréf vegna Klakka ehf.
Ákvörðun Lindarhvols, dags. 15. apríl 2021, er að öðru leyti staðfest.
 
 
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
 
Kjartan Bjarni Björgvinsson 
 
Sigríður Árnadóttir
 
 

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira