Hoppa yfir valmynd

Nr. 359/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. júlí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 359/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19060002

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. júní 2019 kærði [...], f.d. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2019, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt föður sínum.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að henni verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 26. júní 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 15. apríl 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 16. maí 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 3. júní 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 18. júní 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki vegna atvika sem hafi átt sér stað á vinnustað föður hennar og áreitis og ofbeldis af hálfu yfirvalda í kjölfarið.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Page Break

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í sameiginlegri greinargerð kæranda og föður hennar kemur fram að þau hafi verið búsett í borginni [...]. Faðir kæranda hafi starfað sem bílstjóri hjá fyrirtæki að nafni [...] sem hafi starfað í byggingariðnaði og hafi verið í eigu vinafólks hans. Fyrirtækið hafi unnið útboð á vegum ríkisstofnunar sem beri heitið [...]. Í slíkum tilvikum tíðkist að hluti upphæðarinnar fyrir verkið sé greiddur ólöglega framhjá hinum opinberu greiðslum sem renni beint í vasa tiltekinna forsvarsmanna viðkomandi félaga og stofnana. Fyrirtækið sem faðir kæranda hafi starfað hjá hafi ekki getað greitt hinar ólöglegu greiðslur af hendi árið 2016 sem hafi valdið þeim vandræðum, fyrirtækið hafi orðið gjaldþrota og forsvarsmenn þess flúið land. Faðir kæranda hafi opnað bifvélaverkstæði í október [...] og hafi fljótlega farið að berast hótanir og menn á vegum ríkistofnunarinnar byrjað að koma til hans og krefja hann um upplýsingar um hvar eigendur [...] væru niðurkomnir. Faðir kæranda hafi ekki hafa vitað það og að lokum hafi þeir beitt hann þrýsting sem hafi endað með því að hann hafi neyðst til að loka bifvélaverkstæðinu. Kærandi greindi jafnframt frá atviki sem gerst hafi þann 1. janúar 2017 þegar fjölskyldan hafi verið að fagna áramótunum en þá hafi fjórir menn komið að föður kæranda, haft í hótunum við hann og ráðist á hann með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið opið brot á ökkla og þurft að leita á sjúkrahús. Faðir kæranda hafi lagt fram gögn máli sínu til stuðnings ásamt því að hafa sýnt áverkana í viðtali hjá Útlendingastofnun. Í kjölfarið hafi faðir kærandi farið huldu höfði, hann hafi fengið aðra vinnu en það hafi engu breytt þar sem ráðist hafi verið aftur á hann og m.a. slegið til hans með járnstykki og hafi framhandleggur hans brotnað þegar hann hafi reynt að verja sig. Fjölskylda kæranda hafi í framhaldinu tekið ákvörðun um að flýja heimaríki og fara til [...]. Þau hafi dvalið hjá vinafólki en um þetta leyti hafi móðir kæranda tekið ákvörðun um að yfirgefa þau vegna þeirrar hættu sem fjölskyldan væri í. Hótanir hafi haldið áfram í garð fjölskyldunnar meðan þau hafi dvalið í [...] og mennirnir sem hafi verið á eftir þeim hafi jafnframt komið þangað. Kærandi og faðir hennar hafi því lagt aftur á flótta og m.a. hafi kærandi farið til borgarinnar [...] í [...]. Til að afla tekna hafi faðir kærandi fengið vinnu hjá flutningsfyrirtæki í [...] og hafi hann ekið fyrir fyrirtækið á milli [...] og [...] en honum hafi áfram borist hótanir og hann orðið fyrir árásum og af þeim sökum tekið ákvörðun um að flýja hingað til lands ásamt dóttur sinni.

Faðir kæranda greinir enn frekar frá þeim hótunum sem hann hafi fengið, en ástæðuna kveður hann að eigendur [...] sem hann hafi starfað hjá væru vinir hans. Faðir kæranda hafi bæði fengið hótanir í gegnum síma og þegar komið hafi verið til hans, þá hafi honum ýmist verið hótað lífláti, ofbeldi eða því að eitthvað yrði gert við kæranda. Kærandi hafi þá greint frá því að henni hafi reglulega verið veitt eftirför af fólki í bifreið ásamt því að henni hafi borist hótanir í síma. Kærandi og faðir hennar telja sig vera í hættu í [...] a.m.k. eins lengi og mennirnir sem séu á eftir þeim hafi ekki fundið eigendurna að fyrirtækinu sem faðir kæranda hafi unnið hjá. Kærandi og faðir hennar hafi jafnframt ekki leitað verndar lögreglu í heimaríki þar sem mennirnir sem hafi verið á eftir þeim hafi verið á vegum yfirvalda. Gríðarlega mikil spilling sé í [...] og sé ljóst að þau geti ekki leitað verndar yfirvalda. Þá hafi kærandi verið við afar slæma heilsu á meðan flótta hafi staðið, en hún hafi lagt fram gögn til stuðnings veikindum sínum þar sem fram komi að hún þjáist af [...]. Kærandi telji jafnframt að sú streita og kvíði sem fylgi því að vera á flótta undan ofsóknum hafi haft slæm áhrif á öll þau heilsufarsvandamál sem hún glími við.

Í greinargerð er fjallað almennt um aðstæður í [...] og stöðu mannréttinda í ríkinu. Á meðal helstu vandamála tengdum mannréttindum séu pyndingar á föngum, ritskoðun, lokun á vefsíðum, takmarkanir á trúfrelsi, veruleg inngrip í funda- og félagafrelsi, takmarkanir á þátttöku í stjórnmálum og spilling og takmörkun á sjálfstæði verkalýðsfélaga. Enn fremur sé stærsta vandamál ríkisins mikil spilling sem sé útbreidd innan framkvæmdavaldsins. Samkvæmt lista Transparency International sé [...] eitt spilltasta ríki heims og spilling sé greipt inn í dómskerfi landsins, þá ríki einnig mikil spilling innan löggæslu, á meðal staðbundinna stjórnvalda og innan menntakerfisins. Algengt sé að aðilar dómsmála geti keypt sér hagfellda niðurstöðu með mútugreiðslum og telji tveir af hverjum þremur íbúum landsins dómskerfið og lögregluna vera spillta. Jafnframt sé hin mikla spilling innan lögreglunnar álitinn stór áhættuþáttur fyrir þá sem stundi viðskipti í landinu. Þá komi fram í alþjóðlegum skýrslum að mútugreiðslur komi víða við sögu í stjórnkerfi [...] fyrirtæki þurfi t.a.m. oft að greiða opinberum aðilum til að þeir veiti opinbera þjónustu, s.s. vatnsveitu og rafmagn. Þá séu mútugreiðslur einnig útbreiddar í tengslum við opinber innkaup og ýmiskonar leyfisveitingar af hálfu yfirvalda. Þá bendir kærandi á að í skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar fyrir árið 2018 komi fram að yfirvöld í [...] eða einstaklingar á þeirra vegum hafi framið handahófskennd morð á almennum borgurum (e. arbitrary or unlawful killings), það sama eigi við um líkamsárásir sem leiði stundum til dauða.

Þá gerir kærandi athugasemd við trúverðugleikamat í ákvörðun Útlendingastofnunar. Stofnunin hafi í fyrsta lagi talið föður kæranda gefa óljósar skýringar á því hvers vegna hann gæti ekki leitað verndar yfirvalda í heimaríki. Kærandi mótmælir þessu mati og bendir á að faðir hennar hafi greint frá því að þeir sem standi að baki ofsóknum á hendur þeim séu einstaklingar sem hafi tengsl við yfirvöld. Slíkir aðilar noti tengsl sín til að njóta aðstoðar lögreglu og styðji heimildir um spillingu innan hins opinbera og lögreglunnar frásögn föður kæranda að þessu leyti. Þá bendir kærandi í öðru lagi á að gera megi ráð fyrir því að Útlendingastofnun meti sem svo að ferðir föður kæranda á milli [...] og heimaríkis bendi til þess að hann hafi ekki talið sig vera í hættu á að verða fyrir ofsóknum. Þessu mati stofnunarinnar sé mótmælt en ljóst sé af frásögn föður kæranda að hann hafi talið sig vera í hættu og að hann hafi tekið áhættu með því að fara aftur til heimaríkis. Þá hafi faðir kærandi verið að skipuleggja flótta sinn frá heimaríki en hann hafi þurft að vinna sér inn pening til að það yrði mögulegt. Þá gerir kærandi einnig athugasemd við að Útlendingastofnun byggi mat sitt á heilbrigðiskerfinu í [...] á gömlum heimildum.

Byggt er á því í greinargerð að kærandi sé flóttamaður samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi samkvæmt því rétt á að hljóta alþjóðlega vernd hér á landi. Þá gerir kærandi grein fyrir því hvað felist í ofsóknum samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og 33. gr. Flóttamannasamningsins. Í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna komi fram að við mat á því hvort í athöfnum felist ofsóknir verði að taka tillit til hins huglæga ótta við ofsóknir og meta viðhorf viðkomandi og tilfinningar. Heildarmat þurfi að fara fram á einstaklingsgrundvelli þar sem sálrænir eiginleikar og aðstæður hvers og eins séu ólíkar og túlkun á því hvað jafngildi ofsóknum sé mismunandi fyrir hvern og einn. Kærandi hafi lýst atburðum þar sem hún og fjölskylda hennar hafi sætt ítrekuðum ofsóknum. Af frásögnunum megi vera ljóst að snúi kærandi aftur til heimaríkis bíði hennar sömu aðstæður og hún hafi fundið sig knúna til að flýja. Byggt er á því í greinargerð að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir þar sem hún tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vegna stjórnmálaskoðana og að hún eigi ekki möguleika á vernd yfirvalda.

Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hún uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Með vísan til framangreinds telji kærandi ljóst að raunhæf ástæða sé til að ætlast að hún eigi á hættu pyndingar eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis og að með endursendingu henni þangað yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Til þrautavara krefst kærandi þess að henni verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu dvalarleyfis á þeim grundvelli að útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærandi vísar til greinargerðar með frumvarpi til laganna en þar komi fram að með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þá hefur fram komið að kærandi glími við alvarleg heilsufarsvandamál, aðgangur hennar að heilbrigðisþjónustu sé takmarkaður og að greiða þurfi háar upphæðir fyrir þjónustu sérfræðilækna. Með hliðsjón af framangreindri umfjöllun um aðstæður kæranda og yfirvöld í heimaríki telji kærandi skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga uppfyllt verði ekki fallist á aðalkröfu né varakröfu hennar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað [...] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé [...] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]

[...]

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að viðvarandi vandi sé í stjórnkerfi [...] vegna samþjöppunar valds í höndum forseta landsins, [...]. Þá hafi framkvæmd kosninga í landinu verið gagnrýnd af hálfu kosningaeftirlitsmanna og annarra vegna skorts á frjálsri og óháðri fjölmiðlun og skerðingu á tjáningar-, funda- og félagafrelsi í aðdraganda þeirra.

Þá kemur fram að löggæslan í [...] heyri undir innanríkisráðuneyti landsins (e. the Ministry of Internal Affairs) og byggist að miklu leyti á kerfi [...] Spilling sé viðvarandi vandamál í [...] og hvíli mikið álag á löggæslu landsins, en á þeim tíma sem liðinn er frá [...] hafi löggæslan bæði verið undirmönnuð og fjársvelt. Þá sé spilling útbreitt vandamál á meðal stjórnvalda í [...] þrátt fyrir að vera refsiverð samkvæmt lögum. Heimildir bera með sér að yfirvöld hafi saksótt opinbera starfsmenn í viðamiklum og opinberum spillingarmálum en enn hafi ekki tekist að vinna gegn spillingu með fullnægjandi hætti. Að undanförnu hafi þó mikilvægar umbætur verið samþykktar á stjórnarskrá [...] sem hafi það að markmiði að minnka völd forseta landsins með því að veita þingi og ríkisstjórn landsins meiri völd. Um sé að ræða aðkallandi breytingar sem hafi það að markmiði að vinna gegn spillingu og nútímavæða stjórnarhætti [...]. Í landinu séu nokkrar stofnanir sem hafi það að hlutverki að berjast gegn spillingu, m.a. innanríkisráðuneyti landsins, [...] og agaráð stjórnvalda [...]. Í upphafi árs 2015 hafi ný refsilöggjöf tekið gildi með hertum refsiheimildum í spillingarmálum en stjórnvöld hafi sætt ákveðinni gagnrýni fyrir að framfylgja henni ekki með árangursríkum hætti. Þá kemur fram að þjóðaröryggisráðið hafi fengið auknar heimildir árið [...] til þess að rannsaka nánar spillingu opinberra starfsmanna og heyrir ráðið beint undir forsetavald ríkisins. Samkvæmt opinberri tölfræði fyrir árið 2018 hafið verið skráð um [...] spillingarmál á fyrstu sjö mánuðum ársins, stjórnvöld ákært í [...] málum opinbera starfsmenn fyrir spillingu og [...] hafi mál verið kærð til dómstóla. Þá sé starfandi umboðsmaður í [...] (e. Commissioner of Human Rights) sem sé skipaður til fimm ára af forseta landsins. Þó séu völd umboðsmannsins að einhverju leyti takmörkuð þar sem hann geti til að mynda ekki rannsakað ákvarðanir forsetans, þingsins, dómstóla eða ríkisstofnana.

Þá kemur fram í ofangreindum gögnum að samþykkt hafi verið tiltekin heilbrigðislög (e. [...]) árið 2009 sem eigi að tryggja öllum ríkisborgurum landsins grundvallar heilbrigðisþjónustu óháð stöðu að öðru leyti. Heilbrigðisþjónusta þar í landi hafi tekið miklum framförum frá því að [...] hafi orðið sjálfstætt ríki. Þó þurfi stjórnvöld að bæta um betur og vinni að því, m.a. í samstarfi við alþjóða heilbrigðismálastofnunina (e. WHO), að efla smitsjúkdómavarnir ásamt því að efla grunnheilbrigðisþjónustu og auka þjónustu á dreifbýlum svæðum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Líkt og fram hefur komið ber kærandi fyrir sig að hafa orðið fyrir ofsóknum og hótunum aðila í heimaríki. Kærandi kveðst ekki hafa leitað til lögreglu þar sem spilling sé víðtækt vandamál í [...]og að þeir aðilar sem séu á eftir henni hafi náin tengsl við stjórnvöld í landinu.

Kærandi hefur ekki tilgreint þá aðila sem áreiti hana en faðir kæranda kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun ekki vita hverjir það væru heldur einungis að það væru einstaklingar sem væru tengdir ríkisstofnun þar í landi. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem styðja frásögn hennar nema hvað varðar líkamlega heilsu. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað kemur fram að talsverð spilling ríki hjá stjórnvöldum í [...] og að dæmi séu um að brotið sé á rétti einstaklinga, einkum þeirra sem andmæli ríkjandi stjórnvöldum í landinu. Þrátt fyrir spillingu kemur fram í ofangreindum gögnum að í [...]sé til staðar kerfi sem hafi það hlutverk að sporna við spillingu opinberra starfsmanna og geti þeir sem telji sig hafa verið beittir órétti af lögreglu leitað þangað. Af gögnum má ráða að þetta úrræði sé almennt raunhæft og að ákveðin framfaraskref hafi átt sér stað í [...] á undanförnum árum, þ. á m. með hertri refsilöggjöf vegna spillingarmála, þrátt fyrir að úrbóta sé enn þörf. Gögn bendi til þess að löggæslukerfi í heimaríki kæranda fari batnandi og hafi yfirvöld í landinu lagt áherslu á áætlanir sem eigi m.a. að koma í veg fyrir spillingu í stjórnkerfum landsins, tryggja gegnsæi og aðgengi að dómstólum. Samkvæmt tölum frá árinu 2018 hafi til að mynda yfir þúsund mál er varða spillingu opinberra starfsmanna verið kærð til dómsstóla þar í landi. Þrátt fyrir spillingu kemur fram í ofangreindum gögnum að í [...] sé til staðar kerfi sem hafi það hlutverk að sporna við spillingu opinberra starfsmanna og geti þeir sem telji sig hafa verið beittir órétti af lögreglu leitað þangað. Af gögnum má ráða að þetta úrræði sé almennt raunhæft og þrátt fyrir að úrbóta sé enn þörf hafi ákveðin framfaraskref átt sér stað í [...] á undanförnum árum, þ. á m. með hertri refsilöggjöf vegna spillingarmála. Þó fallist yrði á að kæranda og föður hennar hafi borist hótanir og orðið fyrir áreiti af hálfu einstaklinga sem kunna að starfa fyrir opinberra stofnun vegna ætlaðrar skuldar fyrirtækis vina föður kæranda við einstaklinga á vegum nefndar stofnunar telur kærunefnd að ekki hafi verið sýnt fram á að ætlaðar hótanir og áreiti hafi náð alvarleikastigi ofsókna, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða að kærandi eigi slíkt á hættu.

Að mati kærunefndar er ekkert sem bendir til þess að þeir einstaklingar sem kærandi telur sig og föður sinn stafa ógn af fari með opinbert vald að því marki að athafnir þeirra teljist vera á vegum ríkisins eða opinberra aðila. Kærandi hefur að öðru leyti ekki borið fyrir sig að eiga á hættu ofsóknir af hálfu opinberra aðila. Með vísan til gagna málsins, þ.m.t. upplýsinga um heimaríki kæranda, telur kærunefnd að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í [...] geti ekki eða vilji ekki veita henni vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem kunni að fela í sér ofsóknir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreinds er ekki ástæða til að fjalla um hvort sú hætta sem kærandi kveður sig vera í tengist þeim ástæðum sem 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vísar til, sbr. 3. mgr. 38. gr. laganna.

Það er því niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur á því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður í heimaríki telur kærunefnd að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að beiting ákvæðisins teljist heimil.

Í framangreindum athugasemdum við 74. gr. kemur jafnframt fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Kærandi kom hingað til lands ásamt föður sínum. Kærandi kvaðst í viðtölum hjá Útlendingastofnun glíma við margvísleg heilsufarsvandamál en samkvæmt þeim heilsufarsgögnum frá heimaríki sem lögð voru fram hjá Útlendingastofnun og þýdd voru af túlki í viðtali kæranda við stofnunina, hafi hún m.a. verið greind með [...]. Samkvæmt komunótum frá göngudeild sóttvarna fór kærandi jafnframt í læknisskoðun hér á landi sem ekki hafið gefið tilefni til frekari aðgerða en uppáskrift fyrir verkjalyf vegna höfuðverkja. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað má sjá að kærandi hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu í heimaríki en hún kvaðst auk þess í viðtali hjá Útlendingastofnun hafa fengið heilbrigðisþjónustu og lyf í heimaríki vegna veikinda sinna. Þá er kærandi ekki í meðferð hér á landi sem óforsvaranlegt sé að rjúfa.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Í greinargerð eru gerðar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar í hinni kærðu ákvörðun ásamt því að bent sé á að stofnunin styðjist við gamlar heimildir í rökstuðningi sínum. Má af greinargerð ráða að kærandi telji að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Það er mat kærunefndar að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um ástandið í heimaríki kæranda, við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 25. júní 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann 26. júní 2018. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hennar um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hennar hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er ung kona sem kom hingað til lands með föður sínum. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa henni. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Ívar Örn Ívarsson                                                                                  Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira