Hoppa yfir valmynd

Nr. 507/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Hinn 8. desember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 507/2022

í stjórnsýslumálum nr. KNU22110056 og KNU22110055

 

Beiðni [...] og [...] og barns þeirra

um endurupptöku

 1. Málsatvik

  Hinn 10. febrúar 2022 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar frá 7. desember 2021 um að synja umsóknum [...], fd. [...], ríkisborgara Kólumbíu (hér eftir K) og [...], fd. [...], ríkisborgara Kólumbíu (hér eftir M) og barni þeirra, [...], fd. [...], ríkisborgara Kólumbíu (hér eftir A), um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum 14. febrúar 2022. Með úrskurði, nr. 122/2022, dags. 4. mars 2022 synjaði kærunefnd beiðni kærenda og barns þeirra um frestun réttaráhrifa úrskurðar nefndarinnar.

  Hinn 18. nóvember 2022 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar nr. 85/2022, í máli þeirra. Hinn 22. nóvember 2022 barst kærunefnd greinargerð kærenda ásamt sálfræðivottorði.

  Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 2. Málsástæður og rök kærenda

  Kærendur byggja beiðni um endurupptöku á máli þeirra hjá kærunefnd á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

  Með endurupptökubeiðni lögðu kærendur fram nýtt gagn um heilsufar þeirra og lífshorfur í Kólumbíu og byggja á því að í því felist upplýsingar sem bendi til þess að aðstæður kærenda og barns þeirra hafi breyst verulega frá úrskurði kærunefndar. Það sé mat sálfræðings að framkvæmd brottvísunar á þessu stigi kunni að stefna lífi, heilsu og velferð fjölskyldunnar í hættu, með hliðsjón af andlegu ástandi þeirra á þessari stundu. Kærendur kveða að af vottorðinu sé ljóst að um sé að ræða nýjar upplýsingar um heilsufar sem hafi ekki legið fyrir þegar úrskurður í máli fjölskyldunnar hafi verið kveðinn upp. Þá muni rof á þeirri meðferð sem kærendum hafi verið veitt hér á landi ekki einungis valda fjölskyldunni tjóni, heldur bendi vottorðið eindregið til þess að slíkt rof væri líklegt til að kosta kærendur lífið og valda barni þeirra óbærilegum, óafsakanlegum og óafturkræfum skaða. Þá sé ljóst að álag á heilbrigðiskerfi heimaríkis kærenda hafi aukist vegna Covid-19 heimsfaraldurs þar í landi. Að teknu tilliti til þess sé óljóst hvort kærendur muni í raun hafa greiðan aðgang að þeirri meðferð sem sé þeim lífsnauðsynleg. Í ljósi framangreinds geti ekki talist forsvaranlegt að rjúfa meðferð kærenda. Þá liggi fyrir að ákvörðun stjórnvalda í máli kærenda hafi byggt á ófullnægjandi upplýsingum, enda hafi viðhlítandi mat á hagsmunum þeirra ekki farið fram og fullt tilefni hafi verið til að kanna betur persónulegar aðstæður kærenda. Kærunefnd útlendingamála hafi í úrskurðum sínum áréttað mikilvægi þess að fram fari viðhlítandi mat á hagsmunum kærenda um alþjóðlega vernd í samræmi við ákvæði laga um útlendinga og alþjóðlegar skuldbindingar sem íslenska ríkið hafi undirgengist. Í ljósi nýrra upplýsinga um heilsufar kærenda verði að teljast nauðsynlegt að endurupptaka mál fjölskyldunnar svo að viðhlítandi mat á hagsmunum þeirra geti farið fram. Kærunefnd beri að endurupptaka málið og kanna til hlítar framlögð gögn og hvaða áhrif þau kunni að hafa á niðurstöðu þess. Líta beri til þess að mál hafi verið endurupptekin hjá nefndinni af minna tilefni en nefndinni beri að gæta jafnræðis. Með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, hagsmunum þeim sem í húfi séu og hvernig þessar nýju upplýsingar kunni að breyta niðurstöðu málsins sé ljóst að fullt tilefni sé til endurupptöku málsins.

  Þá byggja kærendur á því að rannsókn íslenskra stjórnvalda á raunverulegum aðstæðum þeirra og barns þeirra hafi ekki verið fullnægjandi og að kærendur séu í raunverulegri hættu við endurkomu þangað vegna viðvarandi átaka innan Kólumbíu og þess ofbeldis sem þar þrífist. Ennfremur kveður M að hann hafi sætt ofsóknum af hálfu aðila með tengsl við stjórnvöld og því geti hann ekki leitað sér aðstoðar vegna þeirra hótana sem honum hafi borist líkt og haldið sé fram í úrskurði kærunefndar. Að lokum telja kærendur að ekki hafi verið tekið nægilegt tilliti til hagsmuna barns þeirra og litið framhjá alþjóðlegum skuldbindingum um réttindi barna.

  Í ljósi alls framangreinds telja kærendur að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu uppfyllt, m.a. með tilliti til jafnræðisreglu, rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, eðli þeirrar íþyngjandi ákvörðunar sem um ræðir og mikilvægi nýjustu upplýsinga.

 3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð, nr. 85/2022, í máli kærenda og barns þeirra 10. febrúar 2022 og var úrskurðurinn birtur fyrir kærendum 14. febrúar 2022. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærendur og barn þeirra uppfylltu hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kærenda og barns þeirra í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Með endurupptökubeiðni sinni lögðu kærendur fram sálfræðivottorð, dags. 21. nóvember 2022. Í vottorðinu kemur fram að A hafi greint frá erfiðum aðstæðum í heimaríki, hún sé hrædd um föður sinn og líf sitt. Í vottorðinu kemur fram að K hafi leitað aðstoðar á geðdeild þar sem hún hafi fengið taugaáfall og einnig misst fóstur. M hafi einnig lýst slæmri andlegri heilsu og í athugunarlistum á líðan sem hafi verið lagðir fyrir hann 21. nóvember 2022 hafi komið fram alvarleg einkenni streitu, depurðar og kvíða ásamt svefnvanda. Að mati kærenda sé um nýjar upplýsingar að ræða og því beri að endurupptaka úrskurð þeirra.

Þegar kærunefnd kvað upp úrskurð sinn 10. febrúar 2022 lá ekki fyrir að kærendur eða barn þeirra glímdu við líkamlega eða andlega kvilla. Í úrskurði kærunefndar er þó fjallað um heilbrigðiskerfið í Kólumbíu og þar kemur fram að allir ríkisborgarar eigi rétt á grunnheilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð þar í landi. Þá kemur fram að í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunar frá 2018 sé greint frá því að í gildi væri sérstök löggjöf um geðheilbrigðismál í Kólumbíu, slík heilbrigðisþjónusta sé að mestu tryggð með sjúkratryggingakerfi landsins og meirihluti fólks sem eigi við andleg vandamál að stríða þurfi ekki að greiða fyrir slíka þjónustu. Í úrskurðinum er auk þess fjallað um hagsmuni barns kærenda og byggt á því að A hafi greint frá því að sér hafi liðið vel í heimaríki, gengið í skóla og átt vini. Þá væri ljóst að hún njóti stuðnings foreldra sinna og hafi aðgang að mennta- og heilbrigðiskerfinu þar í landi. Ennfremur bendi gögn til þess að í boði sé stuðningur við fjölskyldufólk sem þess þurfi í Kólumbíu. Í framlögðu sálfræðivottorði er ekki að finna sálfræðilega greiningu á andlegri líðan kærenda og barns þeirra heldur er aðeins um að ræða endursögn sálfræðings á frásögn þeirra og mat á niðurstöðum sjálfsmatskvarða er M fyllti út. Þá er í lok vottorðsins að finna staðhæfingar um stöðu kærenda og barns þeirra í heimaríki sem ekki er studd neinum gögnum og getgátur sálfræðingsins um áhrif flutnings fjölskyldunnar frá landinu á A.

Við meðferð máls kærenda hefur kærunefnd yfirfarið á ný skýrslur um Kólumbíu. Er það mat kærunefndar að kærendur og barn þeirra geti snúið til baka til heimaríkis og fengið þá þjónustu og meðferð sem þau kunna að þurfa á að halda vegna andlegrar eða líkamlegrar heilsu sinnar. Í beiðni sinni um endurupptöku hafa kærendur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á annað og þá benda gögn um heimaríki kærenda ekki til þess að aðstæður hafi breyst hvað þetta varðar. Verður því ekki séð að heilsa kærenda og barns þeirra hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp eða að kærendur og/eða barn þeirra séu í meðferð sem sé svo sérhæfð að þau geti einungis hlotið hana hérlendis eða að rof á henni yrði til tjóns fyrir kærendur yrði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis.

Hvað varðar staðhæfingar M um að hann geti ekki leitað sér aðstoðar yfirvalda vegna þess að aðilar tengdir stjórnvöldum hafi haft í hótunum við hann er ljóst að í úrskurði kærunefndar er fjallað með ítarlegum hætti um aðstæður í heimaríki kærenda og barns þeirra m.a. um réttarkerfið og þær leiðir sem einstaklingum eru færar til þess að leita réttar síns. Með beiðni sinni um endurupptöku hafa ekki verið lögð fram gögn sem benda til þess að mat kærunefndar hafi verið rangt og verður því ekki fallist á að úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum hvað þetta varðar.

Í ljósi framangreinds verður því ekki fallist á að úrskurður kærunefndar frá 10. febrúar 2022, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eða  að aðstæður kærenda og barns þeirra hafi breyst verulega í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki séð að úrskurður kærunefndar hafi verið haldinn verulegum annmarka svo rétt sé að endurupptaka hann.

Er því kröfu kærenda um endurupptöku máls þeirra hjá kærunefnd hafnað.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellants to re-examine their cases is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira