Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/2011: Dómur frá 30. júní 2011

Ár 2011, fimmtudaginn 30. júní, er í Félagsdómi í málinu nr. 11/2010

Alþýðusamband Íslands f.h.

Samiðnar vegna Fagfélagsins   

gegn

Samtökum atvinnulífsins vegna

Fonsa ehf.

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R

Mál þetta var þingfest 15. desember 2010 en dómtekið 24. maí 2011.

Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Lára V. Júlíusdóttir.

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Sætúni 1, Reykjavík, f.h. Samiðnar kt. 650593-2009, Borgartúni 30, Reykjavík vegna Fagfélagsins kt. 660269-1779, sama stað.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík vegna Fonsa ehf. kt. 560502-5910, Akralind 8, 201 Kópavogi.

           

Endanlegar dómkröfur stefnanda

Að dæmt verði að stefndi Fonsi ehf. hafi brotið ákvæði 7. gr. laga nr. 80/1938 með því að knýja félagsmenn stefnanda til að afsala sér kjarasamningsbundnum launahækkunum þann 1. nóvember 2009 og 1. júní 2010.

Að dæmt verði að stefndi Fonsi ehf. hafi beitt starfsmenn sína ólögmætri atvinnukúgun til að knýja í gegn afsal kjarasamningsbundinna réttinda, skv. 2. mgr. 5. gr. laga 80/1938, sbr. 4. gr. sömu laga, með því að hóta starfsmönnum brottrekstri ef þeir höfnuðu því að afsala sér kjarasamningsbundum rétti til launahækkana og með því að láta verða af slíkri brottvísun er tveir starfsmanna vildu ekki gefa rétt sinn eftir.

Að stefndi Fonsi ehf.verði sektaður fyrir brot gegn ákvæðum laga nr. 80/1938 í samræmi við 65. gr. laga nr. 80/1938.

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati Félagsdóms.

 

Dómkröfur stefnda

Aðallega að málinu verði vísað frá dómi.

Til vara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda.

Að stefnandi verði í báðum tilvikum dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

Með úrskurði 21. febrúar sl. var frávísunarkröfu stefnda hafnað og því er hér aðeins til úrlausnar varakrafa hans um sýknu.

 

Málavextir

Óumdeilt er að Samtök atvinnulífsins annars vegar og Samiðn samband iðnfélaga fyrir hönd aðildarfélaga hins vegar gerðu síðast kjarasamning sem gilti frá 1. febrúar 2008 til 30. nóvember 2010. Meðal þess, sem samið var um í samningnum, voru launhækkanir sem áttu að koma til framkvæmda á samningstímanum en vegna efnahagsþrenginga í kjölfar greiðsluþrots viðskiptabankanna þriggja í október 2008 riðluðust forsendur þessara hækkana. Á vegum forsendunefndar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins var afráðið að fela samninganefndum aðila að freista þess að ná samkomulagi um viðbrögð og breytingar á kjarasamningum til að stuðla að framgangi markmiða samningsins. Samkvæmt gögnum málsins varð samkomulag um það 25. júní 2009 að gera breytingar á gildandi kjarasamningum m.a. á þann veg, að kjarasamningsbundnum launahækkunum var seinkað þannig að 3,5% launahækkun skyldi koma til framkvæmda 1. nóvember 2009 í stað 1. mars 2009 og þá var 2,5% launahækkun, sem koma átti til framkvæmda 1. janúar 2010, seinkað til 1. júní 2010.

Stefnandi kveðst hafa fengið upplýsingar um það síðasta sumar að stefndi hefði brotið gegn kjarasamningnum með því að láta undir höfuð leggjast að efna umsamdar launahækkanir. Þá hafi stefnandi komist að því að stefndi hafði stigið skrefinu lengra og knúið starfsmenn sína til þess að samþykkja þessa ráðagerð undir hótun um uppsögn úr starfi ella. Með þessum framgangsmáta hafi hin umsamda kjarasamningsbundna hækkun aldrei komið til framkvæmda og virðist sem starfsmenn hafi látið  þetta yfir sig ganga möglunarlítið í nóvember 2009.

Þegar komið var fram í júní 2010 og starfsmönnum var ljóst að fyrirtækið ætlaði að hafa sama háttinn á og bregðast samningsskyldu sinni, og það án þess að reifa málið gagnvart starfsmönnum, hafi tveir starfsmenn lýst sig þessu ósammála. Starfsmennirnir hafi leitað fulltingis Fagfélagsins, sem sendi fyrirtækinu bréf, dagsett 7. júlí 2010, þar sem gerð var athugasemd við að kjarasamningsbundnar hækkanir hefðu ekki komið til framkvæmda, fjárhæð yfirvinnulauna hefði ekki verið rétt og að ekki hefði verið staðið réttilega að innheimtu og skilum félagsgjalda til stéttarfélags. Síðla í júlí hafi starfsmennirnir tveir verið kallaðir á teppið af forsvarsmönnum fyrirtækisins. Er þeir mættu til fundarins, hefði annar þeirra haft farsíma sinn stilltan á hljóðupptöku og hljóðritað það sem fram fór á fundinum.

Á fundinum hafi starfsmönnunum verið kynnt að þeir ættu val um það annars vegar að fallast á að fá ekki kjarasamningshækkunina eða hins vegar að verða sagt upp störfum. Forsvarsmenn fyrirtækisins hefðu kannast við skyldu sína samkvæmt kjarasamningi um að hækka laun en hefðu upplýst starfsmennina um það, að ef þeir ætluðu að standa á rétti sínum yrði þeim sagt upp störfum með þeim skýringum að fyrirtækið yrði að tryggja samkeppnisstöðu sína á markaði. Hafi forsvarsmaður fyrirtækisins komist svo að orði: „Já, sko málið snýst um það, málið snýst um það, á morgun, þá skrifið þið annað hvort undir starfssamning eða uppsagnarbréf“. Starfsmennirnir hafi ekki samþykkt þessa afarkosti og maldað í móinn en þeim hafi þá verið sagt upp störfum en uppsagnarbréfið hafi verið dagsett aftur í tímann þannig að það bæri svipmót þess að hafa verið ritað áður en fundur starfsmannanna með forsvarsmönnum félagsins átti sér stað.

Fagfélagið hafi á nýjan leik gert athugasemd við framgang fyrirtækisins og hafi því verið veittur frestur til að bæta ráð sitt í þessum efnum. Starfsmennirnir tveir hafi síðan tekið ákvörðun um að þeim væri ekki sætt í starfi við þessar aðstæður vegna vanefnda fyrirtækisins sem og þess trúnaðarbrests sem orðinn var milli aðila vegna tilrauna félagsins til að kúga starfsmennina og beygja þá til hlýðni að viðlögðum brottrekstri.

Fundur hafi verið haldinn í byrjun september milli Fagfélagsins og stefnda og fulltrúa Samtaka atvinnulífsins. Hafi þá verið staðhæft annars vegar að ef einhverjir agnúar hefðu verið á framkvæmd kjarasamnings er lytu að veikindarétti, yfirvinnu og greiðslu félagsgjalda, yrði farið yfir slíkt og það leiðrétt. Hins vegar hafi þá einnig verið staðhæft að heimilt væri að láta kjarasamningsbundnar launahækkanir ekki koma til framkvæmda, enda hefðu starfsmenn stefnanda fallist á það. Þessu hafi Fagfélagið verið ósammála og því hafi stefnda á nýjan leik verið ritað bréf, dagsett 1. október 2010, þar sem rakin voru þau brot sem stefnandi taldi stefnda hafa gert sig sekan um. Því bréfi hafi verið svarað um hæl af hálfu Samtaka atvinnulífsins með bréfi, dagsettu 12. október 2010, og áréttað að til stæði að efna kjarasamning réttilega hvað greiðslu veikindalauna, yfirvinnu og félagsgjöld snerti. Þá hafi jafnframt verið tekið fram, að heimilt væri að hafa þennan háttinn á gagnvart kjarasamningsbundnum launahækkunum enda væri með slíkri framgöngu komist hjá uppsögnum sem ella hefði þurft að grípa til.

Stefndi lýsir fundi forráðamanna stefnda með starfsmönnum fyrirtækisins í nóvember 2009 og atburðum í kjölfarið með nokkuð öðrum hætti í greinargerð sinni. Kemur þar fram að farið hafi verið yfir stöðu fyrirtækisins, erfiðleika á byggingamarkaði og nauðsyn þess að tryggja fyrirtækinu áframhaldandi samkeppnishæfni. Allir starfsmenn stefnda hafi verið, og séu enn, yfirborgaðir umfram lágmarkstaxta kjarasamninga. Að óbreyttu hefði blasað við að fyrirtækið hefði þurft að draga úr launakostnaði með því að segja upp starfsmönnum og/eða lækka laun. Niðurstaða fundarins hafi verið sú, að allir starfsmenn stefnda hefðu samþykkt að taka á sig launalækkun og hafi því ekki þurft að koma til uppsagna á launalið. Hafi laun starfsmanna því lækkað 1. nóvember 2009 og verið  óbreytt í krónutölu eftir að kjarasamningsbundin kauphækkun kom til framkvæmda. Jafnframt hafi verið ákveðið að meta stöðuna að nýju í byrjun sumars 2010 þegar næsta kjarasamningsbundna hækkun átti að koma til framkvæmda.

Aftur hafi verið farið yfir stöðu mála með starfsmönnum stefnda sumarið 2010. Tveir starfsmenn, Lúðvík Brynjólfsson og Ragnar Ingi Guðjónsson, hafi ekki samþykkt að taka á sig launalækkun, þ.e. að laun yrðu áfram óbreytt í krónutölu eftir að áfangahækkun launa hinn 1. júní 2010 kom til framkvæmda. Þeim hafi þá verið sagt upp störfum til að lækka yfirborganir þeirra samkvæmt gildandi ráðningarsamningi.

Fagfélagið hafi sent stefnda tvö bréf um brot á kjarasamningi, dagsett 7. júlí og 17. ágúst 2010. Annað bréf sama efnis hafi verið sent til fyrirtækisins hinn 19. ágúst  2010 en það hafi verið tilkomið vegna þess að þeir Lúðvík og Ragnar Ingi höfðu, hinn 18. ágúst, ákveðið að virða ekki kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest sinn gagnvart fyrirtækinu. Þeim hafi í kjölfarið verið send bréf frá stefnda um brotthlaup úr starfi, þar sem fram hafi komið að laun vegna júlí 2010 hefðu þegar verið leiðrétt og laun vegna hækkunar í nóvember 2009 yrðu einnig leiðrétt.

Vegna sumarleyfa hafi dregist af hálfu Samtaka atvinnulífsins að svara bréfum Fagfélagsins til stefnda. Hinn 1. september 2010 hafi lögmaður Samtaka atvinnulífsins og forráðamenn stefnda hins vegar átt sérstakan fund með formanni stefnanda þar sem farið hafi verið yfir málið. Ljóst hafi verið að engir skriflegir samningar hefðu verið gerðir við þá Lúðvík og Ragnar Inga og því hafi þeir getað haldið því fram að þeir hefðu verið hlunnfarnir um launahækkanir í nóvember 2009. Þeir hafi a.m.k. ekki lengur kannast við munnlegt samkomulag um launalækkun. Niðurstaða þess fundar hafi því verið sú, að stefndi greiddi þeim framangreindar launahækkanir, eins og þeim hefði raunar verið tilkynnt bréflega 23. ágúst 2010. Hins vegar ættu þeir ekki rétt á uppsagnarfresti, enda hefðu þeir sjálfir hætt störfum fyrirvaralaust, hlaupist á brott án nokkurs fyrirvara og án nokkurra skýringa. 

Það hafi því komið stefnda og Samtökum atvinnulífsins á óvart að áfram væri hótað málaferlum fyrir Félagsdómi vegna ætlaðra brota á kjarasamningum, sbr. bréf lögmanns Fagfélagsins frá 1. október 2010. Í því bréfi hafi verið bornar á stefnda nýjar ávirðingar, m.a. um vangoldin veikindalaun og að félagsgjöldum hafi ekki verið skilað af félagsmönnum stefnda. Samtök atvinnulífsins hafi svarað bréfinu f.h. stefnda, hinn 12. október 2010, þar sem því hafi verið mótmælt að kjarasamningsbrot hefðu átt sér stað eða það hefði verið ætlun stefnda að brjóta rétt á starfsmönnum sínum.        

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefnda sé skylt að virða gerða kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins, þar með talið kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar, sambands iðnfélaga, en samkvæmt honum hafi átt að hækka laun þeirra, sem taka kjör í samræmi við hann, hinn 1. nóvember 2009 og 1. júní 2010. Óumdeilt ætti að vera að stefndi sinnti þessari skyldu ekki, heldur knúði starfsmenn sína til að fallast á að að hækkanirnar kæmu ekki til framkvæmda og rýrði þar með kjarasamningsbundin kjör þeirra.

Á því er byggt af hálfu stefnanda að stefndi hafi með þessari framgöngu brotið gegn 3. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938, enda samrýmist sú framganga að efna ekki kjarasamningsskyldu um hækkun launa í tvígang ekki þeirri lagaskyldu sem í því felist að kjarasamningur taki gildi frá undirskriftardegi. Þegar kjarasamningur sé í gildi genginn, beri stefnda, eins og öðrum sem undir samninginn heyra, ótvíræð skylda til að efna hann. Kjarasamningurinn, eins og honum var breytt af samninganefnd samningsaðila, hafi kveðið á um launahækkanir upp á 3,5% 1. nóvember 2009 og 2,5% 1. júní 2010. Ótvírætt sé, að þær hækkanir komu ekki til framkvæmda hjá stefnda.

Stefnda sé ekki tækt að bera fyrir sig efnahagslegar ástæður og/eða forsendubrest. Fyrir liggi að aðilar vinnumarkaðarins höfðu tekið þau álitaefni til skoðunar sem upp risu í kjölfar greiðsluþrots stærstu viðskiptabanka Íslands í byrjun október. Stefndi hafi ekkert leyfi til frekari breytinga á kjarasamningsskyldum en afráðnar voru af aðilum vinnumarkaðarins 25. júní 2009. Þótt sérstaklega illa hafi árað í byggingariðnaði síðustu tvö árin, hafi engin óvænt neyðarstaða komið upp í nóvember 2009 og júní 2010 sem stefndi hafi þurft að bregðast við. Liggi enda ekki fyrir að markmið stefnda hafi verið að tryggja stöðu sína í samkeppni á markaði. Slíkt verði ekki gert með því að bregðast skyldum samkvæmt kjarasamningi.

Framganga stefnda verði ekki réttlætt með þeim hætti, að stefnda hafi verið heimilt að hlutast til um að starfsmenn félagsins samþykktu kjaraskerðingu þar sem laun þeirra væru umfram lágmarkstaxta. Að mati stefnanda fái slík framsetning alls ekki staðist, enda myndu þá kjarasamningar, sem gerðir eru í samræmi við 5. gr. laga 80/1938, algerlega missa marks. Eins væru efnisatriði kjarasamningsins í uppnámi ef einstakir atvinnurekendur hefðu sjálfdæmi um það, hvaða hækkanir væru látnar koma til framkvæmda og hverjar ekki. Framkvæmd þeirra breytinga, sem aðilar vinnumarkaðarins hafi samið um, geti ekki ráðist af mati einstakra atvinnurekenda á breytum í efnahagslegum forsendum. Slík framganga standist alls ekki og myndi koma í veg fyrir þá vernd, sem starfsmönnum sé tryggð með 7. gr. laga nr. 80/1938. Einstaka atvinnurekanda sé ekki kleift að leggja mat á það á hvern hátt hann hefur einstök ákvæði kjarasamnings í heiðri og knýja svo starfsmenn sína til fylgilags við afstöðu sína, að viðlögðum brottrekstri. Slík hótun sé enda viðurhlutamikil á tímum þar sem trésmiðir búa við 20% atvinnuleysi. Samþykki, sem knúið sé fram með slíkum hætti, sé ógilt.

Telji einstakir atvinnurekendur að hækkanir þær, sem þeir hafa samið um í samþykktum kjarasamningum, vegi að rekstarforsendum fyrirtækis síns þannig að við þurfi að bregðast, verði ekki hjá því komist. Það geti hins vegar ekki verið á kostnað starfsmanna viðkomandi fyrirtækis. Kjarasamningar séu gerðir fyrir vinnumarkaðinn í heild og þau verkefni á vinnumarkaði, sem leysa þurfi af hendi, verði framkvæmd af þeim fyrirtækjum sem séu í stakk búin til þess á grundvelli gildandi kjarasamninga. Það standist ekki lög að fyrirtækjum sé tækt að skapa sér samkeppnisforskot með því að brjóta gegn gildandi kjarasamningi. 

Um lagarök vísar stefnandi til tilgreindra ákvæða laga nr. 80/1938, auk laga nr. 55/1980, um lágmarkskjör og ógildi lakari kjara. Um dómsvald Félagsdóms vísist til 44. gr. og 45. gr. laga nr. 80/1938. Krafa um málskostnað sé studd við 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988. Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

 

Málsástæður stefnda og lagarök    

Stefndi byggir sýknukröfu sýna á því að hvorki stefndi, Fonsi ehf., né Samtök atvinnulífsins hafi brotið gegn ákvæðum kjarasamnings þess síðarnefnda við stefnanda eða lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Af gögnum málsins sé ljóst að einu starfsmenn stefnda, Fonsa ehf., sem nafngreindir séu í framlögðum málsgögnum, hafi þegar fengið greiddar launahækkanir samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar frá 25. júní 2009. Engin kjarasamningsbrot hafi því átt sér stað gagnvart þeim. Starfsmennirnir,  Lúðvík Brynjólfsson og Ragnar Ingi Guðjónsson, hafi hins vegar sjálfir verið brotlegir því þeir hafi ekki virt kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest sinn heldur hlaupist á brott.         

Fyrir þetta brotthlaup hafi þeim ekki verið refsað með hýrudrætti eins og réttmætt hefði verið. Hafi Samtök atvinnulífsins sérstaklega beitt sér fyrir því að þessir starfsmenn, sem ekki hafi  lengur kannist við samkomulag um launalækkun í nóvember 2009, fengju greiddar launahækkanir í samræmi við kjarasamning og að hýrudrætti hafi ekki verið beitt af hálfu fyrirtækisins. Þetta hafi verið ákveðið á fundi samtakanna með formanni Fagfélagsins hinn 1. september 2010 í þeirri trú að málinu væri þar með lokið.

Starfsmönnum Fonsa ehf. hafi verið heimilt að semja um launalækkun í nóvember 2009 við vinnuveitanda sinn á sama hátt og þeir höfðu áður samið um yfirborgun launa sinna við fyrirtækið, enda yrðu nýju launin áfram hærri heldur en kauptaxtar kjarasamnings kvæðu á um. Svigrúm einstakra vinnuveitenda og launþega til að semja um laun og önnur starfskjör takmarkist við að þau séu jafn hagstæð eða betri en kveðið sé á um í kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags. Hömlur á samningsfrelsi aðila ráðningarsamnings þurfi að vera skýrar svo heimilt sé að víkja samningi um laun eða önnur starfskjör til hliðar. Með yfirborgun sé komið út fyrir svið kjarasamnings, þar sem ákveðin séu lágmarkskjör launþega í viðkomandi starfsgrein, sbr. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 351/1999 og nr. 352/1999 og nr. 118/2007, sbr. einnig Félagsdóm frá 1991, bls. 398 í IX. bindi dómasafns réttarins.         Sönnunarbyrðin um að samkomulag um launalækkun hafi verið gert hvíli  alfarið á fyrirtækinu, Fonsa ehf. Munnlegir ráðningar­samningar séu jafngildir skriflegum. Tómlæti og aðgerðaleysi Lúðvíks og Ragnars Inga í átta mánuði hafi rennt stoðum undir það að munnlegur samningur hafi verið gerður og verið í gildi allan þann tíma. Samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar, grein 1.11.1. um ráðningarsamninga og ráðningarbréf, hafi stefnda hins vegar borið að gera skriflega ráðningarsamninga við starfsmenn sína og staðfesta síðan allar breytingar á umsömdum ráðningarkjörum innan tveggja mánaða, sbr. grein 1.11.2. Þá samningsskyldu hafi stefndi vanrækt. Af ólögmætri hljóðupptöku, þ.e. vélritun á ólögmætri hlerun, virðist nú ljóst að munnlegt samkomulag hafi verið gert á vinnustaðnum um launalækkun í nóvember 2009 en það samkomulag hafi ekki verið staðfest skriflega.

Fullyrðingar í stefnu um að kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins og Fagfélagsins frá 25. júní hafi ekki verið efndur réttilega gagnvart Lúðvík og Ragnari Inga fái ekki staðist. Sama gildi um þær fullyrðingar að starfsmenn hafi verið knúnir til að afsala sér launahækkunum. Stefnandi hafi samið við starfsmenn um launalækkun í nóvember 2009 og hafi starfsmönnum hvorki verið hótað brottrekstri né heldur hafi nokkrum starfsmanni verið vísað á brott af vinnustað. Tveir starfsmenn hafi fengið afhent hefðbundið uppsagnarbréf sumarið 2010 en engin fyrirvaralaus uppsögn eða brottrekstur hafi átt sér stað í ágúst 2010 eins og stefnandi byggi á. Brottrekstri eða brottvísun hafi ekki verið beitt af hálfu forráðamanna stefnda en tveir starfsmenn stefnda hafi hins vegar hætt störfum fyrirvaralaust hinn 18. ágúst 2010. Fullyrðingar um að þeim hafi ekki verið lengur „vært á vinnustað“ séu rangar og ósannaðar. Lúðvík og Ragnar Ingi hafi einfaldlega ekki sætt sig við að laun þeirra yrðu lækkuð með nýjum ráðningarsamningi, sem hafi verið ástæða uppsagnar þeirra. Aldrei hafi annað staðið til en að endurráða Lúðvík og Ragnar Inga en á lægri launum og með skriflegum ráðningarsamningi.

Á almennum vinnumarkaði sé uppsagnarfrestur gagnkvæmur, sbr. 18. gr. kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar frá 17. febrúar 2008. Almennt þurfi hvorugur aðili ráðningarsamnings á almennum vinnumarkaði að gefa skýringar á uppsögn, sbr. dóma Hæstaréttar, annars vegar frá 19. maí 1994, málið nr. 289/1991, og hins vegar frá 14. nóvember 1996, málið nr. 418/1995. Á grundvelli fyrrnefndrar 18 gr. í kjarasamningi Samiðnar, hafi Lúðvík og Ragnar Ingi hins vegar getað óskað eftir viðtali um ástæður uppsagnar, væru þeir í óvissu um ástæður hennar. Þeir hafi jafnframt getað óskað eftir skriflegum skýringum en það hafi þeir ekki gert. Fulltrúa stéttarfélags þeirra hafi verið heimilt að vera á þeim fundi með þeim ef skriflegar skýringar væru ekki gefnar.   

Það að greina starfsmönnum frá því að fyrirtækið yrði að segja upp ráðningarsamningum til að lækka yfirborgun í þeim tilgangi að endurráða starfsmenn á lægri launum, hafi í eðli sínu ekki verið hótun. Frjáls uppsagnarréttur sé samningsbundinn á almennum vinnumarkaði, sem fyrirtæki hafi og geti beitt til að lækka launakostnað, s.s. yfirborganir. Uppsagnaréttur verði ekki takmarkaður nema með skýrum lagaákvæðum, eins og fram komi í 18. gr. fyrrnefnds kjarasamnings. Jafnvel opinberar stofnanir, sem þó séu bundnar af ákvæðum stjórnsýslulaga gagnvart starfsmönnum sínum, geti breytt launakjörum starfsmanna til lækkunar, sjá dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. desember 2010, málið nr. E-2960/2010. Starfsmenn fyrirtækja og stofnana geti einnig sjálfir ákveðið að samþykkja launalækkun með nýjum ráðningarsamningum ef laun þeirra eru áfram yfir lágmarkslaunum kjarasamninga. Breyting á ráðningarsamningi geti hins vegar talist ólögmæt og óskuldbindandi samkvæmt III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, hafi breyting verið knúin fram með nauðung gagnvart ákveðnum einstaklingi. Rekstur slíks ógildingarmáls yrði þá fyrir almennum dómstólum. 

Stefnandi í málinu hafi lagt fram ólögmæta upptöku (hlerun) úr samtali sem forráðamaður stefnda, Fonsa ehf., hafi ekki vitað að tekið var upp. Upptakan sé  sögð vera úr síma og hafi síðan verið vélrituð upp. Hið vélritaða skjal hafi takmarkað sönnunargildi í málinu. Sá, sem tekið hafi samtalið upp, hafi í senn verið upptökustjóri, „leikstjóri“ og „leikandi“ og því aðili að því samtali sem fram fór. Hann hafi stjórnað umræðunni í samtalinu og tekið það upp án vitneskju gagnaðila með ólögmætri hlerun. Upptakan hafi því aðeins sönnunargildi að því leyti sem hún staðfesti frásögn forráðamanna stefnda, m.a. um að munnlegt samkomulagt hafi verið gert um ný launakjör starfsmanna í nóvember 2009. Upptakan hafi því ekki meira sönnunargildi en aðilaskýrsla Lúðvíks og Ragnars Inga fyrir dómi. Þetta vélritaða skjal sé alfarið útbúið af stefnanda og við lestur skjalsins sjáist augljósar villur þar sem persónum sé ruglað saman. 

 

Nánar um dómkröfu 1

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 80/1930 séu samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur ógildir að svo miklu leyti, sem þeir fari í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann. Samkvæmt því sé óheimilt að greiða lægri launataxta heldur en kjarasamningur viðkomandi stéttarfélags og atvinnurekanda kveður á um. Ákvæðið banni hins vegar ekki að starfsmenn með yfirborgun, hærri laun heldur en launataxtar kveði á um, semji áfram um laun sín og yfirborganir eins og áður. Engir ráðningarsamningar einstakra launamanna hafi verið lagðir fram í málinu sem séu í andstöðu við ákvæði kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar frá 17. febrúar 2008 eða 25. júní 2009.  

 

Nánar um dómkröfu 2

Tilvísun stefnanda til 2. mgr. 5. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, fái ekki staðist.  Þessi ákvæði fjalli ekki um uppsagnir ráðningarsamninga vegna launalækkana en slíkar uppsagnir séu ekki „atvinnukúgun“, ekki frekar en þegar starfsmenn hóti uppsögn til að knýja fram launahækkanir sér til handa á vinnumarkaði.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 80/1938 sé atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn og fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.

Lagaákvæðið mæli fyrir um að uppsagnir vegna stjórnmálaskoðana, stéttarfélagsaðildar eða vinnudeilna séu ólögmætar. Vinnudeilur séu vinnustöðvanir, verkföll eða verkbönn, sbr. 14. gr. sömu laga. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 80/1938 séu stéttarfélög lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna og þau geri samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna sina og undirriti þá. Hvorki stéttarfélög né Samtök atvinnulífsins hafi rétt til afskipta af ráðningarsamningum milli félagsmanna sinna, sem feli í sér yfirborgun eða hærri laun heldur en kjarasamningar kveði á um.    

Málskostnaðarkröfu sína kveðst stefndi byggja á 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir valdsvið Félagsdóms samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Endanlegar dómkröfur stefnanda í máli þessu eru í fyrsta lagi að dæmt verði að stefndi, Fonsi ehf., hafi brotið ákvæði 7. gr. laga nr. 80/1938 með því að knýja félagsmenn stefnanda til að afsala sér kjarasamningsbundnum launahækkunum þann 1. nóvember 2009 og 1. júní 2010. Í öðru lagi að dæmt verði að stefndi, Fonsi ehf., hafi beitt starfsmenn sína ólögmætri atvinnukúgun til að knýja í gegn afsal kjarasamningsbundinna réttinda samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 4. gr. sömu laga, með því að hóta starfsmönnum brottrekstri ef þeir höfnuðu því að afsala sér kjarasamningsbundnum rétti til launahækkana og með því að láta verða af slíkri brottvísun er tveir starfsmanna vildu ekki gefa rétt sinn eftir. Í þriðja lagi er þess krafist að stefndi, Fonsi ehf., verði sektaður fyrir brot gegn ákvæðum laga nr. 80/1938 í samræmi við 65. gr. laganna. Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað að mati Félagsdóms. Dómkrafa stefnda í málinu er að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

Hinn 17. febrúar 2008 var undirritaður kjarasamningur á milli Samiðnar – sambands iðnfélaga vegna aðildarfélaga annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar. Skyldi samningur þessi gilda frá 1. febrúar 2008 og með honum voru síðast gildandi kjarasamningar aðila framlengdir til 30. nóvember 2010 með þeim breytingum og fyrirvörum, sem fælust í hinum nýja samningi, og skyldu þá falla úr gildi án sérstakrar uppsagnar. Í samningnum var meðal annars mælt fyrir um launabreytingar hinn 1. mars 2009 og 1. janúar 2010. Skyldi grunnhækkun launa verða 3,5% hinn 1. mars 2009, en frá henni dragast hækkanir á launum starfsmanna eftir fyrstu útborgun eftir gildistöku samningsins til og með 1. mars 2009 svo sem nánar greindi. Hinn 1. janúar 2010 skyldu laun hækka um 2,5%.

Samkvæmt 20. gr. kjarasamnings aðila, sem fjallar um framlengingu samningsins, skyldi sérstök forsendunefnd, skipuð tveimur fulltrúum, tilnefndum af ASÍ, og tveimur fulltrúum, tilnefndum af SA, taka þegar til starfa. Skyldi nefndin fjalla um þróun efnahagsmála á samningstímanum og stuðla að því að markmið samningsins næðust svo sem nánar greindi. Skyldi í byrjun febrúar 2009 fjalla sérstaklega um framlengingu samnings fyrir tímabilið 1. mars 2009 til 30. nóvember 2010. Þá segir að til þess að samningurinn framlengdist þyrftu tilgreindar forsendur varðandi kaupmátt og verðbólgu að vera til staðar. Hefði önnur hvor þessara samningsforsendna eða báðar ekki staðist skyldi þegar kalla saman fund samninganefndar ASÍ og SA sem leita skyldi samkomulags um viðbrögð til að stuðla að framgangi markmiðs samningsins, festa forsendur hans í sessi og tryggja að samningurinn héldi gildi sínu. Næðist ekki samkomulag skyldi sá aðili, sem ekki vildi framlengingu samningsins, skýra frá þeirri ákvörðun og félli samningurinn þá úr gildi frá lokum febrúar 2009, ella framlengdist hann til 30. nóvember 2010.

Ljóst var í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008 að forsendur kjarasamningsins voru brostnar. Samkomulag náðist á milli ASÍ og SA hinn 25. febrúar 2009 um breytingar á kjarasamningum á milli aðildarfélaga samtakanna. Í ljósi efnahagsaðstæðna í landinu, sem nánar var lýst, hafi samninganefndir ASÍ og SA frestað endurskoðunar- og framlengingarákvæði samninganna þannig að fyrir lok júní 2009 yrði samið um endanlega dagsetningu launahækkana út samningstímann. Að sama skapi frestist launabreytingar, sem taka ættu gildi hinn 1. mars 2009, með tilgreindum undantekningum. Í framhaldinu gerðu ASÍ og SA með sér samkomulag hinn 25. júní 2009 um breytingar á kjarasamningum á milli aðildarfélaga samtakanna frá 17. febrúar 2008 og síðar samhliða undirritun svonefnds stöðugleikasáttmála. Var endurskoðunar- og framlengingarákvæðum samninga skilyrt frestað og skyldi endurskoðun og ákvörðun um framlengingu vera endanlega lokið eigi síðar en 27. október 2009. Skyldu launabreytingar, sem taka áttu gildi hinn 1. mars 2009, en var frestað, koma til framkvæmda með nánar tilgreindum hætti hinn 1. nóvember 2009 og launahækkanir, sem taka áttu gildi hinn 1. janúar 2010, færast til 1. júní 2010.

Óumdeilt er í málinu að fyrrgreindar launahækkanir, sem koma skyldu til framkvæmda hinn 1. nóvember 2009 og 1. júní 2010, voru ekki inntar af hendi af hálfu stefnda, Fonsa ehf. Eiga ágreiningsefni málsins rætur að rekja til þessa. Fram er komið af hálfu stefnanda að starfsmenn hins stefnda fyrirtækis virðist „hafa látið þetta yfir sig ganga möglunarlítið í nóvember 2009“, eins og þar segir. Byggir stefndi á því að munnlegt samkomulag hafi verið gert við starfsmenn um lækkun yfirborgunar sem næmi sömu fjárhæð og samningsbundin launahækkun. Varðandi síðari launahækkunina, sem koma átti til framkvæmda hinn 1. júní 2010, þá virðist viðhorf stefnda vera hið sama og hvað snertir hina fyrri launahækkun, að starfsmenn hafi fallist á að hún kæmi ekki til framkvæmda. Ennfremur vísar stefndi almennt til þess að fyrirtækinu og starfsmönnum þess hafi verið fyllilega heimilt að semja um lækkun yfirborgunar í tengslum við launahækkun meðan laun væru yfir lágmarkstöxtum. Fram er komið í málinu að tveir starfsmenn stefnda, þeir Lúðvík Brynjólfsson og Ragnar Ingi Guðjónsson, undu þessum málalokum ekki og sneru sér til stéttarfélags síns, Fagfélagsins, í kjölfar þess að síðari launahækkunin kom ekki til framkvæmda. Gerði stéttarfélagið athugasemdir og krafði stefnda skýringa á þessu ráðslagi með bréfum, dags. 7. júlí og 17. og 19. ágúst 2010, en svör við bréfum þessum bárust ekki. Var greindum starfsmönnum síðan sagt upp starfi með bréfum stefnda, dags. 25. júlí 2010, og tilgreint að uppsagnarfrestur væri samkvæmt kjarasamningi. Fyrir liggur að í kjölfarið hættu starfsmenn þessir störfum hjá stefnda. Með bréfum, dags. 23. ágúst 2010, reit stefndi umræddum starfsmönnum bréf þar sem áskilinn var réttur til bóta vegna ólögmæts brotthlaups úr starfi og jafnframt tilkynnt um leiðréttingu launa vegna launahækkana 1. nóvember 2009 og 1. júní 2010.

Í 7. gr. laga nr. 80/1938 er mælt svo fyrir að samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur séu ógildir að svo miklu leyti sem þeir fara í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá. Í athugasemdum með 7. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 80/1938, kemur fram að stundum komi fyrir að atvinnurekandi semji við einstaka verkamenn í bága við gildandi samning við stéttarfélagið. Noti atvinnurekandinn sér þá oft veika aðstöðu verkamanns. Í greininni sé tekið fram að slíkir samningar séu ógildir.

Eins og fram er komið er óumdeilt að starfsmenn stefnda voru yfirborgaðir á greindum tíma. Með yfirborgun er komið út fyrir svið kjarasamnings þar sem ákveðin eru lágmarkskjör launþega í viðkomandi starfsgrein, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands frá 3. febrúar 2000 í málunum nr. 351 og 352/1999. Fram er komið af hálfu stefnanda að starfsmenn stefnda hafi látið yfir sig ganga að stefndi lét hina fyrri launahækkun ekki koma til framkvæmda hinn 1. nóvember 2009. Að þessu athuguðu og þar sem ekkert haldbært liggur fyrir af hálfu stefnanda um að stefndi hafi knúið starfsmenn sína til þess arna, verður að miða við að svo hafi um samist að lækkun yfirborgunar hafi gengið á móti launahækkuninni 1. nóvember 2009. Öðru máli þykir gegna varðandi þá almennu 2,5% launahækkun sem endanlega var umsamið að skyldi koma til framkvæmda hinn 1. júní 2010. Fyrir liggur og er óumdeilt að tveir starfsmenn stefnda, áðurnefndir Lúðvík Brynjólfsson og Ragnar Ingi Guðjónsson, samþykktu ekki að taka á sig launalækkun. Leituðu þeir til stéttarfélags síns sem hófst handa gagnvart stefnda, eins og fram er komið, sbr. fyrrgreindar bréfaskriftir. Þeim var þá sagt upp störfum í kjölfarið „til að lækka yfirborganir þeirra skv. gildandi ráðningarsamningi“, eins og segir í greinargerð stefnda. Ekkert liggur fyrir um að endurráðning hafi staðið þeim til boða og gegn mótmælum stefnanda verður að telja það ósannað. Um viðhorf og afstöðu annarra starfsmanna til launalækkunar 1. júní 2010 liggur ekkert fyrir í málinu, en miðað við það, sem upplýst er um atburðarás á þeim tíma, verður að telja að það beri undir stefnda að sýna fram á að þeir hafi samþykkt að launahækkuninni yrði mætt með lækkun yfirborgana. Gegn mótmælum stefnanda verður ekki talið að stefndi hafi sýnt fram á það. Fram er komið að ekkert skriflegt samkomulag var gert. Þá gátu starfsmennirnir ekki samið um að falla frá kröfu til launahækkunarinnar nema samþykki stéttarfélagsins kæmi til, sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938. Slíkt samþykki lá ekki fyrir. Af hálfu stefnda hefur því verið teflt fram að „svigrúm einstakra vinnuveitenda og launþega til að semja um laun og önnur starfskjör takmarkast við að þau séu jafnhagstæð eða betri en kveðið er á um í kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags.“ Þar sem stefndi telst ekki hafa sýnt fram á að samkomulag hafi tekist við starfsmenn um meðferð launahækkunar hinn 1. júní 2010 getur þetta atriði ekki skipt máli við úrlausn málsins. Á það ber ennfremur að líta að samkvæmt kjarasamningnum frá 17. febrúar 2008, sbr. síðari ákvarðanir, skyldu „laun“ hækka um 2,5%. Hér var því um almenna launahækkun að ræða sem verður að skilja svo, nema annað sé tekið fram, að átt sé við regluleg laun sem starfsmaður nýtur þegar viðkomandi hækkun samkvæmt kjarasamningi á að koma til framkvæmda. Verður að taka undir það með stefnanda að ef fallist yrði á skilning stefnda væri stórlega grafið undan grundvelli kjarasamninga almennt. Er þessari málsástæðu stefnda því hafnað og þykja tilvitnaðir dómar af hálfu stefnda enga þýðingu hafa í þessu sambandi.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að telja að með háttsemi sinni varðandi umsamda launahækkun hinn 1. júní 2010 hafi stefndi brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 80/1938 er atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum, í fyrsta lagi með uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn, í öðru lagi með fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum. Í athugasemdum með 4. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 80/1938, kemur fram að greinin sé sett „til að tryggja skoðanafrelsi verkamanna“, en að öðru leyti þarfnist greinin ekki skýringa við. Ekki verður séð að neitt það hafi borið til í sambandi við þau atvik, sem í málinu greinir, er bendi til að stefndi hafi gerst sekur um nokkuð það sem fellur undir verknaðarlýsingu greinds lagaákvæðis og þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á neitt slíkt. Þegar af þessari ástæðu ber að sýkna stefnda af þessari dómkröfu stefnanda.

Hvað varðar sektarkröfu stefnanda þá felst að mati dómsins í 70. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 65. gr. laganna, ekki nægilega skýr refsiheimild til að gera stefnda sekt í máli þessu. Verður stefndi því sýknaður af þessari kröfu stefnanda.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 400.000 kr. í málskostnað.

Uppkvaðning dóms þessa hefur dregist vegna embættisanna forseta dómsins.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Fonsi ehf., braut gegn 7. gr. laga nr. 80/1938 með því að greiða ekki kjarasamningsbundna launhækkun hinn 1. júní 2010. Að öðru leyti er stefndi sýkn af kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands f.h. Samiðnar – sambands iðnfélaga vegna Fagfélagsins, í máli þessu.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 kr. í málskostnað.

 

Arnfríður Einarsdóttir

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Valgeir Pálsson

Lára V. Júlíusdóttir
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira