Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 40/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 40/2022

Fimmtudaginn 19. maí 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. janúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. október 2021, um að hafna umsókn fyrirtækisins um styrk vegna hækkunar á starfshlutfalli starfsmanna þess.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslu styrks vegna hækkunar á starfshlutfalli tveggja starfsmanna fyrirtækisins þann 29. júní 2021 fyrir tímabilið 1. júní til 30. september 2021. Með ákvörðun, dags. 25. október 2021, var umsókn kæranda synjað með vísan til þess að umræddir starfsmenn hefðu ekki fengið greidd laun í samræmi við kjarasamning.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. janúar 2022. Með bréfi, dags. 25. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 9. mars 2022. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 23. mars 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. mars 2022, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar er greint frá því að Vinnumálastofnun hafi þann 25. október 2021 hafnað umsókn kæranda um styrk vegna greiðslu hlutabóta vegna skerts starfshlutfalls í Covid faraldrinum. Rökstuðningur Vinnumálastofnunar fyrir höfnuninni hafi verið á þá leið að ráðningarsamningar gæfu til kynna að greitt væri undir lágmarkslaunum og því hafi umræddir starfsmenn fyrirtækisins ekki uppfyllt skilyrði stofnunarinnar fyrir styrkveitingu.

Við nánari skoðun kæranda á umræddum ráðningarsamningum hafi komið í ljós að samningarnir hafi verið settir rangt upp en þar sé tilgreint 100% starfshlutfall. Það sé ekki í samræmi við það vinnuframlag sem innt sé af hendi og þau laun sem greidd séu. Rétt sé að umræddir starfsmenn skili vinnuframlagi sem nemi fimm klukkustundum daglega, eða rúmlega 62% af fullri vinnu, og séu laun og launaseðlar í samræmi við það. Meðan á skertu vinnuframlagi hafi staðið hafi vinnuframlag farið niður í tvær og hálfa klukkustund á dag hjá hvorum starfsmanninum um sig. Öll heildsala hafi minnkað stórlega á tímabilinu og vinnufyrirkomulagi verið breytt sem hafi gert það að verkum að hægt hafi verið að halda starfsemi gangandi, þrátt fyrir minnkaða viðveru.

Að teknu tilliti til framangreinds óski kærandi eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði ákvörðun Vinnumálastofnunar um styrk vegna greiðslu hlutabóta.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu styrks til hækkunar á starfshlutfalli starfsmanna sinna með umsókn, dags. 29. júní 2021. Sótt hafi verið um styrk vegna B og C fyrir tímabilið 1. júní 2021 til 30. september 2021. Viðkomandi starfsmenn séu jafnframt raunverulegir eigendur fyrirtækisins samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins.

Með erindi, dags. 29. júní, hafi viðkomandi starfsmenn fengið tilkynningu um að sótt hafi verið um styrk til hækkunar á starfshlutfalli þeirra og þeir beðnir um að taka afstöðu til umsóknarinnar á „Mínum síðum“. Staðfestingar atvinnuleitenda hafi borist samdægurs þar sem staðfest hafi verið samkomulag um hækkun á starfshlutfalli frá 50% upp í fyrra starfshlutfall, þ.e. 100%. Með erindi, dags. 26. ágúst 2021, hafi Vinnumálastofnun upplýst kæranda um að ekki væri hægt að afgreiða umsóknirnar þar sem báðir starfsmennirnir hafi verið skráðir í 100% starf en launin ekki verið í samræmi við starfshlutfall. Óskað hafi verið eftir staðfestingu á starfshlutfalli með afriti af ráðningarsamningum og kæranda bent á að ef vinnuframlag væri lægra þyrfti að leiðrétta þær upplýsingar í umsókn fyrirtækisins. Kærandi hafi svarað erindinu samdægurs. Þar hafi kærandi greint frá því að ekki væru gerðir skriflegir ráðningarsamningar hjá fyrirtækinu. Þá hafi kærandi greint frá því að villa væri á launaseðlunum en í erindi kæranda segi orðrétt: „Það er nokkuð greinilegt að það er villa á launaseðlum okkar, að hafa skráð lægri grunnlaun í staðinn fyrir að nota lækkaða hlutfallseiningu til útreiknings á heildar útborguðum launum. Semsagt, okkar mistök í ferli við launavinnslu, en samt sama niðurstaða vegna minnkaðs starfshlutfalls. Þar með gerðu B og C ekki heldur neina athugasemd. Enginn áttaði sig á þessu.“

Vinnumálastofnun hafi sama dag óskað eftir frekari útskýringum frá kæranda. Þá hafi kærandi gefið þær skýringar að vinnuframlag starfsmannanna væri sex tímar á virkum dögum og að hvor um sig fengi greitt fyrir það 261.913 kr. Það samsvari 379.217 kr. miðað við átta tíma vinnudag. Þegar hlutabætur hafi verið greiddar hafi vinnutími þeirra farið niður í þrjá tíma á dag. Þeir séu nú aftur komnir í fyrra starfshlutfall, eða frá og með 1. júní 2021.

Þann 20. september 2021 hafi kærandi verið upplýstur um að ekki væri hægt að samþykkja greiðslu styrksins þar sem eitt af skilyrðum fyrir slíkri greiðslu sé að samið hafi verið um að viðkomandi starfsmaður fari aftur í að minnsta kosti sama starfshlutfall og ráðningarsamningur hafi kveðið á um áður en starfshlutfall hafi verið minnkað. Hins vegar hafi starfsmennirnir virst vera skráðir í 100% starfshlutfall þegar sótt hafi verið um hlutabætur fyrir þá. Ef þeir hafi hins vegar aldrei verið í 100% starfshlutfalli þýði það að þeir hafi fengið greiddar of háar bætur frá upphafi. Kæranda hafi auk þess verið leiðbeint um að skila inn ráðningarsamningum fyrir starfsmennina.

Kærandi hafi svarað erindi stofnunarinnar samdægurs. Þar hafi kærandi viljað ítreka að um væri að ræða örfyrirtæki þar sem samningar væru munnlegir en aldrei hefðu verið gerðir skriflegir ráðningarsamningar. Kærandi hafi þá óskað eftir því að stofnunin staðfesti hvort verið væri að óska eftir skriflegum ráðningarsamningi. Erindi kæranda hafi verið svarað um hæl þar sem farið hafi verið yfir skilyrði fyrir greiðslu styrks sem kærandi hafði þegar samþykkt við umsókn. Þá hafi stofnunin staðfest að skila þyrfti inn ráðningarsamningum. Þann 8. október 2021 hafi ráðningarsamningar vegna B og C borist. Samkvæmt framlögðum ráðningarsamningum sé tilgreint starfshlutfall 100% og nemi mánaðarlaun 261.913 kr.

Með erindi, dags. 25. október 2021, hafi kærandi verið upplýstur um að beiðni um styrk vegna hækkaðs starfshlutfalls C og B hafi verið hafnað þar sem samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefðu viðkomandi starfsmenn ekki fengið greidd laun í samræmi við kjarasamning. Eitt af grunnskilyrðum fyrir greiðslu styrks væri að viðkomandi launamaður hafi fengið greidd laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Reglugerð nr. 918/2020 gildi um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum sem og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku þeirra í vinnumarkaðsaðgerðum. Með V. ákvæði til bráðabirgða, sbr. reglugerð nr. 545/2021 um breytingu á reglugerð nr. 918/2020, hafi Vinnumálastofnun verið falið að greiða styrk til fyrirtækis vegna hækkunar á starfshlutfalli starfsmanna sem þegar hefðu verið í minnkuðu starfshlutfalli hjá viðkomandi fyrirtæki.

Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna greiðslu styrks um hækkun starfshlutfalls vegna launamanns sem þegar hafi verið í minnkuðu starfshlutfalli. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli V. bráðabirgðaákvæðis með reglugerð nr. 918/2020. Samkvæmt 1. mgr. V. bráðabirgðaákvæðis með reglugerð nr. 918/2020 sé heimilt að greiða styrk til fyrirtækis sem semji við launamann, sem teljist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og sé þegar í minnkuðu starfshlutfalli hjá viðkomandi fyrirtæki, um hækkun starfshlutfalls.

Samkvæmt 4. mgr. bráðabirgðaákvæðisins séu skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt 1. mgr. meðal annars:

a. að viðkomandi launamaður hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögum um atvinnuleysistryggingar í apríl og maí 2021,

b. að viðkomandi launamaður og hlutaðeigandi fyrirtæki hafi samið um að minnsta kosti sama starfshlutfall og launamaðurinn hafi verið ráðinn í hjá fyrirtækinu áður en starfshlutfall hans hafi verið minnkað.

Að auki sé það skilyrði að í ráðningarsamningi eða í viðauka við ráðningarsamning á milli hlutaðeigandi fyrirtækis og viðkomandi launamanns sé kveðið á um að viðkomandi launamaður fái greidd laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings, sbr. d-lið 4. mgr. ákvæðisins.

Fyrir liggi að kærandi hafi sótt um greiðslu styrks til Vinnumálastofnunar þann 29. júní 2021 vegna hækkunar starfshlutfalls launamanna sem hafi þegar verið í minnkuðu starfshlutfalli. Umsókn kæranda hafi verið hafnað þar sem laun hafi ekki verið í samræmi við lágmarkskjör kjarasamnings. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi sótt um styrk vegna hækkunar starfshlutfalls viðkomandi starfsmanna úr 50% í fyrra starfshlutfall, eða 100% starf. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi B sótt um greiðslu hlutabóta þann 6. apríl 2020 og C þann 7. apríl 2020. Báðir starfsmennirnir hafi við umsókn um hlutabætur tilgreint að fyrra starfshlutfall þeirra hafi verið 100% og hafi kærandi staðfest starfshlutfall þeirra.

Í kæru til nefndarinnar hafi kærandi borið það fyrir sig að mistök hefðu verið gerð á framlögðum ráðningarsamningum þar sem starfshlutfall hafi verið skráð 100% en hið rétta hafi verið að starfsmenn hafi skilað fimm klukkustunda vinnuframlagi, eða rúmum 62% af fullri vinnu, og hafi laun verið í samræmi við það. Á meðan á skertu vinnuframlagi hafi staðið hafi starfsmenn skilað tveggja og hálfs klukkustunda vinnuframlagi, eða sem samsvari 31% starfshlutfalli.

Atvinnurekendum, sem ætli að sækja um ráðningarstyrk, beri að kynna sér vel þær reglur sem gildi um úrræðið. Á vefsíðu Vinnumálastofnunar og í leiðbeiningum um styrki komi skýrt fram að laun þurfi að vera í samræmi við viðeigandi kjarasamning, auk þess sem viðkomandi launamaður og hlutaðeigandi fyrirtæki hafi samið um að minnsta kosti sama starfshlutfall og launamaðurinn hefði verið ráðinn í hjá fyrirtækinu áður en starfshlutfall hans hafi verið minnkað. Kæranda hafi því átt að vera það ljóst frá upphafi að framangreind skilyrði væru ekki uppfyllt.

Meðal skilyrða fyrir greiðslu styrks vegna hækkaðs starfshlutfalls sé, líkt og áður segi, að viðkomandi atvinnuleitandi fái greitt í samræmi við ákvæði viðeigandi kjarasamnings, auk þess sem það sé skilyrði að atvinnuleitandi fari að minnsta kosti í sama starfshlutfall hjá fyrirtækinu og áður en starfshlutfall hans hafi verið minnkað.

Samkvæmt framlögðum ráðningarsamningum sé starfshlutfall 100% og laun fyrir fullt starf 261.913. kr. Framangreind laun séu ekki í samræmi við lágmarkskjör og því hafi umsókn kæranda um styrk vegna hækkaðs starfshlutfalls starfsmannanna verið hafnað.

Í kæru til nefndarinnar tilgreini kærandi að mistök hafi verið gerð við útfyllingu ráðningarsamnings og að starfshlutfall sé ekki 100%. Rétt sé að vinnuframlag starfsmannanna meðfram hlutabótum hafi verið tvær og hálf klukkustund eða sem samsvari 31% starfshlutfalli og hefðu þeir farið aftur í fyrra vinnuframlag sitt, þ.e. fimm klukkustundir, sem samsvari um 62% starfshlutfalli.

Í samræmi við framangreindar upplýsingar sé skilyrði b-liðar 4. mgr. V. ákvæðis til bráðabirgða með reglugerð um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði ekki uppfyllt þar sem launamenn hafi ekki verið ráðnir í fyrra starfshlutfall, þ.e. 100%, samkvæmt umsókn um hlutabætur. Gögn í máli þessu og málatilbúnaður kæranda gefi enn fremur til kynna að fyrirtækið hafi gefið upp rangar upplýsingar í umsókn um hlutabætur meðfram minnkuðu starfshlutfalli, enda hafi kærandi staðfest að starfsfólk fyrirtækisins hefði verið í 100% starfi sem minnkað hefði verið í 50%. Starfsfólk fyrirtækisins hafi fengið greiddar hlutabætur á þeim forsendum frá maí 2020 til maí 2021. Vinnumálastofnun veki athygli á því að eitt af skilyrðum fyrir greiðslum hlutabóta frá júlí 2020 til loka úrræðisins hafi verið að launamenn héldu að lágmarki 50% starfshlutfalli hjá fyrirtækjum, sbr. 1. mgr. XVI. bráðabirgðaákvæðis með lögum um atvinnuleysistryggingar. Starfsmenn sem hafi verið í lægra hlutfalli hafi því ekki uppfyllt skilyrðin fyrir greiðslu hlutabóta samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu. Hafi starfsmenn fyrirtækisins starfað í um það bil 30% starfshlutfalli hjá kæranda á ofangreindu tímabili sé ljóst að skilyrði fyrir hlutabótum hafi ekki verið uppfyllt. Þar af leiðandi séu ekki forsendur til þess að greiða styrk til kæranda á grundvelli V. ákvæðis til bráðabirgða með reglugerð nr. 918/2020.

Rétt sé að taka fram að Vinnumálastofnun hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort kæranda beri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði þær atvinnuleysisbætur sem launamenn hans hafi fengið greiddar á grundvelli XVI. ákvæðis til bráðabirgða með lögum um atvinnuleysistryggingar en samkvæmt 9. mgr. ákvæðisins skuli atvinnurekandi endurgreiða atvinnuleysisbætur sem launamenn hans hafi fengið greiddar á grundvelli ákvæðisins á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 31. maí 2021 að viðbættu 15% álagi ef í ljós komi að vinnuveitandi uppfylli ekki lengur skilyrði eða þær skuldbindingar sem hann hafi undirgengist.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna skuli umsókn kæranda um styrk vegna hækkunar starfshlutfalls.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. október 2021, um að synja umsókn kæranda um styrk vegna hækkunar á starfshlutfalli tveggja starfsmanna fyrirtækisins.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 62. gr. laga laganna er kveðið á um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna einstaklinga. Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. greiðast styrkir á grundvelli reglugerðar sem ráðherra setur.

Reglugerð nr. 918/2020 gildir um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum sem og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku þeirra í vinnumarkaðsaðgerðum.

Í 1. mgr. V. ákvæðis til bráðabirgða í reglugerð nr. 545/2021, um breytingu á reglugerð nr. 918/2020, sem var í gildi til 30. september 2021, kemur fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða styrk til fyrirtækis sem semur við launamann, sem telst tryggður innan atvinnuleyistryggingakerfisins og er þegar í minnkuðu starfshlutfalli hjá viðkomandi fyrirtæki, um hækkun starfshlutfalls.

Samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins eru skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleyistryggingasjóði meðal annars:

a. að viðkomandi launamaður hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögum um atvinnuleysistryggingar í apríl og maí 2021,

b. að viðkomandi launamaður og hlutaðeigandi fyrirtæki hafi samið um a.m.k. sama starfshlutfall og launamaðurinn hafði verið ráðinn í hjá fyrirtækinu áður en starfshlutfall hans var minnkað, sbr. a-lið ákvæðisins.

c. að hlutaðeigandi fyrirtæki sé í skilum hvað varðar launatengd gjöld og opinber gjöld, svo sem iðgjöld og mótframlag í lífeyrissjóð, stéttarfélagsgjöld og tryggingagjald,

d. að í ráðningarsamningi eða í viðauka við ráðningarsamning milli hlutaðeigandi fyrirtækis og viðkomandi launamanns sé kveðið á um að viðkomandi launamaður fái greidd laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings og njóti óskertra orlofsréttinda á yfirstandandi orlofsári í samræmi við fyrra starfshlutfall hans þrátt fyrir að viðkomandi hafi verið í minnkuðu starfshlutfalli hjá hlutaðeigandi fyrirtæki á ávinnslutíma orlofsréttinda fyrir yfirstandandi orlofsár, og

e. að Vinnumálastofnun hafi borist staðfesting launamanns um breytt starfshlutfall og samkomulag um orlofsréttindi, sbr. b- og d-lið.

Fyrir liggur að kærandi sótti um greiðslu styrks til Vinnumálastofnunar vegna hækkunar starfshlutfalls tveggja starfsmanna úr 50% starfi í fyrra starfshlutfall, eða 100% starf. Samkvæmt framlögðum ráðningarsamningum er starfshlutfall tilgreint 100% og mánaðarlaun fyrir það starf 261.913 kr. Ljóst er að þau laun eru ekki í samræmi við lágmarkskjör samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings Sambands Íslenskra sveitarfélaga og Matvís. Skilyrði d-liðar 4. mgr. V. ákvæðis til bráðabirgða í reglugerð nr. 918/2020 er því ekki uppfyllt í máli kæranda. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn A, um greiðslu styrks vegna hækkaðs starfshlutfalls tveggja starfsmanna, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira