Úrskurður félags- og húsnæðismálaráðuneytis 8/2025
Föstudaginn 2. maí 2025 var í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, nú félags- og húsnæðismálaráðuneyti, sbr. forsetaúrskurð nr. 4/2025, um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, dags. 26. apríl 2023, kærði Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609 (hér eftir kærandi), ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. apríl 2023, um synjun um endurgreiðslu til kæranda á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, vegna veittrar aðstoðar kæranda við erlenda ríkisborgara.
Málavextir og málsástæður
Mál þetta varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. apríl 2023, um synjun um endurgreiðslu til kæranda á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, vegna veittrar aðstoðar kæranda við erlenda ríkisborgara.
Kærandi vildi ekki una fyrrnefndri ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hann því ákvörðunina til ráðuneytisins með erindi, dags. 26. apríl 2023, á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í erindi kæranda kemur meðal annars fram að skjólstæðingur kæranda hafi fengið alþjóðlega vernd í nóvember 2015 og samþykkta fjölskyldusameiningu í júlí 2021. Í ágúst 2021 hafi viðkomandi fengið samþykkta aðkomu Alþjóðlegu fólksflutningsstofnunarinnar (IOM) að flutningi barns hans til Íslands. Í erindi sínu til ráðuneytisins greinir kærandi frá því að aðstoð IOM hafi gengið hægt fyrir sig og að skilaboð frá þáverandi félags- og vinnumarkaðsráðuneyti hafi verið þau að umræddum skjólstæðingi kæranda væri sjálfum heimilt að aðstoða barn sitt frá heimalandi þess til Íslands og að kærandi gæti veitt skjólstæðingnum aðstoð hvað það varðar og fengið síðan 75% af ferðakostnaðinum greiddan frá ríkinu. Í kjölfar þess hafi skjólstæðingur kæranda leitað leiða við að koma barni sínu til landsins frá heimalandi þess með aðstoð kæranda og hafi flutningurinn gengið eftir í desember 2022.
Erindi kæranda var sent Vinnumálastofnun til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 11. maí 2023, og var frestur veittur til 26. maí 2023.
Í umsögn Vinnumálastofnunar, dags 24. maí 2023, kemur meðal annars fram að kærandi hafi þann 5. apríl 2023 sótt um endurgreiðslu frá Vinnumálastofnun vegna kostnaðar við veitta aðstoð kæranda við umræddan skjólstæðing vegna fjölskyldusameiningar. Jafnframt kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands hafi viðkomandi skjólstæðingur verið með skráð lögheimili hér á landi frá 10. nóvember 2015. Enn fremur kemur fram að í samræmi við b-lið 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sbr. einnig 9. gr. og 2. mgr. 1. gr. leiðbeinandi reglna fyrir sveitarfélög um móttökuþjónustu og aðstoð við félagslega þátttöku flóttafólks, hafi umsókn kæranda um endurgreiðslu kostnaðar vegna veittrar aðstoðar vegna fyrrnefndrar fjölskyldusameiningar þurft að berast innan tveggja ára frá lögheimilisskráningu skjólstæðings kæranda eða fyrir 10. nóvember 2017. Umsókn kæranda hafi hins vegar ekki borist Vinnumálastofnun fyrr en 5. apríl 2023 og uppfylli því ekki framangreint skilyrði að mati stofnunarinnar. Þá liggi fyrir í gögnum málsins að umsókn um fjölskyldusameiningu til Útlendingastofnunar sé dagsett 2. júlí 2019 en þá þegar hafi verið liðin meira en tvö ár frá lögheimilisskráningu skjólstæðings kæranda hér á landi. Samskipti við IOM og ráðuneytið eigi sér stað eftir þann tíma og hafi samskiptin að mati Vinnumálastofnunar engin áhrif á það lögbundna skilyrði að leggja skuli umsókn um endurgreiðslu fram innan tveggja ára frá lögheimilisskráningu. Með vísan til framangreinds telji Vinnumálastofnun að kæranda hafi réttilega verið synjað um endurgreiðslu kostnaðar vegna veittrar aðstoðar vegna fjölskyldusameiningar, sbr. ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. apríl 2023.
Með bréfi ráðuneytisins til kæranda, dags. 9. október 2023, var óskað eftir athugasemdum kæranda við umsögn Vinnumálastofnunar og var frestur veittur til 16. október 2023. Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda og er málið því tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu.
Niðurstaða
Í 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Félags- og húsnæðismálaráðuneyti fer með mál er varða Vinnumálastofnun, þar á meðal málefni innflytjenda og einstaklinga með vernd hér á landi, sem og með mál er varða félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. f- og j-lið 2. tölul. 4. gr. forsetaúrskurðar nr. 5/2025, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Stjórnsýsla hér á landi byggist á því að ráðherra hvers málaflokks fer með yfirstjórn þeirra mála sem undir hann heyra samkvæmt gildandi forsetaúrskurði hverju sinni og sinnir hann jafnframt eftirliti með þeirri starfsemi sem fellur undir málefnasvið hans. Í ljósi framangreinds verður því að ætla að stjórnvaldsákvarðanir, þar á meðal ákvörðun um synjun um endurgreiðslu til sveitarfélags á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, vegna veittrar aðstoðar sveitarfélagsins til erlendra ríkisborgara, sem teknar eru af þar til bæru stjórnvaldi á málefnasviði félags- og húsnæðismálaráðuneytis, sæti endurskoðun ráðuneytisins í samræmi við meginreglu 26. gr. stjórnsýslulaga þegar ekki hefur verið kveðið á um annað í öðrum lögum.
Í 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um skyldu ríkissjóðs til að endurgreiða sveitarfélagi veitta aðstoð í tilteknum tilvikum. Í því sambandi er annars vegar um að ræða aðstoð við erlenda ríkisborgara sem ekki eiga lögheimili í landinu og er í því samhengi vísað til 1. mgr. ákvæðisins, sbr. a-lið 2. mgr. ákvæðisins. Hins vegar er um að ræða aðstoð við erlenda ríkisborgara skv. 12. og 13. gr. laganna sem átt hafa lögheimili í landinu skemur en tvö ár, sbr. b-lið 2. mgr. ákvæðisins.
Fram kemur í gögnum málsins að sá skjólstæðingur kæranda sem kærandi hafi veitt aðstoð í máli þessu hafi verið með skráð lögheimili hér á landi frá 10. nóvember 2015. Í gögnum málsins kemur jafnframt fram að kærandi hafi veitt umræddum skjólstæðingi aðstoð í formi 93.200 kr. styrks þann 16. mars 2023 vegna kostnaðar skjólstæðingsins við fjölskyldusameiningu. Enn fremur kemur fram í gögnunum að kærandi hafi lagt fram umsókn til Vinnumálastofnunar, er snýr að endurgreiðslu fyrrnefnds kostnaðar vegna framangreindrar fjölskyldusameiningar, þann 5. apríl 2023 eða rúmum sjö árum frá því að viðkomandi skjólstæðingur kæranda skráði lögheimili sitt hér á landi.
Líkt og fram kemur í b-lið 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga takmarkast skylda ríkissjóðs til endurgreiðslu til sveitarfélags við veitta aðstoð hlutaðeigandi sveitarfélags við erlenda ríkisborgara sem átt hafa lögheimili í landinu skemur en tvö ár. Í athugasemdum við 15. gr. frumvarps þess er varð að gildandi 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að eðlilegt þyki að eftir tveggja ára búsetu erlends ríkisborgara á Íslandi gildi sama regla um hann og aðra íbúa sveitarfélagsins.
Í ljósi framangreinds er það mat ráðuneytisins að tvö ár hafi verið liðin frá því að umræddur skjólstæðingur kæranda skráði lögheimili sitt hér á landi þann 10. nóvember 2015 og þar til umsókn kæranda um endurgreiðslu fyrir veitta aðstoð við skjólstæðinginn barst Vinnumálastofnun þann 5. apríl 2023. Það er því jafnframt mat ráðuneytisins að heimild ríkissjóðs til endurgreiðslu á grundvelli b-liðar 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga hafi ekki verið til staðar í máli þessu.
Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að skilyrði b-liðar 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, fyrir endurgreiðslu á veittri aðstoð vegna erlendra ríkisborgara, hafi ekki verið uppfyllt í máli þessu.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. apríl 2023, um synjun á endurgreiðslu til kæranda á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, vegna veittrar aðstoðar kæranda við erlenda ríkisborgara, skal standa.