Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 152/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 152/2024

Föstudaginn 7. júní 2024

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Helgi Viborg sálfræðingur.

Með kæru, dags. 26. mars 2024, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun B frá 12. mars 2024, um að synja kæranda um aðgang að gögnum í barnaverndarmáli.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með hinni kærðu ákvörðun hafnaði B að afhenda kæranda gögn vegna barnaverndarmáls dóttur hans. Þar segir, auk þess sem bent var á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Umbeðin gögn, tölvupóstar frá fósturforeldrum til ráðgjafa málsins, geta ekki fallið undir skilgreiningu 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess og er afhendingu þeirra synjað.

Innihald póstanna hafði ekki áhrif á vinnslu umgengnismálsins né höfðu áhrif á úrlausn þess eða þá tillögu sem barnaverndarþjónusta lagði fyrir umdæmisráð.“.

Lögmaður kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 26. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 3. apríl 2024, til B var óskað eftir greinargerð ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst með bréfi, dags. 17. apríl 2024, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. apríl 2024, var hún send lögmanni kæranda til kynningar og honum veittur frestur til að gera athugasemdir. Frekari athugasemdir bárust ekki .


 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærð er synjun B á afhendingu eftirfarandi gagna í máli kæranda vegna umgengni hans við dóttur sína.

1) dagála vegna málsins frá 1. apríl 2023 til dagsins í dag.

2) tölvupósta frá fósturforeldrum og lögmanni þeirra til barnaverndar yfir sama tímabil.

Byggt sé á því að um sé að ræða gögn sem málið varða og komu til álita við úrlausn þess sbr. 45 gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) Þar að auki eigi faðir rétt samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.).

Í tölvupóstum sem fylgdu kæru megi má sjá ítrekaðar beiðnir lögmanns kæranda um umrædd gögn og óskýr eða engin svör barnaverndarþjónustunnar - fyrr en lokasvar kom frá lögmanni barnaverndar þann 12. mars 2024 um synjun.

Í fyrsta lagi teljast dagálar gögn málsins og hafi lögmaður aldrei áður fengið synjun á afhendingu slíkra gagna og á því sé byggt að hann eigi fullan og ótakmarkaðan rétt til þessara gagna.

Í öðru lagi komi skýrt fram í greinargerð vinnsluaðila málsins hjá barnavernd að andstaða fósturforeldra við umbeðið tengslamat réði því að vinna við tengslamatið fór aldrei fram, þrátt fyrir að umdæmisráð hefði beðið um það. Að þessi andstaða fósturforeldra hefði komið fram í tölvupóstum þeirra og lögmanns þeirra til barnaverndar. Af því megi sjá að tölvupóstar þessir höfðu úrslitaáhrif um að ítarlegt tengslamat, kæranda og dóttur hans, fór aldrei fram líkt og áformað hafði verið. Slíkt skiptir miklu máli fyrir tengsl þeirra og ákvörðun um umgengni, enda átti að rannsaka málið skv. 10 gr. ssl. og rannsóknarreglu bvl. með þessu tengslamati sem aldrei fór fram.

Hefur umdæmisráðið því úrskurðað um umgengni án rannsóknar sem þeir sjálfir báðu um.

Af þessum sökum er þess krafist að barnavernd verði gert að afhenda umbeðin gögn án tafar.

III.  Sjónarmið B

Í greinargerð barnaverndar kemur fram að kærandi sé kynfaðir stúlku sem B fari með forsjá yfir. Kærandi sé aðila að umgengnismáli á grundvelli 74. gr. bvl. en sé að öðru leiti ekki aðili máls stúlkunnar.

Vegna vanhæfis B til að vinna mál kæranda hafi verið fenginn verktaki til að vinna málið er sneri að kæranda. Verktakinn, D félagsfræðingur, skrifaði dagnótur sínar niður í stílabók sem hann skrifaði á Word skjal. Dagnóturnar séu því ekki skrifaðir á því formi eins og þær koma úr tölvukerfi B en séu jafngildar dagnótur eftir sem áður og hafi það skjal verið afhent kæranda.

Hvað varði tölvupósta fósturforeldra hafa þeir verið skoðaðir sérstaklega og það sem máli telst skipta úr þeim sé rakið í minnisblaði D sem kærandi hafi undir höndum. Annað sem komi þar fram hafi ekki haft áhrif á vinnslu eða úrlausn umgengnismáls kæranda og falli því ekki undir gögn málsins í skilgreiningu 1. mgr. 45. gr. bvl.

Af meðfylgjandi gögnum málsins, minnisblaði sem fór fyrir umdæmisráð, dags. 19. febrúar 2024 ásamt úrskurði umdæmisráðs dagsettum 25. mars 2024, megi sjá að tölvupóstar fósturforeldra höfðu ekki þýðingu í tengslum við tillögu B að umgengni né úrlausn málsins að öðru leiti heldur réði þar öllu skýr og eindreginn vilji stúlkunnar sem kom fram í öðrum gögnum málsins sem hafa verið lögð fram.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. bvl. skal barnaverndarþjónusta með nægilegum fyrirvara láta aðilum máls í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess, enda tryggi þeir trúnað.

B styður synjun sína á afhendingu gagnanna á þeim rökum að í fyrsta lagi hafi kærandi takmarkaða aðkomu að máli stúlkunnar og sé einungis aðili að umgengnismáli er hana varðar. Í öðru lagi geta viðkvæmar persónuupplýsingar um fósturforeldra og stúlkuna ekki fallið undir gögn málsins að öðru leiti en þau sem hafi þýðingu við vinnslu þess og úrlausn. Búið sé að afhenda þau gögn sem teljast hafa þýðingu. Falla tiltekin gögn því ekki undir 1. mgr. 45. gr. bvl.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda um aðgang að gögnum máls sem var synjað með tölvupósti, dags. 12. mars 2024.

Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. bvl. getur barnaverndarþjónusta með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur B ekki kveðið upp rökstuddan úrskurð um þá kröfu kæranda sem til úrlausnar er í málinu eins og áskilið er í skýru ákvæði 2. mgr. 45. gr. bvl. Samkvæmt þessu var hin kærða ákvörðun ekki tekin með þeim hætti sem bvl. gera áskilnað um.

Að þessu gættu er óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til löglegrar málsmeðferðar og úrskurðar B.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun B frá 12. mars 2024, um að synja kröfu kæranda, A, um afhendingu gagna í máli er varðar dóttur hans, er felld úr gildi og málinu vísað til löglegrar málsmeðferðar og ákvörðunar að nýju.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum