Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 44/2020. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 22. október 2020
í máli nr. 44/2020:
Ísorka ehf.
gegn
Reykjavíkurborg og
Orka náttúrunnar ohf.

Lykilorð
Útboðsskylda. Viðmiðunarfjárhæð. Valdsvið kærunefndar. Stöðvunarkröfu hafnað.

Útdráttur
Kröfu kæranda um að útboð um uppsetningu og rekstur hleðslustöðva yrði stöðvað um stundarsakir, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, var hafnað.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 8. október 2020 kærir Ísorka ehf. útboð Reykjavíkurborgar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 14923 auðkennt „Uppsetning og rekstur hleðslustöðva fyrir rafbíla í Reykjavík“. Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að ganga að tilboði Orku náttúrunnar ohf. í hinu kærða útboði. Þess er jafnframt krafist að kærunefnd útboðsmála veiti álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Þá er þess krafist að hið kærða útboð verði stöðvað um stundarsakir á meðan leyst er úr kæru. Varnaraðili krefst þess að kröfum kæranda verði vísað frá eða hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi kæranda. Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða þeirrar kröfu kæranda að hið kærða útboð verði stöðvað um stundarsakir.

Í júlí 2020 óskaði varnaraðili eftir tilboðum í uppsetningu og rekstur hleðslustöðva á stæðum á þremur nánar tilteknum svæðum í Reykjavík. Í grein 1.1.1 í útboðsgögnum kom fram að innifalið í tilboðsverði skyldi vera allur kostnaður, þ.m.t. búnaður, tengingar og rekstur á hleðslustöðvum fyrir rafbíla og rekstur þjónustuvers. Skyldi þjónustuveitandi hafa heimild til gjaldtöku á stæðum fyrir sölu raforku og notkun á hleðslustöðvum. Þá kom fram að um væri að ræða samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna. Í grein 1.1.9 kom fram að útboðið skiptist í þrjá hluta og að bjóða mætti í einn, tvo eða alla hluta, en ekki mætti bjóða í hluta tilboðsliða. Í grein 1.1.19 var fjallað um val tilboðs. Þar kom fram að tilboð í hvern hluta fyrir sig skyldu metin og það tilboð valið sem væri hagstæðast í hverjum hluta. Því gæti komið til þess að samið yrði við allt að þrjá bjóðendur. Þá kom fram að hagstæðasta tilboðið væri það sem væri lægst að krónutölu. Setti bjóðandi „jákvæð (+) formerki“ á tilboðsupphæð fengi hann greitt mánaðargjald fyrir rekstur hleðslustöðva en setti bjóðandi „neikvæð (-) formerki“ á tilboðsupphæð myndi hann greiða kaupanda mánaðarlegt afnotagjald fyrir að fá að setja upp og reka hleðslustöðvar. Kæmi fram tilboðsverð 0, væri litið svo á að hvorugur aðili greiddi eða fengi greitt fyrir viðkomandi liði í magnskrá. Í grein 1.1.20 kom fram að tilboð yrði samþykkt skriflega innan gildistíma þess og teldist þá vera kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna. Í grein 1.2.2 kom fram að stefnt væri að gerð samnings til fimm ára með möguleika á framlengingu um eitt ár í senn, allt að þrisvar sinnum. Í grein 2.4.3 kom fram að gjaldtaka skyldi vera í samræmi við lög og reglugerðir þar að lútandi, meðal annars um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1150/2019.

Tilboð voru opnuð 20. ágúst 2020 og bárust tilboð frá fjórum fyrirtækjum. Tilboð Orku náttúrunnar ohf. var lægst að fjárhæð í alla hluta útboðsins, en fyrirtækið bauðst til þess að greiða með þjónustunni 51.000 krónur vegna hluta 1 og 2 hvors um sig en 11.000 krónur vegna hluta 3. Kærandi átti næstlægsta tilboðið en tilboð hans gerði ráð fyrir að varnaraðili greiddi fyrir þjónustuna 8.888.220 krónur vegna hluta 1 og 2, hvors um si,g og 7.777.260 krónur vegna hluta 3. Í opnunarfundargerð kom fram að kostnaðaráætlun vegna hluta 1 næmi 3.600.000 króna, 3.450.000 króna vegna hluta 2 og 3.750.000 króna vegna hluta 3. Með bréfi varnaraðila 2. október 2020 var bjóðendum tilkynnt að varnaraðili hefði samþykkt að ganga að tilboði Orku náttúrunnar ohf. í alla hluti í útboðinu. Væri því kominn á bindandi samningur um þjónustuna.

Kærandi byggir að meginstefnu á því að boðin lausn Orku náttúrunnar ohf. hafi á opnunardegi tilboða ekki verið í samræmi við reglugerð nr. 1150/2019 um raforkuviðskipti og mælingar. Í því sambandi er vísað til ákvörðunar Orkustofnunar frá 20. ágúst 2020, þar sem stofnunin hafi komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hafi brotið gegn ákvæðum umræddrar reglugerðar með því að tryggja ekki að notendur hraðhleðslustöðva geti átt bein og milliliðalaus viðskipti án fyrirvara. Þar með hafi Orka náttúrunnar ekki fullnægt kröfum greinar 2.4.3 í útboðsgögnum. Þá hafi Samkeppniseftirlitið hafið rannsókn á starfsemi Orku náttúrunnar ohf. á markaði fyrir hleðslur, hleðslustöðvar og rafmagn vegna brota á samkeppnislögum, en rannsókn þessa megi rekja til kvörtunar kæranda. Jafnframt sé verkefnið meðal annars unnið í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur, sem sé móðurfélag Orku náttúrunnar ohf. og í meirihlutaeigu varnaraðila. Því hafi átt að útiloka Orku náttúrunnar ohf. frá útboðinu á grundvelli f. og g. liðar 6. mgr. 68. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Varnaraðili byggir á því að kostnaðaráætlun vegna útboðsins hafi samtals numið 10.800.000 króna, með virðisaukaskatti, fyrir alla þrjá hluta útboðsins miðað við fimm ára samningstíma, en 8.710.200 krónur án virðisaukaskatts. Kostnaðaráætlun miðað við mögulegan átta ára samningstíma hafi numið 17.280.000 króna með virðisaukaskatti, en 13.935.484 krónum án virðisaukaskatta. Því hafi innkaupin verið undir viðmiðunarfjárhæðum vegna útboðsskyldu samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og beri að vísa kröfum kæranda frá. Þá hafi komist á bindandi samningur um innkaupin með tilkynningu varnaraðila um töku tilboðs 2. október 2020. Þá er byggt á því að lægstbjóðandi fullnægi kröfum útboðsgagna um hæfni og reynslu en útboðsgögn hafi gert kröfu um að bjóðendur uppfylltu kröfur reglugerðar nr. 1150/2019 um viðskiptakerfi á samningstímanum, en ekki þegar við opnun tilboða. Þá geti rannsókn samkeppnisyfirvalda ekki gefið tilefni til að hafna tilboði Orku náttúrunnar ehf. auk þess sem rekstur fyrirtækisins sé aðskilinn frá rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. Orka náttúrunnar ohf. byggir á að þegar hafi komist á bindandi samningur um þjónustuna og því séu ekki skilyrði fyrir því að stöðva útboðið.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup ber að bjóða út á Íslandi innkaup opinberra aðila á vörum og þjónustu yfir 15.500.000 krónum, sbr. einnig 2. gr. reglugerðar nr. 260/2020 um útboðsvef, viðmiðunarfjárhæðir og innkaup samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) vegna opinberra innkaupa. Þá kemur fram í 1. mgr. 25. gr. laganna að við útreikning á áætluðu virði samnings skuli miðað við þá heildarfjárhæð sem kaupandi muni greiða fyrir innkaup, að frátöldum virðisaukaskatti. Við þennan útreikning skuli taka tillit til hvers konar valfrjálsra ákvæða og hugsanlegrar endurnýjunar samnings sem skýrt er kveðið á um í útboðsgögnum.

Að virtri grein 1.2.2. í útboðsgögnum getur heildarlengd samnings á grundvelli hins kærða útboðs orðið allt að átta ár. Varnaraðili hefur undir rekstri málsins lagt fram kostnaðaráætlun fyrir verkið miðað við bæði fimm og átta ára samningstíma. Af henni verður ráðið að áætlaður kostnaður við hin kærðu innkaup, miðað við átta ára samningstíma, nemi 13.935.484 krónum án virðisaukaskatts. Verður því að miða við, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að innkaupin hafi ekki verið útboðsskyld samkvæmt ákvæðum laga um opinber innkaup og að ágreiningur aðila falli því ekki undir úrskurðarvald kærunefndar útboðsmála sbr. 2. mgr. 103. gr. laganna. Eru því ekki skilyrði til þess að verða við kröfu kæranda um að hið kærða útboð verði stöðvað um stundarsakir á meðan leyst er úr kæru í máli þessu.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Ísorku ehf., um stöðvun útboðs varnaraðila, Reykjavíkurborgar, nr. 14923 auðkennt „Uppsetning og rekstur hleðslustöðva fyrir rafbíla í Reykjavík“, er hafnað.

 

Reykjavík, 22. október 2020

Ásgerður Ragnarsdóttir

Sandra Baldvinsdóttir

Auður Finnbogadóttir

 Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira