Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 6/2021. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 25. febrúar 2021
í máli nr. 6/2021:
Dalir ehf.
gegn
Ríkiskaupum

Lykilorð
Gildissvið laga um opinber innkaup. Sala fasteignar. Kröfu um stöðvun söluferlis hafnað.

Útdráttur
Kröfu varnaraðila um að sala Ríkiskaupa á fasteign yrði stöðvuð um stundarsakir á meðan leyst væri úr kæru, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, var hafnað.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 14. febrúar 2021 kærðu Dalir ehf. sölu Ríkiskaupa á fasteigninni Víðilundi, 671 Kópaskeri, fastnr. 216-6387. Kærandi krefst þess að sala varnaraðila á fasteigninni verði ógilt og lagt verði fyrir varnaraðila að auglýsa „útboðið“ á nýjan leik. Þá er þess krafist að samningsgerð um eignina verði stöðvuð á meðan kæra er til efnismeðferðar hjá kærunefnd útboðsmála „en að öðrum kosti að felldur verði úr gildi samningur milli varnaraðila og hæstbjóðanda“. Til vara er þess krafist að kærunefnd láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Þá er krafist málskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum kæranda verði vísað frá eða hafnað. Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að hið kærða söluferli verði stöðvað um stundarsakir á meðan skorið er úr kæru.

Í lok janúar 2021 var fasteignin Víðilundur, Kópaskeri auglýst til sölu af hálfu varnaraðila í dagblöðum og á fasteignavef Morgunblaðsins. Kom fram að um væri að ræða 135,8 m2 einbýlishús, byggt 1969. Var ásett verð 13,9 milljónir króna. Gögn málsins bera með sér að kærandi og varnaraðilar hafi átt í tölvupóstsamskiptum um söluferlið í byrjun febrúar 2021. Með tölvubréfi 12. febrúar upplýsti varnaraðili um að 11 tilboð hefðu borist og hefði seljandi ákveðið að taka hæsta tilboðinu að fjárhæð 18,5 milljónir króna. Með tölvubréfi síðar þann sama dag óskaði kærandi eftir því að fá rafræna staðfestingu á því hvenær tilboðum hefði verið skilað og var fyrirspurninni svarað með tölvubréfi varnaraðila samdægurs.

Kærandi byggir á því að samkvæmt 9. gr. laga nr. 27/1968 um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins skuli um sölu slíks húsnæðis fara eftir lögum um opinber innkaup, sbr. nú lög nr. 120/2016. Þá séu tilboðsfjárhæðir yfir viðmiðunarfjárhæð fyrir vörukaup. Þrátt fyrir að varnaraðili sé í hlutverki seljanda leiði það af fortakslausum ákvæðum 9. gr. laga nr. 27/1968 að fara skuli eftir lögum nr. 120/2016 að breyttu breytanda. Þá byggir kærandi á því að söluferlið sé almennt útboð í skilningi 34. gr. laga um opinber innkaup. Í söluferlinu hafi ekki verið tryggt að fylgt væri ákvæðum 64. gr., sbr. 5. mgr. 22. gr. laganna. Söluferlið hafi verið ógagnsætt og boðið upp á að bjóðendum yrði mismunað. Ekki hafi verið tryggt að kaupandi og aðrir bjóðendur gætu ekki kynnt sér innihald tilboða áður en frestur til að skila þeim hafi verið liðinn. Þetta eigi að leiða til þess að söluferlið verði ógilt í heild og það endurtekið eftir gildum aðferðum. Kærandi þurfi ekki að sýna fram á að jafnræðis hafi ekki verið gætt, enda sé hann ekki í stöðu til þess og sé eðlileg krafa að varnaraðili notist við innkaupaaðferðir og tölvukerfi sem almennt séu notuð í opinberum innkaupum.

Varnaraðili mótmælir því að kaupandi og aðrir bjóðendur hafi haft aðgang að tilboðum sem bárust í söluferlinu. Öllum tilboðum hafi verið safnað á lokað vefsvæði hjá varnaraðila og hafi verið gætt trúnaðar um þau. Þá gildi lög um opinber innkaup einungis um innkaup á verki, vöru og þjónustu, en ekki um sölu fasteigna, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Varnaraðili hafi það hlutverk að ráðstafa eignum ríkisins til samræmis við lög nr. 123/2015 um opinber fjármál og reglugerð nr. 1280/2014 um ráðstöfun eigna ríkisins. Öllum meginreglum stjórnsýsluréttar, ólögfestum sem lögfestum, hafi verið fylgt við hið kærða söluferli.

Niðurstaða

Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 27/1968 um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins, eins og þeim lögum var breytt með lögum nr. 134/1996, kemur fram að sala nánar tilgreinds íbúðarhúsnæðis í eigu ríkisins skuli fara eftir ákvæðum laga nr. 52/1987 um opinber innkaup, með síðari breytingum, og reglum settum samkvæmt þeim. Í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að beita skuli almennum reglum um sölu eigna ríkisins samkvæmt lögum nr. 52/1987 um opinber innkaup og reglugerð nr. 651/1994 settri samkvæmt þeim lögum. Í 2. gr. reglugerðarinnar kom fram að sala fasteigna í eigu ríkisins skyldi fara fram með opinberri auglýsingu þar sem nánari upplýsingar yrðu veittar um skilafrest tilboða og önnur atriði sem söluna varða. Í 5. gr. þágildandi laga nr. 52/1987 um opinber innkaup kom fram að Innkaupastofnun ríkisins ráðstafaði eignum ríkisins sem ekki væri lengur þörf fyrir. Lög nr. 52/1987 um opinber innkaup voru felld úr gildi með lögum nr. 94/2001. Í síðarnefndu lögunum var að finna efnislega sambærilegt ákvæði og í eldri lögum um ráðstöfun eigna. Þar sagði í 2. mgr. 70. gr. að Ríkiskaup skyldu ráðstafa eignum ríkisins sem ekki væri lengur þörf fyrir samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra. Þá var efnislega sambærilegt ákvæði að finna í 2. mgr. 85. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup sem leystu af hólmi lög nr. 94/2001. Í núgildandi lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup er ekki að finna ákvæði um ráðstöfun eigna ríkisins en um það efni gilda nú lög nr. 123/2015 um opinber fjármál og reglugerð nr. 1280/2014 um ráðstöfun eigna ríkisins. Í 45. gr. laganna segir meðal annars að við sölu, leigu og aðra ráðstöfun ríkiseigna skuli leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnfræði, hagkvæmni og gæta að samkeppnissjónarmiðum eftir því sem við getur átt. Af reglugerðinni verður ráðið að Ríkiskaup skuli ráðstafa eignum ríkisins með opinberri auglýsingu þar sem upplýsingar skulu veittar um skilafrest tilboða og önnur þau atriði er söluna varða.

Að mati kærunefndar útboðsmála verður ráðið af þeim lögum sem nú eru í gildi að ráðstöfun íbúðarhúsnæðis í eigu ríkisins skuli vera í höndum Ríkiskaupa og fara eftir þeim reglum sem sérstaklega hafa verið settar um ráðstöfun slíkra eigna, sbr. áður reglugerð nr. 651/1994 um ráðstöfun eigna ríkisins og nú lög nr. 123/2015 um opinber fjármál og reglugerð nr. 1280/2014. Eins og áður greinir kveða þessar reglur meðal annars á um að almennt skuli ráðstafa slíkum eignum með opinberri auglýsingu. Það leiðir af 4. gr. laga nr. 120/2016 að lögin taka aðeins til samninga um fjárhagslegt endurgjald sem hafa að markmiði framkvæmd verks, sölu vara eða veitingu þjónustu. Eins og málið liggur nú fyrir telur nefndin lögin ekki taka til sölu eigna og þar með ekki til hins kærða söluferlis. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki efni til að verða við kröfu kæranda um stöðvun söluferlisins.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Dala ehf., um stöðvun sölu Ríkiskaupa á fasteigninni Víðilundi, 671 Kópaskeri, fastnr. 216-6387, er hafnað.


Reykjavík, 25. febrúar 2021

Ásgerður Ragnarsdóttir (sign)

Auður Finnbogadóttir (sign)

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum