Hoppa yfir valmynd

306/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 306/2020

Miðvikudaginn 16. desember 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 16. júní 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. maí 2020 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta hennar vegna ársins 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2019 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 125.039 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu og innborgunar inn á eldri kröfu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2020. Undir rekstri kærumálsins framkvæmdi Tryggingastofnun ríkisins nýjan endurreikning og uppgjör, dags. 23. júlí 2020. Niðurstaðan var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur að fjárhæð 56.353 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu og innborgunar inn á kröfuna.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. júní 2020. Með bréfi, dags. 19. júní 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 23. júlí 2020, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. júlí 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þær kröfur að úrskurðarnefnd velferðarmála felli úr gildi útreikninga Tryggingastofnunar og að úrskurðarnefndin geri stofnuninni að greiða kæranda til baka þá fjárhæð sem hafi þegar verið greitt af þessari meintu skuld með vöxtum og dráttarvöxtum.

Í kæru kemur fram að útreikningar stofnunarinnar á meintri skuld séu ekki réttir og að þeir séu ekki byggðir á réttum forsendum. Einnig byggir kærandi á því að rökstuðningur stofnunarinnar fyrir ákvörðuninni sé ekki fullnægjandi og ekki samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta 2019.

Við vinnslu kærumálsins hafi komið í ljós að leiðrétta hafi þurft uppgjörið þar sem gert hafði verið ráð fyrir greiðslu sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands á tímabilinu sem ekki hafi farið fram. Það verði útskýrt nánar síðar.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 99/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað teljist ekki til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Í a-lið 2. mgr. 16. gr. sé fjallað um fjármagnstekjur og þar segi: „Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“

Í 5. mgr. 18. laga um almannatryggingar sé kveðið á um áhrif tekna á örorkulífeyri samkvæmt 16. gr. laga um almannatryggingar. Í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð komi fram að um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt. 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Málavextir séu þeir að á árinu 2019 hafi kærandi verið með endurhæfingarlífeyri og tengdar greiðslur frá 1. maí til 30. júní.

Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2020 vegna tekjuársins 2019, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur hafi byggst á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri og tengdar bætur hafi verið samþykkt með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 3. apríl 2019, fyrir tímabilið 1. maí 2019 til 31. ágúst 2019. Kærandi hafi skilað inn tekjuáætlun þann 8. apríl 2019 sem hafi gert ráð fyrir að árstekjur væru 1.065.000 kr. í greiðslur frá stéttarfélagi og 2.259.214 kr. í lífeyrissjóðstekjur. Þar af hafi verið gert ráð fyrir 664.932 kr. í lífeyrissjóðstekjur á fjögurra mánaða tímabilinu 1. maí 2019 til 31. ágúst 2019 og hafi það eingöngu verið þessar áætluðu tekjur sem hafi haft áhrif á rétt kæranda til greiðslna Tryggingastofnunar í samræmi við 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 598/2009 og hafi þær haft áhrif á rétt kæranda til greiðslna frá Tryggingastofnun í samræmi við fjögurra mánaða greiðslutímabil.

Tryggingastofnun hafi borist upplýsingar um að kærandi hafi hætt í endurhæfingu hjá VIRK og hafi greiðslur til hennar verið stöðvaðar frá 30. júní 2019 með bréfi, dags. 13. júní 2019. Kærandi hafi því eingöngu fengið greiðslur endurhæfingarlífeyris og tengdra bóta í tvo mánuði í stað þeirra fjögurra mánaða sem gert hafi verið ráð fyrir í upphafi. Við stöðvun greiðslna hafi myndast ofgreiðsla að fjárhæð 80.403 kr., að frádreginni leiðréttri staðgreiðslu skatta þar sem áætlaðar tekjur kæranda innan tímabilsins að fjárhæð 664.932 kr. hafi fallið á þá tvo mánuði sem hún hafði notið greiðslnanna í stað þeirra fjögurra sem gert hafi verið ráð fyrir áður. Á þetta hafi reynt í kærumáli nr. 20/2020.

Við bótauppgjör ársins 2019 hafi komið í ljós að á tímabilinu 1. maí til 30. júní 2020 hafi kærandi haft hærri tekjur en gert hafi verið ráð fyrir, þ.e. 745.838 kr. í lífeyrissjóðstekjur og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna hafi verið 52.534 kr. í vexti og verðbætur. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2019, sem hafi farið fram 22. maí 2020, hafi verið sú að kærandi hafi verið ofgreidd í öllum bótaflokkum. Á árinu 2019 hafi kærandi fengið greiddar 310.071 kr. en hefði átt að fá greitt 37.401 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 125.039 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta, áður myndaðrar kröfu vegna ársins 2019 og innborgana á þá kröfu.

Þennan endurreikning hafi hins vegar þurft að leiðrétta þar sem við vinnslu kærunnar hafi komið í ljós að í endurreikningnum hafði einnig verið tekið tillit til greiðslu sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands. Það skýri af hverju greiðslur endurhæfingarlífeyris og aldurstengdrar örorkuppbótar hafi lækkað verulega í uppgjörinu, þrátt fyrir að tekjur kæranda hafi fyrst og fremst verið lífeyrissjóðstekjur sem hafi ekki áhrif á þá bótaflokka.

Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands hafi kærandi vissulega fengið sjúkradagpeninga á árinu 2019 en þeir sjúkradagpeningar, sem kærandi hafi átt rétt á frá 1. maí til 30. júní 2020, hafi verið dregnir frá greiðslum Sjúkratrygginga Íslands til kæranda þar sem þær hafi ekki farið saman með greiðslum endurhæfingarlífeyris. Það sé því ljóst að kærandi hafi ekki notið greiðslna sjúkradagpeninga á tímabilinu.

Stofnunin hafi því leiðrétt kröfuna sem því nemi og hafi hún lækkað um 68.686 kr. og standi í dag í 56.353 kr. Kæranda hafi verið send þessi nýju uppgjörsgögn.

Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir málið. Við þá yfirferð hafi verið gerðar leiðréttingar á fyrri ákvörðun og kæranda send ný uppgjörsgögn þar að lútandi. Telji úrskurðarnefnd að ástæða sé til þess að vísa málinu frá þar sem um nýja ákvörðun sé að ræða verði ekki gerðar athugasemdir við það. Þar sem hluti kröfunnar standi hins vegar ennþá, vilji stofnunin skila inn efnislegri greinargerð.

Með vísan til framanritaðs sé ákvörðun Tryggingastofnunar í samræmi við þau lög og reglur sem gilda um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2019.

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í maí og júní 2019. Í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segir að um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Um aðrar tengdar bætur fari eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri.

Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Í 5. mgr. 16. gr. kemur fram að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins og að bótagreiðsluár sé almanaksár, en sé um nýja umsókn að ræða skuli bótaréttur reiknaðar út frá þeim tekjum umsækjanda sem aflað er frá þeim tíma sem bótaréttur stofnaðist. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 598/2009, sbr. breytingareglugerð nr. 1118/2013, er Tryggingastofnun ríkisins heimilt þegar einstaklingur leggur inn nýja umsókn um bætur að miða útreikning bóta eingöngu við þær tekjur sem áætlað sé að aflað verði eftir að bótaréttur stofnast. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009 skal við endurreikning bóta til þeirra sem fengu greiðslur hluta úr bótagreiðsluári byggja á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Eingöngu ber að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur var fyrir hendi í.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Eins og áður segir naut kærandi greiðslna endurhæfingarlífeyris í maí og júní 2019. Í samræmi við framangreint ákvæði 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 598/2009 hafa allar tekjur kæranda í þeim mánuðum áhrif á réttindi kæranda. Forsaga málsins er sú að með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 14. ágúst 2019, var stofnuð krafa að fjárhæð 80.403 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu, vegna greiðslna endurhæfingarlífeyris og tengdra greiðslna til kæranda vegna framangreinds tímabils. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, kærumál nr. 20/2020, sem kvað upp úrskurð, dags. 19. maí 2020, þar sem ákvörðun Tryggingastofnunar var staðfest. Tekjuforsendur sem lágu til grundvallar þeirri ákvörðun voru eingöngu 664.032 kr. í lífeyrissjóðsgreiðslur. Kæra þessi varðaði í upphafi ákvörðun Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna, dags. 22. maí 2020. Undir rekstri kærumálsins tók Tryggingastofnun nýja ákvörðun í málinu, dags. 23. júlí 2020, og framkvæmdi nýjan endurreikning þar sem í ljós kom að ekki hafi verið notast við réttar tekjuforsendur í þeim fyrri. Úrskurðarnefndin mun í úrskurði þessum taka til skoðunar leiðréttan endurreikning stofnunarinnar.

Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. apríl 2019 var samþykktur réttur kæranda til greiðslna endurhæfingarlífeyris frá 1. maí 2019 til 31. ágúst 2019. Greiðslur til kæranda voru byggðar á tekjuáætlun kæranda frá 8. apríl 2019 þar sem gert var ráð fyrir að árstekjur kæranda væru annars vegar 1.065.000 kr. í greiðslur frá stéttarfélagi og hins vegar 2.259.214 kr. frá lífeyrissjóði. Gert var ráð fyrir að lífeyrissjóðstekjur kæranda á umræddu fjögurra mánaða tímabili væru 664.032 kr. Í kjölfar stöðvunar greiðslu endurhæfingarlífeyris þann 13. júní 2019 frá 1. júlí 2019 breyttust forsendur útreikninga stofnunarinnar þar sem fyrirliggjandi greiðslutímabil styttist úr fjórum mánuðum í tvo. Eins og áður hefur komið fram stofnaði Tryggingastofnun 14. ágúst 2019 kröfu vegna ofgreiddra bóta að fjárhæð 80.403 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2019 reyndust tekjur kæranda á tímabilinu maí til júní vera 745.838 kr. í lífeyrissjóðstekjur og sameiginlegar tekjur kæranda og maka reyndust vera 52.534 kr. í fjármagnstekjur. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2019 leiddi í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 56.353 kr., að teknu tilliti til áður myndaðrar kröfu, endurgreiddrar staðgreiðslu og innborgunar á kröfu. Kærandi hefur verið krafin um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er sú að lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur kæranda í maí og júní 2019 voru hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun. Leiðréttur endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2019 leiddi í ljós að kærandi hafi átt rétt á óskertum grunnlífeyri að fjárhæð 92.962 kr. og óskertri aldurstengdri örorkuuppbótað að fjárhæð 23.242, en skertri tekjutryggingu og orlofs- og desemberuppbót sökum tekna.

Á grundvelli 22. gr. laga um almannatryggingar skal greiða tekjutryggingu þeim sem fá örorku- og endurhæfingarlífeyri. Skattskyldar tekjur samkvæmt 2. mgr. 16. gr. sömu laga, sem fara yfir frítekjumark, skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna sem umfram eru. Samkvæmt framangreindu hafa lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur áhrif á rétt til greiðslna tekjutryggingar, sbr. einnig A og C-liði 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Á árinu 2019 var óskert tekjutrygging 148.848 kr. á mánuði, sbr. reglugerð nr. 1202/2018 um fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar. Á árinu 2019 var frítekjumark tekjutryggingar vegna lífeyrissjóðstekna 328.800 kr. á ári og frítekjumark fjármagnstekna 98.640 kr. á ári, sbr. reglugerð nr. 1205/2018 um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2019. Uppreiknaðar viðmiðunartekjur kæranda á árinu 2019 voru 4.632.636 kr. í lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur. Að teknu tilliti til frítekjumarks að fjárhæð 328.800 kr. vegna lífeyrissjóðstekna og 95.640 kr. vegna fjármagnstekna og 38,35% skerðingarhlutfalls var reiknuð tekjuskerðing á ári 1.612.692 kr. Tekjuskerðing á mánuði á grundvelli framangreindra forsendna eru því 134.391 kr. á mánuði og í ljósi þess átti kærandi rétt á 28.914 kr. í tekjutryggingu mánuðina maí og júní 2019. Á grundvelli 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1199/2018 um eingreiðslur til lífeyrisþega 2019 skal orlofsuppbót til endurhæfingarlífeyrisþega nema 20% af fjárhæð tekjutryggingar lífeyrisþega miðað við 1/12 af greiðslurétti lífeyrisþega síðustu 12 mánuði fyrir greiðslu uppbótarinnar. Á grundvelli 2. mgr. sömu greinar skal desemberuppbót til endurhæfingarlífeyrisþega nema 30% af fjárhæð tekjutryggingar og fjárhæðin skal reiknast miðað við 1/12 af greiðslurétti lífeyrisþega á árinu 2019. Kærandi átti því rétt á samtals 1.205 kr. í orlofs- og desemberuppbætur á árinu 2019. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að útreikningar Tryggingastofnunar séu réttir.

Kærandi byggir á því að Tryggingastofnun hafi ekki rökstutt ákvörðun sína í samræmi við áskilnað stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega, án þess að henni fylgi rökstuðningur, skal veita leiðbeiningar um heimild til þess að fá ákvörðun rökstudda, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skal í rökstuðningi vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við matið.

Fyrir liggur að í ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2020, er einungis vísað í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar í neðanmálsgrein án þess að fjallað sé nánar um ákvæðið. Úrskurðarnefndin telur að ákvörðunin sé að þessu leyti ekki í samræmi við 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings. Þá voru ekki veittar leiðbeiningar um heimild til þess að fá ákvörðun rökstudda í samræmi við 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin telur þó ekki tilefni til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi með vísan til framangreindra annmarka, enda var bætt úr þeim með umfjöllun í greinargerð Tryggingastofnunar til úrskurðarnefndarinnar.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum ársins 2019. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2019, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira