Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 122/2021- Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 122/2021

Miðvikudaginn 23. júní 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 2. mars 2021, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. janúar 2021 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 22. janúar 2021. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. janúar 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi fór fram á rökstuðning og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. febrúar 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. mars 2021. Með bréfi, dags. 9. mars 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. apríl 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. apríl 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að þess sé óskað að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri verði endurskoðuð.

Greint er frá því í kæru að kærð sé synjun um örorkumat frá 26. janúar 2021 á þeim grundvelli að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Kærandi sé nýlega orðinn 18 ára gamall og búi einn með móður sinni sem beri hitann og þungann af uppeldi hans, sem sé ekki lokið þótt hann sé orðinn lögráða, og samskiptum við sérfræðinga vegna fötlunar hans. Kærandi hafi verið hjá heimilislækni 11. febrúar 2021 og í þeirri skoðun hafi verið ákveðið að vísa honum áfram til geðteymisins hjá C svo að hann geti fengið frekari aðstoð við ýmsum vandamálum.

Kærandi glími við gífurlega mikla yfirþyngd sem hann hafi ekki skilning á að sé vandamál og af hverju það sé vandamál fyrir heilsu hans. Hann segist ekki vilja vera í yfirþyngd, en engu að síður hlusti hann ekki á neinar ráðleggingar. Í desember 2020 hafi þyngd hans verið 124,6 kg, en í skoðun heimilislæknisins 11. febrúar 2021 hafi þyngd hans verið 128,7 kg. Hér sé um að ræða gífurlega þyngdaraukningu á stuttum tíma.

Kærandi stundi nám við D og fái daglega pening til að kaupa sér mat í skólanum. Daglega sé honum sagt að velja hollari kostinn sem mötuneyti skólans bjóði upp á en hann gleymi því jafnóðum eða hlusti ekki. Hann geti ekki verið með óskertan aðgang að eigin fjármunum þar sem að allur aukapeningur fari í óþarfa mat og/eða sætindi. Hann hafi engan skilning á sínu magamáli, hvað sé hollt og hvað sé gott, hann taki ákvarðanir eins og honum sýnist um hvað teljist hollur matur og standi fastur á þeirri skoðun sinni þó að reynt sé að koma honum í skilning um að svo sé ekki.

Kærandi hafi ekki skilning, getu, þroska og/eða vilja til að framkvæma ýmsar daglegar og/eða venjulegar athafnir og ákvarðanir. Sem dæmi um það megi nefna að panta tíma hjá lækni/tannlækni, sækja lyf, panta tíma í klippingu, hugsa um eigið hreinlæti, taka ábyrgð á eigin fjármálum, setja í uppþvottavél samkvæmt ítarlegum leiðbeiningum og hvort það sé hreint eða skítugt í uppþvottavélinni. Hér sé um staðreyndir að ræða úr nánasta umhverfi kæranda sem hafi verið látið á reyna, þ.e. hvort hann geti framkvæmt þessa hluti sjálfur. Slíkt hafi hins vegar skapað pirring og vesen, þarna séu taldir upp hlutir sem hann vilji einfaldlega ekki gera og finnst betra að aðrir geri fyrir sig.

Kærandi geti verið mjög erfiður í skapi, þungur og sé mjög oft staðfastur með skoðanir sínar þótt þær séu ekki réttar og honum sé reynt að koma í skilning um það. Kærandi eigi mjög erfitt með að lesa í aðstæður sem skapast sem valdi oft vandamálum og árekstrum við aðra í kringum hann, bæði við ungmenni á hans aldri og fullorðna. Vandræði tengd mannlegum samskiptum séu risastór hluti af fötlun kæranda og það sé mjög vandmeðfarið hvernig eigi að ræða við hann og taka á slíkum árekstrum. Það vandamál hafi alltaf verið til staðar og muni að öllum líkindum alltaf vera til staðar, þó að vonandi verði eitthvað hægt að hjálpa honum þar. Kærandi muni hins vegar aldrei læra fullkomlega eðlileg samskipti við jafnaldra sína eða aðra einstaklinga.

Kæranda hafi verið synjað um örorku á þeirri forsendu að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Hann sé nýlega orðinn 18 ára og hafi verið undir handleiðslu sérfræðinga frá tveggja ára aldri, vandinn sé margþættur og valdi honum meiri erfiðleikum eftir því sem hann verður eldri. Það sé mat móður kæranda sem umönnunaraðila og sem þekki kæranda og hans vandamál að endurhæfing muni hér eftir litlu sem engu breyta hvað varði stöðu hans.

Kærandi sé og hafi alltaf verið og muni verða langt á eftir sínum jafnöldrum í félagslegum og andlegum þroska og almennum skilningi á lífinu. Það sé útilokað að staða hans og félagslegur og andlegur þroski muni breytast þannig næstu ár að hann teljist ekki fatlaður í skilningi laga um örorku.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um örorkulífeyri.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18-67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Um aðrar tengdar bætur fari eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. 

Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. Til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Í 37. gr. laganna sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins.

Kærandi hafi sótt um örorkumat til Tryggingastofnunar með umsókn þann 22. janúar 2021. Örorkumati hafi verið synjað samkvæmt 18. gr. og 19. gr. laga um almannatryggingar þar sem í tilviki kæranda hafi ekki verið reynd endurhæfing en í því samhengi hafi verið vísað á endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Beiðni kæranda um örorkumat hafi verið synjað með bréfi 26. janúar 2021. Rökstuðningur hafi verið veittur vegna þeirrar synjunar þann 15. febrúar 2021. Í rökstuðningi tryggingayfirlæknis hafi meðal annars komið fram að kærandi sé einungis 18 ára gamall og vanti því allt að sjö ár áður en fullum taugaþroska verði náð. Kærandi glími við samsettan vanda sem ágætlega sé lýst í læknisvottorði og bréfi móður. Þá komi fram að kærandi sé námsfús en óvíst hver endanleg starfsgeta geti orðið. Í ljósi þess að fullum taugaþroska sé ekki náð sé metið að viðeigandi hæfing og þjálfun með mögulegum stuðningi endurhæfingarlífeyris (jafnvel 36 mánuðir) sé nauðsynleg áður en að örorkumati kemur.

Við mat á örorku hafi tryggingalæknir stuðst við þau gögn sem hafi legið fyrir. Við örorkumat 26. janúar 2021 hafi legið fyrir læknisvottorð E, dags. 21. janúar 2021, svör við spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 22. janúar 2021, og umsókn, dags. 22. janúar 2021. Þá hafi verið til eldri gögn vegna fyrri umönnunarmata hjá kæranda fyrir 18 ára aldur.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er gerð grein fyrir því sem kemur fram í læknisvottorði E, dags. 21. janúar 2021.

Af gögnum málsins sé ekki að sjá að reynt hafi verið að taka á heilsufarsvanda kæranda með skipulögðum og markvissum hætti með starfshæfni að markmiði. Tryggingastofnun telji að hægt sé að taka á þeim heilsufarsvandamálum kæranda sem nefnd séu í læknisvottorði með fjölmörgum endurhæfingarúrræðum. Það verði því að teljast eðlilegt skilyrði að kærandi gangist undir endurhæfingu áður en hann verði metinn til örorku. Þar af leiðandi telji Tryggingastofnun ekki heimilt að meta örorku kæranda áður en sýnt hafi verið fram á að endurhæfing kæranda sé fullreynd.

Það sé mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði um örorkumat hjá stofnuninni að svo stöddu þar sem endurhæfing hafi ekki verið reynd nægjanlega og talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda. Á þeim forsendum telji Tryggingastofnun ríkisins það vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja um örorkumat í tilviki kæranda og vísa í endurhæfingu.

Í því sambandi skuli þó áréttað að það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna kæranda, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklinganna hverju sinni.

Tryggingastofnun telji nauðsynlegt að kærandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Mikilvægt sé að einstaklingar, sem hugsanlega sé hægt að endurhæfa, fullnýti öll möguleg endurhæfingarúrræði sem í boði séu við þeim heilsufarsvandamálum sem hrjái þá. Með endurhæfingarúrræðum í þessum skilningi sé átt við þverfagleg, einstaklingsmiðuð úrræði sem eigi að stuðla að virkri þátttöku einstaklingsins í samfélaginu. Þá verði ekki ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að endurhæfing geti ekki komið að gagni.

Á grundvelli þeirrar röksemdarfærslu og gagna málsins hafi tryggingalæknar Tryggingastofnunar talið við mat á umsókn kæranda um örorkulífeyri að reglur og lög um endurhæfingarlífeyri gætu átt við í tilviki kæranda. Þess vegna hafi kæranda verið bent á í ljósi frekar ungs aldurs að sækja fyrst um endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja um örorkumat að svo stöddu og vísa í endurhæfingu, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Jafnframt skuli áréttað að kærð ákvörðun hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum. Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu á fyrri ákvörðun sinni um synjun á örorkumati að svo stöddu.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. janúar 2021 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið reynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð E, dags. 21. janúar 2021. Í vottorðinu koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„[Obesity

Obsessive-compulsive disorder, unspecified

Specific developmental disorder of motor function

Atypical Autism

Oppositional defiant disorder

Emotional disoders with onset specific to childhood

Congentila hyptonia

Röskun í vöðva, ótilgreind]“

Í læknisvottorðinu segir um fyrra heilsufar:

„[...] Eins og kom fram [...] í fyrri vottorðum þá hafa verið áhyggjur með þroska drengsins frá unga aldri, seinn í mörgum þroskaáföngum, einkum á grófhreyfi sviði auk þess sem að hann er með congenital global hypotoniu. Hann hefur verið í stöðugu eftirliti hjá taugalækni vegna þessa en ekki hefur fundist klár orsök. Hann hefur þurft viðvarandi sjúkraþjálfun vegna þessa ástands og er enn sem fyrr töluvert á eftir jafnöldrum í hreyfifærni. Það er því nauðsynlegt að hann fái sjúkraþjálfun áfram til að viðhalda og auka getu. Ennfremur hafa verið erfiðleikar í tjáningu og er hann greindur með dyspraxiu í talfærum og þarf stöðuga talþjálfun. Vissar framfarir í málskilningi en á enn í töluverðum erfiðleikum með tjáningu. Miklir erfiðleikar í félagslegri aðlögun og hegðunarerfiðleikar hafa alltaf verið til staðar. Endurmat á þroska og heguðun frá því vorið 2012 sem gert var á vegum skólaskrifstofu F staðferstir hamlandi einkenni ADHD, ODD og hvatvísi auk þess sem töluverð einkenni á einhverfurófi komu fram. Greindarpróf á sama tíma sýndi heildartölugreindar 77 sem er slök geta. Endurmat á vitsmunaþroska ( nóvember 2014) með WISC-IV sýnir hins vegar almennan vitsmunaþroska nálægt viðmiðunargetu jafnaldra en töluvert mikil dreyfing er á úrlausnum. Einkenni gagntækra þroskaraskana sem hafa alla tíð verið umtalsverð og valdið honum miklum vanda í félagslegri aðlögun eru nú staðfest. Á ADOS 2 og að hluta 3 uppfyllir hann greiningarviðmið fyrir ódæmigerða einhverfu. Þroska og hegðunarstöð hefur yfirfarið þau gögn og metið fullnægjandi til að staðfesta þá hans greiningar. Hér er því um að ræða dreng með ódæmigerða einhverfu, ADHD, ODD, hvatvísi og veruleg frávik á hreyfisviði og í tali og tjáningu sem þarf töluverðan stuðning við athafnir daglegs lífs. Einkenni áráttu-þráhyggju hafa verið vaxandi aðallega tengt mat. Hann er í dag að glíma við mikla offitu sem illa hefur gengið að hafa stjórn á. Offitan hamlar enn frekar hreyfifærni og hann er með skert gönguþol og úthald. Búið er að útiloka Prader-Willi heilkenni hjá honum með erfðarannsókn.“

Í læknisvottorðinu segir um núverandi heilsuvanda og færniskerðingu kæranda:

„Samskiptaerfiðleikar og vandamál með tilfinningastjórn vegna einhverfu, ODD og OCD. Einnig skert hreyfifærni vegna meðfæddrar lágrar vöðvaspennu og offitu. A hefur átt í miklum erfiðleikum með að passa upp á mataræði og sækir í óhollustu. A hefur litla tilfinningu fyrir peningum og verðgildi hluta. Honum eru því skammtaðir fjármunir sem hann eyðir jafnharðan í skyndibita. A stundar nám við D og sækist námið ágætlega. Félagslega er hann hins vegar mjög einangraður. Kemur heim að loknum skóladegi og leggst upp í rúm með tölvu og gerir lítið annað fyrir utan að borða. Gengið mjög illa að fá hann í virkni og offita hefur aukist jafnt og þétt sem hefur ekki hjálpað til.“

Um lýsingu læknisskoðunar segir:

„Gríðarleg offita, hægur í hreyfingum og hokinn. Opin mynntur og óskýr í tali. Talar lágt og hægt. Þyngd 124,6kg hæð 182cm blþ 126/77 púls 93. Hjarta og lungnahlustun eðlileg engin auka eða óhljóð. Mikill panniculus og erfitt að þreyfa kvið. Töluvert húðslit á síðum og baki en ekki merki um acanthosis nigricans. Vöðvaspenna almennt lág en gróf neurologisk skoðun innan eðlilegra marka. Þó nokkur valgus í ökklum og gengur á innanverðum jörkunum. Hreyfigeta takmörkuð vegna offitu og lágrarvöðvaspennu.“

Þá segir í vottorðinu að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni aukist. Í athugasemdum segir að kærandi sé mögulega fær um að sinna léttri vinnu á vernduðum vinnustað en annars sé hann óvinnufær.

Fyrir liggur einnig ódagsett bréf móður kæranda þar sem hún greinir frá greiningum kæranda, félagslífi, samskiptum, matarvenjum, hreinlæti og fleiru. Einnig liggja fyrir ýmis gögn vegna umönnunarmata vegna kæranda.

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem lagður var fram með umsókn kæranda um örorku, svaraði hann spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í svörum kæranda varðandi líkamlega færni kemur fram að hann eigi í erfiðleikum með ýmsar daglegar athafnir. Hvað varðar andlega færni kæranda greinir hann frá athyglisbresti og ofvirkni, einhverfu, mótþróaröskun og að hann taki oft reiðiköst. 

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Fyrir liggur að kærandi er með varanlega fötlun sem mun hafa áhrif á starfsgetu hans til frambúðar. Í fyrrgreindu læknisvottorði E kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni aukist en að möguleiki sé á því að kærandi sé fær um að vinna létta vinnu á vernduðum vinnustað. Fyrir liggur að kærandi er mjög ungur að árum og hefur ekki látið reyna á endurhæfingu. Í ljósi framangreinds telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að kærandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. janúar 2021 um að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira