Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun Fiskistofu dags. 10. október 2018, kærð fyrir að svipta skip leyfi til veiða í eina viku

Stjórnsýslukæra

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [A], lögmanns, fyrir hönd [B ehf.], dags. 26. október 2018, þar sem kærð er ákvörðun Fiskistofu, dags. 10. október 2018, um að svipta skip [B ehf.], [C], leyfi til að veiða í atvinnuskyni í eina viku, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, frá 9. desember 2018 til og með 15. desember 2018.

Kæruheimild er í 18. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Kröfur kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Fiskistofu, dags. 10. október 2018 verði ógilt og svipting til veiða í atvinnuskyni í eina viku skv. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 verði felld niður.

Málsatvik og málsmeðferð

Málsatvikum er lýst í bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 14. febrúar 2018, þar sem Fiskistofa tilkynnti [B ehf.] um meðferð málsins og veitti félaginu kost á að koma á framfæri andmælum, athugasemdum, skýringum, upplýsingum og gögnum er varðar málið áður en ákvörðun yrði tekin í málinu. Í bréfinu segir að starfsmaður Fiskistofu hafi, þann 6. apríl 2017, fengið upplýsingar um að hluti afla úr línuveiðiskipinu [C] hafi verið ekið fram hjá hafnarvog við löndun þann 5. apríl 2017. Við rannsókn hafi komið í ljós að 10 kör af slægðum þorski og 12 kör af slægðum ufsa hafi verið sett í bifreiðina [D], sem ekið hafi verið fram hjá hafnarvoginni í Grindavík og áleiðis til Reykjavíkur. Aflanum hafi verið ekið að [E], þar sem dreifingarmiðstöð [F] sé, og bifreiðin affermd þar. Í ljós hafi komið að vigtarnóta hafi ekki verið með aflanum og mun [F] hafa tilkynnt atvik málsins. Þann 6. apríl 2017 hafi umræddum afla, að fyrirmælum starfsmanna Fiskistofu, verið ekið að Fiskmarkaði Íslands og hann brúttóveginn þar af vigtarmanni hjá Reykjavíkurhöfn. Alls hafi þetta verið 4.360 kg af ufsa og 3.651 kg af þorski og hafi tveir starfsmenn Fiskistofu verið viðstaddir vigtunina. Að vigtun lokinni hafi aflinn verið lestaður í vörubíl ekið til [G] þar sem aflinn hafi verið endurvigtaður hjá [I ehf.] Nettó afli samkvæmt vigtarnótum hafi verið 3.971 kg af ufsa og 3.107 kg af þorski.

[F] sendi Fiskistofu andmælabréf, dags. 6. mars 2018, þar sem fram kom að vinnuferlar væru til fyrir beinar landanir innan [F], í samræmi gildandi við lög og reglugerðir. Segir í bréfinu að bílstjóri megi ekki leggja af stað með afla í flutning fyrr en hann hafi fengið vigtarnótu á hafnarvog í löndunarhöfn. Fram kemur að mannleg mistök hafi átt sér stað hjá bílstjóra [F] þegar afli var fluttur við löndun úr [C] þann 5. apríl 2017. Segir að [B ehf.] hafi treyst því að þjónustuaðilar vinni samkvæmt gildandi lögum og reglum og því sé ekki hægt að líta á þetta atvik sem meiriháttar brot. [F] bendir á að fyrirtækið starfi ekki í þágu Útgerðar Akureyringa ehf. heldur veiti þeim tiltekna þjónustu eftir óskum hverju sinni.

Kærandi sendi Fiskistofu bréf, dags. 8. mars 2018, þar sem félagið kom á framfæri upplýsingum og athugasemdum vegna málsins. Fram kom að um óhappatilvik hafi verið að ræða sem rekja mætti til reynsluleysis ökumanns í flutningum beint frá fiskiskipi. Þá var bent á að ekki hafi verið vilji til þess að fara á svig við reglurnar og að allur afli hafi verið vigtaður.

Með ákvörðun, dags. 10. október 2018, svipti Fiskistofa skipið [C], leyfi til að veiða í atvinnuskyni í eina viku, skv. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, frá 9. desember 2018 til og með 15. desember 2018. Fram kom að sviptingin hefði í för með sér ítrekunaráhrif í tvö ár, sbr. 19. gr. laga nr. 57/1996.

Með bréfi, dags. 26. október 2018, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra þar sem kærð er ákvörðun Fiskistofu, dags. 10. október 2018, um að svipta skipið [C] leyfi til að veiða í atvinnuskyni í eina viku.

Með tölvupósti dags. 19. nóvember 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfesta ákvörðun sem og önnur gögn sem stofnunin taldi að vörðuðu málið. Ráðuneytinu barst umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæru með bréfi, dags.  4. desember 2018, þar sem segir að Fiskistofa telji að ekki sé ágreiningur um málsatvik. Þá kemur fram að Fiskistofa sé ekki sammála niðurstöðu reifanna kæranda á dómum og úrskurðum. Stofnunin telur að ekki hafi verið hjá því komist að grípa til sviptingar eins og lög bjóða. Meðfylgjandi umsögn Fiskistofu voru andmæli [F], sem og brotaskýrsla og vigtanótur. Að öðru leiti vísaði stofnunin til hinnar kærðu ákvörðunar.

Með tölvupósti, dags. 4. febrúar 2019, var kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn Fiskistofu. Með bréfi, dags. 7. febrúar 2019, bárust ráðuneytinu athugasemdir kæranda við umsögn Fiskistofu. Málið er tekið til úrskurðar á framangreindum gögnum.

Málsástæður og lagarök kæranda

Kærandi byggir á því að málsatvik í þessu máli séu afar sérstök og að ýmsir dómar og úrskurðir ráðuneytisins sem á undan hafa gengið séu því alls ekki fordæmisgefandi.

I.          Óhappatilvik

Kærandi hafnar því að um framhjálöndun hafi verið að ræða. Telur kærandi að saknæmisskilyrði um gáleysi sé ekki fullnægt þar sem um óhappatilvik hafi verið að ræða sem megi rekja til reynsluleysis ökumanns í flutningum beint frá fiskiskipi. Þá telur kærandi ljóst af atvikum málsins, sem og sögu félagsins, að ekki hafi verið vilji til að fara á svig við reglurnar. Þá bendir kærandi á að allur afli hafi verið vigtaður.

Bendir kærandi á að í lögum nr. 57/1996 og lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, segi að viðurlög liggi við brotum sem framin séu af ásetningi eða gáleysi. Kærandi bendir sérstaklega á viðbrögð [F] um að þeir hafi haft frumkvæði af því að upplýsa um tilvikið og að umræddur afli hafi verið vigtaður án tafar. Telur kærandi viðbrögð [F] benda til þess að um óhappatilvik hafi verið að ræða.

Kærandi bendir á að verktaki kæranda, [F] hafi haft frumkvæði að því að upplýsa um mistökin og að sá afli, sem ekki hafi verið vigtaður þegar við löndun, alls um 7% af afla veiðiferðarinnar, hafi verið vigtaður örfáum klukkustundum síðar. Þá bendir kærandi jafnframt á að uppgefnar tölur frá skipinu stemmdu við löndunartölur.

II.         Fyrri dómar og úrskurðir

Kærandi telur að dómur Hæstaréttar í máli nr. 63/2001 geti ekki haft fordæmisgildi í máli og bendir á að þaulvönum verktaka, [J hf.], hafi verið falið að annast flutninga og flutningatengda þjónustu á grundvelli samnings dags. 26. nóvember 2014. Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar hafi dómurinn í rökstuðningi sínum vísað til þess að skipstjóri hafi falið aðila að vigta aflann sem hafi „hvorki verið í áhöfninni né starfsmaður útgerðarinnar og laut ekki boðvaldi skipstjóra, heldur var hann kaupandi þessa hluta aflans. Ákærði mátti þannig ekki treysta því að svo yrði farið með aflann sem skylt er. Með hliðsjón af þeirri ríku ábyrgð sem á skipstjórum hvílir í þessu tilliti verður ekki á það fallist með ákærða að hann hafi uppfyllt starfsskyldur sínar í umrætt sinn.“ Kærandi telur með vísan til leiðbeiningar Hæstaréttar í dómi nr. 63/2001 að skipstjórinn hafi, með því að fela [F] að vigta umræddan afla, rækt skyldur sínar. Telur kærandi það hvorki geta talist ásetningur né gáleysi af hálfu skipstjórans eða kæranda. Að mati kæranda sé ákvörðun Fiskistofu að þessu leyti haldin veigamiklum annmörkum sem ættu að leiða til ógildingar á ákvörðuninni. Að mati kæranda hefði verið réttast að Fiskistofa felldi málið niður enda ákvörðunin augljóslega byggð á misskilningi.

Varðandi vísan til úrskurðar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 22. desember 2014, bendir kærandi á að málin séu eðlisólíkt að því leyti að sá sem tók við afla í því máli hafði ekki lotið boðvaldi og því hafi  skipstjórinn ekki mátt treysta því að farið væri með aflann eins og skylt hafi verið. Þá bendir kærandi á að vigtarmaður á hafnarvoginni hafi ekki fengið upplýsingar um hvert skyldi ráðstafa aflanum, en í máli því sem nú sé til úrlausnar hafi allar tilkynningar verið sendar tímanlega til hafnarinnar, löndunaraðila, flutningsaðila svo og til fjölda annarra sem málið varðaði. Bendir kærandi á að sérstök tilkynning hafi verið send hafnaryfirvöldum í Grindavík. Telur kærandi úrskurð ráðuneytisins ekki fordæmisgefandi. Varðandi ákvörðun refsingar í tilvitnuðum úrskurði, sem var svipting í eina viku, bendir kærandi á að fyrri áminning hafi haft ítrekunaráhrif. 

Kærandi fjallar jafnframt um úrskurð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 17. júlí 2015, en í því máli hafi vigtarmaður hafnarinnar í Reykjavík tilkynnt til Fiskistofu þann 30. september 2014 að afli úr skipinu hefði aldrei farið á hafnarvog þrátt fyrir að hafa verið landað í höfninni kvöldið áður. Í málinu kom fram að löndunaraðilinn hafi verið óreyndur og hafi ekki séð áður um löndun á ferskum fiski til útflutnings. Kærandi telur þetta mál eðlisólíkt því sem nú er til úrlausnar og bendir á að óreyndum aðila hafi verið falið að landa og flytja ferskan fisk til útflutnings og urðu við það mistök. Í því tilviki sem nú er til úrlausnar hafi sérfræðingi verið falið að sjá um flutning í tengslum við löndun, en [J hf.] vinni við á annað þúsund landanir fyrir kæranda og tengd félög á hverju ári. [J hf.] sjálft hafi staðfest það í bréfi til Fiskistofu dags. 6. mars 2018. Því til viðbótar hafi skipið í því máli áður fengið skriflega áminningu og vegna ítrekunaráhrifa hafi ákvörðun Fiskistofu um einnar viku sviptingu leyfis til veiða í atvinnuskyni verið staðfest af hálfu ráðuneytisins. Kærandi bendir á að sú staða sé ekki uppi í máli kæranda og engin ítrekunaráhrif séu til staðar.

Kærandi telur að ummæli í dómi Hæstaréttar í máli nr. 735/2013 (ummæli í héraðsdómi) gefi vísbendingu um hvað teljist fullnægjandi aðkoma skipstjóra. Kærandi telur að það megi lesa úr dómnum að ábyrgð skipstjóri sé mikil en að hún sé hvorki algild né hlutlæg.

Kærandi vísar til þess að ekki sé lagastoð fyrir því að refsa ökumanni vegna brota á lögum nr. 57/1996 og bendir á dóm Hæstaréttar í máli nr. 735/2013 og úrskurð ráðuneytisins í máli dags. 17. júlí 2015. Bendir kærandi á að það geti ekki leitt til hlutlægar ábyrgðar skipstjóra án fullnægjandi lagastoðar þar um.

Vísar kærandi til þess að í máli þessu hafi reynslumiklum aðila, [J hf.], verið falið að annast flutning, samkvæmt skriflegum samningi. Hafði [J hf.] annast það hlutverk með fullnægjandi hætti fyrir kæranda um árabil og einnig í umþrættri löndun, en 93% aflans höfðu verið vigtuð og því ljóst af atvikum málsins að um óhapp var að ræða. Vísar kærandi til þess að óhappatilvik geti ekki leitt til refsiábyrgðar og vísar í dóm Hæstaréttar í máli nr. 735/2013 máli sínu til stuðnings.

Kærandi bendir á að hann hafi ekki haft neina hagsmuni af þeim mistökum sem hafi orðið þegar síðasti hluti aflans hafði ekki verið vigtaður á réttum tíma. Bendir kærandi á að nánast allur afli kæranda sé fluttur erlendis til kröfuharðra viðskiptavina og að rekjanleiki og lagafylgni skipti þar öllu máli. Þá bendir kærandi á að ómögulegt sé að flytja út afla öðruvísi en að vigtarnóta fylgi, en þröng undanþága sé fyrir að flytja út afla án þess í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 57/1996.

Kærandi telur að það sé ekki tilefni til viðurlaga af hálfu Fiskistofu enda hafi hvorki verið um ásetning né gáleysi að ræða af hálfu skipstjórans. Þá telur kærandi að mistök ökumanns [J hf.], hvort sem það sé álitið gáleysi eða óhappatilvik, geti ekki leitt til viðurlaga gagnvart skipstjóranum eða útgerðinni. Kærandi telur ákvörðun Fiskistofu ranga þar sem hún sé í ósamræmi við eldri dóma og úrskurði ráðuneytisins, að hvorki hafi verið gætt meðalhófs né jafnræðis og því eigi að fella hana úr gildi. Til vara telur kærandi ákvörðun of íþyngjandi og vísar til fyrri úrskurða þar sem ítrekunaráhrif gætti en það eigi ekki við í þessu máli. Kærandi telur að í versta falli átt að koma til skriflegrar áminningar þar sem engum fyrri brotum hafði verið fyrir að fara sem hafi ítrekunaráhrif.

Málsástæður og lagarök Fiskistofu

I.          Um málsatvik

Fiskistofa telur ljóst, samkvæmt málsvaxtalýsingu eftirlitsmanna Fiskistofu, [B ehf.] og [F], að ekki sé uppi ágreiningur um málsatvik. Að mati Fiskistofu lúta andmæli [F] og [B ehf.] fyrst og fremst að væntanlegum viðurlögum vegna atviksins.

II.         Lagarök og ákvörðun Fiskistofu

Fiskistofa telur að skipstjóri hafi brotið ákvæði laga nr. 57/1996 og reglugerðar nr. 745/2016, um vigtun og skráningu sjávarafla. Fiskistofa vísar til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1996, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 745/2016 þar sem segi að allur afli skuli veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans. Þá vísar Fiskistofa til þess að skipstjóra sé skylt að láta vigta hverja tegund sérstaklega, skv. 9. gr. sömu laga. Fiskistofa vísar jafnframt til 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 745/2016 þar sem segir að skipstjóri fiskiskips beri ábyrgð á að afli skipsins sé veginn samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar.

Fiskistofa telur að ekki hafi verið farið að fyrirmælum 10. gr. laga nr. 57/1996 þar sem segi að ökumaður, sem flytur óveginn afla, skuli aka rakleiðis frá skipshlið að hafnarvog og 3. gr. reglugerðar nr. 745/2016 þar sem segi að ökumaður flutningstækis sem flytur afla skuli fá afrit af vigtarnótu og afhenda viðtakanda afla og að ökumanni afla sé óheimilt að flytja afla fyrr en hann hefur fengið vigtarnótu afhenta.

Fiskistofa vísar jafnframt til 15. gr., 23. gr. og 24. gr. laga nr. 57/1996, þar sem fjallað er um refsingar fyrir brot á ákvæðum laganna, í ákvörðun sinni.

Í ákvörðun um sviptingu segir að Fiskistofa telji ýmis atriði til mildunnar á broti kæranda svo sem að það líti út fyrir að ásetningur hafi ekki verið til staðar. Þrátt fyrir það leiðir Fiskistofa það að dómi Hæstaréttar í máli nr. 63/2001 að framhjálöndun sé alltaf mjög alvarlegt brot. Að mati Fiskistofu hafi því ekki verið unnt að líta á brotið sem minniháttar, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996. Því taldi Fiskistofa ekki hjá því komist að svipta skipið leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku.

Fiskistofa telur sýnt samkvæmt atvikum málsins, þ.e. lýsingu eftirlitsmanna Fiskistofu, aðila máls og verktaka sem stóð að löndun afla úr [C] þann 5. apríl 2017, að afli sem var 4.360 kg af slægðum ufsa og 3.651 kg af slægðum þorski, hafi ekki verið veginn á hafnarvog þegar við löndun aflans. Fiskistofa taldi að með því að sleppa hendi af löndun aflans og hafa ekki eftirlit með því að síðasti farmurinn yrði veginn á hafnarvog hefði skipstjóri ekki sinnt starfsskyldum sínum og að dómur Hæstaréttar í máli nr. 63/2001 hefði mikið leiðbeiningargildi í málinu.

Fiskistofa er ekki sammála niðurstöðu reifanna kæranda og telur þvert á móti að ekki hafi verið hjá því komist að grípa til sviptingar eins og lög bjóða.

Niðurstaða 

I.          Kærufrestur

Stjórnsýslukæra í þessu máli barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þann 29. október 2018 eða innan mánaðar frá því að hin kærða ákvörðun var tekin dags. 10. október 2018. Kæruheimild er í 18. gr. laga nr. 57/1996. Kæran verður því tekin til efnismeðferðar.

II.         Rökstuðningur

Ekki er uppi ágreiningur um málsatvik. Um 7% afla úr fiskveiðiskipinu [C] var ekki færður á hafnarvog við löndun þann 5. apríl 2017. Í stjórnsýslukæru er byggt á því að óhappatilvik hafi leitt til þess að hluti afla hafi ekki verið færður á hafnarvog. Um vigtun sjávarafla gilda ákvæði laga nr. 57/1996, í 5. gr. laganna segir að öllum afla sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti haldi sig í efnahagslögsögu Íslands skuli landað innanlands og hann veginn í innlendri höfn. Í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram sú meginregla að allur afli skuli veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans. Í 9. gr. sömu laga segir m.a. að skipstjóra sé skylt að láta vigta hverja tegund sérstaklega og tryggja að réttar og fullnægjandi upplýsingar um afla berist til vigtarmanna. Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 745/2016 segir að skipstjóri skips beri ábyrgð á að afli skipsins sé veginn samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar. Af framangreindu er ljóst að í lögum nr. 57/1996 og reglugerð nr. 745/2016 eru lagðar ríkar skyldur á skipstjóra. Kærandi hefur jafnframt vísað til þess að ekki sé lagastoð fyrir því að refsa ökumanni vegna brota á lögum nr. 57/1996. Samkvæmt 10. gr. laga nr. 57/1996 skal ökumaður sem flytur óveginn afla skuli aka rakleiðis frá skipshlið að hafnarvog. Ráðuneytið bendir á að sú ábyrgð sem ákvæðið leggur á ökumann afla er sjálfstæð, hún leysir skipstjóra ekki undan þeirri ábyrgð sem lögð er á hann samkvæmt 9. gr. fyrrgreindra laga. Á skipsstjóra hvílir endanleg ábyrgð á því að sjá til þess að afli sé færður til vigtunar og að hver tegund sé vigtuð sérstaklega.

Þann 5. apríl 2017 láðist skipstjóra að sjá til þess að allur afli [C] yrðu færður á hafnarvog og telur ráðuneytið, að öllu framangreindu virtu, að brotið hafið verið gegn 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996 og gegn 1. mgr. 2. og 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 745/2016.

Í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi til að veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim. Við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skal leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekað brot skal svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár, sbr. 2. mgr. 15. gr. laganna. Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu, sbr. 3. mgr. 15. gr. laganna. Ákvæði 3. mgr. 15. gr. var bætt við greinina með 2. gr. laga nr. 163/2006, sem breyttu lögum nr. 57/1996. Í greinargerð með frumvarpi til laganna, sbr. Alþingistíðindi A-deild, 133. löggjafarþing 2006-2007, þskj. 235, 232. mál, kemur fram í athugasemdum við 2. gr. að ljóst sé að svipting leyfis til veiða í atvinnuskyni, jafnvel þótt um lágmarkstíma sé að ræða, þ.e. sem fyrir lagabreytinguna var tvær vikur, geti verið mjög íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi útgerð og þá sem í hennar þágu starfi. Með vísan til þess var með frumvarpinu lagt til að 15. gr. laga nr. 57/1996, sbr. og einnig 24. gr. laga nr. 116/2006 yrði breytt þannig, að þar yrði kveðið á um að þegar um minni háttar brot væri að ræða og hlutaðeigandi útgerð hefði ekki áður gerst brotleg við ákvæði laganna eða reglur settar samkvæmt þeim, skyldi Fiskistofa bregðast við með öðrum hætti, þ.e. með því að veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Einnig segir í greinargerðinni að ákvörðun þess hvort um minni háttar brot teljist vera að ræða,  í skilningi þessara lagaákvæða, væri eðlilegt að litið yrði til þess m.a. hvort ætla megi að brot hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerð og/eða tengda aðila, hversu mikilvægum hagsmunum brot ógnaði og hvort það hafi verið framið af ásetningi eða gáleysi. Þá var þar tekið fram að brot gegn reglum varðandi veiðar afla og aflaheimildir væru oft þannig að erfitt sé að skera með óyggjandi hætti úr um hvort þau hafi verið framin af ásetningi eða gáleysi. Það atriði eitt og sér geti því almennt ekki ráðið ákvörðun þess hvort brot teljist vera minni háttar. Á hinn bóginn þyki eðlilegt að láta ítrekuð brot gegn umræddum lögum og reglum varða sviptingu veiðileyfis, enda þótt um minni háttar brot í skilningi laganna kunni að vera að ræða.

Í máli þessu liggur fyrir að sá afli sem ekki var vigtaður var um 7% af afla veiðiferðar [C] þann 5. apríl 2017. Ljóst er að ef ekki hefði komist upp um umrædd mistök hefði það getað leitt til umtalsverðs ávinnings fyrir útgerðina. Það verður þó að horfa til þess að flutningsaðili, [F], hafði frumkvæði að því að upplýsa um það að vigtarnóta fylgdi ekki og þess að skipstjóri hafði gefið upp tölur um afla sem stemmdu við löndunartölur þegar búið var að vigta aflann.

 

Fiskistofa, sem og ráðuneytið, eru í störfum sínum bundin af stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laganna skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála. Þá skal stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt verður ekki náð með öðru vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið stangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Þegar stjórnvöld hafa val um að beita fleiri en einni tegund þvingunarúrræða til að ná því markmiði, sem að er stefnt með töku ákvörðunar, leiðir af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga að velja ber það úrræði sem vægast er og að gagni getur komið. Í því máli sem hér er til úrlausnar verður að fara fram ákveðið heildarmat. Líta verður til þess að flutningsaðili kæranda upplýsti um mistökin, þá er óumdeilt í málinu að ásetningur var hvorki hjá skipstjóra, sem gaf upp tölur sem stemmdu við löndunartölur eftir að allur afli var vigtaður, né hjá flutningsaðila sem upplýsti um mistökin. Með vísan til alls framangreinds og 12. gr. stjórnsýslulaga telur ráðuneytið að meta verði brot kæranda sem minniháttarbrot. Þar af leiðandi hefði Fiskistofa átt að veita kæranda skriflega áminningu sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996.

 

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu. 

 

Úrskurðarorð

Ráðuneytið breytir hér með ákvörðun Fiskistofu dags. 10. október 2018, um að svipta skip [B ehf.], [C],  leyfi til að veiða í atvinnuskyni í eina viku, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, frá sunnudeginum 9. desember 2018 til og með laugardeginum 15. desember 2018. Þess í stað er [B ehf.] veitt áminning sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 vegna brots gegn 1. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1996, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 745/2016.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira