Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 397/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 397/2020

Miðvikudaginn 16. desember 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 14. ágúst 2020, kærði A , til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um ellilífeyrisgreiðslur til kæranda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hóf töku ellilífeyris í maí 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. júní 2020, var kæranda tilkynnt um breyttar greiðslur í framhaldi af reglubundnu eftirliti, auk áætlaðrar kröfu að fjárhæð 163.139 kr. vegna ofgreiddra bóta fyrir maí og júní 2020. Kærandi lagði fram nýja tekjuáætlun 12. ágúst 2020. Með bréfi, dags. 28. ágúst 2020, var kæranda send staðfesting á breyttri tekjuáætlun og hún upplýst um inneign að fjárhæð 163.139 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. ágúst 2020. Með bréfi, dags. 24. ágúst 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 21. september 2020, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. september 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Með kæru fylgdi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. júní 2020, þar sem kæranda var tilkynnt um breytingu á greiðslum og áætlaða kröfu í kjölfar reglubundins eftirlits með staðgreiðsluskrá.

Í kæru greinir kærandi frá því að Tryggingastofnun hafi ekki viljað taka ákvörðun um ágreiningsefnið en hafi bent henni að leita til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna athugasemda sinna. Ágreiningsefnið varði ákveðið atriði í útreikningum stofnunarinnar sem kærandi hafi óskað leiðréttingar á og hafi vísað í gögn máli sínu til stuðnings.

Þann 16. mars 2020 hafi kærandi sótt um ellilífeyri og skilað inn tilskildum gögnum og lífeyrisgreiðslur hafi byrjað 1. maí eins og hún hafi sótt um.

Í júní 2020 hafi Tryggingastofnun hækkað tekjuáætlun kæranda um 1,7 milljón sem hafi reynst vera mistök og hafi þau verið leiðrétt. Í samtali við þjónustufulltrúa Tryggingastofnunar hafi kærandi bent á annað atriði sem hún vildi að yrði leiðrétt. Það hafi ekki verið samþykkt og hafi henni verið bent á að snúa sér til úrskurðarnefndar velferðarmála en ekki liggi fyrir bréf frá Tryggingastofnun vegna þeirrar ákvörðunar.

Kærumálið varði að Tryggingastofnun hafi snuðað kæranda um 372.415 kr.

Samkvæmt reglunum megi lífeyrisþegar vera með 100.000 kr. í atvinnutekjur á mánuði án þess að lífeyrir skerðist. Þetta sé fyrsta ár kæranda á lífeyri, um sé að ræða átta mánuði og hafi hún gert ráð fyrir 800.000 kr. í tekjuáætlun. Tryggingastofnun telji að sú upphæð eigi að vera lægri, eða 427.585 kr. Á þeim forsendum hafi hún fengið kr. 372.415 í atvinnutekjur í júní.

Kærandi sé á tímakaupi, launatímabil hennar sé frá 11. degi hvers mánaðar til 10. næsta mánaðar. Laun kæranda 1. júní hafi því verið fyrir tímabilið 11. apríl til 10. maí 2020. Í apríl hafi kærandi unnið mun meira en venjulega, síðan hafi komið hlé til 2. maí en þá hafi nýtt launatímabil gengið í garð. Launagreiðslan 1. júní hafi því verið fyrir vinnu sem hún hafi innt af hendi í apríl.

Tryggingastofnun hafi skýrt ákvörðun sína á þá leið að stofnunin fari eftir staðgreiðsluskrá en það útskýri ekkert fyrir kæranda og því sé ljóst að ákvörðunin sé gróft brot á jafnræðisreglunni.

Launþegi sem hafi í hyggju að hætta í föstu starfi, vinni út aprílmánuð og fari á ellilífeyri 1. maí eigi ekki að þurfa að sæta því að Tryggingastofnun telji laun sem hún hafi unnið sér inn í apríl til lífeyrisársins þó svo að launagreiðslan hafi komið í maí. Í hennar tilfelli sé það alveg sambærilegt, munurinn liggi bara í því að hún vinni samkvæmt öðru vinnutímaskipulagi, fái greitt miklu seinna en fólk sem sé á föstum mánaðarlaunum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé útreikningur Tryggingastofnunar á greiðslu ellilífeyris til kæranda.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um ellilífeyri með umsókn, dags. 16. mars 2020, og hafi skilaði inn tekjuáætlun, dagsettri sama dag. Á tekjuáætlun vegna ársins 2020 hafi kærandi gert ráð fyrir 575.000 kr. í launatekjur og 225.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur. Samþykkt hafi verið að greiða kæranda ellilífeyri frá 1. maí 2020 eins og kærandi hafi óskaði eftir út frá innsendri tekjuáætlun. Allar tekjur kæranda frá 1. maí 2020 hafi áhrif á útreikning ellilífeyris til kæranda.

Þann 12. júní 2020 hafi kæranda verið sent bréf þar sem tekjuáætlun hafi verið leiðrétt til samræmis við upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og réttindi fyrir árið 2020 hafi verið endurreiknuð. Niðurstaðan hafi leitt í ljós að kærandi hefði fengið hærri greiðslur en hún hafi átt rétt á, eða samtals 163.139 kr. Með bréfinu hafi fylgt ný tekjuáætlun sem hafi gert ráð fyrir 575.000 kr. í launatekjur og 2.279.142 kr. í lífeyrissjóðstekjur árið 2020.

Kærandi hafi skilað inn nýrri tekjuáætlun, dags. 12. ágúst 2020, þar sem gert hafi verið ráð fyrir 575.000 kr. í launatekjur og 280.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur árið 2020. Kæranda hafi verið sent bréf þann 28. ágúst 2020 þar sem komið hafi fram að bótaréttur ársins hafi verið endurreiknaður á grundvelli nýju tekjuáætlunarinnar, fyrir utan að lífeyrissjóðstekjur hafi verið hækkaðar í 296.000 kr. fyrir árið 2020, og komi fram að fyrir lægi inneign að fjárhæð 163.920 kr.

Kæran sé ekki skýr en svo virðist sem kærandi sé ósátt við að tekjur í maí 2020 samkvæmt staðgreiðsluskrá hafi haft áhrif á útreikning ellilífeyrisgreiðslna þar sem um sé að ræða útborguð laun fyrir eldra tímabil.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. sé tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning.

Þá segi í 16. gr. að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár sé almanaksár. Áætlun um tekjuupplýsingar skuli byggjast á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið sé um í 39. og 40. gr. Ef um nýja umsókn um bætur sé að ræða skuli tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið sé um í 39. og 40. gr. og bótaréttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda og eftir atvikum maka hans sem aflað sé frá þeim tíma sem bótaréttur hafi stofnast. Tryggingastofnun ríkisins skuli hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin afli úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið sé um í 40. gr.

Samkvæmt 16. gr. laga um almannatryggingar beri Tryggingastofnun að reikna bætur út frá þeim tekjum umsækjanda sem aflað sé frá þeim tíma sem bótaréttur stofnaðist. Kæranda hafi verið greidd laun í maí 2020 samkvæmt gögnum málsins og staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra. Kærandi hafi byrjaði á ellilífeyri þann 1. maí 2020. Tryggingastofnun beri því að telja umrædd laun til tekna við útreikning lífeyris til kæranda.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um ellilífeyrisgreiðslur til kæranda.

Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 40. gr. laga um almannatryggingar.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Í 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins og að bótagreiðsluár sé almanaksár. Áætlun um tekjuupplýsingar byggist á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið er um í 39. og 40. gr. Sérstaklega er tilgreint að í þeim tilvikum þegar um nýja umsókn um bætur er að ræða skuli tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá aðilum sem getið sé um í 39. og 40. gr. og bótaréttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda sem aflað sé frá þeim tíma sem bótaréttur stofnaðist. Tryggingastofnun ríkisins skuli hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin afli úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið sé um í 40. gr. laganna.

Samkvæmt 7. mgr. 16. gr. laganna skal Tryggingastofnun, eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein.

Fyrir liggur að kærandi hóf töku ellilífeyris frá Tryggingastofnun í maí 2020. Kærandi skilaði inn tekjuáætlun 16. mars 2020 þar sem gert var ráð fyrir 575.000 kr. í laun og 225.000 kr. frá lífeyrissjóði. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. júní 2020, var kæranda tilkynnt um nýja tekjuætlun og breyttar greiðslur í framhaldi af reglubundnu eftirliti, auk áætlaðrar kröfu að fjárhæð 163.139 kr. vegna ofgreiddra bóta fyrir maí og júní 2020. Í þeirri tekjuáætlun var gert ráð fyrir 575.000 kr. í launatekjur og 2.279.142 kr. í lífeyrissjóðstekjur. Kærandi lagði fram nýja tekjuáætlun 12. ágúst 2020 þar sem gert var ráð fyrir sömu launatekjum og áður en fjárhæð lífeyrissjóðstekna lækkuð í 280.000 kr. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 28. ágúst 2020, var kæranda send staðfesting á breyttri tekjuáætlun að því frátöldu að lífeyrissjóðstekjur voru hækkaðar í 296.000 kr. og var hún upplýst um inneign að fjárhæð 163.139 kr.

Ákvörðun Tryggingastofnunar frá 12. júní 2020 um breyttar greiðslur og áætlaða ofgreiðslukröfu fylgdi kæru. Aftur á móti liggur fyrir að Tryggingastofnun leiðrétti framangreinda ákvörðun með bréfi, dags. 28. ágúst 2020.

Úrskurðarnefndin telur ljóst af kæru að ágreiningur varði ekki framangreint. Í kæru kemur fram að ágreiningsefnið varði ákveðið atriði í útreikningum stofnunarinnar. Kærandi fer fram á að tekið verði tillit til þess við útreikninga greiðsla til hennar í maí 2019 að launatímabil hennar sé frá 11. til 10. hvers mánaðar og því séu tekjur hennar í maí einungis að hluta til fengnar í þeim mánuði.

Af gögnum málsins verður ráðið að í tekjuáætlunum sínum til Tryggingastofnunar hafi kærandi gert ráð fyrir launagreiðslum að fjárhæð 575.000 kr. Úrskurðarnefndin telur ekkert benda til annars en að greiðslur Tryggingastofnunar hafi verið í samræmi við þær upplýsingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að endurreikningur og uppgjör tekjutengdara bóta ársins 2020 mun fara fram vorið 2021 eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Verði kærandi ekki sátt við niðurstöðu Tryggingastofnunar getur hún kært ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndarinnar.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um ellilífeyrisgreiðslur til kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um ellilífeyrisgreiðslur til A.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira