Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 23/2021. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 27. september 2021
í máli nr. 23/2021:
TRS ehf.
gegn
HEF veitum ehf. og
Rafey ehf.

Lykilorð
Kröfu um stöðvun samningsgerðar hafnað.

Útdráttur
Kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar var hafnað þar sem kominn var á bindandi samningur, sbr. 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 29. júní 2021 kærði TRS ehf. útboð HEF veitna ehf. (hér eftir vísað til sem varnaraðila) auðkennt „Ljósleiðarakerfi í dreifbýli á Fljótsdalshéraði – Blástur og tengingar“. Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda í hinu kærða útboði og lagt verði fyrir varnaraðila að semja við kæranda en til vara krefst kærandi þess að lagt verði fyrir varnaraðila að auglýsa útboðið að nýju. Þá gerir kærandi kröfu að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og að varnaraðila verði gert að greiða kæranda málskostnað. Loks var þess krafist að kærunefnd útboðsmála stöðvi innkaupaferli hins kærða útboðs þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru „ef ekki er litið svo á að um sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar sé að ræða“.

Varnaraðila og Rafey ehf. var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerð 6. júlí 2021 krefst varnaraðili þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað en Rafey ehf. hefur ekki látið málið til sín taka.

Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 19. júlí 2021 var hafnað kröfu kæranda um að stöðva um stundarsakir hið kærða útboð.

Kærandi skilaði frekari athugasemdum í málinu 18. ágúst 2021. Kærunefnd útboðsmála beindi fyrirspurn til varnaraðila með tölvupósti 23. ágúst 2021 og var henni svarað 31. sama mánaðar. Með tölvupósti kæranda 31. ágúst 2021 til kærunefndar útboðsmála var ítrekað erindi kæranda frá 18. ágúst sama mánaðar „þar sem gerð er krafa um að stöðvunarkrafa kæranda verði tekin fyrir“.

Kærunefnd útboðsmála leit svo á að í tölvupósti kæranda frá 31. ágúst 2021 fælist krafa um stöðvun samningsgerðar og gaf varnaraðila og Rafey ehf. samdægurs kost á að tjá sig um stöðvunarkröfu kæranda. Athugasemdir bárust frá varnaraðila 1. september 2021. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir varnaraðila og bárust frekari athugasemdir frá kæranda 6. september 2021. Kærunefnd útboðsmála beindi fyrirspurn til varnaraðila 2. september 2021 og óskaði eftir afriti af samningi varnaraðila við Rafey ehf. Varnaraðili svaraði fyrirspurninni samdægurs og afhenti umbeðin gögn.

Í þessum hluta málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu kæranda um að samningsgerð milli varnaraðila og Rafeyjar ehf. í kjölfar hins kærða útboðs verði stöðvuð um stundarsakir en málið bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Mál þetta lýtur að útboði varnaraðila auðkennt „Ljósleiðarakerfi í dreifbýli á Fljótdalshéraði – Blástur og tengingar“. Tilboð voru opnuð 11. júní 2021 og samkvæmt fundargerð opnunarfundar bárust tilboð frá fjórum fyrirtækjum. Tilboð Rafeyjar ehf. var lægst að fjárhæð en tilboð kæranda næstlægst. Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 19. júlí 2021 hafnaði nefndin stöðvunarkröfu kæranda meðal annars á þeim grundvelli að varnaraðili hefði hvorki tekið ákvörðun um val á tilboði né um að hafna tilboði kæranda í hinu kærða útboði. Með tölvupósti 6. ágúst 2021 tilkynnti varnaraðili bjóðendum um að ákveðið hefði verið að hefja samningaviðræður við Rafey ehf. Með tölvupósti 30. sama mánaðar staðfesti varnaraðili „ákvörðun um að ganga til samninga við Rafey ehf. um tengingar og blástur ljósleiðara“. Á sama degi var undirritaður samningur milli varnaraðila og Rafeyjar ehf. og liggur sá samningur fyrir í málinu.

Varnaraðili byggir meðal annars á því að ekki séu forsendur til að fjalla tvívegis um stöðvunarkröfu í sama málinu og ekki séu skilyrði til þess að fjalla um kröfur í kæru málsins. Kæra hafi verið sett fram áður en val tilboða hafi farið fram og áður en unnt hafi verið að fjalla um stöðvun samningsgerðar vegna tiltekins bjóðanda. Eftir að kæra hafi komið fram hafi varnaraðili tilkynnt um val á tilboði. Sú ákvörðun hafi ekki verið kærð til nefndarinnar og ekki sé unnt að setja fram kæru áður en ákvörðun sé tekin. Kærufrestir vegna ákvörðun um val á tilboði séu liðnir og skuli því vísa málinu frá samkvæmt 106. gr. laga um opinber innkaup.

Kærandi gerir sérstakar athugasemdir við afgreiðslu kærunefndarinnar á erindi hans frá 18. ágúst 2021 enda hafi með erindinu verið gerð krafa um stöðvun samninga en varnaraðila ekki tilkynnt um erindið fyrr en 1. september 2021. Kærandi hafi hugsanlega orðið fyrir tjóni vegna þessa. Hafi verið gengið til samninga í málinu krefst kærandi þess að sá samningur verði óvirkjaður samkvæmt 2. og 3. tl. b-liðar 2. mgr. 115. gr. laga um opinber innkaup enda hafi framlagning kæru haft í för með sér sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar, sbr. 107. gr. sömu laga.

Niðurstaða

Í 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup kemur fram að eftir að bindandi samningur samkvæmt lögunum hefur komist á verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Svo sem fyrr greinir liggur fyrir skriflegur bindandi samningur milli varnaraðila og Rafeyjar ehf. frá 30. ágúst 2021. Þegar af þessari ástæðu er kærunefnd útboðsmála ekki unnt að stöðva samningsgerð og verður kröfu kæranda því hafnað.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, TRS ehf., um stöðvun á samningsgerð milli varnaraðila, HEF veitna ehf., og Rafeyjar ehf. í kjölfar útboðs auðkennt „Ljósleiðarakerfi í dreifbýli á Fljótsdalshéraði – Blástur og tengingar“ er hafnað.


Reykjavík, 27. september 2021


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira