Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 280/2019 - Úrskurður

Ofgreiddar bætur. Staðfest ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2018. Ekki fallist á að Tryggingastofnun bæri einungis að líta til tekna þeirra mánaða sem kærandi fékk greiddar bætur við endurreikning og uppgjör, enda skal leggja 1/12 af áætluðum tekjum til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar og bótagreiðsluár er almanaksár, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. ​

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 280/2019

Miðvikudaginn 16. október 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 3. júlí 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. maí 2019 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2018.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2018 reiknaðist Tryggingastofnun ríkisins að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfi, dags. 22. maí 2019, fór stofnunin fram á endurgreiðslu ofgreiddra bóta. Kærandi andmælti endurreikningnum með tölvupósti 29. maí 2019 og var honum svarað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 2. ágúst 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. júlí 2019. Með bréfi, dags. 9. júlí 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 8. ágúst 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. ágúst 2019. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að við uppgjör og endurreikning Tryggingastofnunar séu ekki teknar með launatekjur hans á því tímabili er hann fékk ekki greiddar bætur frá stofnuninni. 

Í kæru greinir kærandi frá því að Tryggingastofnun sé að rukka hann um X kr. vegna ofgreiddra örorkubóta fyrir tímabilið X til X árið 2018. Ástæða kröfunnar sé sú að í maí 2018 hafi kærandi fengið betur borgaða vinnu en áður og vegna þess hafi hann breytt tekjuáætlun sinni í X. Tryggingastofnun sé nú að reyna að fá endurgreitt allt sem hann hafi fengið greitt frá stofnuninni á tímabilinu X til X og meira til.

Kærandi hafi andmælt þessum reikningi. Hann hafi sent inn launaseðla á því tímabili og hafi reynt að útskýra að á þessum tíma hafi hann verið á þessum launum en Tryggingastofnun hafi ekki tekið mark á því. Tryggingastofnun vilji meina að vegna þess að hann hafi fengið „X“ mikið í laun yfir árið eigi hann að endurgreiða bæturnar vegna þess að bætur séu reiknaðar á ársgrundvelli. Að mati kæranda gangi það ekki upp ef hann hafi ekki verið að fá bætur greiddar yfir allt árið. Að mati kæranda sé þetta ósanngjarnt og gjörsamlega órökrétt og vilji hann að þessi reikningur verði látinn falla niður.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2018.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Til grundvallar útreikningi á tekjutengdum bótum hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins samkvæmt tekjuáætlun, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Einnig komi fram að bótagreiðsluár sé almanaksár samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar og 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Á árinu 2018 hafi kærandi verið með réttindi til örorkulífeyris og tengdra greiðslna allt árið. Uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins hafi leitt til X kr. ofgreiðslu, að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2019 vegna tekjuársins 2018, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur hafi byggst á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Í upphafi árs 2018 hafi Tryggingastofnun gert tillögu að tekjuáætlun vegna tekjuársins 2018. Tekjuáætlunin hafi gert ráð fyrir því að kærandi hefði X kr. í launatekjur, X kr. í atvinnuleysisbætur og X kr. í fjármagnstekjur, sameiginlegar með maka. Einnig hafi verið gert ráð fyrir iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar að fjárhæð X kr. Kærandi hafi ekki gert neinar athugasemdir og hafi honum verið greitt samkvæmt tekjuáætluninni frá X til X 2018.

Við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar í […] 2018 hafi komið í ljós misræmi á milli tekjuáætlunar kæranda og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá RSK. Tryggingastofnun hafi búið til nýja tillögu að tekjuáætlun á grundvelli upplýsinga úr staðgreiðsluskrá og hafi kæranda verið sent bréf þann X 2018 þar sem tilkynnt hafi verið um hina nýju tillögu að tekjuáætlun. Samkvæmt henni hafi verið gert ráð fyrir að launatekjur yrðu hærri en gert hafi verið ráð fyrir eða X kr., en aðrar tekjur óbreyttar. Með sama bréfi hafi kæranda einnig verið tilkynnt um að búið væri áætla á hann kröfu vegna ofgreiddra bóta á tímabilinu X til X 2018 og einnig að allar greiðslur til hans myndu falla niður frá og með X 2018.

Þann X 2018 hafi kærandi skilað inn nýrri tekjuáætlun þar sem gert hafi verið ráð fyrir að X kr. í launatekjur yrðu á árinu 2018, en að aðrar tekjur yrðu óbreyttar. Ný greiðsluáætlun hafi verið unnin á grundvelli hennar og greiðslur hafist aftur, samanber bréf stofnunarinnar, dags. X 2018. Kæranda hafi verið greitt í samræmi við þessa áætlun til X 2018.

Við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar í […] 2018 hafi aftur komið í ljós misræmi á milli tekjuáætlunar kæranda og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá RSK. Tryggingastofnun hafi útbúið nýja tillögu að tekjuáætlun á grundvelli upplýsinga úr staðgreiðsluskrá og hafi kæranda verið sent bréf þann X 2018 þar sem tilkynnt hafi verið um hina nýju tillögu að tekjuáætlun. Í þeirri áætlun hafi verið gert ráð fyrir að launatekjur ársins yrðu hærri en gert hafi verið ráð fyrir eða X kr., en aðrar tekjur óbreyttar. Með sama bréfi hafi kæranda einnig verið tilkynnt um að búið væri að áætla á hann kröfu vegna ofgreiddra bóta á tímabilinu X til X 2018 og einnig að allar greiðslur til kæranda myndu falla niður frá og með X 2018. Í kjölfar bréfsins hafi kærandi skilað inn nýrri tekjuáætlun þar sem hann hafi lækkað launatekjur sínar niður í X kr. yfir árið, en sú áætlun hafi ekki haft áhrif á greiðslur til hans.

Við bótauppgjör ársins 2018 hafi komið í ljós að endanlegar tekjur kæranda hafi verið X kr. í launatekjur og X kr. í vexti og verðbætur. Einnig hafi verið tekið tillit til þess að greitt hafði verið X kr. í iðgjald til lífeyrissjóðs sem hafi komið til frádráttar.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2018 hafi verið sú að kærandi hafi verið að fullu ofgreiddur í öllum bótaflokkum nema orlofs- og desemberuppbótum. Kærandi hafi fengið X kr. greiddar á árinu en hafi með réttu átt að fá X kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Í kæru komi fram að kærandi telji að einungis eigi að miða við þær launatekjur sem kærandi hafi verið með áður en að hann hafi fallið af greiðslum vegna tekna. Til grundvallar bótaútreikningi skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluárs og bótagreiðsluár sé almanaksár, samanber 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 4. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Lífeyrisréttur kæranda hafi verið fyrir hendi allt árið, þrátt fyrir að innan þess hafi hann ekki fengið greitt hluta árs vegna tekna, og tekjur sem koma til innan ársins hafi því áhrif á útreikning bótagreiðslna alls ársins. Það sé alveg ljóst að bótagreiðsluárið sé almanaksár samkvæmt 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 2. og 6. gr. reglugerðarinnar.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta hinni kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2018.

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2018. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 5. mgr. 16. gr. kemur fram að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins og að bótagreiðsluár sé almanaksár. Sú regla kemur einnig fram í 2. gr. og 3. málsl. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, sem sett var meðal annars með stoð í 12. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 6. mgr. 55. gr. og 70. gr laganna. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda, vegna tekjuársins 2018, reyndust launatekjur hans vera X kr. og iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar reyndust vera X kr., auk X kr. í fjármagnstekjur. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2018 leiddi í ljós að kærandi hafi ekki átt rétt á neinum greiðslum á árinu, að undanskildum orlofs- og desemberuppbótum. Samtals reyndist ofgreiðsla ársins vera X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar. Tryggingastofnun felldi niður greiðslur örorkulífeyris og tengdra greiðslna vegna tekna í kjölfar samkeyrslu tekjuáætlunar kæranda við staðgreiðsluskrá þann X 2019.

Að framangreindu virtu liggur fyrir að bótaárið er almanaksárið, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þá liggur fyrir að kærandi var með örorkumat allt árið 2018 en þáði eingöngu bætur hluta ársins vegna tekna. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 1190/2017 um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2018, var efra frítekjumark X kr. vegna örorkulífeyris samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru launatekjur kæranda á árinu 2018 hærri en framangreint tekjumark segir til um og því átti hann ekki rétt á greiðslu bóta á því ári.

Kærandi vísar til þess að óeðlilegt sé að dreifa launatekjum hans á allt árið í ljósi þess að hann hafi hækkað í tekjum á ákveðnum tímapunkti og að réttara væri að láta tekjurnar eingöngu skerða greiðslur til hans á þeim tíma þegar hann þáði bætur. Með vísan til framangreindra laga og reglugerða er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki er heimilt lögum samkvæmt að haga endurreikningi og uppgjöri á annan hátt en Tryggingastofnun gerði þar sem kærandi var með gilt örorkumat allt árið 2018.

Kærð ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2018 er staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2018, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira