Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 388/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 388/2021

Fimmtudaginn 4. nóvember 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. júlí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. júlí 2021, um að kærandi hafi fullnýtt bótatímabil sitt.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 22. mars 2021. Umsóknin var samþykkt með bréfi, dags. 29. apríl 2021, og kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur þar til í byrjun júlí 2021. Með greiðsluseðli, dags. 30. júlí 2021, var kæranda tilkynnt að hann hefði fullnýtt bótatímabil sitt. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála sama dag.

Með bréfi, dags. 5. ágúst 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir gögnum frá Vinnumálastofnun vegna kærunnar. Umbeðin gögn og greinargerð bárust frá Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 26. ágúst 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. september 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hann hafi fyrst sótt um atvinnuleysisbætur þann 1. janúar 2017 en hafið störf á ný þann 15. mars 2019. Hann hafi því fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 26 mánuði. Frá þeim tíma hafi hann verið í vinnu í 18 mánuði en hafi síðan veikst og verið í sjúkraþjálfun til 20. mars 2021. Það hafi því liðið tvö ár frá upphafi starfs og þar til hann hafi lokið sjúkraþjálfun. Þann 22. mars 2021 hafi kærandi aftur sótt um atvinnuleysisbætur sem Vinnumálastofnun hafi samþykkt. Hann hafi talið að um væri að ræða 30 mánaða bótatímabil en þann 30. júlí 2021 hafi hann komist að því að hann hafi fullnýtt bótatímabil sitt og hafi því aðeins fengið greiddar bætur í fjóra mánuði.

Kærandi bendi á að samkvæmt lögum skuli bótatímabil endurnýjast þegar atvinnuleitandi hafi starfað í 24 mánuði frá því að hafa síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi sjálfur starfað í 18 mánuði og hafi síðan veikst. Að mati kæranda hafi hann því áunnið sér að nýju fullan rétt til atvinnuleysisbóta í 30 mánuði.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga þegar þeir verði atvinnulausir. Í VI. kafla laganna sé fjallað um það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar. Í 29. gr. laganna komi fram að atvinnuleitandi geti í mesta lagi átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga í samfellt 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun taki við umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

Í 30. og 31. gr. laganna sé fjallað um þau tilvik sem leiði til þess að bótatímabil endurnýist. Annars vegar endurnýjun á tímabili eftir að atvinnuleitandi hafi fullnýtt bótarétt sinn og hins vegar endurnýjun á bótatímabili áður en fyrra tímabili ljúki að fullu. Þar sem kærandi hafi ekki fullnýtt bótarétt sinn í mars 2019 komi ákvæði 31. gr. laganna einungis til álita í málinu en þar sé fjallað um þau tilvik þar sem nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu. Samkvæmt ákvæðinu sé það skilyrði fyrir því að nýtt bótatímabil geti hafist að viðkomandi hafi starfað í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í mars 2019. Til að kanna hvort kærandi eigi rétt á endurnýjun á bótatímabili þurfi að kanna hvort hann hafi starfað í 24 mánuði þegar hann hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga í mars 2021. Samkvæmt upplýsingum úr vottorðum fyrrverandi vinnuveitanda og úr staðgreiðsluskrá Skattsins hafi kærandi starfað á því tímabili í 15 mánuði. Sú vinna kæranda uppfylli ekki skilyrði 31. gr. laganna um samfellt starf á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Með vísan til framangreinds hafi kærandi því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils á grundvelli 31. gr. laganna þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur í mars 2021.

Í kæru til úrskurðarnefndar taki kærandi fram að hann hafi verið hluta af umræddu tímabili hjá sjúkraþjálfara vegna veikinda. Krafa kæranda virðist lúta að því að endurhæfing hans hjá sjúkraþjálfara skuli teljast til ávinnslu á nýju bótatímabili.

Vinnumálastofnun tekur fram að almennt leiði óvinnufærni vegna slyss eða sjúkdóms til þess að atvinnuleitandi geti geymt þegar áunnar atvinnuleysistryggingar, sbr. 26. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Geymdar atvinnuleysistryggingar komi, eðli málsins samkvæmt, ekki til ávinnslu á nýju bótatímabili samkvæmt lögunum. Í 4. mgr. 15. gr. laganna sé þó mælt fyrir um sérreglu sem kveði á um að atvinnutengd endurhæfing geti komið til ávinnslu á bótarétti. Í ákvæðinu segi að atvinnutengd starfsendurhæfing, sbr. lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, sem launamaður hafi tekið þátt í á þeim tíma sem hann hafi talist óvinnufær, sbr. 26. gr., svari til 13 vikna vinnuframlags (þrír mánuðir) í fullu starfi, enda hafi atvinnuleitandi sannanlega lokið atvinnutengdri starfsendurhæfingu og starfað í að minnsta kosti þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu.

Vinnumálastofnun hafi ekki borist vottorð frá starfsendurhæfingarsjóði eða staðfesting á því að kærandi hafi lokið atvinnutengdri starfsendurhæfingu en ljóst sé að jafnvel þó að slík staðfesting myndi berast stofnuninni myndi starfstími og sérheimild 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ekki duga til ávinnslu á nýju bótatímabili í máli kæranda. Líkt og fram hafi komið bendi staðgreiðsluskrá Skattsins til þess að kærandi hafi starfað í 15 mánuði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Þriggja mánaða viðbót við starfstíma kæranda veiti honum því ekki rétt á nýju bótatímabili, enda þurfi atvinnuleitandi að starfa í 24 mánuði til að ávinna sér þann rétt samkvæmt 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á nýju bótatímabili samkvæmt 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar  með vísan til 31. gr. laganna og að kærandi hafi því fullnýtt bótarétt sinn í júlí 2021.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi hafi fullnýtt bótatímabil sitt.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Í 30. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum og hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í 30 mánuði geti áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju að liðnum 24 mánuðum, enda hafi hann starfað á vinnumarkaði í að minnsta kosti sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk og misst starf sitt af gildum ástæðum. Þá kemur fram í 31. gr. laganna að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun með hléum frá 26. desember 2016 en þá hófst 30 mánaða bótatímabil hans. Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur í mars 2021 en hafði þar áður fengið greiddar atvinnuleysisbætur í mars 2019. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra starfaði kærandi á því tímabili í 15 mánuði á innlendum vinnumarkaði. Bótatímabil kæranda hélt því áfram að líða við umsókn í mars 2021 og í byrjun júlí 2021 hafði kærandi fullnýtt 30 mánaða bótatímabil sitt. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. júlí 2021, um að A, hafi fullnýtt bótatímabil sitt, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

_Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira