Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 143/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 16. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 143/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22120069

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði nr. 87/2021, í máli nr. KNU21010003, kveðnum upp 25. febrúar 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. desember 2020, um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Pakistan, um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

    Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 1. mars 2021. Beiðni um frestun réttaráhrifa barst kærunefnd 8. mars 2021 og var henni hafnað með úrskurði nr. 144/2021, uppkveðnum 24. mars 2021.

    Hinn 21. desember 2022 lagði kærandi fram beiðni um endurupptöku málsins ásamt fylgigögnum. Hinn 1. janúar 2023 bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda.

    Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Kröfur kæranda

    Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

    Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

    Til þrautavara krefst kærandi þess að mál hans verði endurupptekið og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

    Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að mál hans verði endurupptekið og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

    Til þrautaþrautaþrautavara krefst kærandi þess að mál hans verði endurupptekið og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

    Til þrautaþrautaþrautaþrautavara krefst kærandi þess að mál hans verði endurupptekið og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga.

    Að lokum krefst kærandi þess að mál hans verði endurupptekið og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

  3. Málsástæður og rök kærenda

    Í beiðni kæranda um endurupptöku er ákvæði 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga rakið og vísað til skilgreiningar á hugtakinu stjórnvaldsákvörðun.

    Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að þar sem honum hafi verið tjáð af fulltrúa Útlendingastofnunar sem starfi í umboði hennar að hann hefði hlotið alþjóðlega vernd hér á landi þá uppfylli það öll skilyrði fyrir því að vera stjórnvaldsákvörðun sem sé bindandi fyrir stjórnvöld. Kærandi telur að ekki verði hjá því litið að fulltrúi Útlendingastofnunar hafi tjáð kæranda með sannanlegum hætti að hann hefði hlotið alþjóðlega vernd hér á landi. Í þessu sambandi telur kærandi að hafa þurfi í huga að hann glími við sálrænan kvilla og óumdeilt sé að hann hafi átt í umfangsmiklum og flóknum samskiptum við stjórnvöld.

    Kærandi byggir varakröfu sína um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á sömu röksemdum og aðalkrafa hans er byggð á. Kærandi byggir á því að vafi um hvers kyns dvalarleyfi honum hafi verið veitt skuli túlkaður honum í hag.

    Þrautavarakrafa kæranda er byggð á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi byggir kröfu sína um endurupptöku í fyrsta lagi á því að atvik í máli hans hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Kærandi vísar í framlagt vottorð, dags. 16. nóvember 2022, þar sem vottað sé að eiginkona hans sé þunguð og gengin um sjö vikur. Kærandi vísar til þess að í úrskurði kærunefndar nr. 87/2021 í máli hans hafi nefndin tekið fram að „af fyrirliggjandi gögnum væri ljóst að kærandi og fjölskylda hans hefðu lítil tengsl hér á landi og hefðu ekki stofnað til fjölskyldulífs í lögmætri dvöl hér á landi. Með hliðsjón af framangreindu yrði ekki fallist á að kærandi hefði myndað fjölskyldulíf sem njóti verndar 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hér á landi, sbr. jafnframt 71. gr. stjórnarskrárinnar“. Hvað framangreint varði tekur kærandi fram að eiginkona hans dvelji hér á landi löglega og sé nú barnshafandi. Með vísan til pater est reglunnar verði kærandi talinn faðir barnsins. Eiginkona kæranda hafi stofnað til fjölskyldulífs hér á landi og því séu aðstæður breyttar. Þá vísar kærandi til 47. gr. laga um útlendinga er kveði á um gildi erlendra ákvarðana um stöðu flóttamanns. Samkvæmt ákvæðinu skuli fyrri ákvörðun um stöðu útlendings sem flóttamanns eða ríkisfangslauss einstaklings ekki vefengd nema sú ákvörðun sé röng eða aðrar ástæður liggi til þess. Kærandi byggir á því að eiga undir framangreint ákvæði og að staða hans sem flóttamanns verði ekki vefengd nema með afdráttarlausri sönnun. Þá byggir kærandi jafnframt á því að fulltrúi Útlendingastofnunar hafi vakið réttmætar væntingar hjá kæranda um að fá vernd hér á landi enda hafi honum verið tjáð að hann hefði hlotið alþjóðlega vernd hér á landi.

    Kærandi byggir aðrar varakröfur á sömu rökum og búa að baki þrautavarakröfu hans. Kærandi byggir jafnframt kröfu um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga á því að samkvæmt heimildum sé öryggisástand í Pakistan ótryggt og ljóst sé að viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í ríkinu og veiti yfirvöld þegnum sínum ekki nægilega vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum. Kærandi telur að hann geti ekki treyst á vernd yfirvalda í heimaríki vegna þeirra hættu sem honum stafi af […] samtökunum og vegna stöðu sinnar sem einstaklingur af Pashtun þjóðarbrotinu. Þá hafi náttúruhamfarir í Pakistan valdið miklum hörmungum. Þá tekur kærandi fram að hann sé faðir ungra barna sem séu með dvalarleyfi hér á landi og eigi von á öðru barni með eiginkonu sinni sem sé kominn um þrjá mánuði á leið. Kærandi óskar eftir því að fá að aðstoða við uppeldi barna sinna hér á landi og sjá um framfærslu þeirra.

    Að lokum byggir kærandi á því að þar sem hann hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi 8. júlí 2020 þá eigi mál hans undir 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og séu skilyrði ákvæðisins uppfyllt þar sem skýrsla hafi verið tekin af honum, ekki leiki vafi á því hver hann sé, ekki liggi fyrir ástæður sem leitt geti til brottvísunar hans og þá hafi hann veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins.

    Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til úrskurða kærunefndar nr. 15/2016, 158/2015, 196/2016, 177/2016, 151/2016, 36/2015 og 166/2016.

    Hinn 22. desember lagði kærandi fram umfangsmikið magn af gögnum til stuðnings beiðni um sinni um endurupptöku máls hans. Af fylgigögnum má ráða að kærandi byggi á frekari málsástæðum en byggt var á í greinargerð sem talsmaður lagði fram fyrir hans hönd til kærunefndar.

    Í fyrsta lagi byggir kærandi á því að aðstæður á heimasvæði hans í Pakistan sé óöruggar og því til stuðnings vísar kærandi í úrskurð kærunefndar nr. 16/2020 og skýrslu PAK Institute for Peace Studies frá 2022. Í öðru lagi byggir kærandi á því að honum skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar. Kærandi eigi eiginkonu og börn hér á landi sem hafa fengið dvalarleyfi. Framangreindu til stuðnings vísar kærandi í úrskurð kærunefndar nr. 110/2020. Í þriðja lagi byggir kærandi á því að þar sem hann hafi lagt fram gögn sem staðfesti auðkenni hans beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þar sem hann hafi verið meira en 18 mánuði í málsmeðferð. Kærandi vísar til fjölmargra úrskurða til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku. Þar á meðal vísar kærandi til úrskurða nefndarinnar nr. 30/2020, 110/2020, 160/2020, 274/2020 og 282/2020 þar sem aðilar þeirra mála hafi lagt fram pakistönsk auðkennisskírteini og vegabréf til sönnunar á auðkenni sínu sem nefndin hafi tekið gild og lagt til grundvallar við úrlausn málanna. Kærandi leggur einnig fram afrit af viðtali ítalskra stjórnvalda við hann sem hafi verið tekið 15. september 2011. Þar komi fram númer á NADRA skírteini og nafn á eiginkonu hans. Að mati kæranda staðfesti þær upplýsingar auðkenni hans. Í fjórða lagi gerir kærandi athugasemd við mat kærunefndar í úrskurði nefndarinnar nr. 87/2021 í máli hans þess efnis að hann og eiginkona hans eigi í takmörkuðu sambandi. Til stuðnings um samband sitt og eiginkonu sinnar leggur kærandi fram fæðingarvottorð yngra barns hans sem útgefið er af Þjóðskrá og vottorð útgefið af Landspítalanum. Auk þess leggur kærandi fram afrit af skilríkjum hans, eiginkonu hans og eldra barns. Kærandi vísar til þess að af skírteinum og öðrum framlögðum gögnum, svo sem útprentun úr Þjóðskrá, megi sjá að hann og eiginkona hans hafi búið saman frá 7. nóvember 2018 þar til hann hafi þurft að yfirgefa landið 28. desember 2019. Þá vísar kærandi í 23. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 sem kveður á um réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Auk þess leggur kærandi fram afrit af pakistönsku giftingarvottorði hans og eiginkonu hans og pakistönsku fæðingarvottorði hans. Þá leggur kærandi fram afrit af pakistönsku vegabréfi hans, útgefnu 2. desember 2009, sem hann kveður ítölsk stjórnvöld hafi lagt til grundvallar við mat á auðkenni hans. Þá vísar kærandi til 68. og 78. gr. laga um útlendinga sem kveða á um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar og dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Jafnframt vísar kærandi í ákvæði barnaverndarlaga nr. 80/2002, barnalaga nr. 76/2003 og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveða meðal annars á um réttindi barnsins til að njóta umönnunar frá báðum foreldrum sínum. Þá telur kærandi að framlögð gögn um samþykki ítalskra stjórnvalda á beiðni um sameiningu við fjölskyldu hans sýni fram á tengsl hans við eiginkonu hans og börn. Þá byggir kærandi á því í fimmta lagi að 47. gr. laga um útlendinga eigi við í hans máli. Kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd og dvalarleyfi á Ítalíu og skuli ákvörðun ítalskra stjórnvalda ekki vefengd. Þá vísar kærandi í skýrslu Evrópuráðsins frá 2020 sem fjallar um fjölskyldusameiningar fyrir börn sem séu flóttamenn og innflytjendur. Kærandi vísar til þess að í skýrslunni komi fram að engin skilyrði séu gerð fyrir fjölskyldusameiningu. Kærandi gerir athugasemd við að Útlendingastofnun hafi farið fram á að til að uppfylla skilyrði um fjölskyldusameiningu þá þyrfti hann að leggja fram vinnusamning eða gögn um að hann gæti framfært sér. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi ekki litið til réttmætra ástæðna hans fyrir afturköllun hans á umsókn um alþjóðlega vernd 19. desember 2019. Kærandi hafi þurft að afturkalla umsókn sína um alþjóðlega vernd vegna þess að dóttir hans hafi verið flutt af landinu til Svíþjóðar. Vegna aðstæðna dóttur hans hafi kærandi þurft að afturkalla umsóknina. Þá byggir kærandi á því að í skýrslu EASO um mat á aldri geti frásagnir umsækjenda og gögn sýnt fram á aldur þeirra án þess að framkvæma þurfi frekara mat. Auk þess leggur kærandi fram afrit af fréttatilkynningum ýmissa netfjölmiðla varðandi aðstæður í Pakistan.

  4. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. laganna.

Með úrskurði nr. 87/2021, dags. 25. 2021, staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar um að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og ætti því ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga og að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd taldi, með vísan til umfjöllunar hennar í úrskurði um aðstæður í heimaríki kæranda, að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði ekki í vegi fyrir endursendingu hans þangað.

Í greinargerð kæranda er krafa um endurupptöku máls hans í fyrsta lagi byggð á því að atvik hjá honum hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin í máli hans þar sem eiginkona hans sé barnshafandi. Með vísan til pater est reglunnar verði kærandi talinn faðir barnsins.

Líkt og fram kemur í framangreindum úrskurði kærunefndar var það mat nefndarinnar þrátt fyrir að kærandi ætti eiginkonu og barn hér á landi sem væru handhafar tímabundins dvalarleyfis hér á landi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þá hefði kærandi ekki dvalið hér á landi á grundvelli gilds dvalarleyfis. Var það mat kærunefndar að af gögnum málsins væri ljóst að kærandi og fjölskylda hans hefðu lítil tengsl hér á landi og hefðu ekki stofnað til fjölskyldulífs í lögmætri dvöl hér landi. Þá tók kærunefnd fram að nefndin hefði litið til þess að engar formlegar hindranir væru á því að kærandi og fjölskylda hans gætu sameinast annars staðar en hér á landi, til að mynda á Ítalíu þar sem þau hefðu öll ótímabundinn rétt til dvalar eða í heimaríki. Þá var kæranda leiðbeint um að sækja um sækja um dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga hjá Útlendingastofnun. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að eiginkona kæranda hafi nú eignast annað barn þeirra hjóna og sé barnshafandi á ný þá hafi aðstæður í máli hans ekki breyst í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga um útlendinga. Þá tekur kærunefnd fram að þar sem að kærandi dró sjálfur til baka umsókn sína um fjölskyldusameiningu sem hann lagði fram hjá Útlendingastofnun 8. júlí 2020 liggur ekki fyrir kæranleg stjórnvaldsákvörðun, þar af leiðandi getur nefndin ekki endurskoðað málsmeðferð Útlendingastofnunar hvað þá umsókn varðar.

Þá byggir kærandi jafnframt á því að fulltrúi Útlendingastofnunar hafi vakið réttmætar væntingar hjá kæranda um að honum hafi verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi enda hafi honum verið tjáð að hann hefði hlotið slíka vernd. Kærandi hefur lagt fram upptöku af samtali hans við starfsmann Útlendingastofnunar sem hann telur styðja framangreint. Kærandi kveður samtalið hafa átt sér stað 7. júní 2022 og að starfsmaður Útlendingastofnunar hafi tjáð honum að hann væri með vernd. Eins og fram hefur komið staðfesti kærunefnd með úrskurði 25. febrúar 2021 ákvörðun Útlendingastofnunar að synja kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í gögnum málsins liggur fyrir birtingarvottorð, dags. 1. mars 2021, sem kærandi og þáverandi talsmaður hans undirrituðu. Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að kærandi hafi lagt fram nýja umsókn um alþjóðlega vernd til Útlendingastofnunar. Kæranda mátti því vera fullljóst að hann hefði þá þegar fengið endanlega niðurstöðu hvað varðaði umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi og hafði því ekki réttmætar væntingar til þess að þeirri niðurstöðu yrði breytt án þess að kærandi óskaði sérstaklega eftir því s.s. með beiðni um endurupptöku eða með því að leggja inn nýja umsókn um alþjóðlega vernd. Kærunefnd hefur hlustað á framangreint viðtal og að mati nefndarinnar verður ekki ráðið að starfsmaður Útlendingastofnunar og kærandi skilji hvorn annan fullkomlega. Allt að einu þá er það ljóst að samkvæmt lögum um útlendinga þá getur útlendingur ekki átt réttmætar væntingar á því að verða veitt alþjóðleg vernd með því einu að starfsmaður Útlendingastofnunar tjái honum það munnlega, hvort sem það sé á misskilningi byggt eða í góðri trú starfsmannsins.

Kærandi byggir jafnframt á því að eiga réttindi samkvæmt 47. gr. laga um útlendinga og að staða hans sem flóttamanns verði ekki vefengd nema með afdráttarlausri sönnun.

Samkvæmt 47. gr. laga um útlendinga skal útlendingur, sem veitt hefur verið alþjóðleg vernd eða ferðaskírteini fyrir flóttamenn í öðru ríki en Íslandi, talinn flóttamaður með fasta búsetu í því ríki. Þá skal fyrri ákvörðun um stöðu hans sem flóttamanns eða ríkisfangslauss einstaklings ekki vefengd nema sú ákvörðun sé röng eða aðrar ástæður liggi til þess. Í athugasemdum við ákvæðið segir að á því sé byggt að ákvörðun í einu ríki um stöðu flóttamanns bindi ekki stjórnvöld í öðru ríki. Hins vegar sé eðlilegt og í samræmi við 20.-21. gr. ályktunar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna EC/SCP/5 frá 24. ágúst 1977 að slík ákvörðun um viðurkenningu á stöðu í öðru ríki sé ekki vefengd nema ákvörðunin sé röng eða aðrar ástæður liggi til þess. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er vísað til þeirrar meginreglu að með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar hafi ríki rétt til að stjórna hverjir ferðist yfir landamæri þeirra, hverjir dvelji á landsvæði þeirra og hvort útlendingi skuli vísað úr landi, sbr. m.a. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli F.G. gegn Svíþjóð (nr. 43611/11) frá 23. mars 2016, 111. mgr., ákvörðun Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, 65. mgr., og dóm Üner gegn Hollandi (nr. 46410/99) frá 18. október 2006, 54. mgr.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ákvörðun ítalskra yfirvalda um að veita kæranda stöðu flóttamanns þar í landi bindi ekki íslensk stjórnvöld. Að mati kærunefndar felur síðasti málsliður 47. gr. laga um útlendinga í sér heimild íslenskra stjórnvalda til að endurskoða mat annarra ríkja og ákvarða hvort grundvöllur sé til að veita alþjóðlega vernd samkvæmt lögum um útlendinga. Ekki er skýrt nánar í athugasemdum við 47. gr. hvað teljist til annarra ástæðna í skilningi ákvæðisins en ráða má að mati kærunefndar að í því geti m.a. falist að kærendur teljist ótrúverðugir að mati stjórnvalda og/eða að fram komi nýjar upplýsingar. Með hliðsjón af framangreindri meginreglu sem birtist í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu um rétt ríkja til að stjórna því m.a. hverjir dvelji á landsvæði þeirra telur kærunefnd að þegar einstaklingur leggur fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þá skuli mál hans skoðað með sjálfstæðum hætti af stjórnvöldum á grundvelli íslensks réttar.

Kærandi byggir jafnframt á því að vegna ótryggs öryggisástands í Pakistan þá eigi hann rétt á dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í nýlegum úrskurði kærunefndar sem kveðinn var upp 24. nóvember 2022, nr. 455/2022, rannsakaði nefndin aðstæður í Khyber Pakhtunkhwa, héraði í Pakistan sem kærandi kveðst vera frá. Var það mat kærunefndar að þau gögn og heimildir sem kærunefnd hefði yfirfarið við meðferð þess máls bentu ekki til þess að aðstæður í héraðinu væru slíkar að aðili málsins ætti á hættu meðferð sem bryti í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Við mat á aðstæðum í Khyber Pakhtunkwa héraði í framangreindum úrskurði studdist kærunefnd meðal annars við skýrslu FATA Research Centre frá janúar 2021 (Khyber Pakhtunkhwa Tribal Districts Annual Security Report) og skýrslu PAK Institute for Peace Studies (Pakistan Security Report 2019). Það er mat kærunefndar að ekkert í gögnum málsins, þar á meðal tilvísaðri skýrslu PAK Institute for Peace Studies fyrir árið 2021, gefi til kynna að aðstæður á heimasvæði kæranda í Pakistan hafi breyst verulega þannig að taka beri mál hans upp að nýju, sbr. 24. stjórnsýslulaga.

Kærandi byggir jafnframt á því að þar sem hann hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi 8. júlí 2020 þá eigi hann rétt á dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í fylgigögnum er að finna vísun í úrskurði kærunefndar þar sem aðilum frá Pakistan hafi verið veitt vernd á grundvelli lagaákvæðisins og þar sem pakistönsk skilríki hafi verið lögð til grundvallar auðkennis þeirra.

Hvað varðar vísun í 23. gr. reglugerðar um útlendinga tekur kærunefnd fram að í lögum um útlendinga er ekki heimild til að fella niður þjónustu við einstaklinga sem hafa fengið endalega synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og því hafi framkvæmdin verið sú að einstaklingur nýtur slíkrar þjónustu allt þar til hann yfirgefur landið sjálfviljugur eða er fluttur úr landi. Er sú framkvæmd ótengd þeim tímaramma sem tilgreindur er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Líkt og fjallað hefur verið um í úrskurðum kærunefndar í máli kæranda kemur fram í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga að heimilt sé að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði samkvæmt 37. og 39. gr. laganna. Samkvæmt orðanna hljóðan miðast lokadagur frests samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga við ákvörðun á stjórnsýslustigi. Í athugasemdum við frumvarp til laganna kemur fram að átt sé við endanlega niðurstöðu hjá stjórnvöldum á báðum stjórnsýslustigum.

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi fyrst hingað til lands í febrúar 2018 í atvinnuleit. Kona hans og barn sameinuðust honum hér á landi hinn 4. júlí 2018 og lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd 30. október 2018. Kærandi dró umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka hinn 20. desember 2019 og fór úr landi hinn 28. desember 2019. Hinn 8. apríl 2020 fengu kona og barn kæranda dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Hinn 8. júlí 2020 sótti kærandi um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar en dró þá umsókn til baka 18. nóvember sama ár. Kærandi sótti að nýju um alþjóðlega vernd 7. október 2020. Hinn 25. febrúar 2021 var úrskurður kærunefndar í máli hans kveðinn upp eða um fimm mánuðum eftir að hann lagði fram umsókn sína. Var máli kæranda því lokið á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða. Kærandi hefur ekki farið af landi brott líkt og lagt var fyrir hann með úrskurði kærunefndar og hefur hann því dvalið hér á landi í um tvö ár og fimm mánuði. Í ljósi þess að máli kæranda var lokið á báðum stjórnsýslustigum innan þeirra tímamarka sem fram koma í ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er ljóst að hann uppfyllir ekki skilyrði til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða af þeim sökum.

Þá er það mat kærunefndar að ekkert komi fram í þeim gögnum er kærandi lagði fram með beiðni sinni um endurupptöku er bendi til þess að úrskurður kærunefndar nr. 87/2021 hafi byggst á röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst frá því úrskurðurinn var kveðinn upp.

Að teknu tilliti til alls framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 14. október 2021 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

Vegna athugasemda kæranda hvað varðar fjölskyldutengsl hans hér á landi telur kærunefnd rétt að leiðbeina kæranda um að hann getur lagt inn umsókn um dvalarleyfi hér á landi til Útlendingastofnunar telji hann sig uppfylla skilyrði dvalarleyfis, s.s. vegna fjölskyldutengsla sinna eða á grundvelli annarra skilyrða laga um útlendinga. Með þessum leiðbeiningum tekur kærunefnd þó ekki afstöðu til þess hvort kærandi kunni að uppfylla skilyrði slíks dvalarleyfis.

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine his case is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                            Sindri M. Stephensen


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum