Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 524/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 524/2023

Fimmtudaginn 1. febrúar 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 31. október 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. október 2023, um að synja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 9. október 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. október 2023, var umsókn kæranda synjað með vísan til þess að hún hefði ekki starfað í að minnsta kosti 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. október 2023. Með bréfi, dags. 2. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 4. desember 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. desember 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 20. desember 2023 sem kynntar voru Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærandi hafi ekki haft vitneskju um viðurlög frá Vinnumálastofnun þar sem hún kunni ekki nógu vel á tölvur. Kærandi hafi fengið áfall þegar hún hafi séð ákvarðanir Vinnumálastofnunar og eiginmaður hennar hafi útskýrt málið fyrir henni. Fyrrverandi eiginmaður kæranda hafi beitt hana ofbeldi í langan tíma og á þeim tíma sem ákvarðanir Vinnumálastofnunar hafi verið sendar hafi kærandi ekki haft aðgang að tölvupósti sínum né síma. Kærandi hafi á þeim tíma ekki haft neinn til að aðstoða sig og hafi ekki þekkt sinn rétt. Seinna hafi kærandi byrjað nýtt líf með aðstoð félagsþjónustunnar.

Kærandi tekur fram að það sé ekki rétt að hún hafi hafnað atvinnuviðtali á sínum tíma. Einnig sé ekki satt það sem fyrrverandi maður hennar hafi sagt við Vinnumálastofnun um að hún væri að hugsa um börnin.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar er ítrekað að það hafi ekki verið hún sjálf sem hafi gefið skýringar vegna höfnunar á atvinnuviðtali hjá B í maí 2016. Það hafi verið fyrrverandi eiginmaður kæranda en Vinnumálastofnun hafi hvorki hringt í hana né sent henni tölvupóst. Það sé því ekki rétt hjá Vinnumálastofnun að kærandi hafi sjálf gefið skýringar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi fyrst sótt um atvinnuleysisbætur 29. júlí 2013 og umsókn hennar hafi verið samþykkt 4. nóvember 2013 með 100% bótarétt. Kærandi hafi fengið greitt tímabilið 29. júlí 2013 til 5. september 2014. Kærandi hafi farið í fæðingarorlof X 2014 og hafi verið afskráð af bótum vegna þess.

Kærandi hafi aftur sótt um atvinnuleysisbætur að loknu fæðingarorlofi þann 12. mars 2015. Umsókn hennar hafi verið samþykkt þann 19. mars 2015 með 100% bótarétt. Kæranda hafi verið greitt tímabilið 12. mars 2015 til aprílloka 2016. Samtals hafi kærandi nýtt 27 mánuði af 30 mánaða tímabili.

Með erindi, dags. 11. [maí] 2016, hafi kærandi verið innt eftir skýringum vegna höfnunar á atvinnuviðtali hjá B í maí sama ár. Kærandi hafi veitt þær skýringar að þar sem hún hefði ekki pössun fyrir barn sitt gæti hún ekki tekið starfi fyrr en í ágúst 2015. Kæranda hafi verið synjað um frekari greiðslur atvinnuleysisbóta þann 30. maí 2015, sbr. 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Mál kæranda hafi verið endurupptekið 9. júní 2015 eftir að frekari skýringar hafi borist og Vinnumálastofnun hafi staðfest fyrri ákvörðun um synjun á grundvelli 57. gr. Kærandi hafi verið upplýst um að samkvæmt 5. mgr. 57. gr. missi atvinnuleitandi rétt sinn til bóta hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur lengur en 24 [mánuði] þegar viðurlagaákvörðun sé tekin.

Umsókn um atvinnuleysisbætur hafi borist frá kæranda 9. október 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi þeirri umsókn verið synjað 25. október 2023 þar sem kærandi hafi ekki starfað í að minnsta kosti 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hún hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt umsókn kæranda hafi starfstímabil hennar hjá C verið frá 11. apríl 2022 til 28. febrúar 2023 og svo frá 1. júní 2023 til 26. október 2023, eða í samtals 16 mánuði. Starf kæranda hjá C ásamt öðrum störfum kæranda á eldri tímabilum hafi ekki numið samanlagt 24 mánuðum.   

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um  atvinnuleysistryggingar þar sem hún hafi ekki áunnið sér rétt á nýju bótatímabili í kjölfar viðurlagaákvörðunar á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í 5. mgr. 57. gr. sé fjallað um sérstök viðurlög vegna höfnunar á starfi í þeim tilfellum sem atvinnuleitandi hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga lengur en 24 mánuði. Þar segi:

„Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Líkt og fyrr segi hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. árið 2015 þannig að hún ætti ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefði áunnið sér rétt til atvinnuleysistrygginga að nýju. Kærufrestur þeirrar ákvörðunar sé liðinn. Eftir standi þá hvort kærandi hafi verið búin að ávinna sér rétt til atvinnuleysisbóta að nýju þegar hún hafi sótt um hjá stofnuninni í október 2023.

Ákvæði 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fjalli um það hvenær nýtt tímabil hefjist áður en fyrra tímabili ljúki en þar segi:

„Nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.“

Í a. lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna skilgreiningu á launamanni. Þar segi að launamaður sé hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og tryggingagjald sé greitt vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald. Samkvæmt fyrirliggjandi vinnuveitandavottorði í máli kæranda hafi hún starfað hjá C frá því að hún hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysistryggingar, eða á tímabilinu 11. apríl 2022 til 28. febrúar 2023 og frá 1. júní 2023 til 26. október 2023 í 100% starfshlutfalli. Það séu samtals 16 mánuðir. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum hafi kærandi einnig starfað hjá öðrum atvinnurekendum í hlutastörfum áður en hún hafi hafið störf hjá C. Ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar um starfstíma kæranda hjá þeim atvinnurekendum. Þó sé ljóst að þeir mánuðir sem staðgreiðsluupplýsingar Skattsins gefi til kynna að kærandi hafi starfað á tímabilinu dugi ekki til ávinnslu bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með öðrum orðum ef gert sé ráð fyrir því að kærandi hafi starfað heilan mánuði í starfi hjá öðrum atvinnurekum alla þá mánuði sem staðgreiðsluskil sýni tekjur kæranda hafi hún starfað samtals í 20 mánuði frá því að hún hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysistryggingar. Skilyrði 31. gr. laga  um atvinnuleysistryggingar séu því ekki uppfyllt. Í ljósi alls framangreinds og fyrirliggjandi gagna í máli kæranda beri að hafna umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. október 2023, um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur með vísan til þess að hún hefði ekki starfað í að minnsta kosti 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Launamaður er hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald, sbr. a. liður 3. gr. laganna.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. maí 2016, voru greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda stöðvaðar á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 á þeirri forsendu að kærandi hefði ekki mætt í boðað atvinnuviðtal hjá B. Kærandi hefur gert athugasemd við þá ákvörðun Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Ljóst er að þriggja mánaða kærufrestur var löngu liðinn þegar kæra barst nefndinni. Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um hvað skuli gera ef kæra berst að liðnum kærufresti. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. skal kæru ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Þar sem kæra í máli þessu barst meira en sjö árum eftir að framangreind ákvörðun um stöðvun greiðslna var tilkynnt kæranda kemur sú ákvörðun ekki til skoðunar hjá nefndinni.

 

 

Í 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 segir að hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili samkvæmt 29. gr. þegar atvik sem lýst sé í 1. mgr. eigi sér stað skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. Í því ákvæði kemur fram að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi síðast greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun út aprílmánuð 2016. Samkvæmt fyrirliggjandi staðgreiðsluskrá Skattsins þáði kærandi laun frá nokkrum fyrirtækjum í samtals 20 mánuði á árunum 2021 til 2023. Þar á undan fékk kærandi greiðslur frá D, Fæðingarorlofssjóði og Tryggingastofnun ríkisins. Þar sem kærandi hafði ekki, þegar umsókn hennar barst Vinnumálastofnun þann 9. október 2023, starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur hafði hún ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. október 2023, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum