Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 88/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 88/2017

Fimmtudaginn 8. júní 2017

A
gegn
Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. mars 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 5. desember 2016, um synjun á fæðingarstyrk námsmanna.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, móttekinni 26. október 2016, sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar X 2016. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. nóvember 2016, var umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna synjað. Þann sama dag óskaði kærandi eftir enduruppstöku og að ný ákvörðun yrði tekin í málinu með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fæðingarorlofssjóður tók mál kæranda til nýrrar meðferðar og með ákvörðun 5. desember 2016 var henni synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Barn kæranda fæddist X 2016.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, dags. 3. mars 2017. Með bréfi, dags. 8. mars 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins sem barst með bréfi, dags. 21. mars 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. mars 2017, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 3. apríl 2017, og voru þær kynntar Fæðingarorlofssjóði með bréfi, dags. 11. apríl 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs verði felld úr gildi og að umsókn hennar um greiðslu fæðingarstyrks á grundvelli 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof verði samþykkt. Kærandi vísar til þess að samkvæmt 11. mgr. 19. gr. laganna sé heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk samkvæmt 1. mgr., þ.e. svonefndan fæðingarstyrk námsmanna, þrátt fyrir að skilyrðum um fullt nám í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Í 13. gr. a laga nr. 95/2000 sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist vera þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna.

Kærandi byggir á því að skilyrðum 11. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 13. gr., hafi verið fullnægt í tilviki kæranda. Á grundvelli þess hafi Fæðingarorlofssjóði borið að samþykkja umsókn kæranda. Kærandi byggir einnig á því að meðferð Fæðingarorlofssjóðs á málinu hafi verið verulega ábótavant og ekki í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar.

Málsástæður kveður kærandi vera:

1) Samkvæmt forsendum hinnar kærðu ákvörðunar virðist meginástæða synjunar umsóknar hafa byggst á því að kærandi hafi ekki verið í launalausu leyfi frá störfum á tímabilinu 22. júní til 15. júlí 2016. Af þeim sökum hafi hið samfellda tímabil kæranda á innlendum vinnumarkaði rofnað á þeim tíma. Þetta telur kærandi einfaldlega rangt, enda hafi kærandi sannarlega verið í launalausu leyfi frá störfum á umræddu tímabili og hafi vinnuveitandi kæranda staðfest það skriflega.

2) Í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar hafi einnig verið vikið að því að kærandi hafi ekki verið ráðin í að minnsta kosti 25% starfshlutfall. Þetta telji kærandi einnig vera rangt. Hið rétta sé að kærandi hafi verið ráðin í tímabundið starf og umsamið starfshlutfall verið 25–50%. Þá hafi ráðningartímabil kæranda hafist 14. júní og lokið 31. ágúst 2016. Þetta hafi vinnuveitandi kæranda allt staðfest skriflega. Þá hafi einnig verið ljóst að starfshlutfall kæranda á ráðningartímabilinu hafi sannarlega ávallt verið að minnsta kosti 25%.

3) Í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar sé enn fremur vikið að því að ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur um störf kæranda og ekki hafi legið fyrir skriflegur samningur um launalaust leyfi kæranda þegar hún hafi verið erlendis á tímabilinu 22. júní til 15. júlí 2016. Forsendur fyrri ákvörðunar Fæðingarorlofssjóðs hafi eingöngu byggt á þessu sjónarmiði. Kærandi telur þessi sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs ekki einungis ómálefnaleg heldur með öllu ólögmæt. Fyrir liggur að gerður hafi verið munnlegur samningur um ráðningarsambandið og starfsleyfið. Vinnuveitandi kæranda hafi ávallt neitað kæranda um gerð skriflegs ráðningarsamnings, þrátt fyrir endurteknar beiðnir kæranda þess efnis, á grundvelli þess að skriflegir ráðningarsamningar hefðu aldrei verið gerðir við starfsmenn félagsins. Vinnuveitandinn hafi hins vegar staðfest að ráðningarsamningur hafi verið gerður og að samið hafi verið um launalaust leyfi frá störfum, sbr. yfirlýsingu vinnuveitandans þess efnis frá 10. nóvember 2016. Í lögum nr. 95/2000 sé engin krafa um að ráðningarsamningur sé skriflegur. Hið sama eigi við um launalaust leyfi starfsmanns frá störfum. Þetta sé meðal annars staðfest á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs. Þá séu munnlegir samningar jafngildir skriflegum samningum samkvæmt meginreglum samningaréttar.

4) Óumdeilt sé að kærandi hafi átt rétt á atvinnuleysisbótum á tímabilinu 1. mars til 14. júní 2016 og raunar allt fram til 31. ágúst samkvæmt staðfestingu Vinnumálastofnunar.

5) Kærandi hafi verið ráðin í 25–50% starfshlutfall og samið um að kærandi færi í launalaust leyfi frá störfum á tímabilinu 22. júní til 15. júlí 2016. Þetta staðfesti vinnuveitandi kæranda með yfirlýsingu, dags. 10. nóvember 2016.

6) Ráðningartímabil kæranda hafi byrjað 14. júní 2016 og lokið 31. ágúst 2016. Þetta hafi verið staðfest af hálfu vinnuveitanda. Áður en ákvörðun hafi verið tekin um ráðningu hafi kærandi farið í starfsprufu 4. júní 2016. Kærandi hafi staðið í þeirri góðu trú, sem sé í samræmi við staðfestingu vinnuveitandans frá 10. nóvember 2016, að sá dagur tilheyrði ekki ráðningartímabilinu, enda hafði þá engin ákvörðun verið tekin um ráðningu og kæranda ekki verið boðið starfið.

7) Starfshlutfall kæranda á tímabilinu 14. júní til 22. júní 2016 hafi sannarlega verið 27,16%. Um hafi verið að ræða átta daga tímabil en vinnumánuðurinn teljist vera 21,67 vinnudagar. Það sé einfaldlega ekki hægt að líta til starfshlutfalls miðað við þá, enda yrði þá að miða við að vinnudagar í fullum mánuði væru 30–31 dagur (30 dagar m.v. júnímánuð). Vinnudagar á tímabilinu 14. til 22. júní, sem borið hafi að líta til við útreikning starfshlutfalls séu 5,77 (8/30 * 21,67). Miðað við að full vinna sé 171,5 tímar, svo sem fram hafi komið í málatilbúnaði Fæðingarorlofssjóðs, sé full vinna fyrir hvern dag 7.91 klst. Á umræddu tímabili hafi því full vinna svarað til 45,66 klst. (5,77*7,91). Samkvæmt þessu sé ljóst að starfshlutfall kæranda á umræddu tímabili hafi verið 27,16% en allir tímarnir samkvæmt launaseðli fyrir júnímánuð (12 klst. og 40 mín.) hafi verið unnir á tímabilinu 14. til 22. júní 2016. Misvísandi upplýsingar vinnuveitandans um annað hafi verið rangar.

8) Kærandi tekur fram að í hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið byggt á því að starfshlutfall hennar á tímabilinu14. til 22. júní 2016 hafi verið lægra en 25%. Virðist því sem óumdeilt sé að starfshlutfall kæranda á tímabilinu 14. til 22. júní 2016 annars vegar og frá 15. júlí til 31. ágúst sama ár hins vegar hafi verið að minnsta kosti 25%.

9) Til þess að fullnægja skilyrðum 11. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 hafi kærandi orðið að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði áður en nám hennar hófst 1. september 2016. Kæranda hafi verið sagt upp störfum hjá B ehf. frá og með 29. febrúar 2016. Kærandi hafi þá verið starfandi á innlendum vinnumarkaði frá hausti 2014. Kærandi hafi síðan átt rétt á atvinnuleysisbótum á tímabilinu 1. mars til 14. júní 2016 (og jafnvel lengur) og því talist vera starfandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 11. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. b-lið 2. mgr. 13. a laganna, á því tímabili. Kærandi hafi þá tekið til starfa hjá C og starfað þar í meira en 25% starfshlutfalli á tímabilinu 14. til 22. júní 2016. Því hafi hún talist vera starfandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga nr. 95/2000, sbr. a-lið 2. mgr. 13. gr. a laganna, á því tímabili.

Á tímabilinu 22. júní til 15. júlí 2016 hafi kærandi farið í launalaust leyfi samkvæmt samkomulagi við vinnuveitanda sinn og því talist vera starfandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga nr. 95/2000, sbr. a-lið 2. mgr. 13. gr. a laganna, á því tímabili. Á tímabilinu 15. júlí til 31. ágúst 2016 hafi kærandi starfað í meira en 25% starfshlutfalli og því talist vera starfandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga nr. 95/2000, sbr. 1. mgr. 13. gr. a laganna, á því tímabili. Á grundvelli þess sé ljóst að kærandi hafi uppfyllt skilyrði 11. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, enda starfandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna samfellt í að minnsta kosti sex mánuði áður en nám hennar hófst 1. september 2016.

10) Kærandi kveðst furðast mjög vinnubrögð Fæðingarorlofssjóðs í málinu og telur þau á margan hátt hafa brotið í bága við ýmsar meginreglur stjórnsýsluréttar, sbr. nánar kærulið 11. Þrátt fyrir ítarleg svör og skýringar kæranda við spurningum Fæðingarorlofssjóðs, sem og gagnaframlagningu af hálfu kæranda, hafi stofnunin ákveðið að virða sjónarmið kæranda alfarið að vettugi. Svo virðist sem málatilbúnaður kæranda hafi engu máli skipt. Þegar liðið hafi á málsmeðferðina, einkum í kjölfar endurupptöku málsins, hafi kærandi tekið eftir töluverðri gremju og óvild af hálfu vinnuveitanda kæranda í hennar garð. Vinnuveitandinn hafi farið að veita misvísandi upplýsingar og rangar upplýsingar miðað við vitneskju kæranda, til að mynda varðandi tímaskráningar. Mögulega hafi það verið vegna misskilnings á málinu, ótta við einhverjar óskilgreindar fjárhagslegar skuldbindingar gagnvart kæranda vegna fæðingarorlofsins, ítrekaðra beiðna kæranda um skriflegan ráðningarsamning og samband kæranda við stéttarfélag vegna þess. Þrátt fyrir að vinnuveitandinn hafi verið missaga hafi Fæðingarorlofssjóður engu að síður ákveðið að taka orð hans trúanleg, en einungis að því leyti sem upplýsingar og skýringar vinnuveitandans hafi verið kæranda í óhag.

Kærandi telur meginreglur vinnuréttar leiða til þess að skýra beri allan vafa varðandi ráðningarsambandið starfsmanni en ekki vinnuveitanda í hag, enda sé sönnunarstaða starfsmannsins allt önnur og verri en yfirburðastaða vinnuveitandans. Kærandi telur einnig að Fæðingarorlofssjóði hafi borið að skýra allan vafa um túlkun laga nr. 95/2000 kæranda í hag, í samræmi við hefðbundin lögskýringarviðhorf og almennan áskilnað lögmætisreglu stjórnsýsluréttar, enda hafi ákvörðun um synjun umsóknar í eðli sínu verið íþyngjandi í garð umsækjanda. Sú hafi hins vegar ekki verið raunin og svo virðist sem allt sem hafi verið kæranda í óhag hafi verið tínt til og ákvörðun reist á því.

Af allri meðferð málsins og að framangreindu virtu verði vart annað ráðið en að grundvallarsjónarmið, sem Fæðingarorlofssjóður hafi gengið úr frá við afgreiðslu umsóknarinnar, sé að umsækjendur freisti þess að hafa rangt við og misnota kerfið í von um greiðslur frá sjóðnum. Slíkur útgangspunktur við meðferð umsókna sé að sjálfsögðu ekki einungis sérlega ómálefnalegur, heldur með öllu ólögmætur.

11) Kærandi telur að meðferð málsins í kjölfar endurupptökubeiðni hennar, dags. 10. nóvember 2016, hafi augljóslega staðfest að ekki hafi rétt verið staðið að meðferð umsóknarinnar frá upphafi. Þannig hafi Fæðingarorlofssjóður brotið gegn ýmsum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar og ákvæðum stjórnsýslulaga, s.s. leiðbeiningarskyldu sem hafi í engu verið sinnt á öllum stigum málsins, þrátt fyrir formlega beiðni kæranda þar að lútandi. Rannsóknarreglu þar sem málið hafi augljóslega ekki verið rannsakað til hlítar áður en fyrri ákvörðun hafi verið tekin, enda hafi í engu verið leitast við að afla frekari gagna eða upplýsinga frá aðilum. Auk þess hafi verið litið fram hjá ýmsum upplýsingum sem fram hafi komið hjá kæranda. Jafnræðisreglu, þar sem kærandi þekki til þess að í öðrum málum, þar á meðal við afgreiðslu umsóknar sambýlismanns um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði haustið 2013, hafi ekki verið gerð krafa um að skriflegur samningur um launalaust leyfi hafi legið fyrir, heldur hafi síðari tíma skrifleg staðfesting vinnuveitanda á launalausu leyfi verið talin fullnægjandi af hálfu sjóðsins. Það sé einnig staðfest á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs. Andmælaréttur, þar sem engin slíkur hafi verið veittur kæranda áður en fyrri ákvörðun hafi verið tekin. Meðalhófsreglu, þar sem mikið ójafnvægi hafi verið í áherslum Fæðingarorlofssjóðs varðandi mat á upplýsingum frá kæranda annars vegar og vinnuveitandans hins vegar, þrátt fyrir að meginreglur vinnuréttar, almenn lögskýringarsjónarmið og meðalhófsregla stjórnsýsluréttar leiði til þess að allan vafa beri að skýra kæranda í hag. Að lokum dregur kærandi í efa hæfi starfsmanns Fæðingarorlofssjóðs vegna ummæla hennar í samskiptum sínum við annan starfsmann Vinnumálastofnunar þann 9. nóvember 2016.

Kærandi telur að ekkert standi í vegi fyrir því að fallist verði á umsókn hennar um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna, enda sé öllum lagaskilyrðum fullnægt. Um rökstuðning vísar kærandi til alls framangreinds.

Kærandi telur að ekkert hafi komið fram í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem leiði í ljós að ákvörðun stofnunarinnar um synjun umsóknar hafi verið réttmæt. Vísar kærandi til þess að í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs virðist gengið út frá því að hún hafi starfað 2,9 vinnustundir hinn 4. júní 2016, án þess að sá tími sé nokkuð rökstuddur. Til samanburðar bendir kærandi á að samkvæmt tímaskráningum vinnuveitandans hafi skráð vinna verið 6 klukkustundir og 10 mínútur. Eins og nánar hafi verið rakið í kæru þá hafi verið vanhöld á tímaskráningum vinnuveitandans á umræddu tímabili. Það hafi sést best á því að tímaskráningar hafi vantað hjá vinnuveitandanum á tímabilinu frá því að kærandi hafi verið ráðin til starfsins frá og með 14. júní 2016 þar til hún hafi haldið í ólaunað leyfi frá störfum 22. júní 2016. Á því tímabili hafi kærandi starfað í 12 klukkustundir og 40 mínútur samkvæmt launaseðli. Þá hafi kærandi verið fengin í starfsprufu 4. júní 2016 og staðið í þeirri trú að ekki hafi verið greidd laun fyrir þann dag. Í tengslum við tímaskráningar og starfshlutfall bendir kærandi á að svo virðist sem Fæðingarorlofssjóður hafi breytt afstöðu sinni til útreiknings starfshlutfalls á umræddu tímabili, án þess að sú breytta afstaða sé á nokkurn hátt rökstudd. Fæðingarorlofssjóður hafi þannig áður reiknað starfshlutfall mun lægra.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að með umsókn, sem var móttekin 26. október 2016, hafi kærandi sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns X 2016. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs frá 10. nóvember 2016 hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks. Kærandi hafi óskað eftir endurupptöku og fallist hafi verið á beiðni hennar um að taka málið fyrir að nýju. Með hinni kærðu ákvörðun frá 5. desember 2016 hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 eiga foreldrar, sem hafa verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns og hafa staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið X 2016 og við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barnsins, hafi því verið horft til tímabilsins frá X 2015 fram að fæðingardegi þess. Á námsferilsyfirliti Háskóla Íslands, dags. 4. nóvember 2016, hafi komið fram að á framangreindu tólf mánaða tímabili hafi kærandi verið skráð í 24 ECTS einingar á haustmisseri 2016 sem hún hafi lokið samkvæmt námsferilsyfirliti, dags. 3. mars 2017.

Þegar um sé að ræða nám við háskóla teljast 30 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 22–30 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem hafi legið fyrir um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda hafi Fæðingarorlofssjóður litið svo á að kærandi uppfyllti ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns þar sem hún hafi einungis verið í fullu námi á haustmisseri 2016 eða í tæplega þrjá og hálfan mánuð fram að fæðingardegi barnsins.

Þá hafi næst komið til skoðunar hvort heimildarákvæði 11. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 gæti átt við í tilviki kæranda. Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk samkvæmt 1. mgr. þrátt fyrir að skilyrði um fullt nám í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns sé ekki uppfyllt, hafi foreldri verið samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.

Í tilviki kæranda hafi framangreint sex mánaða tímabil á innlendum vinnumarkaði verið tímabilið 1. mars til 31. ágúst 2016 eða fram til þess að námið hófst á haustmisseri 2016. Við mat á því hvort kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu, sem starfsmaður samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000, sé nauðsynlegt að horfa til 1. mgr. 13. gr. a laganna, sbr. einnig 2. mgr. sömu greinar. Þannig sé orðskýringu á starfsmanni að finna í 2. mgr. 7. gr. en samkvæmt ákvæðinu teljist starfsmaður samkvæmt lögunum vera hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Í 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 kemur síðan fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf. Þá sé í 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 talið upp í fimm stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði:

a) orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b) sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c) sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almanna­tryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d) sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e) sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Á umræddu sex mánaða tímabili, þ.e. 1. mars til 31. ágúst 2016, hafi kærandi verið með lág laun og breytileg frá D ehf. samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra í júní, júlí og ágúst 2016 en engar tekjur í mars, apríl og maí. Fyrir liggi að kærandi hafi átt rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt b-lið 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 tímabilið 1. mars til 21. júní 2016 en ekki tímabilið 22. júní til 15. júlí 2016 þegar hún var erlendis, sbr. bréf og tölvupóst frá Vinnumálastofnun, dags. 3. og 9. nóvember 2016.

Hafi þá komið til skoðunar ráðningar- og starfsfyrirkomulag kæranda við D ehf. í júní, júlí og ágúst 2016 út frá staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, launaseðlum, tímaskráningum, kjarasamningi VR og SA 2016 auk upplýsinga frá kæranda og framkvæmdastjóra D ehf. Hvorki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur á milli kæranda og D ehf. né heldur verið gert skriflegt samkomulag um ólaunað leyfi kæranda tímabilið 22. júní til 15. júlí 2016 þegar hún var erlendis, fyrr en eftir á, sbr. meðal annars umsókn kæranda og tölvupóst frá 7. nóvember 2016 auk bréfs frá framkvæmdastjóra D ehf., dags. 10. nóvember 2016.

Aflað hafi verið upplýsinga frá framkvæmdastjóra D ehf. um ráðningar- og starfsfyrirkomulag kæranda með tilliti til þess hvort hún hafi verið ráðin í tiltekið starfshlutfall eða hvort um tilfallandi vinnu hafi verið að ræða samkvæmt kjarasamningi VR og SA 2016, sbr. tölvupóstsamskipti við D ehf. á tímabilinu 11. til 17. nóvember og tölvupóstsamskipti við D ehf. og kæranda á tímabilinu 28. nóvember til 2. desember 2016. Í svari frá framkvæmdastjóra D ehf., dags. 17. nóvember 2016, hafi komið fram að kærandi hafi verið ráðin í 25–50% vinnu eða eins og þörf væri á og hún hafi síðan fengið greitt eins og tímafjöldinn hafi sagt til um. Í nánari skýringum framkvæmdastjóra D ehf. á ráðningar- og starfsfyrirkomulagi kæranda, dags. 1. desember 2016, hafi komið fram að starfshlutfallið hafi verið tilfallandi en ráðningarrammi hafi getað orðið á bilinu 25–50% eða eins og til félli. Kærandi hafi unnið tímavinnu og sjáist það á tímafjölda hvert starfshlutfallið hafi síðan orðið.

Kærandi hafi aftur á móti talið sig hafa starfað hjá D ehf. í tímabundinni ráðningu tímabilið 14. júní til 31. ágúst 2016 í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli en verið í ólaunuðu leyfi tímabilið 22. júní til 15. júlí 2016 samkvæmt munnlegu samkomulagi við vinnuveitanda sem síðar hafi verið staðfest með bréfi, dags. 10. nóvember 2016. Þá hafi kærandi talið skýringar framkvæmdastjóra D ehf. um ráðningar- og starfsfyrirkomulag vera rangar.

Samkvæmt kjarasamningi VR og SA 2016 teljist full vinna vera 171,15 tímar. Samkvæmt launaseðli fyrir júní 2016 hafi kærandi starfað 12,40 vinnustundir í þeim mánuði og hafi vinnufyrirkomulagið verið þannig að kærandi hafi starfað 4,30 dagvinnustundir og 8,10 yfirvinnustundir. Launafjárhæð á launaseðli júní 2016 sé í samræmi við staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra. Samkvæmt tímaskráningum fyrir júní 2016 hafi kærandi unnið 12,40 vinnustundir í þeim mánuði. Samkvæmt tölvupóstsamskiptum við framkvæmdastjóra D ehf., dags. 28. nóvember til 1. desember 2016, verður ekki annað ráðið en að þar af hafi kærandi starfað 9,5 vinnustundir á tímabilinu 14. til 21. júní 2016 sem geri um 21% starfshlutfall. Þá hafi kærandi starfað 2,9 vinnustundir þann 4. júní 2016. Kærandi telur aftur á móti að hún hafi starfað 12,40 vinnustundir tímabilið 14. til 21. júní 2016 sem geri 27,2% starfshlutfall en hafi ekki fengið greitt fyrir vinnu 4. júní 2016 þar sem um ólaunaða starfsprufu hafi verið að ræða.

Af launaseðlum og tímaskráningum fyrir júlí og ágúst 2016, auk tölvupóstsamskipta við D ehf. frá 11. til 17. nóvember og tölvupóstsamskipta við D ehf. og kæranda á tímabilinu 28. nóvember til 2. desember 2016 hafi verið ráðið að kærandi hafi starfað í 27,6% starfshlutfalli hjá D ehf. tímabilið 16. til 31. júlí og 26,9% starfshlutfalli tímabilið 1. til 31. ágúst 2016.

Þegar gögn málsins hafi verið metin heildstætt hafi ekki annað verið séð en að kærandi hafi verið ráðin tímabundið í tilfallandi hlutastarf samkvæmt kjarasamningi VR og SA 2016 en ekki í að minnsta kosti 25% starfshlutfall. Þannig verði ekki annað séð en að starfshlutfall kæranda tímabilið 14. til 21. júní 2016 hafi verið 21%, 27,6% tímabilið 16. til 31. júlí og 26,9% tímabilið 1. til 31. ágúst 2016. Þá hafi laun verið greidd sem tímagjald fyrir dagvinnu og yfirvinnu miðað við unnar klukkustundir og mínútur í hverjum mánuði en ekki út frá tilteknu ráðningarhlutfalli sem styðji það að um tilfallandi hlutastarf hafi verið að ræða. Þá hafi framkvæmdastjóri D ehf. útskýrt að starfshlutfallið hafi verið tilfallandi en ráðningarrammi hefði getað orðið á bilinu 25–50% eða eins og til félli. Kærandi hafi unnið samkvæmt tímavinnu og það hafi sést á tímafjölda hvert starfshlutfallið hafi síðan orðið.

Að öllu framangreindu virtu hafi það verið mat Fæðingarorlofssjóðs að á tímabilinu 1. mars til 21. júní 2016 hafi kærandi uppfyllt skilyrði b-liðar 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000, enda hafi hún átt rétt til atvinnuleysisbóta. Hluta þess tímabils, þ.e. 14. til 21. júní 2016, hafi kærandi jafnframt verið í 21% tilfallandi hlutastarfi hjá D ehf. Tímabilið 22. júní til 15. júlí 2016 hafi kærandi verið erlendis og starfshlutfall 0% og skilyrði 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna, því ekki uppfyllt. Þá telur Fæðingarorlofssjóður að þar sem kærandi hafi ekki verið ráðin í að minnsta kosti 25% starfshlutfall á tímabilinu geti ákvæði a-liðar 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 um ólaunað leyfi ekki tekið til hennar aðstæðna auk þess sem tímabilið á undan hafi einungis verið 21% tilfallandi hlutastarf. Þá geti hún heldur ekki uppfyllt skilyrði b-liðar 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 á tímabilinu þar sem hún hafi verið erlendis. Tímabilið 16. júlí til 31. ágúst hafi kærandi síðan verið í að minnsta kosti 25% tilfallandi hlutastarfi og uppfylli því skilyrði 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna, á því tímabili.

Að mati Fæðingarorlofssjóðs hafi þannig ekki verið séð að kærandi uppfyllti skilyrði 11. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði tímabilið 22. júní til 15. júlí 2016 þegar hún hafi verið erlendis, sbr. 2. mgr. 7. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000.

Loks telur Fæðingarorlofssjóður málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttarins ekki hafa verið brotnar áður en endanleg ákvörðun hafi verið tekin í málinu 5. desember 2016. Málið hafi verið tekið fyrir að nýju að beiðni kæranda og reynt að leita staðfestingar á því að hún hafi verið ráðin í að minnsta kosti 25% starfshlutfall tímabilið 14. júní til 31. ágúst 2016 svo að heimilt væri að afgreiða hana með fæðingarstyrk foreldra í fullu námi. Af þeim skýringum, sem borist hafi frá framkvæmdastjóra D ehf. og af samanburði þeirra og afstöðu kæranda við þau gögn sem legið hafi til grundvallar ákvörðuninni, hafi ekki annað verið ráðið en að um tímabundið tilfallandi hlutastarf hafi verið að ræða.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 5. desember 2016. Kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 18. gr. laga nr. 95/2000, sbr. greiðsluáætlun, dags. 5. janúar 2017.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eiga foreldrar, sem verið hafa í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Samkvæmt 11. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk samkvæmt 1. mgr. 19. gr. þrátt fyrir að skilyrði um fullt nám í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.

Í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur fram að starfsmaður samkvæmt lögunum sé hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla laganna felur í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf, sbr. 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000. Þá kemur meðal annars fram í 2. mgr. 13. gr. a laganna að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði teljist einnig orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti.

Kærandi sótti um fæðingarstyrk með umsókn móttekinni 26. október 2016 vegna væntanlegrar barnsfæðingar x 2016. Nám kæranda hófst 1. september 2016 og þurfti kærandi því að vera að minnsta kosti sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir þann tíma, eða frá 1. mars til 31. ágúst 2016 til þess að eiga rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 11. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 til þess að eiga rétt á fæðingarstyrk.

Kærandi byggir á því að hún hafi verið í launalausu leyfi á framangreindu tímabili eins og staðfest hafi verið af yfirmanni hennar með yfirlýsingu 10. nóvember 2016. Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs hefur komið fram að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 11. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði tímabilið 22. júní til 15. júlí 2016 þegar hún var erlendis, sbr. 2. mgr. 7. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a laganna.

Í málinu liggur ekki fyrir skriflegur ráðningarsamningur og var ráðningarsamningur kæranda við vinnuveitanda því munnlegur. Þess ber að geta að ráðningarsamningar samkvæmt íslenskum rétti eru jafngildir hvort heldur þeir eru skriflegir eða munnlegir. Að sögn kæranda og vinnuveitanda var um tímabundið starf að ræða í 25–50% starfshlutfalli.

Í bréfi til Fæðingarorlofssjóðs frá yfirmanni kæranda, dags. 10. nóvember 2016, kemur fram að ráðning kæranda hafi verið tímabundin frá og með 14. júní 2016 til og með 31. ágúst 2016. Samkvæmt samkomulaginu var kæranda veitt launalaust leyfi frá störfum á tímabilinu 22. júní til 15. júlí 2016.

Samkvæmt gögnum málsins er nægjanlega staðfest að mati úrskurðarnefndarinnar að kærandi var í launalausu leyfi á því tímabili sem ágreiningur málsins lýtur að. Því til stuðnings er vísað til framangreindrar yfirlýsingar vinnuveitanda kæranda sem og atvika allra sem þykja styðja þá frásögn. Leyfi kæranda frá starfi með samþykki vinnuveitanda telur úrskurðarnefndin að líta skuli á sem launalaust leyfi í skilningi a liðar 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000. Með hliðsjón af því telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 5. desember 2016, um synjun á umsókn A, um fæðingarstyrk námsmanna er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira