Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 10/2019. Úrskurður kærunefndar útboðsmála

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 27. ágúst 2019
í máli nr. 10/2019:
Geveko Markings Sweden AB
gegn
Ríkiskaupum,
Vegagerðinni og
Kelly Bros (Erinline) Ltd.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 25. apríl 2019 kærði Geveko Markings Sweden AB útboð Vegagerðarinnar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 20916 auðkennt „Thermoplastic road marking materials for IRCA.“ Kærandi krefst þess að sú ákvörðun varnaraðila að velja tilboð Kelly Bros (Erinline) Ltd. í hinu kærða útboði verði felld úr gildi og að varnaraðila verði gert að velja tilboð kæranda.

Varnaraðila og Kelly Bros (Erinline) Ltd. var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerð 2. maí 2019 krafðist varnaraðili að kröfum kæranda yrði hafnað auk málskostnaðar. Kelly Bros (Erinline) Ltd. skilaði sjónarmiðum af sinni hálfu 7. maí 2019, sem skilja verður sem svo að fyrirtækið krefjist þess að kröfum kæranda verði hafnað. Kærandi skilaði andsvörum 19. júní 2019.

Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 10. maí 2019 var aflétt þeirri sjálfkrafa stöðvun hins kærða útboðs sem hafði komist á með kæru.

I

Í mars 2019 óskaði varnaraðili eftir tilboðum í efni sem notuð eru til vegmerkinga. Í útboðsgögnum kom fram að velja skyldi það tilboð sem var lægst að fjárhæð. Þrjú tilboð bárust í útboðinu, og var tilboð Kelly Bros (Erinline) Ltd. lægst að fjárhæð. Tilboð kæranda var næst lægst og munaði aðeins um 1% á tilboðum þessara bjóðenda. Með tilkynningu 17. apríl 2019 var bjóðendum tilkynnt að ákveðið hefði verið að ganga til samninga við lægstbjóðanda.

II

Kærandi byggir á því að hann hafi áður verið birgir varnaraðila. Hann sé með vel þekkta og góða vöru sem henti vel fyrir vélar varnaraðila. Það dragi úr mögulegum vandræðum varnaraðila að þurfa ekki að taka upp nýjar vörur í tækjabúnað sinn. Þá hafi vörur lægstbjóðanda aldrei verið prófaðar á Íslandi og í vélum varnaraðila. Það sé þekkt að efni frá Bretlandi séu öðruvísi en efni frá Skandinavíu og geti valdið skemmdum á vélum. Efnið sem lægstbjóðandi bjóði henti ekki fyrir vélar varnaraðila. Þá hafi lægstbjóðandi ekki, svo kærandi viti, eigin forskornar merkingar sem bræddar eru niður með gasloga, sem veki upp spurningar um gæði. Það efni sem kærandi bjóði hafi verið selt á Íslandi í meira en 15 ár. Þá leiki vafi á því að efni lægstbjóðanda hafi sömu gæðaeiginleika og efni kæranda. Loks hafi efni kæranda reynst hafa góða endingu á Norðurlöndunum. Efnið hafi sérstaka fjölliðu sem komi í veg fyrir botnfallsmyndun í kötlum véla varnaraðila.

III

Varnaraðili kveðst hafa verið í viðskiptum við kæranda og hann hafi ekkert út á vöru kæranda að setja. Hins vegar hafi varnaraðila verið skylt að velja tilboð í samræmi við valforsendur útboðsgagna og sem uppfylli allar kröfur. Tilboð Kelly Bros (Erinline) Ltd. hafi verið lægst að fjárhæð og uppfyllt allar kröfur útboðsgagna. Hafi varnaraðila því verið skylt að ganga til samninga við lægstbjóðanda. Í kæru sé ekki bent á nein lögbrot sem hafi átt sér stað í hinu kærða útboði og kæruefnið snúi ekki að tilteknum kröfum í útboðsgögnum.
Í greinargerð Kelly Bros (Erinline) Ltd. er meðal annars byggt á því að fyrirtækið hafi fullnægt öllum kröfum útboðsgagna og átt hagkvæmasta tilboðið. Sé því enginn grundvöllur til að fella úr gildi þá ákvörðun varnaraðila að ganga til samninga við fyrirtækið.

IV

Ekki verður séð að þau umkvörtunarefni sem kærandi tilgreinir í kæru varði brot varnaraðila á útboðsskilmálum hins kærða útboðs eða lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup. Þá hefur kærandi engin rök færð að því að varnaraðili hafi brotið gegn útboðsskilmálum eða lögum að öðru leyti við val á tilboði í útboðinu. Verður öllum kröfum kæranda því hafnað. Ekki þykja alveg næg efni til að gera kæranda að greiða málskostnað sem renni í ríkissjóð, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga um opinber innkaup.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Geveko Markings Sweden AB, vegna útboðs varnaraðila, Vegagerðarinnar, nr. 20916 auðkennt „Thermoplastic road marking materials for IRCA“ er hafnað.


Reykjavík, 27. ágúst 2019

Ásgerður Ragnarsdóttir

Eiríkur Jónsson

Auður Finnbogadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira