Hoppa yfir valmynd

Nr. 336/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 15. júlí 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 336/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21040014

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 6. apríl 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. mars 2021, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa henni frá landinu.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi með vísan til sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi hinn 7. janúar 2021. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, hinn 15. janúar 2021, kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum á Kýpur. Hinn 20. janúar 2021 var upplýsingabeiðni beint til yfirvalda á Kýpur, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá kýpverskum yfirvöldum, dags. 1. febrúar 2021, kom fram að henni hefði verið veitt réttarstaða flóttamanns hinn 21. janúar 2017 sem að væri enn í gildi. Með umsókn framvísaði kærandi dvalarleyfisskírteini frá Kýpur með gildistíma til 19. mars 2021. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, dagana 26. janúar og 5. febrúar 2021, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað hinn 22. mars 2021 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að henni skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda hinn 23. mars 2021 og kærði kærandi ákvörðunina hinn 6. apríl 2021 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd hinn 15. apríl 2021 ásamt fylgigögnum. Þá bárust frekari gögn dagana 21. maí, 3. júní og 25. júní 2021.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd á Kýpur. Umsókn hennar um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Kýpur ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hún flutt til Kýpur.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar er varðar málsatvik. Þar kemur m.a. fram að kærandi hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá því að hún hafi gengið í hjónaband með sómalískum ríkisborgara þann 19. desember 2019. Hún vissi ekki hvar hann væri niðurkominn núna en hafi heyrt að hann hafi verið í Tyrklandi og hafi fengið neitun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Kærandi hafi komist í samband við ónefndan mann í gegnum konu sem hún þekkti en sá maður hafi rukkað kæranda um 500 evrur og í kjölfarið skipulagt ferðaáætlun. Kærandi hafi mótmælt endursendingu til Kýpur þar sem hún væri að leita að betra lífi fyrir sig og ófætt barn sitt. Kærandi hafi greint frá því að hún hafi leigt íbúð með átta öðrum stúlkum en þar hafi þær deilt tveimur svefnherbergjum. Kærandi hafi unnið við þrif í óskráðu starfi þar sem henni hafi reynst ómögulegt að afla sér löglegs starfs. Kærandi hefði atvinnuleyfi á Kýpur en að engum myndi detta í hug að ráða flóttafólk til starfs. Þá hafi kærandi upplifað mismunun þegar atvinnuveitendur hafi óskað eftir því að hún myndi fjarlægja höfuðslæðuna sína. Kýpversk yfirvöld hafi ekki veitt kæranda húsnæði, fjárhagsaðstoð eða félagslega aðstoð eftir að hún hafi hlotið vernd í landinu. Þá hafi hún einnig þurft að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu. Kærandi hafi greint frá því að hún væri ófrísk af sínu fyrsta barni. Þá glími kærandi við eftirköst ofbeldis sem hún hafi orðið fyrir af hálfu stjúpmóður í heimaríki. Kærandi hafi þá greint frá því að hún hafi séð fjölskyldumeðlimi nauðgara síns frá Sómalíu á Kýpur og að henni hafi liðið illa vegna þess.

Kærandi krefst þess að mál hennar verði tekið til efnismeðferðar á grundvelli heilsufars hennar og þeirrar staðreyndar að hún sé þunguð af sínu fyrsta barni, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Íslenskum stjórnvöldum beri að leggja heildstætt mat á einstaklingsbundnar aðstæður kæranda, bæði líkamlegar og andlegar, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að hún sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu þar sem hún sé þunguð, hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi og verið beitt ofbeldi af hálfu stjúpmóður sinnar. Kærandi vísar til framlagðra heilsufarsgagna, m.a. frá sálfræðingi hjá Göngudeild sóttvarna og ljósmóður hjá heilsugæslunni Efra Breiðholti. Kærandi vísar til þess að fordómar og mismunun sem kærandi hafi orðið fyrir á Kýpur ætti að leiða til þess að um sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé að ræða.

Kærandi gerir athugasemd við mat Útlendingastofnunar á aðgengi hennar að heilbrigðisþjónustu, húsnæðisaðstoð og atvinnu, ásamt fjárhags og félagsþjónustu á Kýpur. Kærandi vísar til þess að dvalarleyfi hennar á Kýpur sé útrunnið og að hún þurfi að sækja um endurnýjun þess með tilheyrandi bið og óvissu um réttarstöðu hennar á meðan málsmeðferð stendur. Kæranda muni ekki standa til boða gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta verði henni gert að snúa aftur til Kýpur, og gildi þá einu hvort hún sé þunguð eða ábyrg fyrir hvítvoðungi. Kærandi vísar í þessu sambandi til úrskurða kærunefndar útlendingamála nr. KNU18080001 og KNU18080002. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína í máli kæranda, m.a. hafi stofnunin ekki spurt kæranda út í það hvort hún hafi fengið tíma í mæðravernd á Kýpur eða hvort að henni stæði til boða ungbarnavernd þar í landi. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé hvergi minnst á það í umfjöllun stofnunarinnar að kærandi sé barnshafandi og hvaða afleiðingar það muni koma til með að hafa á möguleika hennar til að leita sér að atvinnu og stunda hana. Kærandi vísar til þess að hún sé þunguð og gerir athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki fjallað um hagsmuni hins ófædda barns í ákvörðun sinni. Kærandi vísar til þess að börn teljist ávallt til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd og stjórnvöldum sé skylt að hafa ávallt það sem sé barni fyrir bestu í forgangi þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess, sbr. m.a. 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. Kærandi vísar einnig til reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, þar sem lögð sé áhersla á að hagsmunir barnsins séu hafðir að leiðarljósi við mat á því hvort Útlendingastofnun sé skylt að taka mál barns til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til þess að enn ríki talsverð óvissa í heiminum um hver áhrif Covid-19 faraldursins verði á innviðri ríkja og réttindi og aðstæður flóttafólks. Í ljósi aðgangshindrana að grunnþjónustu á Kýpur og þeirrar stöðu sem Covid-19 faraldurinn hafi leitt af sér sem stjórnvöld glími enn við, sé ástæða til að ætla að kærandi, sem ófrísk kona með sögu af líkamlegum og andlegum áföllum, sé í verri aðstöðu nú en áður til að nýta þá takmörkuðu þjónustu sem standi til boða.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Réttarstaða barns kæranda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skal það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn mála, þ. á m. viðtal við kæranda hjá Útlendingastofnun. Það er mat nefndarinnar að allt bendi til þess að hagsmunum barns kæranda sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða barnsins verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Barnið er í fylgd foreldri síns og verður því tekin afstaða til mála fjölskyldunnar í einum úrskurði.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt alþjóðleg vernd á Kýpur hinn 21. janúar 2017 og hafði hún gilt dvalarleyfi þar í landi til 19. mars 2021. Að mati kærunefndar telst sú vernd sem kærandi nýtur á Kýpur virk alþjóðleg vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður á Kýpur

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður á Kýpur, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

 • 2020 Country Report on Human Rights Practices – Cyprus (United States Department of State, 30. mars 2021);
 • Asylum Information Database. Country Report: Cyprus (European Council on Refugees and Exiles, 28. apríl 2021);
 • Amnesty International Report 2020/21 Cyprus (Amnesty International, 7. apríl 2021);
 • Freedom in the World 2021– Cyprus (Freedom House, 2021);
 • Upplýsingar af vefsíðu European Commission - Cyprus Overview (https://eacea.ec.europa.eu/national-policies/eurydice/content/cyprus_en, skoðað 8. júlí 2021);
 • Upplýsingar af vefsíðu European Commission – Cyprus - Guaranteed minimum income benefit (https://ec.europa.eu/social/main.jsp?catId=1105&intPageId=5009&langId=en, skoðað 8. júlí 2021);
 • Upplýsingar af vefsíðu GESY (https://www.gesy.org.cy/launchpad.html, skoðað 8. júlí 2021);
 • Upplýsingar af vefsíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins á Kýpur (http://www.moec.gov.cy/, skoðað 8. júlí 2021);
 • Upplýsingar af vefsíðu UNHCR (https://help.unhcr.org/cyprus/refugees-rights-and-duties/refugee-rights/, skoðað 8. júlí 2021);
 • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (http://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 15. júlí 2021) og
 • Upplýsingasíða Sóttvarnarstofnunar Evrópu (https://www.ecdc.europa.eu/en/cases-2019-ncov-eueea, sótt 15. júlí 2021).

Samkvæmt skýrslu European Council on Refugees and Exciles (ECRE) frá apríl 2021 fá einstaklingar með réttarstöðu flóttamanns útgefið dvalarleyfi á Kýpur með gildistíma til þriggja ára sem sé endurnýjanlegt. Einstaklingar með viðbótarvernd fái útgefið dvalarleyfi sem gildi í eitt ár og sé endurnýjanlegt til tveggja ára. Í reynd geti það tekið allt að fjóra til fimm mánuði að fá dvalarleyfi útgefið. Umsækjendur um endurnýjun viðhaldi tilteknum réttindum sínum á meðan málsmeðferð stendur með því að framvísa staðfestingu á að þeir hafi umsókn um endurnýjun dvalarleyfis til meðferðar. Aftur á móti geti verið erfitt að nálgast tiltekin réttindi, svo sem fullnægjandi heilbrigðiþjónustu eða fá að opna bankareikning á meðan á málsmeðferð stendur. Á árinu 2020 hafi orðið enn frekari tafir við útgáfu dvalarleyfa vegna Covid-19 faraldursins þar í landi en snemma árs 2021 virðist sem málsmeðferðartíminn hafi styst aftur. Einstaklingar með réttarstöðu flóttamanns og handhafar viðbótarverndar geti sótt um langtímadvalarleyfi eftir fimm ára löglega búsetu í landinu. Umsækjendur um langtímadvalarleyfi þurfi að uppfylla tiltekin skilyrði, s.s. sýna fram á fastar tekjur sem nægi til framfærslu, ráðningarsamning með gildistíma til a.m.k. 18 mánaða og vera með heilbrigðistryggingu. Handhafar alþjóðlegrar verndar hafi mætt hindrunum við að fá útgefið langtímadvalarleyfi þar sem þeim hafi reynst erfitt að uppfylla framangreind skilyrði.

Í framangreindri skýrslu ECRE kemur fram að einstaklingar með réttarstöðu flóttamanns geti sótt um fjölskyldusameiningu en aftur á móti eigi handhafar viðbótarverndar ekki þann rétt. Þá sé enginn sérstakur biðtími vegna umsóknar um fjölskyldusameiningu. Umsækjandi þurfi að sýna fram á fjölskyldutengsl en í vissum tilvikum, þegar umsókn um fjölskyldusameiningu berst að liðnum þremur mánuðum eftir að viðkomandi fékk réttarstöðu flóttamanns, þurfi að sýna fram á staðfestingu á framfærslu, heimilisfangi og heilbrigðistryggingu fyrir fjölskyldumeðlimi. Áður fyrr hafi fjölskyldumeðlimir fengið sömu réttindi og handhafar alþjóðlegrar verndar en á árinu 2019 hafi orðið breytingar á því með nýju verklagi þar sem nú sé metið sérstaklega hvort viðkomandi fjölskyldumeðlimur hafi þörf fyrir alþjóðlega vernd. Í reynd hafi slíkar ákvarðanir einungis verið teknar í málum barna, sem hafi leitt til þess að fjölskyldumeðlimir dvelji í landinu án dvalarleyfis og réttinda.

Í framangreindri skýrslu ECRE og á vef heilbrigðiskerfis Kýpur (e. National Health System, GESY) kemur fram að handhafar alþjóðlegrar verndar hafi sama aðgengi að heilbrigðiskerfinu á Kýpur og ríkisborgarar landsins. Frá 1. júní 2019 hafi orðið breytingar á heilbrigðiskerfinu en hið nýja kerfi feli m.a. í sér að fyrsti viðkomustaður sjúklinga sé hjá heimilislæknum sem geti vísað einstaklingum til sérfræðinga. Þá veiti GESY m.a. aðgengi að ljósmæðrum og af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má sjá að GESY veiti aðgengi að mæðravernd og fæðingaraðstoð á almenningssjúkrahúsi eða tilteknum læknastofum. Helstu hindranir á aðgengi handahafa alþjóðlegrar verndar að heilbrigðisþjónustu á Kýpur hafi verið þegar einstaklingar sem hafi fengið alþjóðlega vernd bíði eftir útgáfu eða endurnýjun dvalarleyfis.

Samkvæmt framangreindri skýrslu ECRE eiga einstaklingar með alþjóðlega vernd rétt á að dvelja í móttökumiðstöðvum ótímabundið en séu þó hvattir til að aðlagast samfélaginu sem allra fyrst eftir að hafa hlotið alþjóðlega vernd. Handhafar alþjóðlegrar verndar geti sótt um fjárhagsaðstoð hjá velferðarkerfi Kýpur (e. the national Guaranteed Minimum Income, GMI) en á árinu 2020 hafi yfirvöld veitt einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð, s.s. við leigu á húsnæði, til að auðvelda þeim aðgengi að samfélaginu. Samkvæmt framangreindri skýrslu hafi ekki komið upp tilfelli þar sem einstaklingum hafi verið vikið úr móttökumiðstöðvunum án þess að hafa aflað sér húsnæðis á eigin vegum. Einstaklingar með alþjóðlega vernd á Kýpur hafi aðgang að vinnumarkaðnum þar í landi undir sömu skilyrðum og ríkisborgarar landsins. Þá sé ekki gerður greinarmunur á einstaklingum með réttarstöðu flóttamanns eða handhöfum viðbótarverndar. Handhafar alþjóðlegrar verndar geti leitað aðstoðar við atvinnuleit á skrifstofu atvinnumiðlunar (e. Public Employment Service, PES). Þá eigi handhafar alþjóðlegrar verndar rétt á aðgengi að starfsþjálfun á vegum viðeigandi félagsþjónustu. Aftur á móti geti handhafar alþjóðlegrar verndar mætt hindrunum á aðgengi að slíkum námskeiðum, m.a. vegna tungumálakunnáttu. Í fyrrgreindri skýrslu kemur fram að börn með alþjóðlega vernd á Kýpur eigi sama rétt til þess að ganga í skóla á öllum menntastigum þar í landi og ríkisborgarar þess. Menntunin sé endurgjaldslaus fyrir öll börn á aldrinum 4 ára til 18 ára. Þá kemur fram á vef UNHCR að hægt sé að sækja um aðgengi að leikskóla fyrir barn þegar það hefur náð tilteknum aldri.

Í framangreindri skýrslu ECRE og á vef framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins kemur fram að handhafar alþjóðlegrar verndar eigi rétt á að sækja um aðstoð frá velferðarkerfinu á Kýpur (GMI) undir sömu skilyrðum og ríkisborgarar landsins. Undir aðstoðina falli m.a. fjárhagsaðstoð til grunnframfærslu, húsaleigubætur að vissum skilyrðum uppfylltum, barnabætur og aðgengi að félagsþjónustu, s.s. aðgengi að barnaumönnun. Málsmeðferðartíminn geti í reynd verið allt að sex mánuðir þar til svar við umsókn hefur fengist. Þetta tímabil geti verið torvelt fyrir handhafa alþjóðlegrar verndar þar sem engin bráðabirgðaaðstoð sé veitt. Þá hafi handhafar alþjóðlegrar verndar staðið frammi fyrir vissum hindrunum á möguleikum þeirra til að nálgast grunnréttindi sín og að uppfylla skilyrði fyrir fyrrgreindri aðstoð.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 kemur fram að dæmi séu um að flóttafólk hafi orðið fyrir kynþáttafordómum og ofbeldi á Kýpur, þ. á m. af hálfu opinberra starfsmanna. Þá kemur fram að þarlend lög og stjórnarskrá leggi bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Enn fremur séu ofbeldisbrot rannsökuð af kýpversku lögreglunni en embætti umboðsmanns rannsaki meint brot lögreglu. Í framangreindri skýrslu kemur fram að sjálfstæði dómstóla sé tryggt í framkvæmd, svo og réttindi brotaþola og sakborninga. Í skýrslu Freedom house fyrir árið 2020 kemur fram að mismunun á grundvelli kyns hafi verið vandamál á vinnumarkaði í tengslum við ráðningar í störf, laun og kynferðislega áreitni. Þá kemur fram að lögum sem varði framangreint hafi ekki verið framfylgt með fullnægjandi hætti.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga verður því aðeins beitt ef stjórnvöld telja, á grundvelli hlutlægra og trúverðugra upplýsinga sem eru nægilega nákvæmar og uppfærðar eftir því sem við á, að skilyrði þess séu uppfyllt. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. er til viðbótar þeirri vernd sem 3. mgr. 36. gr. veitir umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Á grundvelli 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga setti ráðherra reglugerð nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, en með henni bættust tvær greinar, 32. gr. a og 32. gr. b, við reglugerðina. Í 32. gr. a reglugerðarinnar kemur fram að með sérstökum ástæðum samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan. Þá eru í ákvæðinu jafnframt talin upp viðmið í dæmaskyni sem leggja skuli til grundvallar við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi en þau viðmið varða aðallega alvarlega mismunun eða alvarleg veikindi. Þar sem tilvikin eru talin upp í dæmaskyni geta aðrar aðstæður, sambærilegar í eðli sínu og af svipuðu alvarleikastigi, haft vægi við ákvörðun um hvort sérstakar ástæður séu til að taka mál umsækjanda til efnismeðferðar hér á landi, svo framarlega sem slíkar aðstæður séu ekki sérstaklega undanskildar, sbr. 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar skal líta til þess hvort umsækjandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, svo sem ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki. Kærunefnd telur að orðalagið „muni eiga“ feli ekki í sér kröfu um afdráttarlausa sönnun þess að umsækjandi verði fyrir alvarlegri mismunun sem leiði til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar. Orðalagið gerir þó kröfu um að tilteknar líkur verði að vera á alvarlegri mismunun, þ.e. að sýna verður fram á að kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir mismunun af þeim toga, með þeim afleiðingum, og af því alvarleikastigi sem ákvæðið lýsir en að ekki sé nægilegt að aðeins sé um að ræða möguleika á slíkri mismunun. Af því leiðir að þó svo að dæmi séu um að einstaklingar í sambærilegri stöðu og kærandi í viðtökuríki hafi orðið fyrir alvarlegri mismunun af þeim toga sem 32. gr. a reglugerðar um útlendinga mælir fyrir um telst kærandi ekki sjálfkrafa eiga slíkt á hættu heldur þarf að sýna fram á að verulegar ástæður séu til að ætla að kærandi, eða einstaklingur í sambærilegri stöðu og kærandi, verði fyrir slíkri meðferð. 

Þá skal líta til þess hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Í reglugerðinni kemur fram að meðferð teljist, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur sé átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í viðtökuríkinu en umsækjanda muni ekki standa hún til boða. Við mat á því hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi lítur kærunefnd m.a. til heilsufarsgagna málsins og hlutlægra og trúverðugra gagna um hvort sú heilbrigðisþjónusta sem hann þarfnast sé honum aðgengileg í viðtökuríki.

Af 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar má jafnframt ráða að heilsufar umsækjanda hafi takmarkað vægi umfram það sem leiðir af 2. mgr. 32. gr. a, nema það teljist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið. Þá tekur 3. mgr. 32. gr. a af tvímæli um það að efnahagslegar ástæður geta ekki talist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Slíkar aðstæður gætu þó fallið undir 3. mgr. 36. gr. nái þær því alvarleikastigi sem við á, sbr. umfjöllun hér í framhaldinu. 

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] einstæð kona. Í gögnum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 28. janúar 2021, kemur fram að kærandi sé þunguð og að hún hafi fengið jákvætt út úr berklaprófi og hafið meðferð vegna þess. Þá kemur fram að kærandi hafi greint frá því að hafa verið með martraðir, glímt við svefnleysi og verið misnotuð kynferðislega af fjölskyldumeðlimi. Þá hafi kærandi fengið ávísað frekari lyfseðlum. Þá hafi kærandi, skv. gögnum frá bráðadeild Landspítala leitað á bráðadeild hinn 7. janúar 2021 vegna kviðverkja. Í gögnum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 17. febrúar til 9.. júní 2021, kemur fram að kærandi hafi verið í eftirfylgd vegna berklameðferðar og að hún hafi greint frá því að sér hafi liði vel á meðan meðferð stóð en fundið fyrir óþægindum í hægri kvið. Þá kemur fram í gögnum dags. 9. júní 2021, að kærandi hafi misst úr viku töflumeðferð sem hafi í kjölfarið verið lengd um viku. Í gögnum frá Göngudeild háls-, nef- og eyrnalækninga, dags. 5., 9. og 12. febrúar 2021, kemur fram að kærandi hafi leitað þangað vegna heyrnardeyfu á hægra eyra sem hafi verið viðvarandi í átta ár og að kærandi hafi fengið ávísað sýklalyfjum og þá hafi hún fengið dropa í eyrað. Gat á hljóðhimnu hafi sést vel og að tekin hafi verið heyrnarmæling sem hafi sýnt heyrnartap hægra megin en vinstra megin hafi heyrn einnig mælst slæm.

Af gögnum má ráða að kærandi hefur notið þjónustu sálfræðings hér á landi en samkvæmt gögnum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 1., 29. mars og 3. maí 2021, hefur kærandi greint frá því að hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu stjúpmóður sinnar og verið nauðgað í heimaríki. Kærandi sé miður sín þar sem hún hafi ekki getað náð sambandi við barnsföður sinn en hún viti ekki hvar hann sé staddur. Hún gráti mikið og vænti alls hins versta. Þá hafi hún greint frá aðstæðum sínum á Kýpur. Í bréfi frá sálfræðingi hjá Göngudeild sóttvarna, dags. 14. apríl 2021, kemur m.a. fram að kærandi hafi notið þjónustu viðkomandi sálfræðings í tvígang. Sálfræðingurinn telji að kærandi sé í einstaklega viðkvæmri stöðu hér á landi og telji ljóst að sterkar vísbendingar séu um að kærandi glími við áfallastreituröskun. Kærandi hafi m.a. greint frá erfiðum aðstæðum sínum á Kýpur og hræðslu sinni gagnvart framtíð barns síns. Sálfræðingurinn hafi miklar áhyggjur af kæranda verði hún send úr landi og ekki síst ófæddu barni hennar.

Í bréfi frá ljósmóður á heilsugæslunni Efra-Breiðholti, dags. 14. apríl 2021, kemur fram að kærandi sé í mæðraeftirliti á heilsugæslunni og að meðgangan hafi ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Kærandi hafi í upphafi verið greind með járnskortsblóðleysi og hafi hún fengið ávísað járntöflum. Kærandi hafi verið að glíma við kvíða og áfallastreituröskun og verið á kvíðalyfjum. Kærandi hafi sofið illa en eftir að hún hafi byrjað á kvíðalyfjum hafi hún náð betri svefni. Kærandi hafi þá verið greind með vélindabakflæði og taki hún lyf við því. Þar sem rannsóknir hafi sýnt að kvíði, álag og streita móður á meðgöngu geti haft margvísleg áhrif á barn í móðurkviði sé það mat ljósmóður að ekki sé ráðlagt að senda kæranda úr landi í lok meðgöngunnar. Kærandi sé loksins á betri stað andlega en eigi þó langt í land og því geti frávísun frá landinu haft töluverðar afleiðingar á heilsu hennar. Þá sé kærandi í aukinni hættu á að þróa með sér háþrýsting og/eða meðgöngueitrun í lok meðgöngunnar vegna fjölskyldusögu um háþrýsting. Það sé því mikilvægt að hún sé í þéttu eftirliti fram að fæðingu barnsins.

Í gögnum frá mæðravernd hjá heilsugæslunni Efra-Breiðholti, dags. 25. janúar til 2. júní 2021, kemur fram að kærandi hafi verið í mæðraeftirliti hjá heilsugæslunni. Kærandi hafi m.a. greint frá brjóstsviða og fengið ávísað lyfjum. Þá hafi kærandi greint frá andlegri vanlíðan, svefnerfiðleikum og martröðum og fengið ávísað lyfjum vegna þess. Þá hafi kærandi greint frá því að hún sé umskorin. Í gögnum, dags. 2. júní 2021, kemur fram að kæranda líði ekki vel og að hún sé með grindarverki. Í gögnum frá meðgöngu- og fæðingardeild Landspítala, dags. 8. janúar til 16. júní 2021, kemur m.a. fram að kærandi hafi mælst með háan blóðþrýsting og hafi af þeim sökum verið gangsett þann 4. júní 2021. Kærandi hafi eignast barn þann [...]. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að barn kæranda sé við góða heilsu. Kærandi hafi í framhaldinu verið undir eftirliti vegna háþrýstings. Samkvæmt gögnum, dags. 15. og 16 júní 2021, hafi kærandi leitað á bráðaþjónustu kvennadeildar vegna háþrýsting, vanlíðanar, mæði og verkjum yfir brjóstkassa. Kærandi hafi fengið lyf við blóðþrýstingi og verkjalyf.

Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma fram sérviðmið er varða börn og ungmenni. Þar segir m.a. að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna skuli hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi. Þá segir að við mat á hagsmunum barns skuli meðal annars að líta til þess hvort flutningur til viðtökuríkis hafi í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist eða muni aðskiljast.

Einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst, og m.a. sú aðstoð rakin sem hún hefur fengið hér á landi. Kærandi hefur m.a. borið fyrir sig að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli hennar vegna þungunar og heilsufars hennar. Kýpversk yfirvöld hafi ekki veitt kæranda húsnæði, fjárhagsaðstoð eða félagslega aðstoð eftir að hún hafi hlotið vernd í landinu. Þá kveður kærandi að hún viti ekki hvar barnsfaðir hennar sé niðurkominn.

Aðstæður einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á Kýpur hafa þegar verið raktar. Eins og komið hefur fram hafa einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd að mestu sambærileg réttindi að lögum og kýpverskir ríkisborgarar, m.a. hvað varðar grunnheilbrigðisþjónustu, félagslega aðstoð, rétt til að stunda atvinnu og menntun. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt alþjóðleg vernd á Kýpur hinn 21. janúar 2017 og rann dvalarleyfi hennar út hinn 19. mars 2021. Framangreindar landaupplýsingar bera með sér að umsækjendur um endurnýjun á dvalarleyfi viðhaldi tilteknum réttindum sínum á meðan málsmeðferð stendur með því að framvísa staðfestingu á að þeir hafi umsókn um endurnýjun dvalarleyfis til meðferðar. Aftur á móti geti verið erfitt að nálgast tiltekin réttindi, svo sem fullnægjandi heilbrigðiþjónustu.

Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að kærandi glímir við andlega erfiðleika og kemur fram í heilsufarsgögnum að sterkar vísbendingar séu um að kærandi glími við áfallastreituröskun. Þá hefur kærandi verið á kvíðalyfjum. Líkt og áður greinir kemur fram í bréfi frá sálfræðingi hjá Göngudeild sóttvarna að kærandi sé í viðkvæmri stöðu hér á landi og að kærandi hafi m.a. greint frá erfiðum aðstæðum sínum á Kýpur. Sálfræðingur hafi miklar áhyggjur af kæranda verði hún send úr landi og ekki síst ófæddu barni hennar. Þá kemur fram í bréfi frá ljósmóður á heilsugæslunni Efra-Breiðholti að kærandi sé í mæðraeftirliti á heilsugæslunni og að meðgangan hafi ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Kærandi hafi verið að glíma við kvíða og áfallastreituröskun og verið á kvíðalyfjum. Þar sem rannsóknir hafi sýnt að kvíði, álag og streita móður á meðgöngu geti haft margvísleg áhrif á barn í móðurkviði sé það mat ljósmóður að ekki sé ráðlagt að senda kæranda úr landi í lok meðgöngunnar. Kærandi sé loksins á betri stað andlega en eigi þó langt í land og því geti frávísun frá landinu haft töluverðar afleiðingar á heilsu hennar. Þá sé kærandi í aukinni hættu á að þróa með sér háþrýsting og/eða meðgöngueitrun í lok meðgöngunnar vegna fjölskyldusögu um háþrýsting. Það sé því mikilvægt að hún sé í þéttu eftirliti fram að fæðingu barnsins. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar, í ljósi gagna málsins, að það sé nauðsynlegt að kærandi hafi greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu vegna heilsufars síns á Kýpur. Að mati kærunefndar er ekki unnt að draga aðra ályktun af gögnum málsins um aðstæður á Kýpur en að óvissa sé uppi um hvort kærandi muni greiðlega og án tafa hafa aðgang að þeirri heilbrigðisþjónustu sem hún þarf á að halda í ljósi fyrrgreindra upplýsinga um mögulegar aðgangshindranir að heilbrigðisþjónustu þar í landi, m.a. í ljósi þess að kærandi er með útrunnið dvalarleyfi þar í landi.

Framangreindar skýrslur og gögn bera með sér að þrátt fyrir að úrræði séu til staðar á Kýpur sem eigi að veita einstaklingum í stöðu líkt og kæranda stuðning og félagslega aðstoð, benda gögn málsins til þess að það geti verið erfiðleikum bundið að sækja sér slíka þjónustu. Ennfremur gætu orðið tafir á því að kærandi fái aðgang að þeirri þjónustu og úrræðum sem hún þarf á að halda. Í ljósi gagna málsins og vegna þeirra aðgangshindrana sem geti verið til staðar í viðtökuríki telur kærunefnd að fyrir hendi sé ástæða er varðar heilsufar kæranda sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið. Hefur heilsufar kæranda því vægi við mat á því hvort taka beri umsókn hennar til efnismeðferðar, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins með sér að kærandi megi vænta þess að staða hennar verði verulega síðri en staða almennings á Kýpur, m.a. vegna eftirfarandi samverkandi þátta; stöðu kæranda sem einstæðri flóttakonu af sómalískum uppruna með mjög ungt barn á sínu framfæri sem þarfnist stöðugrar umönnunar, aðgangshindrana við að nálgast stuðning og heilbrigðisþjónustu og erfiðu aðgengi að vinnumarkaði og afla húsnæðis fyrir sig og barn sitt vegna framangreindra einstaklingsbundinna ástæðna, sbr. áðurnefnd viðmið 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Það er þá mat kærunefndar að það sé ekki í samræmi við hagsmuni barns kæranda að fara til Kýpur, sbr. sérviðmið varðandi börn og ungmenni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Við mat á bestu hagsmunum barns kæranda hefur kærunefnd einkum litið til viðkvæmrar stöðu þess í ljósi þess að það sé ungt að aldri og viðkvæmrar stöðu móðurinnar, sbr. m.a. almenna athugasemd barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna nr. 14, um rétt barnsins til að allar ákvarðanir sem það varði séu byggðar á því sem því sé fyrir bestu.

Þegar litið er til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, einkum þess að kærandi er einstæð kona með hvítvoðung og í ljósi gagna um heilsufar kæranda, er það niðurstaða kærunefndar, eins og hér stendur sérstaklega á, að fella beri úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála eins og hér stendur á, að taka beri mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant´s application for international protection in Iceland.

 

 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                     Þorbjörg I. Jónsdóttir

                                                                                             

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira