Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og barnamálaráðuneytisins

Synjun sveitarfélags á greiðslu matarkostnaðar grunnskólabarns meðan á samkomubanni varði

Mánudaginn 1. október 2023 var kveðinn upp í mennta- og barnamálaráðuneytinu svofelldur

 

ÚRSKURÐUR

í stjórnsýslumáli nr. MRN22090037

I.

Kæra, kröfur og kæruheimild

Mál þetta varðar kæru A og B, dags. 9. júní 2020, á ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að synja þeim „um greiðslu matarkostnaðar grunnskólabarns þeirra á meðan samkomubann varði“.

Kærendur gera þá kröfu að Hafnarfjarðarbær greiði matarkostnað grunnskólabarns þeirra, sem var nemandi í [einkarekna grunnskólanum] X á því tímabili sem samkomubann varði vegna útbreiðslu Covid-19 farsóttarinnar, með sama hætti og sveitarfélagið greiddi matarkostnað þeirra grunnskólabarna sem gengu í skóla sem reknir eru af sveitarfélaginu frá 16. mars til 4. maí 2020.

Kærendur beindu kæru sinni að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, nú innviðaráðuneyti, sem kvað upp úrskurð í málinu þann 28. júlí 2021, mál SRN20060036. Kærendur leituðu þá til umboðsmanns Alþingis sem lauk meðferð máls þeirra með áliti þann 8. júní 2022 í máli nr. 11314/2021. Þar komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að málið hefði með réttu átt að heyra undir mennta- og barnamálaráðuneyti. Í kjölfarið varð innviðaráðuneytið við beiðni kæranda um endurupptöku og afturköllun fyrri úrskurðar og sendi mennta- og barnamálaráðuneytinu málið til afgreiðslu þann 5. september [2022].

Af kærunni og málsmeðferð hennar má ráða að málskot til mennta- og barnamálaráðuneytisins sé byggt á kæruheimildum laga um grunnskóla, nr. 91/2008, nánar tiltekið 1. málsl. 1. mgr. 47. gr. og 23. gr. laganna. Með vísan til aðdraganda þess að málið barst mennta- og barnamálaráðuneyti og 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga kemur kærufrestur ekki í veg fyrir að kæran sé tekin til efnislegrar meðferðar.

II.

Málsatvik

Á þeim tíma sem atvik málsins áttu sér stað var barn kærenda með lögheimili í Hafnarfirði og stundaði nám í [grunnskólanum] X sem er sjálfstætt rekinn grunnskóli með þjónustusamning við Hafnarfjarðarbæ.

Samkomutakmarkanir vegna heimsfaraldurs COVID-19 leiddu til röskunar á skólastarfi í grunnskólum. Í því fólst meðal annars að nemendum var hópaskipt og skólastarf skert. Vegna heimsfaraldurs og þessarar röskunar á skólastarfi frá 16. mars til 4. maí 2020 ákvað Hafnarfjarðarbær að breyta fyrirkomulagi skólamálsverða í grunnskólum sem sveitarfélagið rekur. Samkvæmt gögnum málsins fólust þessar breytingar í meginatriðum í því að mötuneytum skólanna var lokað, tekin var upp „neyðarþjónusta á mat“ sem öllum nemendum skólanna stóð til boða án greiðslu en bannað var að taka með nesti í skólana.

Á þeim tíma sem þessar breytingar voru gerðar var Hafnarfjarðarbær með samning við [fyrirtækið] Y um framreiðslu skólamálsverða í öllum grunnskólum sem reknir eru af Hafnarfjarðarbæ nema einum. Breyting á fyrirkomulagi skólamálsverða í samkomubanni var tekin í samráði við fyrirtækið. Jafnframt var ákveðið að foreldrar, sem greitt höfðu fyrirfram fyrir skólamálsverði í mars 2020 gætu tekið út þá málsverði sem féllu niður vegna framangreindra ráðstafana síðar á skólaárinu án greiðslu.

Með tölvupósti 8. júní 2020 fóru kærendur fram á það við Hafnarfjarðarbæ að sama fyrirkomulag myndi gilda fyrir barn þeirra. Með tölvupósti, dags. 9. júní 2020, synjaði Hafnarfjarðarbær beiðni þeirra.

III.

Málsmeðferð

Eins og áður segir fékk mennta- og barnamálaráðuneyti kæru kærenda framsenda frá innviðaráðuneyti þann 5. september 2022 í kjölfar afturköllunar úrskurðar þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis í máli kærenda. Með bréfi innviðaráðuneytisins fylgdu öll gögn málsins, þ.e. kæra, dags. 9. júní 2020, ásamt fylgigögnum, umsögn Hafnarfjarðarbæjar, dags. 2. júlí 2020, ásamt fylgigögnum, og athugasemdir kærenda, dags. 29. júlí 2020.

Með vísan til kærunnar og yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda mennta- og barnamálaráðuneytisins, sbr. jafnframt 4. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, sendi mennta- og barnamálamálaráðuneyti Hafnarfjarðarbæ bréf, dags. 3. nóvember 2022, þar sem óskað var eftir upplýsingum og skýringum. Svar Hafnarfjarðarbæjar ásamt fylgigögnum barst ráðuneytinu þann 9. desember 2022. Á sama grundvelli sendi ráðuneytið Hafnarfjarðarbæ bréf, dags. 28. desember 2022, þar sem óskað var eftir frekari skýringum og gögnum. Svar Hafnarfjarðarbæjar, dags. 16. janúar 2023, barst þann dag ásamt fylgigögnum en jafnframt bárust frekari fylgigögn ráðuneytinu þann 23. janúar s.á. Samkvæmt beiðni ráðuneytisins bárust frekari upplýsingar frá Hafnarfjarðarbæ þann 11. ágúst 2023.

Kæranda var veittur aðgangur að svörum Hafnarfjarðarbæjar og fylgigögnum með tölvupóstum 3. nóvember 2022, 16. janúar 2023, 18. janúar 2023, 20. júlí 2023 og 14. ágúst 2023. Andmæli bárust frá kæranda þann 14. ágúst 2023.

IV.

Málsástæður

Kærendur byggja kæru sína, dags. 9. júní 2020, einkum á því að Hafnarfjörður hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, almennri óskráðri efnisreglu stjórnsýsluréttar um jafnræði og jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Foreldrar sem eigi börn í þeim grunnskólum sem Hafnarfjarðarbær rekur eigi í einkaréttarlegu samningssambandi við það fyrirtæki sem sér börnum í viðkomandi grunnskóla fyrir mat, t.d. fyrirtækið Y. Með sama hætti eigi foreldrar barna í einkareknum skólum, t.d. [grunnskólanum] X, í einkaréttarlegu samningssambandi við fyrirtækið sem sér börnum þeirra fyrir mat. Í báðum tilvikum sé samningssamband milli foreldra og einkaaðila vegna mataráskriftar grunnskólabarna. Hvort skólinn sjálfur sé rekinn af einkaaðila eða sveitarfélaginu hafi ekkert með þetta samningssamband að gera þar sem einkareknir skólar hafi lotið sömu reglum um skerðingu á starfsemi sinni vegna COVID-19 og skólar sem sveitarfélagið rekur. Að mati kæranda séu tilvikin því sambærileg í því samhengi sem skiptir máli. Í ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að greiða mat barna í skólum sem sveitarfélagið rekur en ekki mat barna í einkareknum skólum innan sveitarfélagsins á umræddu tímabili hafi falist að hinir síðarnefndu fengu óhagstæðari meðferð en þeir fyrrnefndu. Í þessu hafi falist bein mismunun sem ekki sé réttlætanleg með málefnalegum sjónarmiðum. Að mati kærenda hafi ákvörðunin brotið gegn jafnræðisreglu og sé því haldin efnisannmarka. Á þessum grundvelli telji kærendur ákvörðunina ógildanlega.

Í athugasemdum kærenda til þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 29. júlí 2020, er nánar fjallað um það sem þau telja vera skyldur Hafnarfjarðarbæjar á grundvelli jafnræðisreglna. Vísa kærendur þar meðal annars til þeirrar afstöðu sinnar að þegar kemur að beitingu jafnræðisreglna séu nemendur sem stunda nám í grunnskólum sem Hafnarfjarðarbær rekur svonefndur viðmiðunarhópur en nemendur í [einkarekna grunnskólanum] X í Hafnarfirði séu verndarhópur. Jafnræði og bann við mismunun feli í sér að ef viðmiðunarhópur njóti tiltekins réttar en verndarhópurinn ekki sé um að ræða ólögmæta mismunun, en kærendur vísa í því sambandi til dóms Hæstaréttar frá 6. maí 1999 í máli nr. 151/1999.

Kærendur leggja áherslu á að einkaréttarlegur samningur Hafnarfjarðar við rekstraraðila sjálfstæðs skóla leysi sveitarfélagið ekki undan skyldum til að gæta jafnræðis gagnvart börnum sem stunda nám við [grunnskólann] X. Vísa kærendur til þess að í 1. mgr. 23. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 og í þjónustusamningi Hafnarfjarðar við rekstraraðila X sé kveðið á um skyldu þess efnis að nemendur skuli eiga kost á málsverði á skólatíma. Hvorki í lögum um grunnskóla né í samningnum sé mælt fyrir um skyldu til að greiða fyrir slíkar máltíðir þannig að þær verði gjaldfrjálsar. Ákvarðanir um að greiða fyrir máltíðir skólabarna mæla því að mati kærenda fyrir um ívilnandi aðgerðir sem standi utan þeirra skyldna sem á sveitarfélaginu hvíla og utan þeirra skyldna sem hvíla á [grunnskólanum] X á grundvelli samningsins við Hafnarfjarðarbæ. Slíkar ákvarðanir kveikja að mati kærenda rétt þeirra sem eru í sambærilegri stöðu til sambærilegrar meðferðar, og vísa kærendur í því sambandi til áðurnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 151/1999.

Þá vísa kærendur til þess að Hafnarfjarðarbær hafi í fjölda tilvika með athöfnum sínum viðurkennt að ívilnandi ákvarðanir um réttindi umfram lagaskyldu til handa börnum í grunnskólum reknum af Hafnarfjarðarbæ leggi sambærilega skyldu á sveitarfélagið vegna barna í einkareknum grunnskólum innan sveitarfélagsins. Í dæmaskyni nefna kærendur að Hafnarfjarðarbær greiði að fullu niður matarkostnað grunnskólabarna umfram kostnað vegna tveggja barna í sömu fjölskyldu og að matarkostnaður vegna þriðja barns njóti fullrar niðurgreiðslu. Þessi regla nái í reynd að jöfnu til barna í [einkarekna grunnskólanum] X og barna í grunnskólum reknum af Hafnarfjarðarbæ.

Í athugasemdum Hafnarfjarðarbæjar til þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, dags. 2. júlí 2020, er fjallað um þær reglur laga um grunnskóla sem gilda um sjálfstætt rekna grunnskóla og skólamáltíðir. Jafnframt er vísað til þess að í 2. gr. þjónustusamnings milli sveitarfélagsins og [grunnskólans] X hafi skólinn heimild til gjaldtöku af foreldrum eða forsjáraðilum barns fyrir þjónustu umfram það sem bundið er í lögum svo sem lengda viðveru, innheimtu skólagjalda og fæðisgjöld. Bendir sveitarfélagið á að rekstrarform sjálfstætt starfandi skóla sé frjálst og í þessu tilviki hafi kærendur ákveðið að barn þeirra gangi í sjálfstætt starfandi grunnskóla í sveitarfélaginu, X. Sveitarfélagið greiði rekstrarstyrk til skólans í samræmi við samninginn en komi að öðru leyti ekki að rekstri skólans. Um sé að ræða sjálfstætt starfandi skóla með frjálsa heimild til þess að innheimta skólagjöld og annan kostnað vegna rekstrar síns, þar á meðal vegna matar, á grundvelli X. kafla laga um grunnskóla og 2. gr. þjónustusamningsins. Hafnar sveitarfélagið því að hafa brotið á jafnræðisreglum.

Í þessu sambandi dregur Hafnarfjarðarbær jafnframt fram í athugasemdum sínum þær sérstöku og fordæmalausu aðstæður sem voru uppi í samfélaginu vegna COVID-19 farsóttarinnar og samkomutakmarkana sem höfðu áhrif á skólastarf. Hafnarfjarðarbær eins og önnur sveitarfélög hafi brugðist við farsóttinni eftir tilmæli sóttvarnalæknis og skertu skólahald verulega. Viðbrögðin hafi verið útfærð með mismunandi hætti í skólum. Í grunnskólum Hafnarfjarðar hafi verið sameiginleg útfærsla á kennslu eftir aldri nemenda en mismikil hjá mismunandi aldri þeirra. Aftur á móti hafi ákvarðanir Hafnarfjarðarbæjar ekki náð til sjálfstætt starfandi grunnskóla þótt þeir hafi vitað af þeim aðgerðum sem bærinn stóð fyrir. Vegna skerts skólahalds hefði verið ljóst að ekki væri hægt að framreiða mat með eðlilegum hætti og ekki hægt að veita þeim sem komu með nesti aðstöðu til að neyta þess. Brá Hafnarfjarðarbær því á það ráð að veita öllum nemendum skólanna sem sveitarfélagið rak, hvort sem þeir voru í mataráskrift eða ekki, einhverja máltíð meðan á skólahaldi stóð í samræmi við skóladag þeirra, þ.e. sumir fengu morgunhressingu en aðrir hádegisverð og loks færri einnig síðdegishressingu. Áhersla var á að börn kæmu ekki með mat að heiman til að smithætta væri lágmörkuð. Hafnarfjarðarbær tók þá ákvörðun að greiða þennan fæðiskostnað í skólum á vegum sveitarfélagsins enda um mjög óvenjulegar aðstæður að ræða. Sveitarfélagið bendir á að ekki hafi öll börn stundað skóla meðan á samkomubanni stóð og að mati sveitarfélagsins því nánast ómögulegt að halda utan um matarmálin í þessum aðstæðum, til dæmis með sérstakri skráningu á mataráskrift. Þar sem óljóst væri með heimilishagi barna við þessar óvenjulegu aðstæður var þetta ákveðið frekar en að veita engan mat og nesti að heiman gat skapað ákveðna smithættu sem sveitarfélagið vildi fyrir allan mun forðast. Sveitarfélagið hafi því tekið ákvörðun um að rjúfa mataráskriftarsamband milli foreldra og [fyrirtækisins] Y frá 16. mars til 4. maí 2020 og taka eigin ákvarðanir um framkvæmd matarþjónustu við nemendur á þessum tíma. Hefðbundið matarfyrirkomulag sem gilti fyrir samkomubann hafi aftur tekið gildi þann 4. maí 2020. Þá er í athugasemdum Hafnarfjarðarbæjar, dags. 9. nóvember 2022, fjallað um að stjórnendum [grunnskólans] X hafi verið treyst til þess að skipuleggja skólamáltíðir fyrir tímabilið 16. mars til 4. maí 2020 þannig að þær féllu að almennum takmörkunum sem þá voru í gildi og Hafnarfjarðarbær hafi ekki skipt sér af daglegum rekstri skólans.

Fjallað er um þessi sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar í athugasemdum kærenda, dags. 29. júlí 2020. Þar halda kærendur því fram að COVID-19 hafi haft nákvæmlega sömu áhrif á starfsemi grunnskóla X og grunnskóla rekna af Hafnarfjarðarbæ þar sem báðir aðilar hefðu þurft að uppfylla sömu almennu skyldur og þurftu að lúta sömu reglum vegna þeirra fordæmalausu aðstæðna sem uppi voru á tímabilinu. Um sé því að ræða sambærileg tilvik. Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að greiða mat skólabarna í grunnskólum reknum af Hafnarfirði, vegna farsóttar sem hafði nákvæmlega sömu áhrif á starfsemi grunnskóla X og grunnskóla reknum af Hafnarfjarðarbæ, kveikti því að mati kærenda skyldu sveitarfélagsins til að ívilna grunnskólabörnum í X með sambærilegum hætti.

V.

Rökstuðningur niðurstöðu

Í X. kafla laga um grunnskóla er fjallað um sjálfstætt rekna grunnskóla. Í 43. gr. laganna segir nánar tiltekið að sjálfstætt reknir grunnskólar starfi samkvæmt lögunum en séu reknir af einkaaðila almennt á grundvelli þjónustusamnings við viðkomandi sveitarfélag.

Ákvæði X. kafla laga um grunnskóla komu inn í lögin með breytingalögum nr. 76/2016. Þar er gerður greinarmunur á sjálfstætt reknum grunnskólum sem háðir eru frjálsu vali foreldra, fyrir hönd barna sinna, og sjálfstætt reknum grunnskólum sem ekki eru valfrjálsir. Í III. kafla almennra athugasemda í greinargerð með lögum nr. 76/2016 er þessum greinarmun lýst með þeim hætti að sjálfstætt reknir grunnskólar séu að öllu jöfnu hluti af grunnskólakerfi sveitarfélagsins, starfi á grundvelli samninga við þau, fái fjárframlög frá sveitarfélögunum eftir tiltekinni reiknireglu, lúti eftirliti sveitarfélaganna líkt og skólar á vegum sveitarfélaganna sjálfra en geti til viðbótar tekið skólagjöld af nemendum sínum. Aftur á móti séu gerðar sérstakar kröfur til skóla þegar það felst í samningi þeirra eða leiðir af honum að börn eiga ekki val um það hvort þau sækja nám í sjálfstætt reknum grunnskóla. Þessum sérstöku reglum um grunnskóla, sem ekki eru háðir vali foreldra fyrir hönd barna sinna, sé ætlað að tryggja að réttaröryggi og þjónusta við nemendur verði alveg sambærileg við það sem við á í skólum sveitarfélaganna sjálfra, þar á meðal m.t.t. gjaldtöku. Fyrir liggur að innritun í [grunnskólann] X, þar sem barn kærenda stundaði nám þegar atvik máls þessa áttu sér stað, var háður frjálsu vali þeirra.

Í 43. gr. d. er fjallað um almennar kröfur til skólahalds í sjálfstætt reknum grunnskólum. Samkvæmt 1. tölul. ákvæðisins skal starfsemi slíks grunnskóla vera í fullu samræmi við ákvæði laga um grunnskóla nema undantekning sé gerð með lögum eða á grundvelli heimildar í lögum. Aftur á móti segir í 6. tölul. 43. gr. d. að gjald megi taka fyrir skólavist í sjálfstætt reknum grunnskólum óháð öðrum fyrirmælum laganna. Í ákvæðinu og athugasemdum með því er ekki fjallað sérstaklega um hvaða þættir starfsemi skólans geta verið háðir gjaldtöku. Í þessu sambandi er rétt að fram komi að samkvæmt 8. tölul. 4. mgr. 43. gr. a. skal fjalla um gjaldtöku af nemendum í þjónustusamningi sveitarfélags við sjálfstætt rekna skóla en þar kemur jafnframt fram að sveitarfélag getur sett skilyrði um hámark gjaldtöku með hliðsjón af fjárframlögum til skólans.

Fjallað er um skólamálsverði í 23. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008. Þar segir í 1. málsl. 1. mgr. að nemendur í grunnskóla skuli eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið. Þá segir í 2. málsl. að sveitarfélögum sé heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja.

Af 1. tölul. 43. gr. d. laga um grunnskóla leiðir að nemendur í sjálfstætt reknum grunnskólum eiga rétt á því að fá málsverði á skólatíma, sbr. jafnframt 1. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna. Um gjaldtöku fyrir málsverði á skólatíma í grunnskólum gildir hin sérstaka regla 6. tölul. 43. gr. d. laga um grunnskóla um gjaldtöku í sjálfstætt reknum grunnskólum, sbr. jafnframt 8. tölul. 4. mgr. 43. gr. a. laganna. Í samræmi við framangreint er fjallað um gjaldtöku af foreldrum vegna skólamálsverða í 2. gr. þjónustusamnings Hafnarfjarðarbæjar við rekstrarfélag það sem rekur [grunnskólann] X, dags. 22. október 2013, þar sem segir nánar tiltekið að skólinn „hafi heimild til gjaldtöku af foreldrum eða forsjáraðilum barns fyrir þjónustu umfram það sem bundið er í lögum svo sem lengda viðveru og fæðisgjöld.“ Þar segir jafnframt að gjaldskrá skuli vera sýnileg á heimasíðu skólans. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en X hafi uppfyllt framangreindar skyldur gagnvart kærendum með því að reiða fram skólamálsverði í skólanum og innheimta gjald í samræmi við gjaldskrá sem skólinn setti og var sýnileg á heimasíðu skólans.

Eins og að framan greinir lýtur mál þetta að ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að synja kærendum um greiðslu vegna tiltekins kostnaðar sem féll til vegna skólamálsverða barns í [einkarekna grunnskólanum] X, eins og nánar hefur verið rakið hér að framan. Byggja kærendur einkum á því að í ákvörðuninni hafi falist brot á jafnræðisreglum og vísa til þess að Hafnarfjarðarbær hafi greitt þennan tiltekna kostnað vegna barna í skólum sem sveitarfélagið rekur.

Í 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að við úrlausn mála skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að stjórnsýslulögum kemur fram að í ákvæðinu felist að mál sem eru sambærileg í lagalegu tilliti skuli hljóta sams konar úrlausn. Í þessu sambandi verði þó að hafa í huga að það sé ekki um mismunun að ræða í lagalegu tilliti jafnvel þótt mismunur sé á úrlausn mála, byggist sá mismunur á frambærilegum og lögmætum sjónarmiðum. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3294.) Við mat á því hvort jafnræðisreglan hafi verið brotin er það því grundvallaratriði að taka afstöðu til þess hvort tilvik tveggja einstaklinga séu sambærileg „í lagalegu tilliti“.

Eins og að framan greinir fjallaði löggjafinn við setningu laga nr. 76/2016 um þann mun sem er á grunnskólum sem reknir eru af sveitarfélögum og sjálfstætt reknum grunnskólum. Þótt sömu grundvallarreglur gildi um kennslu, stuðning og þjónustu við nemendur í öllum grunnskólum hafa sjálfstætt reknir grunnskólar svigrúm til útfærslu á ákveðnum þáttum skólastarfsins innan marka laga og þjónustusamninga við sveitarfélög. Um gjaldheimtu í sjálfstætt reknum grunnskólum, sem foreldrar hafa frjálst val um að börn þeirra sæki, gilda jafnframt í grundvallaratriðum aðrar lagareglur en gjaldheimtu í skólum sem reknir eru af sveitarfélögum, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga um grunnskóla. Á þetta við um gjaldheimtu vegna skólamálsverða eins og áður hefur verið rakið. Samkvæmt framansögðu verður litið svo á að gjaldheimta vegna skólamálsverða í skólum sem Hafnarfjarðarbær rekur sé ekki sambærileg í lagalegu tilliti og gjaldheimta vegna skólamálsverða í sjálfstætt reknum skólum sem sveitarfélagið er með þjónustusamning við. Vegna athugasemda kærenda er rétt að fram komi að sérstakar lagareglur gilda um þjónustusamninga sveitarfélaga við sjálfstætt rekna grunnskóla, sbr. 43. gr. a. laga um grunnskóla, og verður slíkum samningum ekki jafnað að lögum til almennra samninga sveitarfélaga um þjónustustarfsemi og einstök rekstrarverkefni, sbr. 100. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, t.d. um framreiðslu skólamálsverða. Í þessu sambandi er jafnframt rétt að fram komi að sú mismunandi staða sem leiðir af framangreindum lagareglum er að mati mennta- og barnamálaráðuneytisins byggð á málefnalegum sjónarmiðum sem tengjast frjálsu vali foreldra til að sækja sjálfstætt rekna grunnskóla og felur ekki í sér mismunun á grundvelli 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944. Þá fær mennta- og barnamálaráðuneytið ekki séð að reglur Hafnarfjarðarbæjar um afslátt fyrir skólamáltíðir feli í sér viðurkenningu á því að sveitarfélagið beri skyldur gagnvart nemendum í [grunnskólanum] X umfram það sem leiðir af lögum og samningum.

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að fella niður kostnað við skólamálsverði í skólum sem sveitarfélagið rak á tilteknu tímabili var tekin þegar skerða þurfti skólastarf vegna samkomubanns heimsfaraldurs COVID-19. Þótt samkomubannið hafi kallað á skerðingu skólastarfs hjá X var skólinn hvorki bundinn af þeirri útfærslu sem Hafnarfjarðarbær valdi til að skerða skólastarf í grunnskólum vegna samkomubanns né útfærslu skólamálsverða grunnskólanemenda á tímum skerts skólastarfs, þ.m.t. fyrirkomulagi skólamálsverða og þeirrar ráðstöfunar Hafnarfjarðarbæjar að grunnskólabörn kæmu ekki með nesti að heiman. Með vísan til lagagrundvallar málsins er það niðurstaða mennta- og barnamálaráðuneytisins að Hafnarfjarðarbæ hafi verið heimilt að ákveða að skólamáltíðir nemenda í grunnskólum sem sveitarfélagið rak á þessum tilgreinda tíma yrðu gjaldfrjálsar og að það hafi ekki falið í sér ólögmæta mismunun, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, óskráða jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og 65. gr. stjórnarskrárinnar, að gera ekki samhliða ráðstafanir til þess að skólamáltíðir [nemenda] í sjálfstætt reknum grunnskólum með lögheimili í sveitarfélaginu yrðu nemendum að kostnaðarlausu. Hafnarfjarðarbæ hafi því ekki verið skylt að verða við beiðni kærenda um að greiða kostnað við skólamálsverði grunnskólabarns þeirra frá 16. mars til 4. maí 2020.

Rétt er að fram komi að svör Hafnarfjarðarbæjar í tilefni máls kærenda varð mennta- og barnamálaráðuneyti tilefni að senda sveitarfélaginu hjálagt álit á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna, sbr. 4. gr. laga um grunnskóla. Rétt er að árétta að álitið varðar gjaldtöku fyrir skólamálsverði í grunnskólum sem Hafnarfjarðarbær rekur og hefur ekki áhrif á niðurstöðu í máli kærenda.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að synja kærendum um greiðslu kostnaðar við skólamálsverði barns kærenda frá 16. mars til 4. maí 2020 er staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum