Hoppa yfir valmynd

1067/2022. Úrskurður frá 1. mars 2022

Úrskurður

Hinn 1. mars 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1067/2022 í máli ÚNU 21020014.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 5. febrúar 2021, kærði A afgreiðslu Garðabæjar á beiðni sinni um aðgang að gögnum.

Með erindi, dags. 8. júní 2020, óskaði kærandi eftir öllum gögnum sem til væru í kerfum Garðabæjar (bæði hjá sveitarfélaginu og Garðaskóla) fram til síðasta vinnudags skólastjóra Garðaskóla og vörðuðu kæranda, eiginkonu hans og dóttur. Var kæranda tjáð með tölvupósti, dags. 11. júní 2020, að gögn sem heyrðu undir gagnabeiðnina heyrðu jafnframt undir aðra beiðni kæranda frá því í maí 2020, þar sem óskað var eftir öllum gögnum sem til væru í kerfum Garðabæjar (bæði hjá sveitarfélaginu og Garðaskóla) fram til síðasta vinnudags deildarstjóra skóladeildar Garðabæjar og vörðuðu kæranda, eiginkonu hans og dóttur. Yrðu gögnin afhent sem hluti af afgreiðslu þeirrar beiðni. Gögnin voru afhent kæranda 23. júní 2020.
Kærandi telur að eftir að sér bárust gögn frá öðrum aðilum, m.a. fagráði eineltismála, hafi komið á daginn að skólastjóri Garðaskóla og deildarstjóri skóladeildar Garðabæjar hafi átt í samskiptum og fundað með Kennarasambandi Íslands, Skólastjórafélagi Íslands og sáttamiðlara. Garðabær hafi ekki afhent gögn þar að lútandi, en kærandi telur að fundarboð, fundargerðir og samskipti þessara aðila hljóti að liggja fyrir hjá sveitarfélaginu.

Kæran var kynnt Garðabæ með erindi, dags. 3. desember 2021. Athugasemdir Garðabæjar við kæruna bárust 10. desember 2021. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í máli þessu er kærð sú afgreiðsla Garðabæjar að afhenda ekki tiltekin gögn sem kærandi telur sig hafa staðreynt að liggi fyrir hjá sveitarfélaginu og hafi heyrt undir gagnabeiðni hans til sveitarfélagsins. Hins vegar liggur ekki fyrir í málinu ákvörðun Garðabæjar að synja kæranda um aðgang að þessum gögnum.

Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er skv. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga bundin við synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum og synjun á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þar sem ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið synjað um aðgang að viðkomandi gögnum er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 5. febrúar 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira