Hoppa yfir valmynd

1066/2022. Úrskurður frá 24. febrúar 2022

Úrskurður

Hinn 24. febrúar 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1066/2022 í máli ÚNU 21090010.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 13. september 2021, kærði A afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni hans um aðgang að siðareglum fyrir kjörna fulltrúa hjá bænum, með undirritun fulltrúanna. Kærandi óskaði eftir gögnunum hinn 14. maí 2021. Í svari til kæranda, dags. 19. maí sama ár, var kæranda beint á vefslóð á vef bæjarins þar sem siðareglurnar eru hýstar, án undirritunar. Í kæru óskar kærandi eftir því að sér verði afhentar siðareglur með undirritun kjörinna fulltrúa hjá bænum.
Úrskurðarnefndin átti í samskiptum við Vestmannaeyjabæ vegna málsins á tímabilinu 6. til 21. janúar 2022. Við málsmeðferðina kom í ljós að til voru siðareglur fyrir kjörna fulltrúa hjá bænum sem staðfestar höfðu verið af innanríkisráðuneytinu með erindi, dags. 19. ágúst 2015. Voru þær afhentar kæranda með erindi, dags. 14. janúar 2022. Af hálfu Vestmannaeyjabæjar kom fram að ekki lægju fyrir hjá bænum frekari gögn sem heyrðu undir gagnabeiðni kæranda.

Niðurstaða

Kæra í máli þessu barst að liðnum þeim 30 daga kærufresti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Þá barst hún einnig að liðnum þeim almenna þriggja mánaða kærufresti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í ljósi þess að kæranda var ekki leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, líkt og er skylt skv. 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga, telur úrskurðarnefndin að það sé afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í málinu hefur kærandi óskað eftir að sér verði afhentar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa Vestmannaeyjabæjar, undirritaðar af viðkomandi fulltrúum. Bærinn hefur beint kæranda á vefslóð þar sem siðareglurnar er að finna, án undirritunar. Þá hefur bærinn jafnframt sent honum siðareglurnar með staðfestingu innanríkisráðuneytisins. Í skýringum Vestmannaeyjabæjar kemur fram að frekari gögn sem heyri undir gagnabeiðni kæranda liggi ekki fyrir hjá bænum. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga þær skýringar í efa.

Samkvæmt framangreindu verður lagt til grundvallar að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. sömu laga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefnd um upplýsingamál að vísa kæru þar að lútandi frá.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 13. september 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira