Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 25/2018. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 16. nóvember 2018 kærði Origo hf. ákvörðun varnaraðila Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um „að bjóða ekki út kaup á diskastæðu og hýsingu á öllu íslenskum efni á internetinu í samræmi við rammasamninga RK 03.04 um gagnageymslur og rammasamning RK 03.06 um gagnahýsingu.“ Jafnframt er kærð sú ákvörðun varnaraðila „að leita tilboða innlendra og erlendra aðila sem ekki voru hluti af áðurnefndum rammasamningum sem og í kjölfarið að semja við Endor ehf. um kaup á diskastæðu og hýsingu á öllu íslensku efni á internetinu.“ Kærandi krefst þess að kærunefnd láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila auk málskostnaðar.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 24.maí 2019
í máli nr. 25/2018:
Origo hf.
gegn
Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 16. nóvember 2018 kærði Origo hf. ákvörðun varnaraðila Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um „að bjóða ekki út kaup á diskastæðu og hýsingu á öllu íslenskum efni á internetinu í samræmi við rammasamninga RK 03.04 um gagnageymslur og rammasamning RK 03.06 um gagnahýsingu.“ Jafnframt er kærð sú ákvörðun varnaraðila „að leita tilboða innlendra og erlendra aðila sem ekki voru hluti af áðurnefndum rammasamningum sem og í kjölfarið að semja við Endor ehf. um kaup á diskastæðu og hýsingu á öllu íslensku efni á internetinu.“ Kærandi krefst þess að kærunefnd láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila auk málskostnaðar.

Varnaraðila var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerð 21. desember 2018 krafðist varnaraðili þess að kröfum kæranda yrði vísað frá eða hafnað. Kærandi skilaði andsvörum 25. janúar 2019. Með bréfi 11. mars 2019 óskaði kærunefnd eftir frekari gögnum og upplýsingum frá varnaraðila, meðal annars um mat á verðmæti hinna kærðu innkaupa. Svar barst frá varnaraðila 3. apríl 2019.

I

Í byrjun árs 2016 stóðu Ríkiskaup fyrir rammasamningsútboði nr. 20114 auðkennt „RS Hýsingar- og rekstrarþjónusta“. Í grein 1.1. í útboðsgögnum kom fram að óskað væri tilboða í hýsingar- og rekstrarþjónustulausnir og væri útboðinu skipt í þrjá megin flokka. Í fyrsta lagi þjónustu sem veitt væri í húsnæði bjóðenda, sem skiptist nánar í kerfisveitu, hýsingarþjónustu, gagnagrunnshýsingu og þjónustu og afritunarþjónustu. Í öðru lagi tækni- og rekstarþjónustu sem veitt væri hjá verkkaupa og í þriðja lagi afritunarþjónustu. Kom fram að gerður yrði rammasamningur við þá bjóðendur sem uppfylltu kröfur útboðsins og byðu þjónustu og lausnir í a.m.k. einum af þremur flokkum útboðsins. Þá kom fram að allar stofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins á hverjum tíma væru aðilar að rammasamningum ríkisins. Jafnframt að ekki væri ljóst hvaða magn yrði keypt á grundvelli útboðsins og að aðild að rammasamningi veitti bjóðendum ekki tryggingu fyrir viðskiptum. Skyldi rammasamningurinn gerður til tveggja ára með heimild til framlengingar að hámarki fjórum sinnum um eitt ár í senn. Í grein 1.8 kom fram að helstu rökin fyrir heildarlengd samningsins væri „skiptikostnaður kaupenda við skiptingu á þjónustuaðila og óhagræðis [svo] sem felst í stuttum þjónustusamningum.“ Í grein 1.9 voru gerðar ákveðnar kröfur til hæfis bjóðenda og í grein 2.2 voru gerðar nánari kröfur til þjónustu þeirrar sem bjóðendur skyldu veita. Í greinum 3.1 og 3.2.1 kom fram að kaupendur skyldu framkvæma innkaup með örútboðum innan rammasamnings og að við slík kaup skyldi leggja til grundvallar vali á tilboðum verð, sem skyldi gilda á bilinu 80-100%, og gæði og þjónustu, sem skyldi gilda á bilinu 0-20%. Af gögnum málsins verður ráðið að samið hafi verið við níu birgja, þ.á m. kæranda og fyrirtækið TRS ehf. Þá liggur fyrir að gildistími samningsins var framlengdur til 30. apríl 2019.

Í ágúst 2017 stóðu Ríkiskaup fyrir rammasamningsútboði nr. 20348 auðkennt „RS UT Miðlægur tölvubúnaður, netþjónar og gagnageymslur.“ Í grein 1.1. í útboðsgögnum kom fram að óskað væri eftir tilboðum í UT netþjóna og gagnageymslur. Kom fram að miðlægum búnaði væri skipt í tvo flokka, netþjóna og gagnageymslur, og skiptist hvor flokkur um sig í nánari undirflokka. Í grein 1.2 kom fram að allar stofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins á hverjum tíma væru aðilar að rammasamningum ríkisins. Jafnframt kom fram að ekki væri ljóst hvaða magn yrði keypt á grundvelli útboðsins, en tilgreint var að velta samningsins væri áætluð um 300 milljónir króna á ári með virðisaukaskatti. Kom fram að samið yrði við allt að fjóra birgja ef nægilega margir uppfylltu skilmála útboðsins, en þó yrði ekki samið við fjórða aðila ef hann væri með 15% lægri einkunn en sá þriðji. Í grein 2 voru gerðar ákveðnar kröfur til hæfis bjóðenda. Í grein 3 var fjallað um valforsendur og kom fram að fjárhagsleg hagkvæmni innkaupa yrði metin á grundvelli besta hlutfalls milli verðs og gæða þar sem verð skyldi gilda 80% en gæði 20%. Mat á gæðum skyldi byggjast á reynslu starfsfólks, vottun á þjónustu bjóðenda í samræmi við gæðastaðla og þjónustugetu. Kom fram að sá bjóðandi sem fengi hæstu einkunn í hvorum flokki fyrir sig yrði skilgreindur sem forgangsbirgi 1 og sá sem kæmi næstur forgangsbirgi 2. Gert var ráð fyrir að gerður yrði rammasamningur til eins árs sem heimilt væri að framlengja þrisvar sinnum um eitt ár í senn. Þá kom fram í grein 6.3 að kaupendur skyldu eiga bein viðskipti við forgangsbirgja þegar verðmæti fyrirhugaðra innkaupa væri undir 100.000 krónum, svo fremi sem varan sem um ræði geti nýst og henti í tæknilegu umhverfi hans. Gæti forgangsbirgi ekki útvegað samningsvöru skyldi kaupandi snúa sér að þeim birgja sem hefði fengið næst hæstu einkunn samkvæmt valforsendum. Önnur innkaup skyldu gerð með örútboðum þar sem gert var ráð fyrir að horft yrði til verðs og gæða tilboða við mat á hagkvæmasta tilboði. Þá kom fram í útboðsgögnum að ef um væri að ræða viðbótarkaup, þ.e. kaup á vöru af tiltekinni tegund eða gerð inn í tæknilegt umhverfi kaupenda sem þegar væri til staðar, eða kaup á jafngildri vöru í tæknilegt umhverfi kaupenda sem fyrir væri, væri heimilt að víkja frá rammasamningnum væri það metið svo að skiptikostnaður í aðra vörutegund væri ekki fjárhagslega hagkvæmur fyrir viðkomandi stofnun. Af gögnum málsins verður ráðið að gerður hafi verið rammasamningur við fjögur fyrirtæki, þ.á m. kæranda, sem var skilgreindur sem forgangsbirgi. Þá liggur fyrir að rammasamningur þessi var í gildi til 30. nóvember 2018.

Fyrir kærunefnd útboðsmála hafa verið lagðir fram tveir svonefndir þjónustusamningar milli varnaraðila sem þjónustukaupa og Endor ehf. sem þjónustusala, báðir dagsettir 12. október 2018. Í öðrum samningnum var kveðið á um að Endor ehf. skyldi veita varnaraðila þjónustu við hýsingu gagna í gagnaverum í Reykjanesbæ, á Selfossi og í Reykjavík, svonefnda EC Storage lausn. Skyldi Endor ehf. útvega allan vélbúnað og vélarsalaaðstöðu ásamt þjónustu og uppitíma. Skyldi varnaraðili greiða ákveðið fast mánaðargjald auk þess sem greiða skyldi tiltekið tímagjald fyrir tiltekna vinnu sérfræðinga yrði eftir því óskað. Skyldi samningurinn vera uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara en endurnýjast ótímabundið nema aðilar segðu honum skriflega upp. Þá var gerður samningur milli sömu aðila um leigu varnaraðila á hýsingarplássi í vélasal Endor ehf. á Reykjanesi. Skyldi varnaraðili leigja sér skápapláss í sal Endor ehf. og fá aðgang að salnum gegn framvísun skilríkja. Skyldi varnaraðili greiða ákveðið fast mánaðargjald fyrir aðstöðuna. Skyldi samningurinn vera uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara en endurnýjast ótímabundið nema aðilar segðu honum skriflega upp. Þá liggur fyrir í málinu reikningur frá Endor ehf. til varnaraðila í mars 2018 fyrir kaupum á gagnastæðu. Jafnframt liggur fyrir svonefndur samstarfssamningur frá 27. júlí 2016 þar sem samningsaðilar eru tilgreindir Endor ehf., sem þjónustusali, og Tölvu og rafeindaþjónusta Suðurlands, sem þjónustukaupi. Samningur þessi varðaði kaup á gagnageymsluþjónustu og hýsingarþjónustu/kerfisleigu.

Af gögnum málsins verður ráðið að 29. október 2018 hafi birst frétt í Viðskiptablaðinu um að varnaraðili hefði samið við Endor ehf. um kaup á diskastæðu og hýsingu á íslensku efni á internetinu. Kærandi sendi varnaraðila 1. nóvember sama ár tölvubréf þar sem kom fram að kærandi væri forgangsbirgi samkvæmt rammasamningi um gagnageymslur og því væri óskað eftir skýringu á því hvers vegna tilboða var ekki leitað frá kæranda. Fram kom í svari varnaraðila 2. nóvember 2018 að ekki hefði verið um útboðsskylt verk að ræða. Einungis hefði verið samið um gagnahýsingu en ekki kaup á búnaði og hafi upphæð samnings verið langt undir viðmiðunarfjárhæðum. Þá hafi varnaraðili framkvæmt óformlega verðkönnun á hýsingu bæði innanlands og utanlands og komist að þeirri niðurstöðu að Endor ehf. væri með bestu lausnina fyrir varnaraðila. Kærandi kveðst hafa mótmælt þessari afstöðu varnaraðila og óskað eftir afriti af verðkönnun þeirri sem varnaraðili kvaðst hafa framkvæmt og samningi hans við Endor ehf. Gögn þessi hafi hins vegar ekki borist þegar mál þetta hafi verið kært 16. nóvember 2018.

II

Málatilbúnaður kæranda byggir á því að varnaraðili hafi gert tvíþættan samning við Endor ehf., annars vegar um kaup á gagnahýsingu og hins vegar um kaup á gagnageymslu. Í gildi séu rammasamningar sem taki til umræddra vara sem kærandi sé aðili að en Endor ehf. ekki. Kærandi bendir á að hann hafi verið forgangsbirgi samkvæmt rammasamningi nr. 20348 um miðlægan tölvubúnað, netþjóna og gagnageymslur og því hafi varnaraðila borið skylda til að eiga viðskipti við kæranda hafi kaup verið undir 100.000 krónum en ella skylda til að viðhafa örútboð. Hið sama eigi við um rammasamning nr. 20114 um hýsingar og rekstarþjónustu, en samkvæmt þeim samningi hafi borið að kaupa inn með örútboðum. Því hafi varnaraðili með ákvörðun sinni um að ganga til samninga við Endor ehf, án þess að leita verðtilboðs hjá kæranda, brotið gegn skyldum sínum samkvæmt framangreindum rammasamningum og lögum um opinber innkaup. Þá hafi kæranda fyrst orðið kunnugt um samning milli varnaraðila og Endor ehf. þann 29. október 2018 þegar frétt þess efnis hafi verið birt í Viðskiptablaðinu.

III

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að kærufrestur í máli þessu hafi byrjað að líða við gerð fyrrgreindra samninga 12. október 2018 og því hafi kærufrestur verið liðinn við móttöku kæru 16. nóvember 2018. Þá hafi kæranda mátt vera kunnugt um þær viðræðu sem voru undanfari samninganna og kærufrestur því í raun byrjað að líða fyrr.

Varnaraðili byggir jafnframt á því að hann hafi í gert samninga um hin kærðu innkaup við aðila rammasamningana. Fyrirtækið TRS ehf. sé aðili að umræddum rammasamningum og samningar varnaraðila um hin kærðu innkaup séu báðir gerðir við það fyrirtæki. Endor ehf. sé undirverktaki TRS ehf., en síðargreint fyrirtæki muni selja varnaraðila þjónustuna og muni greiðslur renna til þess. Þá séu umræddir rammasamningar ekki skuldbindandi fyrir varnaraðila, enda sé ekki lagaheimild fyrir því að Ríkiskaup sjái um útboð og gerð rammasamninga sem bindi varnaraðila. Varnaraðili hafi ekki samþykkt að Ríkiskaup annist útboð fyrir sig, en varnaraðili beri skyldur samkvæmt lögum og ábyrgð á eigin innkaupum. Sé því varnaraðila bæði óheimilt að framselja og Ríkiskaupum að taka við allsherjarvaldi til að bjóða út og gera rammasamninga sem bindi varnaraðila. Þá hafi varnaraðili heldur ekki samþykkt framlengingu á rammasamningi nr. 20114 um hýsingar- og rekstarþjónustu eins og nauðsynlegt hafi verið.

Varnaraðili byggir jafnframt á því að kaup á gagnastæðu hafi verið samningskaup án undangenginnar útboðsauglýsingar sem hefðu verið heimil samkvæmt b. lið 2. mgr. 39. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, þar sem um viðbótarvöru hafi verið að ræða. Val á nýjum bjóðanda hefði samræmst illa þeim tækjabúnaði sem til staðar sé hjá varnaraðila og hefði leitt til óeðlilega mikilla tæknilegra erfiðleika. Þessi meginregla hafi auk þess komið fram í útboðgögnum þar sem fram komi að sé kaupandi með búnað af tiltekinni gerð og þurfti að uppfæra, stækka eða bæta við, sé heimilt að kaupa slíkar viðbætur án örútboðs. Þá sé það meginregla við gerð rammasamninga að svigrúm sé til þess að kaupa 5-10% utan rammasamninga.

Varnaraðili byggir jafnframt á því að ýmis ákvæði umræddra rammasamninga hafi verið ólögmæt og ónothæf. Þannig geti kaupandi samkvæmt rammasamningi samið við eins marga bjóðendur og honum sýnist um sömu innkaup án þess að raunverulegt val á aðilum samnings fari fram. Sé útboðið þannig ekki til neins enda haldi fyrirtæki áfram að keppa um innkaupin. Í rammasamningi nr. 20114 hafi verið gert ráð fyrir því að semja við alla aðila sem uppfylltu hæfiskröfur og aðra skilmála útboðsins. Því hafi verið valið inn í rammasamninginn með ólögmætum hætti. Þar sem samningurinn hafi komist á með ólögmætum hætti sé ekki lögmætt af kæranda að gera kröfur um að aðilar samningsins eigi forgang til viðskipta umfram önnur áhugasöm fyrirtæki. Þá hafi í rammasamningi nr. 20348 fyrir fram verið gert ráð fyrir að semja við allt að fjóra og a.m.k. þrjá bjóðendur. Ólögmætt sé að ákveða slíkt fyrir fram enda geti verið mikill munur á hagkvæmasta tilboði og því þriðja eða fjórða hagkvæmasta. Hafi í útboði nr. 20348 verið gert ráð fyrir að einstök kaup, þar sem kostnaður færi yfir 100.000 krónur, yrðu boðin út í örútboði. Þessi fyrirmæli útboðsgagna eigi sér ekki stöð í lögum um opinber innkaup og séu í raun í skýrri andstöðu við þau tilvik þar sem örútboð eiga að fara fram. Í rammasamningsútboði nr. 20114 hafi auk þess verið ósamræmi á milli valforsendna útboðsins og þeirra valforsendna sem mögulegt hafi verið að nota í örútboðum á grundvelli þess rammasamnings. Valforsendurnar fólu í reynd í sér heimild kaupanda til að haga mati á tilboðum í örútboði alfarið að eigin geðþótta.

Varnaraðili byggir á því að skilyrði skaðabótaskyldu séu hvað sem öðru líður ekki uppfyllt. Kærandi hafi ekki tekið þátt í neinu innkaupaferli og geti því ekki átt rétt á skaðabótum vegna slíkrar þátttöku. Þá gefi kærunefnd útboðsmála ekki álit á efndabótum, auk þess sem ekki hafi verið sýnt fram á að varnaraðili hefði samið við kæranda.

Í svari varnaraðila 3. apríl 2019 við fyrirspurn kærunefndar útboðsmála um hvernig hann hefði metið verðmæti samninga um hin kærðu innkaup kom fram að hann hefði talið verðmæti samninganna nema umsaminni greiðslu fyrir þrjá mánuð. Samningarnir hafi gert ráð fyrir þriggja mánaða uppsagnarfresti og hafi varnaraðili litið svo á að hann gengist aðeins undir skuldbindingu til þriggja mánaða.

IV

Í máli þessu verður að leggja til grundvallar að kæranda hafi fyrst orðið kunnugt um hin kærðu innkaup þann 29. október 2018 þegar frétt þess efnis að varnaraðili hefði gert samninga við Endor ehf. um kaup á gagnastæðu og hýsingu, var birt í Viðskiptablaðinu. Kæra var móttekin hjá kærunefnd útboðsmála 11. nóvember 2018 og barst því innan kærufrests samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Í máli þessu er deilt um hvort framkvæma hafi átt hin kærðu innkaup varnaraðila í samræmi við rammasamninga nr. 20348 um miðlægan tölvubúnað, netþjóna og gagnageymslur og nr. 20114 um hýsingar og rekstarþjónustu. Lagður hefur verið fram reikningur frá mars 2018 um kaup varnaraðila á gagnastæðu af Endor ehf. og tveir þjónustusamningar frá 18. október 2018 þar sem varnaraðili keypti þjónustu við hýsingu gagna og leigði hýsingarpláss í vélasal fyrirtækisins. Að mati kærunefndar verður ekki annað ráðið en að um sé að ræða innkaup sem framangreindir rammasamningar tóku til samkvæmt efni sínu. Af gögnum þessum verður einnig ráðið að gagnaðili varnaraðila í framangreindum viðskiptum hafi verið Endor ehf., en ekki TRS ehf. eins og kærandi heldur fram. Fyrir liggur að Endor ehf. átti ekki aðild að umræddum rammasamningum.

Í 3. mgr. 99. gr. laga um opinber innkaup kemur fram að Ríkiskaup geri rammasamninga fyrir hönd ríkisins og annist útboð og önnur innkaupaferli sem fram fara á vegum ríkisstofnana vegna innkaupa, hvort heldur er yfir innlendum viðmiðunarfjárhæðum eða viðmiðunarfjárhæðum fyrir EES-svæðið. Ráðherra geti þó heimilað einstökum ríkisstofnunum að annast eigin innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum. Af ákvæði þessu verður ráðið að ríkisstofnunum sé að jafnaði skylt að láta Ríkiskaup annast innkaup sín. Verður að miða við að þegar Ríkiskaup hafa gert rammasamning fyrir hönd ríkisstofnana verði þær að haga innkaupum sínum í samræmi við þá. Kærunefnd útboðsmála hefur ítrekað lagt til grundvallar í fyrri úrskurðum sínum að rammasamningar séu bindandi þannig að kaupendur sem eiga aðild að þeim séu skuldbundnir til að skipta eingöngu við aðila rammasamnings um þau innkaup sem samningur tekur til, nema frávik séu sérstaklega tilgreind í útboðsgögnum, sbr. og 2. mgr. 40. gr. laga um opinber innkaup. Með hliðsjón af þessu verður að leggja til grundvallar að varnaraðili hafi átt aðild að framangreindum rammasamningum, en það var jafnframt áréttað í rammasamningsgögnum að allar stofnanir og fyrirtæki í meirihluta eigu ríkisins á hverjum tíma ættu aðild að rammasamningum ríkisins. Var varnaraðila samkvæmt framansögðu skylt að framkvæma innkaup á vörum og þjónustu sem féllu undir gildissvið rammasamninganna í samræmi við ákvæði þeirra.

Í samningum þessum var ekki að finna heimild fyrir kaupendur til að beina tilteknum hluta viðskipta sinna til aðila sem stóðu utan rammasamnings. Varnaraðili hefur ekki fært að því viðhlítandi rök að honum hafi verið innkaupin heimil á grundvelli þess að tækjabúnaður sem hafi verið í boði hjá kæranda eða öðrum aðilum að umræddum rammasamningnum hefði ekki samræmst þeim tækjabúnaði sem var fyrir hjá varnaraðila eða hefði leitt til óeðlilega mikilla tæknilegra erfiðleika, sbr. til hliðsjónar grein 6.3.4 í rammasamningsgögnum vegna útboðs nr. 20348. Þá er heldur ekki fallist á þá röksemd varnaraðila að ákvæði umræddra rammasamninga hafi verið ólögmæt þannig að honum hafi verið heimilt að horfa fram hjá því fyrirkomulagi innkaupa sem þar var mælt fyrir um. Verður jafnframt að líta til þess að varnaraðila bar að framkvæma umrædd innkaup í samræmi við lögmælt innkaupaferli hvað sem leið lögmæti umræddra rammasamninga.

Samkvæmt þessu fylgdi varnaraðili ekki framangreindum rammasamningum eða ákvæðum laga nr. 120/2016 við hin umdeildu innkaup. Séu samningar gerðir heimildarlaust án auglýsingar yfir viðmiðunarfjárhæðum á EES-svæðinu getur komið til álita að lýsa þá óvirka, sbr. 115. gr. laganna. Þá kann að ákveðnum skilyrðum uppfylltum að vera tilefni til álagningar stjórnvaldssekta, sbr. 118. gr. laganna. Eins og mál þetta liggur fyrir nefndinni kemur eingöngu til skoðunar sú krafa kæranda að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á bótaskyldu varnaraðila vegna hinna kærðu innkaupa.

Í 2. mgr. 111. laga um opinber innkaup kemur fram að kærunefnd útboðsmála geti látið uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda, en tjái sig ekki um fjárhæð skaðabóta. Hinar efnislegu reglur um skaðabætur vegna brota á lögunum koma síðan fram í 119. gr. laganna, í tveimur málsgreinum. Samkvæmt 1. mgr. er kaupandi skaðabótaskyldur vegna tjóns sem brot á reglum um opinber innkaup hafa í för með sér fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki þarf einungis að sanna að það hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valið af kaupanda og möguleikar þess hafi skerst við brotið. Bótafjárhæð skal miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði. Ákvæði þetta á rætur sínar að rekja til 84. gr. þágildandi laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Í greinargerð með ákvæðinu kom fram að með því væri sett sú „almenna regla að kaupanda beri að greiða bjóðanda kostnað, sem leitt hefur af þátttöku hans í útboði, nema sýnt sé fram á að réttarbrot hans hafi ekki haft þýðingu um niðurstöðu útboðsins. [...] Með ákvæðinu er sönnunarbyrðin um að afleiðing brots hafi ekki valdið bjóðanda tjóni lögð á kaupanda. Með þessu er bjóðanda veitt virkt úrræði til að bregðast við réttarbroti kaupanda og fá þetta tjón sitt bætt með nokkuð auðveldum hætti.“ Í 2. mgr. 119. gr. laga um opinber innkaup kemur síðan fram að um skaðabætur vegna brota á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim fari að öðru leyti eftir almennum reglum. Í framkvæmd kærunefndar útboðsmála hefur að jafnaði tíðkast að einskorða álit um skaðabótaskyldu við bætur samkvæmt 1. mgr. 119. gr., enda ráðist niðurstaða um bætur samkvæmt 2. mgr. 119. gr., eða svonefnda efndabótaskyldu, af fjölmörgum þáttum sem falla ekki nema að litlu leyti undir verksvið nefndarinnar. Nefndin telur ekki ástæðu til að víkja frá þeirri grunnreglu hér og því kemur eingöngu til athugunar hvort nefndin telji skilyrðum 1. mgr. 119. gr. vera fullnægt.

Fyrir liggur að varnaraðili framkvæmdi ekki innkaupaferli í samræmi við framangreinda rammasamninga eða ákvæði laga um opinber innkaup. Sérreglan um bætur í 1. mgr. 119. gr. laga nr. 120/2016 tekur hins vegar samkvæmt orðum sínum og fyrrnefndum lögskýringargögnum eingöngu til kostnaðar við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði. Ótvírætt er að kærandi hefur ekki orðið fyrir slíkum kostnaði. Samkvæmt þessu eru ekki efni til þess að kærunefnd útboðsmála láti uppi það álit í málinu að varnaraðili sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda. Með hliðsjón af þessum málsúrslitum og dómi Hæstaréttar frá 2. apríl 2007 í máli nr. 555/2006 fellur málskostnaður milli aðila niður.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Origo hf., vegna kaupa varnaraðila, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, á gagnastæðu og hýsingu, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.

Reykjavík, 24. maí 2019.


Ásgerður Ragnarsdóttir

Eiríkur Jónsson

Auður FinnbogadóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira