Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 15/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Með kæru 12. júní 2019 kærði Mannverk ehf. útboð Mosfellsbæjar „Helgafellsskóli nýbygging, 2.-3. áfangi“. Kærandi gerir aðallega þá kröfu að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila Mosfellsbæjar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um að velja tilboð Flotgólfa ehf. og Eignarhaldsfélagsins Á.D. ehf. í hinu kærða útboði. Þá er gerð krafa um að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og að varnaraðila verði gert að greiða kæranda málskostnað. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar. Undir rekstri málsins óskaði kærunefnd útboðsmála eftir frekari upplýsingum frá varnaraðila.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 16. júlí 2019
í máli nr. 15/2019:
Mannverk ehf.
gegn
Mosfellsbæ
Flotgólfum ehf.
og Eignarhaldsfélaginu Á.D. ehf.

Með kæru 12. júní 2019 kærði Mannverk ehf. útboð Mosfellsbæjar „Helgafellsskóli nýbygging, 2.-3. áfangi“. Kærandi gerir aðallega þá kröfu að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila Mosfellsbæjar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um að velja tilboð Flotgólfa ehf. og Eignarhaldsfélagsins Á.D. ehf. í hinu kærða útboði. Þá er gerð krafa um að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og að varnaraðila verði gert að greiða kæranda málskostnað. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar. Undir rekstri málsins óskaði kærunefnd útboðsmála eftir frekari upplýsingum frá varnaraðila.

Varnaraðili auglýsti útboðið „Helgafellsskóli nýbygging, 2.-3. áfangi“ í mars 2019 og samkvæmt útboðsgögnum skyldu bjóðendur uppfylla ýmsar kröfur til þess að koma til greina sem samningsaðilar. Fjallað var um kröfur til bjóðenda í grein 0.1.4 og þeim skipt í eftirfarandi þætti: hæfni og reynsla, fjárhagsleg staða, viðskiptasaga og ástæður til útilokunar vegna persónulegra aðstæðna bjóðanda. Hvað varðar þáttinn „hæfni og reynsla“ var meðal annars gerð eftirfarandi krafa: „Bjóðandi skal geta sýnt fram á reynslu sína af verki sambærilegu að stærð, flækjustigi og stjórnunarhlutverki. Með sambærilegu verki að stærð er átt við tilboðsverk, unnið á síðastliðnum fimm árum, þar sem upphæð samnings var a.m.k. 75% af tilboðsfjárhæð í þetta verk. Bjóðandi skal geta sýnt fram á að árleg velta af sambærilegum verkum að eðli síðustu fimm ár hafi að lágmarki verið sem nemur tilboðsfjárhæð bjóðanda í þetta verk“. Þá var undir þættinum „Fjárhagsleg staða“ meðal annars gerð eftirfarandi krafa: „Meðalársvelta fyrirtækis bjóðanda síðastliðin 3 ár skal að lágmarki hafa verið sem nemur 100% af tilboði bjóðanda í þetta verk. Komi tilboð bjóðanda til álita við val á tilboðum skal bjóðandi vera við því búinn að leggja fram áritaða endurskoðaða ársreikninga þessu til staðfestingar“. 

Á útboðstíma var meðal annars spurt um framangreind skilyrði og í spurningu nr. 7 sem barst sagði: „Verktaki óskar eftir að fá svör við hvað átt er við í lið 0.1.4 þar sem sagt er að bjóðandi geti sýnt fram á að árleg velta af sambærilegum verkum að eðli síðustu fimm ár hafi að lágmarki verið sem nemur tilboðsfjárhæð bjóðanda í þetta verk. Á öðrum stað í sama lið er talað um að meðalársvelta sl. 3 ár skuli vera sem nemur 100% af tilboði bjóðanda. Hvað gildir?“. Spurningunni var svarað af varnaraðila með eftirfarandi hætti: „Um er að ræða sömu kröfu og gerð var í fyrri áföngum uppbyggingar Helgafellskóla þar sem tilgreint var að meðalársvelta til þriggja ára á fimm ára tímabili skuli nema 100% af tilboði bjóðenda í þetta verk. Þá má bjóðandi leita aftur á fimm ára tímabili að þeim þremur árum sem eru með hvað hæsta meðalveltu til að ná ofangreindu skilyrði sem nemur 100% af tilboði bjóðenda […]“. Þá barst einnig spurning, sem var nr. 9, um það hvort varnaraðili gæti slakað á skilyrði 0.1.4 og varnaraðili svaraði því: „Slakað hefur verið á kröfum í lið 0.1.4 þar sem krafist var að meðalársvelta skuli að lágmarki vera sem nemur 75% af tilboði bjóðenda í þetta verk. Aðrir liðir standa óbreyttir að meðtöldu svari 7.“   

Val tilboða fór fram á grundvelli lægsta verðs og voru tilboð opnuð 12. apríl 2019. Alls bárust tíu tilboð í verkið. Tilboð varnaraðila Flotgólfs ehf. og Eignarhaldsfélagsins Á.D. ehf. var lægst að fjárhæð og nam 1.603.275.841 krónum. Tilboð kæranda var hið þriðja lægsta sem barst og var að fjárhæð 1.666.822.053 krónur. Hinn 23. maí 2019 tilkynnti varnaraðili að tilboð lægstbjóðenda hefði verið valið. 

Kærandi telur að lægstbjóðendur hafi ekki uppfyllt kröfur útboðsgagna um fjárhagslegt hæfi og reynslu af sambærilegum verkum. Varnaraðili hafi litið svo á að aðkoma annars lægstbjóðenda að íbúðarhúsnæði við Vallakór teljist sambærilegt verk í skilningi greinar 0.1.4 í útboðsgögnum enda hafi heildarkostnaður þess verks verið tilgreindur 2 milljarðar króna. Lægstbjóðandinn hafi aftur á móti ekki komið að því verki fyrr en það var vel á veg komið og vinnu við það í öllum aðalatriðum lokið. Kærandi telur að Eignarhaldsfélaginu Á.D. ehf. sé óheimilt að taka að sér verkið enda sé tilgangur þess samkvæmt samþykktum ekki verktakastarfsemi. Þá sé velta félaganna í raun sama veltan þar sem velta Eignarhaldsfélagsins Á.D. ehf. sé til komin vegna þess að félagið hafi verið verkkaupi margra þeirra verka sem Flotgólf ehf. hafi unnið á undanförnum árum. Kærandi telur að þrátt fyrir skýringar varnaraðila hafi útboðsgögn engu að síður gert ráð fyrir að árleg velta síðustu fimm ára af sambærilegum verkum skuli nema að lágmarki allri tilboðsfjárhæðinni. Það verði ekki skilið öðruvísi en svo að gerð sé krafa um lágmarksveltu á hverju ári. Varnaraðilar telja að lægstbjóðendur hafi uppfyllt öll skilyrði útboðsgagna en í athugasemdum þeirra kemur meðal annars fram að það verk sem metið var sem sambærilegt hafi verið rúmlega 85% af tilboðsfjárhæð þótt einungis sé miðað við þann hluta verksins sem Flotgólf ehf. tók við. Skilja hafi átt svör varnaraðila við fyrirspurnum á útboðstíma með þeim hætti að fallið hafi verið frá kröfu um veltu á 5 ára tímabili og eftir standi einungis krafa um 75% meðalársveltu á þriggja ára tímabili. Þá telja lægstbjóðendur meðal annars að skilyrðið um ársveltu eigi fyrst og fremst við um reynslu og því megi líta til reynslu undirverktaka.      

Niðurstaða

Í skilmálum hins kærða útboðs voru meðal annars gerðar kröfur um „árlega veltu af sambærilegum verkum að eðli síðustu fimm ár“ og hins vegar um „meðalársveltu fyrirtækis bjóðanda síðastliðin 3 ár“, sbr. nánar grein 0.1.4. Á fyrirspurnartíma var sérstaklega spurt hvernig ætti að skilja kröfurnar og hefur verið gerð grein fyrir svörum varnaraðila að framan. Eins og málið liggur fyrir á þessu stigi telur kærunefnd útboðsmála óljóst hverjar endanlegar kröfur útboðsgagna hafi verið að teknu tilliti til þessara svara. Er meðal annars óljóst til hvors hluta greinar 0.1.4 svör varnaraðila vísuðu til og þar með hvort bjóðendur hafi mátt gera ráð fyrir því að varnaraðili hefði vikið frá kröfum til hæfni og reynslu, sem og fjárhagslegrar stöðu, eða til annars hvors og þá að hvaða leyti. Eins og mál þetta liggur fyrir nú er að mati nefndarinnar verulegur vafi á því hvort lægstbjóðendur hafi uppfyllt kröfur greinar 0.1.4 í útboðsgögnum. Að mati nefndarinnar er í ljósi þeirra gagna sem nú liggja fyrir fram komnar verulegar líkur á að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup og að það geti leitt til ógildingar á ákvörðun varnaraðila um val á tilboði. Verður því fallist á kröfu kæranda um að samningsgerð verði stöðvuð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Ákvörðunarorð:

Samningsgerð Flotgólfa ehf. og Eignarhaldsfélagsins Á.D. ehf. við varnaraðila, Mosfellsbæ, í kjölfar útboðsins „Helgafellsskóli nýbygging, 2.-3. áfangi “, er stöðvuð.

Reykjavík, 16. júlí 2019

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður FinnbogadóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira