Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 28/2020. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 5. október 2020
í máli nr. 28/2020:
Reykjafell ehf.
gegn
Vegagerðinni,
Ríkiskaupum og
Jóhanni Rönning hf.

Lykilorð
Málskostnaður.

Útdráttur
Varnaraðilar felldu niður útboð á ljósvistarlömpum í kjölfar ákvörðunar kærunefndar útboðsmála þar sem hafnað var að aflétta stöðvun samningsgerðar sem komst á með kæru kæranda í málinu. Í kjölfarið stóð eftir krafa kæranda um málskostnað úr hendi varnaraðila. Kærunefndin féllst á kröfu kæranda um að varnaraðilar skyldu greiða honum málskostnað vegna reksturs kærumálsins.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 29. júní 2020 kærir Reykjafell ehf. útboð Vegagerðarinnar og Ríkiskaupa (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 21174 auðkennt „Lumenares for street lighting – IRCA 21174“. Kærandi krafðist þess að samningsgerð á grundvelli hins kærða útboðs yrði stöðvuð og að „útboðið [yrði] metið ógilt og lagt fyrir bjóðanda að hefja útboðsgerð að nýju.“ Yrði ekki fallist „á kröfu um ógildingu útboðsins“ var þess krafist að kærunefnd útboðsmála „[legði] mat á skaðabætur til handa kæranda.“ Kærandi krafðist þess einnig „að fá upplýsingar um tæknilega eiginleika þess búnaðar (lampa) sem urðu fyrir valinu í útboðinu.“ Þá var krafist málskostnaðar.

Í greinargerð varnaraðila 22. júlí 2020 var þess aðallega krafist að kærunni yrði vísað frá, en til vara að sjálfkrafa stöðvun innkaupaferlis yrði aflétt og samningsgerð heimiluð sem og að kröfum kæranda yrði hafnað, nema að því leyti að varnaraðilar kváðust reiðubúnir að afhenda kærunefndinni afrit af hagstæðasta tilboði útboðsins.

Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. ágúst 2020 var kröfu varnaraðila um afléttingu stöðvunar hins kærða útboðs hafnað.

Í athugasemdum kæranda 21. september 2020 er ítrekuð krafa um að kærunefnd útboðsmála úrskurði honum málskostnað úr hendi varnaraðila. Ekki hafa frekari athugasemdir borist frá varnaraðilum og Jóhanni Rönning hf.

I

Hinn 28. apríl 2020 auglýstu varnaraðilar hið kærða útboð bæði innanlands sem og á Evrópska efnahagssvæðinu og óskuðu tilboða í þrjár gerðir ljósvistarlampa fyrir veglýsingu. Skyldi samið við einn bjóðanda til fjögurra ára með möguleika á framlengingu tvisvar, eitt ár í senn.

Tilboð voru opnuð 25. maí 2020 og bárust níu tilboð frá sex bjóðendum. Með tölvubréfi 19. júní 2020 tilkynntu varnaraðilar að þeir hefðu valið tilboð frá Jóhanni Rönning hf., þar sem það hefði verið metið hagstæðast samkvæmt valforsendum útboðslýsingar. Þar kom fram að fyrirtækið hefði gert tvö tilboð, og þar af hefði annað tilboð þess fengið fullt hús stiga. Þar sagði jafnframt að tilboð kæranda hefði verið metið sjötta hagstæðasta tilboðið í útboðinu.

Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. ágúst 2020 var kröfu varnaraðila um afléttingu stöðvunar hins kærða útboðs, sem komst á með kæru í máli þessu, hafnað.

Hinn 20. ágúst 2020 upplýstu varnaraðilar kærunefndina um það að fyrirhugað væri að hætta við hið kærða útboð í kjölfar ákvörðunar nefndarinnar og bjóða innkaupin út að nýju. Með tölvubréfi til kærunefndar 21. september 2020 sendi kærandi gögn, er stafa frá varnaraðilum, um að hið kærða útboð hefði verið fellt niður og að verið væri að undirbúa nýtt útboð. Af þessum sökum lýtur úrlausn í máli þessu eingöngu að kröfu kæranda um málskostnað.

II

Kærandi byggir á því að samkvæmt forsendum ákvörðunar kærunefndar útboðsmála 13. ágúst 2020 hafi kærandi leitt verulegar líkur að því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup við val á tilboði í hinu kærða útboð. Með niðurfellingu hins kærða útboðs og ákvörðun um að bjóða skyldi innkaupin út að nýju hafi varnaraðilar viðurkennt að ákvörðun um val á bjóðanda í hinu kærða útboði hafi ekki verið lögum samkvæm og því ógildanleg. Af þeim sökum beri kærunefnd útboðsmála að úrskurða honum málskostnað vegna kostnaðar við að halda uppi lögverndaðri kröfu sinni og afla úrskurðar um hinar ólögmætu stjórnvaldsathafnir varnaraðila.

Í athugasemdum varnaraðila 22. júlí 2020 var þess meðal annars krafist að kæru í málinu yrði vísað frá eða kröfum kæranda hafnað. Sértækar athugasemdir er lúta að kröfu kæranda um málskostnað, í kjölfar niðurfellingar hins kærða útboðs, hafa ekki borist kærunefndinni.

III

Samkvæmt 3. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup getur kærunefnd útboðsmála ákveðið að varnaraðili greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi. Ákvæði þetta á rætur sínar að rekja til 3. mgr. 81. gr. þágildandi laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga sagði um ákvæðið: „Í 3. mgr. er að finna það nýmæli að heimilt er að ákveða kæranda málskostnað úr hendi kærða vegna reksturs máls fyrir nefndinni. Slík ákvörðun kæmi að jafnaði aðeins til greina þegar kærði tapaði máli fyrir nefndinni í öllum verulegum atriðum.“

Fyrir liggur í málinu að í kjölfar ákvörðunar kærunefndar útboðsmála 13. ágúst 2020, þar sem hafnað var að aflétta stöðvun hins kærða útboðs sem komst á í kjölfar kæru kæranda, ákváðu varnaraðilar að fella hið kærða útboð úr gildi og fyrirhuga að auglýsa innkaupin á nýjan leik. Að þessu virtu verður varnaraðilum gert að greiða kæranda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.

Úrskurðarorð:

Varnaraðilar, Ríkiskaup og Vegagerðin, greiði kæranda, Reykjafelli ehf., 500.000 krónur í málskostnað.

 

Reykjavík, 5. október 2020


Ásgerður Ragnarsdóttir

Sandra Baldvinsdóttir

Auður Finnbogadóttir

 Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira