Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 585/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 585/2021

Þriðjudaginn 8. mars 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Helgi Viborg sálfræðingur

Með kæru, dags. 4. nóvember 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 12. október 2021 vegna umgengni hans við D. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

D er rúmlega X ára gamall drengur sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi var sviptur forsjá drengsins með dómi Héraðsdóms B þann 10. maí 2019 sem var síðan staðfestur í Landsrétti þann 11. október 2019. Kærandi er kynfaðir drengsins.

Mál drengsins var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 12. október 2021. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 24. ágúst 2021, sem lögðu til óbreytta umgengni, tvisvar á ári í tvær klukkustundir undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar B. Kærandi var ekki samþykkur tillögu starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að D, hafi umgengni við föður sinn, A, fjórum sinnum á ári, tvær klukkustundir í senn. Umgengni verði undir eftirliti og fari fram í húsnæði Barnaverndar B í nóvember og maí ár hvert.

Skilyrði umgengni er að faðir sé edrú og í andlegu jafnvægi að mati eftirlitsaðila. Umgengni verði með þessum hætti í varanlegu fóstri.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 4. nóvember 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 5. nóvember 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 3. desember 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. desember 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að úrskurðað verði um reglulega umgengni. Í fyrsta lagi að drengurinn dvelji á heimili kæranda aðra hvora helgi, frá því að [skóla] lýkur á föstudegi og þar til að hann hefst á ný á mánudegi. Kærandi sæki hann í [skóla] á föstudögum og komi honum þangað á mánudagsmorgni. Í öðru lagi að drengurinn dvelji hjá kæranda frá hádegi á aðfangadegi til hádegis þann 27. desember annað hvert ár, í fyrsta sinn árið 2021. Jafnframt dvelji hann hjá kæranda frá hádegi á gamlársdag til klukkan 16:00 á nýársdag, annað hvert ár, í fyrsta sinn árið 2022. Í þriðja lagi að drengurinn dvelji hjá kæranda aðra hvora páska frá hádegi á skírdag fram til hádegis á páskadag, í fyrsta sinn árið 2022. Auk þess aðra hverja páska frá hádegi á páskadag fram til klukkan 18:00 annan dag páska, í fyrsta sinn árið 2023. Í fjórða lagi að drengurinn dvelji hjá kæranda einn mánuð í sumarfríi ár hvert, annað hvort ár frá 15. júní til 15. júlí, í fyrsta sinn árið 2021 og hitt árið á móti frá 15. júlí til 15. ágúst, í fyrsta sinn árið 2022.

Þá gerir kærandi kröfu um að vilji drengsins til þess að umgangast kæranda við eðlilegar aðstæður, án afskipta og eftirlits, verði kannaður eftir að hann hafi fengið raunhæft tækifæri til að treysta tengslin við kæranda. Einnig að sú könnun verði gerð af hlutlausum aðilum og í hlutlausu umhverfi. Eins sé þess krafist að fósturmóður drengsins verði ekki gert viðvart um það fyrir fram hvar og hvenær verði rætt við hann, enda sé hætta á að það geti haft áhrif á hvað barnið sé tilbúið til að láta uppi við ókunnuga.

Í kæru er greint frá því að málið sé tekið fyrir vegna kröfu kæranda um eðlilega umgengni við syni sína sem séu í fóstri hvor á sínu heimilinu. Málið varði þó aðeins yngri drenginn. Umgengniskröfunni hafi fylgt ítarleg greinargerð þar sem skýrðar séu forsendur föður fyrir kröfunni og vísað til íslenskra laga, alþjóðlegra mannréttindasáttmála og dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu.

Í úrskurði Barnaverndarnefndar B sé enga umfjöllun að finna um rök föður fyrir kröfunni heldur látið við það sitja að nefna þau, án þess að þeim sé í nokkru svarað.

Ekkert sé fjallað um þau rök kæranda í úrskurði barnaverndarnefndar að sú forsenda barnaverndarnefndar að umgengni barna í fóstri við foreldra sína þjóni aðeins því markmiði að barnið þekki uppruna sinn, standist ekki alþjóðlega mannréttindalöggjöf. Í greinargerðum kæranda séu reifuð lagarök fyrir því að framkvæmd íslenskra barnaverndaryfirvalda sé að þessu leyti lögleysa en Barnaverndarnefnd B skauti fram hjá þeirri umfjöllun og fullyrði að sú umgengni sem drengurinn hafi haft við kæranda, það er tvisvar á ári, sé í samræmi við 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sú túlkun standist ekki skoðun, enda myndi enginn maður skilgreina samverustund foreldris og barns tvisvar til fjórum sinnum á ári sem persónuleg tengsl eða beint samband með reglubundnum hætti.

Þá sé hvergi í úrskurðinum vikið að umfjöllun í greinargerð kæranda um túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem ítarlega sé reifuð í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, meðal annars þeim dómum sem vísað sé til í greinargerðinni. Þá hafi Mannréttindadómstóll Evrópu ítrekað staðfest þá afstöðu sína að fóstursamningur geti ekki útrýmt rétti barns og lífforeldris til að umgangast. Reyndar séu blóðtengsl talin svo mikilvæg að ekki einu sinni ættleiðing útrými sjálfkrafa umgengnisrétti lífforeldra ef annmarkar séu á málsmeðferð, sbr. umfjöllun Mannréttindadómstóls Evrópu í máli I.S. gegn Þýskalandi.

Einnig sé fullyrt að tekið hafi verið tillit til vilja drengsins samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans og að vilji drengsins hafi verið kannaður í samræmi við vilja kæranda. Hvorug fullyrðingin standist skoðun.

Hvað varði 12. gr. Barnasáttmálans vísist til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu í þeim málum sem varði umgengni barna og foreldra. Samkvæmt Mannréttindadómstóli Evrópu sé ekki nóg að fá fram vilja barnsins heldur sé einnig nauðsynlegt að skoða á hverju tjáning barnsins á vilja sínum byggist. Þegar vilji barns sé metinn verði meðal annars að taka tillit til foreldrafirringar, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Pisica gegn Moldovu og Ignaccolo-Zenide gegn Rúmeníu. Að sama skapi verði að reikna með því að langvarandi aðskilnaður liti afstöðu barnsins, jafnvel þó að engin bein innræting hafi átt sér stað.

Kærandi hafi síður en svo óskað eftir því að staðið væri að málunum með þeim hætti sem gert hafi verið, heldur hafi þess verið krafist að drengurinn fengi fyrst að umgangast kæranda við eðlilegar aðstæður, án afskipta og eftirlits. Einnig hafi þess verið krafist að sú könnun yrði gerð af hlutlausum aðilum og í hlutlausu umhverfi og að fósturmóðir drengsins yrði ekki gert viðvart um það fyrir fram hvar og hvenær yrði rætt við hann. Þessar óskir hafi verið með öllu hunsaðar.

Á því sé byggt að ekki sé raunhæft að fá fram raunverulega viljaafstöðu svo ungs barns þegar umgengni hafi verið í mýflugumynd í þrjú ár samfleytt. Barn á þeim aldri hafi ekki þroska til að sjá fyrir sér aðstæður sem það hafi enga reynslu af og eigi jafnvel engar minningar um. Einnig sé bent á að í talsmannsskýrslu komi fram að drengurinn eigi erfitt með að skilja tíma og rúm og því sé ekkert undarlegt að hann lýsi ekki vilja til að vera annars staðar en hann sé vanur dögum saman. Að sjálfsögðu þyrfti barnið að fá aðlögun að þeirri umgengni sem kærandi fari fram á, enda hafi verið gert ráð fyrir slíkri aðlögun í umgengniskröfunni frá 3. maí, en í úrskurðinum sé ekki að finna neina skýringu á því hvers vegna ekki hafi verið látið reyna á aðra aðlögun en þá að fósturmóðir vilji ekki að drengurinn hitti kæranda nema einu sinni á ári.

Enn fremur virðist úrskurðurinn byggja að hluta á einhliða frásögn fósturmóður af ástandi og framförum barnsins, án þess að nokkuð hafi verið gert til að grafast fyrir um hið sanna í málinu. Þannig sé fullyrt í úrskurðinum að drengurinn sé breyttur í útliti eftir að hann hafi verið vistaður hjá fósturmóður og hafi nú kinnar og eðlilegan húðlit. Fósturmóðir hafi áður haldið því fram að barnið hafi verið með bauga undir augum sem hafi horfið eftir að hann hafi komið í hennar umsjá. Hið rétta sé að drengurinn sé með bauga sem liggi í ættum og hafi það ekkert breyst með tilkomu fósturs. Kærandi vísi í myndir sem meðfylgjandi séu gögnum málsins og telji að ekki verði ráðið af þeim myndum að vistun barnsins hafi haft áhrif á kinnar þess eða húðlit. Þá geti það varla talist tíðindi þó að barn breytist í útliti á þremur árum og væri reyndar áhyggjuefni ef svo væri ekki.

Það sama megi segja um þá staðreynd að drengurinn hafi þroskast á þeim árum sem liðin séu frá því að hann hafi verið í umsjá foreldra sinna. Það sé ekki með nokkru móti hægt að fullyrða að þroski barnsins hefði orðið minni eða hægari ef hann hefði verið í umsjá kæranda en engu að síður virðist sú afstaða að hann eigi að hafa sem minnsta umgengni við kæranda byggja að hluta til á því sjónarmiði.

Þar sem fósturmóðir fari rangt með atriði sem auðvelt sé að afla sönnunar um, eins og útlit barnsins, sé heldur ekki hægt að leggja til grundvallar fullyrðingar hennar um líðan og hegðun barnsins heima fyrir. Með þessu sé ekki dregið í efa að drengnum líði vel á fósturheimilinu heldur aðeins verið að benda á að fósturmóðir sé ekki hlutlaus og áreiðanlegur umsagnaraðili, auk þess sem ekkert hafi komið fram sem mæli gegn því að barninu myndi líða jafn vel í umsjá kæranda sem hafi nú um langt skeið haldið sig frá áfengi og öðrum vímugjöfum og búi við ágætar aðstæður.

Tilgangurinn með rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar sé sá að afla nægilegra upplýsinga til þess að hægt sé að taka sem besta ákvörðun í máli. Sú regla þjóni ekki tilgangi sínum ef stjórnvöld vísi aðeins til raka aðila fyrir kröfum sínum, án þess að skoða þau af alvöru og án þess að taka nokkra afstöðu til þeirra. Verði ekki séð að nefndin hafi skoðað rök kæranda í málinu, kynnt sér löggjöfina, dómaframkvæmdina eða þau meginsjónarmið sem liggi að baki rétti barna og foreldra til að halda tengslum og umgangast reglulega, hafi þau verið aðskilin.

Ljóst sé að samkvæmt alþjóðalögum eigi börn í fóstri sama rétt til umgengni við foreldra sína og svokölluð skilnaðarbörn. Oftar en ekki dvelji börn fráskilinna foreldra hjá forsjárlausu foreldri aðra hvora helgi, auk þess að njóta aukinnar umgengni um hátíðir og í sumarfríi.

Meginregluna um tengsla- og umgengnisrétt barna sem hafi verið skilin frá foreldrum sínum, sé að finna í 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmálans sem hljóði svo:

„Aðildarríki skulu virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.“

Þá hafi mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gefið það út að það sem barni sé fyrir bestu hafi sömu merkingu hvort heldur börn hafi verið skilin frá foreldrum sínum vegna sambúðarslita eða fyrir milligöngu ríkisins. Þá gildi allar reglur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um öll börn, án aðgreiningar, og 9. gr. sáttmálans gildi jöfnum höndum um börn í fóstri sem og önnur börn, óháð þeim ástæðum sem liggi að baki aðskilnaðinum á milli foreldris og barns. Enda væri það ótækt að mismuna börnum eftir aðstæðum þeirra eða foreldra.

Lögin séu skýr, það séu mannréttindi sonar kæranda að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við kæranda með reglubundnum hætti. Spurningin sé ekki hvort hann eigi að njóta þess réttar heldur hvernig skuli standa að því að koma á löglegu ástandi. Í úrskurði Barnaverndarnefndar B sé vísað til 9. gr. Barnasáttmálans og þar með fallist á að sú grein eigi við um börn í varanlegu fóstri. Á því sé hins vegar byggt að túlkun nefndarinnar um að umgengni fjórum sinnum á ári teljist fullnægja skilyrðum 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmálans, standist ekki.

Í fyrsta lagi standist það ekki túlkun samkvæmt orðanna hljóðan, það er „persónuleg tengsl, beint samband með reglubundnum hætti“. Á því sé byggt að þrjú skipti á ári, fyrir ung börn þar sem tíminn líði hægt, geti ekki talist uppfylla skilyrði ákvæðisins samkvæmt orðanna hljóðan.

Í öðru lagi fari yfirlýst markmið barnaverndarnefndar með umgengni, það er um að viðhalda hvorki tengslum né styrkja þau heldur aðeins að börn þekki uppruna sinn, gegn yfirlýstu markmiði ákvæðis 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, auk 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, sem sé einmitt það að barn viðhaldi persónulegum tengslum og beinu sambandi við foreldri sitt. Slíkum persónulegum tengslum og beinu sambandi verði ekki viðhaldið nema samskipti séu regluleg, sbr. orðalagið „með reglubundnum hætti“.

Til stuðnings megi til dæmis nefna álit umboðsmanns barna, dags. 25. mars 2014, þar sem fram komi hvaða reglur Barnasáttmálans, Mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrár gildi um rétt fósturbarna til umgengni við foreldri sitt og að sömu reglur gildi um öll börn sem hafi verið aðskilin frá foreldri, sbr. 65. gr. stjórnarskrár. Í áliti umboðsmanns barna sé vísað til 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmálans, 71. gr. stjórnarskrárinnar, auk 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og túlkun á þeim sé eftirfarandi:

„Af fyrrnefndum ákvæðum er ljóst að umgengni barns við foreldri verður að vera regluleg, þannig að barn nái annaðhvort að viðhalda þeim tengslum sem til staðar eru eða tengsl nái að myndast. Ennfremur þarf að sjálfsögðu að tryggja öllum börnum sama rétt, án mismununar, sbr. m.a. 2. gr. Barnasáttmálans og 65. gr. Stjórnarskrárinnar… óheimilt er að mismuna börnum eftir stöðu þeirra sjálfra eða foreldra þeirra… Réttur barns er sá sami óháð því hvort að barn búi hjá öðru foreldri eða fósturforeldrum.“

Túlkun umboðsmanns barna sé í samræmi við túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu og barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna á ákvæðum Barnasáttmálans. Túlkun Barnaverndarnefndar B eigi sér hins vegar enga stoð í lögskýringargögnum né orðanna hljóðan ákvæðisins. Réttur fósturbarna til umgengni við foreldri sitt sé ekki minni en réttur skilnaðarbarna, sá réttur sé hinn sami. Það þýði þó ekki sjálfkrafa að umgengni eigi að vera svona eða hinsegin, heldur þurfi ávallt að meta hvað teljist vera barni fyrir bestu hverju sinni, sbr. 3. mgr. Barnasáttmálans, 4. gr. barnaverndarlaga og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, auk 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Ákvæði 74. gr. barnaverndarlaga og athugasemdir í greinargerð sem skýri ákvæðið, sé í fullu samræmi við framangreindar skýringar umboðsmanns. Það sé hins vegar túlkun barnaverndaryfirvalda og úrskurðarnefndarinnar á ákvæði 74. gr. sem gangi í berhögg við umrædd ákvæði Barnasáttmálans, Mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrár. Bent sé á að í athugasemdum með 74. gr. barnaverndarlaga segi að ákvæðið byggi á þeim alþjóðasáttmálum sem Ísland hafi fullgilt. Þar segi enn fremur að „ef neita á um umgengnisrétt eða takmarka hann verulega verður þannig að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins“. Ekkert slíkt sé fyrir hendi í því máli sem nú sæti kæru. Þvert á móti sé kærandi edrú og í langtímabata, auk þess sem umgengni hafi ávallt gengið mjög vel.

Óheimilt sé að hafa vélræna nálgun á það þar sem sama umgengnin sé alltaf ákvörðuð fyrir fósturbörn á þeim eina grunni að markmið fóstursins sé að aðlagast fósturfjölskyldu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu komi miklu fleiri sjónarmið til skoðunar og allt önnur þegar lagt sé mat á hvað teljist vera barni fyrir bestu hverju sinni.

Kærandi bendi á að ekkert raunverulegt mat á því hvað teljist vera drengnum fyrir bestu þegar komi að umgengnisrétti hans, hafi farið fram. Augljóslega sé ekki að marka tjáningu barns á vilja sínum þegar það hafi ekki fengið raunhæft tækifæri til að umgangast kæranda oftar en tvisvar á ári undir eftirliti. Auk þess sem sú gallaða talsmannsskýrsla sem lögð sé til grundvallar virðist helst vera byggð á einhvers konar venju um að umgengni í fóstri eigi að vera tvö til þrjú skipti á ári, óháð öllu öðru. Sú venja byggi ekki á neinum lagarökum heldur fari þvert á móti gegn lögum, mannréttindum og stjórnarskrá. Þá gangi yfirlýst markmið barnaverndarnefndar með slíkri umgengni enn fremur gegn markmiði þeirra mannréttindasáttmála sem um umgengnina gildi.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að um sé að ræða D, rúmlega X ára gamlan dreng, sem lúti forsjá Barnaverndarnefndar B eftir að foreldrar drengsins hafi verið sviptir forsjá með Héraðsdómi B þann 10. maí 2019. Málefni drengsins hafi verið til könnunar og meðferðar hjá Barnavernd B með hléum frá árinu 2015. Flestar tilkynningar hafi borist á tímabilinu október 2017 og þar til 13. júní 2018 þegar gripið hafi verið til neyðarráðstöfunar samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og hafi drengurinn þá verið vistaður á E, vistheimili barna. Drengurinn hafi fyrst verið vistaður hjá fósturmóður sinni frá 4. júlí 2018 í tímabundið fóstur og síðar í varanlegu fóstri frá 13. maí 2019. Frá því að drengurinn hafi verið vistaður hjá fósturmóður sinni hafi hann tekið miklum framförum. Orðaforði drengsins hafi aukist og drengurinn fengið aukið úthald í lestri og leik. Í upplýsingum frá leikskóla, dags. 26. ágúst 2021, komi fram að drengurinn sé öruggur með sig og glaðlegur ásamt því að góð tengsl séu á milli drengsins og fósturmóður og að vistun drengsins hjá fósturmóður hafi haft jákvæð áhrif á líðan, hegðun og öryggi drengsins.

Á fundi Barnaverndarnefndar B þann 7. september 2021 hafi verið fjallað um umgengni föður við drenginn. Fyrir fundinn hafi legið fyrir greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 24. ágúst 2021, þar sem starfsmenn hafi lagt til að kærandi ætti umgengni við drenginn tvisvar á ári í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði barnaverndar. Þann 12. október 2021 hafi nefndin úrskurðað að kærandi ætti umgengni við drenginn fjórum sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn og komi fram í bókun nefndarinnar að nefndin hafi viljað að áhersla yrði lögð á að starfsmenn barnaverndar styðji kæranda og fósturmóður í að ná góðu samstarfi um umgengni, barninu til hagsbóta. Fram að því hafi faðir átt umgengni við drenginn tvisvar á ári í tvær klukkustundir í senn samkvæmt úrskurði nefndarinnar, dags. 10. september 2019, sem úrskurðarnefnd velferðarmála hafi staðfest þann 28. ágúst 2019 í máli nr. 162/2019. Umgengni hafi því verið aukin úr tveimur skiptum í fjögur skipti á ári.

Fyrir fund nefndarinnar hafi legið fyrir greinargerð kæranda, dags. 3. september 2021. Í greinargerð komi fram kröfur kæranda um reglulega umgengni við drenginn. Þar hafi kærandi viljað að drengurinn myndi dvelja á heimili föður aðra hvora helgi. Kærandi hafi einnig krafist jóla- og áramótaumgengni, páskaumgengni og sumarumgengni. Það hafi komið fram að í sumarumgengni hafi kærandi viljað fá drenginn til sín í mánuð í senn.

Í kæru sé vísað til þess að málið hafi verið tekið fyrir vegna kröfu um eðlilega umgengni við syni kæranda sem séu í varanlegu fóstri. Kærandi færi rök fyrir kröfu sinni og vísi til íslenskra laga, alþjóðlegra mannréttindasáttmála og dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu.

Kærandi geri athugasemdir í kæru sinni við það að enga umfjöllun hafi verið að finna í úrskurði Barnaverndarnefndar B um þau rök sem kærandi hafi lagt fyrir nefndina heldur hafi nefndin látið við það sitja að svara þeim. Kærandi vísi í 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að aðildarríki skuli virða rétt barns sem skilið hafi verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við foreldri með reglubundnum hætti, sé það ekki andstætt hagsmunum barnsins. Kærandi vísi einnig til túlkunar Mannréttindadómstóls Evrópu á ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu er varði friðhelgi einkalífs og fjölskyldu.

Í kæru komi fram að sú fullyrðing um að tekið hafi verið tillit til vilja drengsins samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans, standist ekki skoðun og að ekki hafi verið kannaður vilji drengsins í samræmi við vilja kæranda. Gagnrýnt sé að kærandi hafi krafist þess að drengurinn fengi að umgangast hann við eðlilegar aðstæður, án afskipta og eftirlits, og að könnun yrði gerð af hlutlausum aðila og í hlutlausu umhverfi og að fósturmóður drengsins yrði ekki gert viðvart um það fyrir fram hvar og hvenær yrði rætt við hann.

Kærandi vísi einnig til þess að fullyrðingar um framfarir barnsins standist ekki. Fram komi að úrskurður Barnaverndarnefndar B virðist að mati kæranda byggja að hluta á einhliða frásögn fósturmóður af ástandi og framförum barnsins, án þess að nokkuð hafi verið gert til að grafast fyrir um hið sanna í málinu. Þar sé vísað til breytts útlits og þroskastöðu drengsins frá því að fósturvistun hans hafi byrjað.

Kærandi vísi einnig til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu og alþjóðalaga.

Samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 eigi foreldrar rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun barnsins í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Þá skuli taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skulu aðildarríki tryggja að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema þegar lögbær stjórnvöld ákveði samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins, enda sé sú ákvörðun háð endurskoðun dómstóla. Slík ákvörðun kunni að vera nauðsynleg í ákveðnum tilvikum, svo sem ef barn sæti misnotkun eða sé vanrækt af foreldrum sínum. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skuli aðildarríki virða rétt barns sem skilið hafi verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.

Drengurinn hafi verið tekinn úr umsjá föður þann 13. júní 2018 á grundvelli neyðarráðstöfunar samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í kjölfar þess hafi drengurinn verið vistaður utan heimilis í sex mánuði samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 31. júlí 2018 sem Landsréttur hafi staðfest síðar. Alls hafi 21 tilkynning borist í máli drengsins til Barnaverndar B sem hafi snúið að vanrækslu og grun um neyslu foreldra.

Samkvæmt 74. gr. a barnaverndarlaga nr. 80/2002 skuli ávallt kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið sé frá samning um umgengni eða kveðinn sé upp úrskurður um umgengni. Fósturmóðir hafi sérstaklega óskað eftir því að umgengni yrði ekki aukin í samræmi við óskir kæranda og vildi fósturmóðir að umgengni yrði minnkuð úr tveimur skiptum í eitt skipti á ári. Drengurinn sé í varanlegu fóstri hjá fósturmóður sinni og hafi verið hjá henni undanfarin þrjú ár og ekki annað fyrirséð en að hann verði í hennar umsjá til 18 ára aldurs. Drengurinn og fósturmóðir hafi byggt upp góð tengsl sín á milli og drengurinn finni fyrir öryggi og líði vel hjá henni.

Drengnum hafi verið skipaður talsmaður vegna kröfu kæranda um aukna umgengni og hafi talsmaður talað við hann tvisvar, þann 2. júní og 6. ágúst 2021. Fram hafi komið í skýrslu talsmanns, dags. 6. júní 2021, að talsmaður hafi notað mjög einfalt talmál og teikningar til þess að tryggja skilning drengsins á umræðuefninu. Drengurinn hafi sagt að hann væri glaður að hitta kæranda í umgengni því að kærandi gæfi honum dót og sælgæti en drengurinn hafi sagst ekki vilja dvelja hjá kæranda yfir nótt. Drengurinn hafi sagst ekki vilja vera í marga daga hjá kæranda og hafi bara sagst vilja gista heima hjá fósturmóður sinni. Drengurinn hafi ítrekað að hann vildi ekki sofa annars staðar og hafi sagst aðeins vilja vera heima hjá fósturmóður sinni. Í seinni skýrslu talsmanns, dags. 11. ágúst 2021, komi fram að talsmaður, með tilliti til málþroskavanda drengsins, hafi útskýrt fyrir drengnum á mjög einfaldan hátt hvert hlutverk talsmannsins væri. Drengurinn hafi sagt að honum liði vel hjá fósturmóður og að hún væri góð við hann. Drengurinn hafi tjáð talsmanni að honum þætti gaman að hitta kæranda þar sem hann fengi alltaf pakka frá honum og nammi. Drengurinn hafi sagst aðeins vilja sofa hjá mömmu (fósturmóður), sinni en ekki kæranda. Drengurinn hafi sagst vilja vera hjá mömmu sinni (fósturmóður), yfir jól, áramót og páska og vildi ekki vera annað hvert ár yfir þessa daga hjá kæranda. Drengurinn hafi nefnt að hann vilji ekki sofa annars staðar en hjá fósturmóður og hann vildi ekki dvelja hjá kæranda í sumarumgengni eins og kröfur kæranda kveði á um.

Í upplýsingum frá leikskóla, dags. 9. ágúst 2018, 20. nóvember 2018 og 24. júní 2019, komi fram að frá því að drengurinn hafi verið vistaður hjá fósturmóður hafi hann sýnt miklar framfarir, drengurinn hafi orðið rólegri og tekið jákvæðum breytingum í útliti. Fram komi í upplýsingum frá leikskóla að drengurinn hafi sýnt mjög erfiða hegðun og verið ofbeldisfullur eftir umgengni. Drengurinn hafi verið mjög þurfandi fyrir fósturmóður eftir umgengni og lítið getað litið af henni. Fram hafi komið hjá fósturmóður að töluvert hafi borið á vanlíðan hjá drengnum eftir umgengni hans við kæranda.

Barnavernd hafi óskað eftir nýjum upplýsingum frá leikskóla vegna kröfu kæranda um aukna umgengni og hafi þær borist þann 26. ágúst 2021. Þar komi fram að umhirða og aðbúnaður drengsins í umsjá fósturmóður sé eins og best verði á kosið. Mæting hans sé góð og mikil framför hafi orðið í málþroska og öðrum þroskaþáttum drengsins, svo sem einbeitingu og úthaldi í leik og námi. Fram komi að drengurinn hafi verið lítill í sér eftir umgengni við foreldri og sótt mikið í starfsfólk og spurt um fósturmóður. Drengurinn hafi sýnt slæma hegðun í nokkra daga eftir. Leikskólinn hafi séð góð tengsl á milli drengsins og fósturmóður og líðan drengsins, hegðun og öryggi hans hafi tekið jákvæðum breytingum eftir að hann hafi farið í umsjá fósturmóður.

Drengurinn hafi að sögn fósturmóður verið lengi að jafna sig þar til nýlega eftir umgengni en áður hafi umgengni komið drengnum úr jafnvægi og drengurinn hafi átt það til að pissa og kúka á sig í leikskólanum eftir umgengni og verið marga daga að jafna sig.

Í kæru sé því haldið fram að fullyrðingar um breytt ástands drengsins og framfarir standist ekki en slíkar upplýsingar um bætt ástand drengsins hafi ítrekað komið fram í upplýsingum frá leikskóla drengsins.

Kærandi geri athugasemdir við að enga umfjöllun sé að finna um rök hans fyrir kröfu sinni þar sem vísað sé þá helst til Mannréttindasáttmála Evrópu og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Kærandi vísi í 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem segi orðrétt;  „Aðildarríki skulu virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.“ Barnaverndarnefnd telji einnig mikilvægt að skoða í þessu samhengi 1. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem segi: „ Aðildarríki skulu tryggja að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema þegar lögbær stjórnvöld ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins enda sé sú ákvörðun háð endurskoðun dómstóla. Slík ákvörðun kann að vera nauðsynleg í ákveðnum tilvikum, svo sem ef barn sætir misnotkun eða er vanrækt af foreldrum sínum, eða þegar foreldrar búa ekki saman og ákveða verður hver skuli vera dvalarstaður þess.“            

Kærandi vísi til þess í kæru að „ …enginn heilvita maður skilgreina samverustund foreldris og barns tvisvar til fjórum sinnum á ári sem „persónuleg tengsl“ eða „beint samband með reglubundnum hætti.“ Drengurinn sé í varanlegu fóstri og markmiðið með því sé að hann tengist fósturfjölskyldu sinni og öðlist ró og stöðugleika í fóstrinu til að hann geti dafnað sem best. Ekki sé stefnt að öðru en að drengurinn verði í umsjá fósturmóður sinnar til 18 ára aldurs. Umgengni í varanlegu fóstri sé ekki ætlað að styrkja tengsl aðila heldur að viðhalda þeim tengslum sem þegar séu fyrir hendi í þeim tilgangi að drengurinn þekki uppruna sinn. Í niðurstöðu úrskurðar í máli nr. 201/2020 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála hafi verið komið inn á það að með umgengni við foreldra í varanlegu fóstri væri ekki verið að reyna að styrkja þau tengsl sem til staðar væru hjá barni og foreldri heldur að viðhalda þeim tengslum sem þegar væru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að drengurinn þekkti uppruna sinn.

Kærandi og barnavernd hafi ekki náð samkomulagi um umgengni við drenginn og hafi Barnaverndarnefnd B því úrskurðað í málinu samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga komi fram að barnaverndarnefnd hafi úrskurðarvald um ágreiningsefni er varði umgengni barns við foreldri. Fram komi að ef sérstök atvik valdi því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum geti nefndin úrskurðað að foreldri njóti ekki umgengnisréttar. Eins og ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kveði á um hafi lögbær stjórnvöld í samræmi við viðeigandi lög og reglur um málsmeðferð, með tilliti til hagsmuna drengsins, tekið ákvörðun um umgengni kæranda við drenginn, sbr. úrskurð nefndarinnar þann 12. október 2021.

Kærandi vísi til þess í kæru að það standist ekki skoðun að tekið hafi verið tillit til vilja drengsins samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans og að vilji drengsins hafi ekki verið kannaður í samræmi við vilja kæranda. Eins og fram hafi komið hafi drengnum verið skipaður talsmaður sem hafi skilað tveimur skýrslum til barnaverndar, dags. 6. júní og 6. ágúst 2021. Það sé því ljóst að 12. gr. Barnasáttmálans hafi verið uppfyllt, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 2. mgr., 46. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Kærandi vísi til 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem kveði á um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Barnaverndarnefnd B hafni því að brotið hafi verið á 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu eins og kærandi kveði á um en þær ákvarðanir sem hafi verið teknar í máli drengsins hafi verið með hans hagsmuni og velferð í huga, sbr. 2. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveði á um að opinber stjórnvöld skuli eigi ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæli fyrir um, eins og hafi verið gert.

Það sé ljóst að drengurinn hafi sætt vanrækslu í umsjá foreldra sinna áður en foreldrar drengsins hafi verið sviptir forsjá hans. Drengurinn hafi náð miklum framförum en mikil vinna hafi farið í það hjá sérfræðingum og fósturmóður að hjálpa drengnum að vinna úr þeim áföllum sem drengurinn hafi orðið fyrir í umsjá foreldra. Drengurinn sé nú nýbyrjaður í skóla en hann hafi byrjað ári seinna vegna stöðu sinnar. Drengurinn hafi miklar sérþarfir og njóti sérkennslu daglega í skóla. Í niðurstöðu athugana hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins frá 7. febrúar 2020 komi fram að drengurinn hafi marktæk frávik í vitsmunaþroska og málþroska. Vitsmunaþroski hans mælist á stigi vægrar þroskahömlunar og frávik komi fram í fínhreyfifærni og einkenni um athyglisbrests og ofvirkni séu skýr. Fósturmóðir hafi miklar áhyggjur af því hvaða afleiðingar svo mikil aukning á umgengni drengsins við kæranda, eins og hann fari fram á, myndi hafa á drenginn og nám hans.

Það sé því ljóst að miðað við líðan drengsins eftir umgengni við kæranda undanfarin ár verði ekki séð hvernig það séu hagsmunir drengsins að auka umgengni í samræmi við kröfur kæranda. Í úrskurði Barnaverndarnefndar B hafi verið horft til þess að líðan drengsins hafi skánað undanfarin skipti frá því sem áður hafi verið eftir umgengni drengsins við kæranda. Á þeim forsendum hafi Barnaverndarnefnd B metið það vera óhætt að auka fjölda skipta úr tveimur í fjögur skipti á ári. Nefndin telji þó að varlega þurfi að fara í frekari breytingar á umgengni drengsins við kæranda til að gæta að stöðugleika í lífi drengsins.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 komi fram sú meginregla að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni sé fyrir bestu. Hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Það séu lögvarðir hagsmunir drengsins að búa við stöðugleika og ró í fóstrinu og að umgengni valdi honum sem minnstri truflun en ljóst sé af gögnum málsins að umgengni drengsins við kæranda hafi valdið honum miklum truflunum. Það sé því ljóst að ef hagsmunir drengsins og hagsmunir kæranda rekist á, verði hagsmunir kæranda að víkja fyrir hagsmunum drengsins.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi geri Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða barns

Drengnum var skipaður talsmaður sem tók viðtal við hann 2. júní og 6. ágúst 2021. Í skýrslu talsmanns, dags. 2. júní 2021, kemur fram að talsmaður hafi notað mjög einfalt talmál og teikningar til að afla afstöðu drengsins og um leið til þess að tryggja skilning hans á umræðuefninu. Í skýrslunni kemur fram að drengnum líði vel hjá fósturmóður sinni. Aðspurður um umgengni hans við föður sagðist drengurinn stundum hitta hann í smástund, hann færi heim til hans en svæfi ekki hjá honum. Drengurinn sagðist vera mjög glaður að hitta föður sinn því að hann gæfi honum alltaf dót og sælgæti þegar hann væri hjá honum. Þá sagði hann að faðir hans færi stundum með hann á róló en að mestu væru þeir heima og faðir hans væri stundum í tölvunni. Aðspurður um vilja sinn til að dvelja yfir nótt hjá föður sínum svaraði drengurinn því að hann vildi ekki sofa heima hjá föður sínum, hann vildi bara sofa heima hjá móður (fósturmóður). Aðspurður hvort hann vildi dvelja hjá föður sínum í marga daga og sofa hjá honum sagðist hann ekki vilja vera í marga daga í einu hjá föður sínum og vildi bara sofa heima hjá móður. Aðspurður um viðhorf sitt og vilja til að hafa umgengni við föður á jólum, um áramót og á páskum svaraði drengurinn því neitandi og sagðist bara vilja vera heima hjá móður sinni og ítrekaði um leið vilja sinn um að vilja ekki sofa annars staðar en hjá fósturmóður. Aðspurður um viðhorf sitt til að hafa umgengni við föður í fjórar vikur að sumri svaraði drengurinn því neitandi og sagðist ekki vilja vera hjá föður sínum í marga daga og að hann vilji bara sofa heima hjá móður.

Í skýrslu talsmanns, dags. 6. ágúst 2021, kemur fram að drengurinn eigi erfitt með að skilja bæði rúm og tíma og að talsmaður hafi sett skipulag umgengninnar myndrænt upp til að tryggja skilning drengsins eins og faðir hafi óskað eftir. Í skýrslunni kemur fram að drengnum líði vel á fósturheimili. Drengurinn sagði að honum þætti gaman að hitta föður sinn en þá fengi hann alltaf pakka frá honum. Einnig gæfi faðir hans honum mikið nammi, þeir væru í tölvunni en færu stundum út að leika. Aðspurður hvort hann vildi dvelja hjá föður sínum aðra hvora helgi, nokkra daga í einu og sofa hjá föður í nokkrar nætur í einu sagðist drengurinn bara vilja sofa heima hjá móður (fósturmóður), en ekki föður. Aðspurður hvort drengurinn vildi dvelja hjá föður sínum um jól, áramót og páska annað hvert ár svaraði hann neitandi og að hann vildi bara vera heima hjá móður á jólum, um áramót og á páskum. Einnig tók hann fram að hann vildi ekki sofa annars staðar en heima hjá móður (fósturmóður). Aðspurður hvort hann vilji dvelja hjá föður sínum í sumarumgengni annað hvert ár í fjórar vikur í senn svaraði hann neitandi og sagðist bara vilja sofa heima hjá móður (fósturmóður). Aðspurður hvernig hann vilji hafa umgengni við föður og hversu lengi í senn átti drengurinn erfitt með að tjá sig um hvernig hann sæi fyrir sér umgengni við föður. Þá tók hann fram að hann vildi ekki sofa hjá föður, bara móður.

V. Afstaða fósturforeldris

Afstöðu fósturmóður til umgengni föður við drenginn var aflað á fundi barnaverndarnefndar þann 7. september 2021. Að mati fósturmóður samrýmist beiðni föður um umgengni ekki hagsmunum drengsins og telur fósturmóðir að umgengni sé nægileg einu sinni á ári. Fósturmóðir sagði að það tæki alltaf dágóðan tíma að tryggja drengnum aftur öryggi eftir umgengni. Hann þurfi mikla nærveru frá henni og væri mjög þurfandi fyrir hana. Drengurinn hefur sýnt óöryggi í hegðun og líðan á leikskóla og eigi það til að vera árásargjarn gagnvart öðrum börnum og kennurum eftir umgengni. Fósturmóðir vill fremur minnka umgengni en að auka hana og telur eina umgengni á ári nóg.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn D er rúmlega X ára gamall. Kærandi var sviptur forsjá drengsins með dómi Héraðsdóms B þann 10. maí 2019. Kærandi er kynfaðir drengsins. Kynmóðir drengsins er látin.

Með hinum kærða úrskurði frá 12. október 2021 var ákveðið að umgengni drengsins við kæranda yrði aukin úr tveimur skiptum á ári í fjögur skipti á ári í tvær klukkustundir í senn. Auk þess var ákveðið að umgengni yrði undir eftirliti og færi fram í húsnæði Barnaverndar B í nóvember og maí ár hvert. Skilyrði umgengni væri að kærandi væri edrú og í andlegu jafnvægi, að mati eftirlitsaðila.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að drengurinn hafi verið tekinn úr umsjá foreldra sinna þann 13. júní 2018 í kjölfar neyðarráðstöfunar og hafi farið þann 4. júlí 2018 í umsjá fósturmóður sinnar, fyrst í tímabundið fóstur og frá 13. maí 2019 í varanlegt fóstur. Stefnt sé að því að hann alist upp á núverandi heimili til 18 ára aldurs. Áður en drengurinn hafi farið í fóstur til fósturmóður hafi hann búið við mikið ójafnvægi og óöryggi og því var það mat barnaverndarnefndar að fara þyrfti varlega í allar breytingar á högum hans. Að mati barnaverndarnefndar séu kröfur kæranda um umgengni ekki raunhæfar miðað við stöðu og sögu drengsins en nefndin telji rétt að umgengni sé aukin úr tveimur skiptum í fjögur skipti á ári. 

Kærandi, sem er kynfaðir drengsins, krefst þess aðallega að eiga umgengni við drenginn aðra hvora helgi á heimili sínu. Þá krefst kærandi umgengni um jól annað hvert ár, í fyrsta sinn árið 2021 og umgengni um áramót annað hvert ár, í fyrsta sinn árið 2022. Enn fremur umgengni um páska og umgengni í sumarfríi í mánuð í senn. Einnig krefst kærandi þess að vilji drengsins verði kannaður eftir að hann hafi fengið raunhæft tækifæri til að treysta tengslin við kæranda með því að umgangast kæranda við eðlilegar aðstæður, án afskipta og eftirlits. Þá krefst hann þess að könnunin verði gerð af hlutlausum aðilum og í hlutlausu umhverfi. Eins sé þess krafist að fósturmóður drengsins verði ekki gert viðvart um það fyrir fram hvar og hvenær verði rætt við hann. Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd umgengninnar.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hans við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum drengsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins best með tilliti til stöðu hans. Forsenda hinnar kærðu ákvörðunar var sú að ekki væri stefnt að því að drengurinn færi aftur í umsjá kæranda. Umgengni kæranda við drenginn þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hans í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi drengsins í fóstri hjá fósturforeldri þar sem markmiðið er að tryggja honum uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum hans, sbr. 3. mgr. 65. gr. bvl. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjónaði hagsmunum drengsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála ber því fyrst og fremst að líta til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins best þegar tekin er ákvörðun um umgengni hans við kæranda. Í því sambandi verður að horfa til þess að sonur kæranda er nú í varanlegu fóstri og þarf frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni. Markmiðið með því er að tryggja til frambúðar umönnun hans, öryggi og þroskamöguleika. Þá er til þess að líta að með umgengni kæranda við drenginn er ekki verið að reyna styrkja tengsl hans við kæranda heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að drengurinn þekki uppruna sinn. Þá verður ekki horft fram hjá vilja barnsins og afstöðu fósturforeldris til umgengni við kæranda.

Samkvæmt gögnum frá leikskóla drengsins, dags. 9. ágúst 2018, 20. nóvember 2018 og 24. júní 2019, kemur fram að drengurinn sýni erfiða hegðun og sé ofbeldisfullur eftir umgengni. Samkvæmt upplýsingum frá leikskóla drengsins, dags. 26. ágúst 2021, kemur fram að drengurinn sé lítill í sér eftir umgengni og sæki mikið í starfsfólk og spyrji um fósturmóður. Þá sýni hann slæma hegðun í nokkra daga á eftir. Að sögn fósturmóður hafi umgengni drengsins við kæranda komið drengnum úr jafnvægi og að hann sé í nokkra daga að jafna sig. Samkvæmt niðurstöðu athugana hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, dags. 7. febrúar 2020, komi fram að drengurinn hafi marktæk frávik í vitsmunaþroska og málþroska. Vitsmunaþroski hans mælist á stigi vægrar þroskahömlunar og frávik komi fram í fínhreyfifærni. Þá séu einkenni athyglisbrests og ofvirkni skýr. Þá liggur fyrir að drengurinn sé nýbyrjaður í skóla en hann hafi byrjað ári seinna vegna stöðu sinnar. Hann sé með miklar sérþarfir og sé með sérkennslu daglega í skóla. Fósturmóðir hafi áhyggjur af því hvaða afleiðingar aukning á umgengni muni hafa á drenginn og nám hans. Þá segi í greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 24. ágúst 2021, að barnið hafi aðlagast vel á fósturheimilinu og tekið miklum framförum í þroska og hegðun síðastliðin þrjú ár. Það sé mat starfsmanna að aukin umgengni við föður sé ekki til þess fallin að viðhalda þeim stöðugleika sem náðst hefur í lífi barnsins.

Að mati úrskurðarnefndarinnar skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi að kærandi hafi tekið sig á. Það eru lögvarðir hagsmunir drengsins að hann búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturforeldri áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Drengnum líður vel hjá fósturforeldri og ekkert bendir til að hann hafi þörf fyrir breytingar. Af gögnum málsins verður ráðið að drengurinn sé mjög óöruggur og þoli þess vegna illa allar breytingar. Þó að líðan drengsins hafi skánað undanfarið eftir umgengni, verður að telja að með því að gera breytingu á umgengni yrði þar með tekin sú áhætta að raska þeim stöðugleika sem drengurinn hefur þörf fyrir.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. bvl. skal barnaverndarnefnd sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ljósi alls framangreinds telur úrskurðarnefndin að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti með tilliti til hagsmuna drengsins til aukinnar umgengni annars vegar og hagsmuna hans á því að búa við óbreytt fyrirkomulag hins vegar. Úrskurðarnefndin telur því að ekki séu fram komin nægilega sterk rök fyrir því að auka umgengni kæranda úr tveimur skiptum á ári í fjögur skipti á ári líkt og ákveðið var með hinum kærða úrskurði, dags. 12. október 2021.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að fella hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B úr gildi og vísa málinu til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 12. október 2021 varðandi umgengni  D, við A, er felldur úr gildi og er málinu vísað til nýrrar meðferðar fyrir nefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira