Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 10/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 25. apríl 2019 kærir Geveko Markins Sweden AB útboð Vegagerðarinnar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 20916 auðkennt „Thermoplastic road marking materials for IRCA.“ Kærandi krefst þess að sú ákvörðun varnaraðila að velja tilboð Kelly Bros (Erinline) Ltd. í hinu kærða útboði verði felld úr gildi og að varnaraðila verði gert að velja tilboð kæranda. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu varnaraðila um að aflétta sjálfkrafa stöðvun sem komst á með kæru í þessu máli.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 10. maí 2019
í máli nr. 10/2019:
Geveko Markings Sweden AB
gegn
Ríkiskaupum,
Vegagerðinni og
Kelly Bros (Erinline) Ltd.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 25. apríl 2019 kærir Geveko Markins Sweden AB útboð Vegagerðarinnar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 20916 auðkennt „Thermoplastic road marking materials for IRCA.“ Kærandi krefst þess að sú ákvörðun varnaraðila að velja tilboð Kelly Bros (Erinline) Ltd. í hinu kærða útboði verði felld úr gildi og að varnaraðila verði gert að velja tilboð kæranda. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu varnaraðila um að aflétta sjálfkrafa stöðvun sem komst á með kæru í þessu máli.

Í mars 2019 óskaði varnaraðili eftir tilboðum í efni sem notuð eru til vegmerkinga. Í útboðsgögnum kom fram að velja skyldi það tilboð sem var lægst að fjárhæð. Þrjú tilboð bárust í útboðinu, og var tilboð Kelly Bros (Erinline) Ltd. lægst að fjárhæð. Tilboð kæranda var næst lægst og munaði aðeins um 1% á tilboðum þessara bjóðenda. Með tilkynningu 17. apríl 2019 var bjóðendum tilkynnt að ákveðið hefði verið að ganga til samninga við Kelly Bros.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu á því að hann hafi áður verið birgi varnaraðila og að það spari varnaraðila vandræði að þurfa ekki að taka upp nýjar vörur sem notaðar eru í tækjabúnaði þeirra. Vörur lægstbjóðanda hafi aldrei verið prófaðar á Íslandi og það sé þekkt að vörur frá Bretlandi geti skaðað tæki sem varnaraðili noti. Þá séu gæði vara lægstbjóðanda óþekkt.

Niðurstaða

Kærandi hefur ekki fært rök fyrir því að varnaraðili hafi brotið gegn útboðsskilmálum við val á tilboði í hinu kærða útboði eða brotið að öðru leyti gegn lögum eða reglum sem um útboðið gilda. Eru því ekki skilyrði til að viðhalda sjálfkrafa stöðvun innkaupaferlisins sem komst á með kæru í þessu máli, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að stöðvun samningsgerðar verði aflétt.

Ákvörðunarorð:

Stöðvun útboðs varnaraðila, Vegagerðarinnar, nr. 20916 auðkennt „Thermoplastic road marking materials for IRCA.“ er aflétt.

 

Reykjavík, 10. maí 2019

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður FinnbogadóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira