Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 125/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 125/2024

Fimmtudaginn 23. maí 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. mars 2024, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2024, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 9. júní 2021 og var umsóknin samþykkt 14. júlí 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2024, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar hefðu verið stöðvaðar á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hún hefði hafnað starfi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. mars 2024. Með bréfi, dags. 13. mars 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 11. apríl 2024 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. apríl 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærandi hafi fengið tilkynningu frá Vinnumálastofnun þann 21. nóvember 2023 þess efnis að hún ætti að mæta í atvinnuviðtal hjá C daginn eftir, eða þann 22. nóvember 2023. Í framhaldi af því hafi kærandi mætt í prufu á vinnustaðinn þann 27. nóvember 2023.

Kæranda hafi ekki litist á aðstæður hjá C og hafi ekki getað hugsað sér að starfa þar. Kærandi hafi sent Vinnumálastofnun útskýringar á þeirri ákvörðun sinni. Henni hafi liðið illa á vinnustaðnum, hafi fundist tilvonandi samstarfsfólk dónalegt og koma illa fram við hana. Þá hafi heilbrigðishættir verið ófullnægjandi hvað varði þrif og aðstæður á vinnustað. Eins sé það ósk kæranda að fá að vinna í umhverfi þar sem hún eigi möguleika á því að læra íslensku en hjá C vinni einungis útlendingar sem tali enga íslensku. Kærandi kjósi að tengjast íslensku samfélagi betur í gegnum tungumálið sem henni hafi ekki fundist möguleiki á hjá C, ef hún myndi hefja störf þar.

Þann 5. janúar 2024 hafi Vinnumálastofnun tekið ákvörðun um að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sem hún geti ekki unað. Kærandi hafi verið í góðri trú að neita starfi sem hafi að engu leyti fallið að hennar aðstæðum og farið þvert á hennar sannfæringu. Kærandi hafi ekki haft vitneskju um að með því að neita starfi vegna framangreindra ástæðna ætti hún í hættu á því að bótaréttur hennar yrði stöðvaður. Í því samhengi vísi kærandi til leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kveðið sé á um að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leiti nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerti starfssvið þess. Kærandi hafi hvorki fengið aðstoð né leiðbeiningar frá Vinnumálastofnun þess efnis að bótaréttur hennar væri í hættu á að verða stöðvaður ef hún myndi ekki taka við starfinu hjá C. Ef kæranda hefði verið gert ljóst að svo yrði hefði hún ekki neitað framangreindu starfi og því verði að telja að meðferð stofnunarinnar sé ekki fullnægjandi með vísan til ákvæðis 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Af þeim sökum geri kærandi þá kröfu að felld verði úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2024, og að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar hefjist að nýju.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 9. júní 2021. Með erindi, dags. 14. júlí 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Í desember 2023 hafi Vinnumálastofnun borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi hjá C. Um hafi verið að ræða starf í bakaríi en kæranda hafi verið miðlað í umrætt starf af Vinnumálastofnun. Í skýringum atvinnurekanda hafi komið fram að kærandi hefði tjáð honum að vinnan hentaði henni ekki.

Með erindi, dags. 13. desember 2023, hafi Vinnumálastofnun óskað skýringa á ástæðum þess að kærandi hefði hafnað starfi hjá C. Stofnuninni hafi borist skýringar kæranda sama dag, þann 16. desember 2023. Kærandi hafi sagt að hún hefði hafnað umræddu starfi vera að hún hefði upplifað óþægindi á staðnum og að starfsfólk þar væri óvingjarnlegt og dónalegt. Þá hafi kærandi talið að hreinlæti væri ábótavant á vinnustaðnum og að þar sem einvörðungu störfuðu þar útlendingar ætti hún litla möguleika á því að þróa íslenskukunnáttu sína og aðlagast samfélaginu.

Í kjölfarið hafi kæranda með erindi, dags. 5. janúar 2024, verið tilkynnt að frekari greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar væri stöðvaðar sökum þess að hún hefði hafnað starfi hjá C. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 5. mgr. sömu greinar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem séu tryggðir og hafi misst fyrri starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í tímabundnu atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara, óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.

Fyrir liggi að kærandi hafi hafnað starfi hjá C. Henni hafi í kjölfarið verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði 1. mgr. 57. gr. sé svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Í athugasemdum með 57. gr. í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé tekið fram að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem bjóðist. Ástæðan sé einkum sú að atvinnuviðtal sé venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og þykja megi leggja þá ákvörðun að jöfnu við því að hafna starfi.

Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. skuli Vinnumálastofnun meta við ákvörðun um viðurlög samkvæmt 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna atvinnuviðtali hafi verið réttlætanleg en í 4. mgr. segi orðrétt:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitanda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Gert sé ráð fyrir því að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs hins tryggða, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna. Enn fremur sé Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Þá komi fram í 5. mgr. 57. gr. að ef einstaklingar hafi þegið greiðslur í lengri tíma en 24 mánuði við ákvörðun um beitingu 1. mgr. greinarinnar falli réttur til frekari greiðslna niður þar til skilyrði 31. gr. sömu laga séu uppfyllt.

Þær skýringar sem kærandi hafi veitt fyrir ástæðu höfnunar á umræddu starfi lúti einkum að því að hún hefði upplifað óþægindi á staðnum og að starfsfólk þarf væri óvingjarnlegt og dónalegt. Þá hafi kærandi talið að hreinlæti væri ábótavant á vinnustaðnum og að þar sem einvörðungu störfuðu þar útlendingar ætti hún litla möguleika á því að þróa íslenskukunnáttu sína og aðlagast samfélaginu.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að framangreindar skýringar kæranda geti ekki talist gildar í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Eins og fyrr segi hvíli rík skylda á atvinnuleitendum að taka því starfi sem þeim bjóðist, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Þá felist meðal annars í virkri atvinnuleit samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara og óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi hafnað starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ekki haft þar að baki gildar ástæður, sbr. 4. mgr. 57. gr. sömu laga. Henni beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laganna.

Hvað varði leiðbeiningarskyldu stofnunarinnar samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga, sem fullyrt sé að hafi ekki verið uppfyllt í málskoti til nefndarinnar, sé bent á að umsækjendum um atvinnuleysistryggingar sé í upphafi umsóknarferlis veittar upplýsingar um réttindi og skyldur þeirra á meðan á nýtingu réttinda þeirra vari. Í tölvupósti sem umsækjendum sé sendur sé einnig bent á ítarefni og heimasíðu stofnunarinnar sem fjalli nánar um helstu atvik sem atvinnuleitandi þurfi að hafa í huga. Kærandi hafi í umsóknarferli sínu fengið leiðbeiningar um réttindi hennar og skyldur og henni hafi jafnframt verið bent á möguleikana á að afla sér frekari upplýsinga um stöðu sína vegna allra vafamála. Ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur umsækjenda séu á heimasíðunni og þegar sótt sé um atvinnuleysistryggingar staðfesti umsækjendur að þeir hafi kynnt sér þær reglur. Þegar Vinnumálastofnun hafi þann 13. desember 2023 óskað eftir skýringum kæranda á því hvers vegna hún hefði hafnað starfstilboði hjá atvinnurekanda hafi einnig verið vakin athygli á því að höfnun á atvinnutilboði án gildra ástæðna kunni að leiða til biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta. Í erindi til kæranda sé einnig tekið fram að ef atvinnuleitandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur þegar atvik hafi átt sér stað þyrfti atvinnuleitandi að ávinna sér rétt til nýs bótatímabils. Vinnumálastofnun fallist því hvorki á að leiðbeiningarskyldu samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga hafi verið ábótavant né að ákvörðun stofnunarinnar sé haldin ógildingarannmarka af þeim sökum.

Kærandi hafi þegið greiðslur atvinnuleysistryggingar í samtals 26 mánuði á bótatímabili hennar þegar hún hafi hafnað starfstilboði. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 5. janúar 2024, um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda því verið stöðvaðar, sbr. 5 mgr. 57. gr.  laganna. Kærandi eigi því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta að nýju fyrr en hún uppfylli skilyrði 31. gr. laganna.

Með vísan til alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi hafnað starfi hjá C og ekki haft þar að baki gildar ástæður, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Því hafi borið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 5. mgr. 57. gr. sömu laga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda þann 21. nóvember 2023 miðlað í starf hjá C. Fyrirtækið tilkynnti Vinnumálastofnun þann 30. nóvember 2023 að kærandi hefði hafnað starfinu þar sem vinnan hefði ekki hentað henni. Kærandi hefur vísað til þess að henni hafi ekki litist á aðstæður hjá fyrirtækinu. Einnig væri það ósk kæranda að fá að vinna í umhverfi þar sem hún eigi möguleika á því að læra íslensku sem hafi ekki verið möguleiki í þessu starfi. Þá hefur kærandi gert athugasemd við skort á leiðbeiningum frá Vinnumálastofnun um áhrif þess að hafna starfi.

Þann 16. júní 2021 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Kæranda var greint frá því að ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur væri að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þar kemur meðal annars fram að atvinnuleitandi þurfi að sýna frumkvæði í atvinnuleitinni og vera reiðubúinn að taka starfi á Íslandi sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum. Þar er einnig vísað til upplýsinga um biðtíma og viðurlög og undir þeim lið kemur fram að atvinnuleitendur geti þurft að sæta viðurlögum ef þeir hafni starfi sem býðst fyrir milligöngu Vinnumálastofnunar án þess að hafa til þess gildar ástæður. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér frekari upplýsinga um afleiðingar þess að hafna starfi. Engu skiptir að kærandi hafi einungis verið upplýst um framangreint þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur. 

Kemur þá til skoðunar hvort kærandi hafi haft gildar ástæður í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 fyrir því að hafna framangreindu starfi. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. en í því felst meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir, sbr. c. lið 1. mgr. ákvæðisins. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að þær skýringar sem kærandi hefur gefið séu ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á starfinu, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006.

Í 5. mgr. 57. gr. segir að hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili samkvæmt 29. gr. þegar atvik sem lýst sé í 1. mgr. eigi sér stað skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. Í því ákvæði kemur fram að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi þegið atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í 26 mánuði þegar hún hafnaði framangreindu starfi. Því bar Vinnumálastofnun að stöðva greiðslur til kæranda og getur hún fyrst átt rétt á atvinnuleysisbótum þegar hún uppfyllir skilyrði 31. gr. laganna, þ.e. eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Hin kærða ákvörðun er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2024, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum