Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 1/2016(B).  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Með bréfi 30. júní 2016 krefjast Ríkiskaup og Landhelgisgæsla Íslands endurupptöku á máli kærunefndar útboðsmála nr. 1/2016. Skilja verður beiðnina þannig að sóknaraðilar krefjist þess að í enduruppteknu máli verði öllum kröfum kærenda hafnað. Sóknaraðilar sendu frekari athugasemdir og gögn til nefndarinnar með erindum 8., 16., 17. og 29. ágúst 2016.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 7. október 2016

í máli nr. 1/2016(B):

Stocznia Remontowa Nauta S.A.

gegn

Ríkiskaupum

Landhelgisgæslu Íslands

og Alkor Sp. z o.o.

 

Með bréfi 30. júní 2016 krefjast Ríkiskaup og Landhelgisgæsla Íslands endurupptöku á máli kærunefndar útboðsmála nr. 1/2016. Skilja verður beiðnina þannig að sóknaraðilar krefjist þess að í enduruppteknu máli verði öllum kröfum kærenda hafnað. Sóknaraðilar sendu frekari athugasemdir og gögn til nefndarinnar með erindum 8., 16., 17. og 29. ágúst 2016.

I

Hinn 30. október 2016 auglýsti varnaraðili útboð nr. V20159 „Maintenance for Icelandic Coast Guard vessel Þór“. Grein 1.7.7 í útboðsgögnum bar fyrirsögnina „Quality assurance standards“ og þar kom fram að bjóðendur skyldu hafa ISO 9001 vottun. Ákvæðið í heild sinni var svohljóðandi: „The tenderer shall have ISO 9001 certification, see tender form 6. The contractor shall ensure that all parts of the project are assured for quality through internal supervision. The standards shall be systematic, organised and documented and all management and the division of responsibility shall be defined in it. It shall be registered in writing which persons administer the project, what tasks are managed by whom, who has the authority for decision-making and who is responsible for what. The contractor provider shall ensure that all inputs into the project meet requirements. This shall be done in a systematic manner and the result shall be recorded“. Samkvæmt útboðsgögnum skyldi val tilboða fara aðallega fram á grundvelli lægsta verðs.

            Tilboð bárust frá fimm bjóðendum í útboðinu. Lægsta tilboð gerði Alkor Sp. z o.o. að fjárhæð 88.560.060 krónur. Tilkynning um val tilboðs Alkor Sp. z o.o. var send bjóðendum 7. janúar 2016. Bjóðandinn Stocznia Remontowa Nauta S.A. bað um rökstuðning 13. sama mánaðar og óskaði m.a. eftir staðfestingu á því að Alkor Sp. z o.o. hefði lagt fram öll vottorð sem áskilin hefðu verið í útboðsgögnum. Rökstuðningur barst 22. sama mánaðar og þar kom m.a. fram að Alkor Sp. z o.o. byggði á ISO vottun undirverktaka síns, Bota Technik Sp. z o.o. Hinn 21. sama mánaðar tilkynntu sóknaraðilar að tilboð Alkor Sp. z o.o. hefði verið endanlega samþykkt og þannig kominn á bindandi samningur.

            Bjóðandinn Stocznia Remontowa Nauta S.A. kærði val á tilboði til kærunefndar útboðsmála 31. sama mánaðar. Kæran byggði m.a. á því að verðtilboð Alkor Sp. z o.o. hefði ekki verið rétt fram sett. Aðallega var þó byggt á því að Alkor Sp. z o.o. hefði ekki verið með tilskilda ISO 9001 vottun og þannig ekki uppfyllt ófrávíkjanlegar kröfur útboðsgagna. Sóknaraðilar í þessum þætti málsins reistu hins vegar málatilbúnað sinn á því að Alkor Sp. z o.o. hefði byggt á tæknilegri getu undirverktakans Bota Technik Sp. z o.o. sem hefði ISO 9001 vottun og myndi sjá um mikilvægasta og tæknilega flóknasta hluta vinnunnar. Auk þess hefði Alkor Sp. z o.o. sent margvísleg vottorð sem gæfu til kynna hæfni fyrirtækisins til að takast á við verkefnið og að verkferlar fyrirtækisins væru með þeim hætti að kröfum um gæði væri fullnægt.

            Í úrskurði kærunefndar 17. maí 2016 var það niðurstaða nefndarinnar að hafna bæri kröfu um að felld yrði úr gildi ákvörðun um val á tilboði Alkor Sp. z o.o. Þá var einnig hafnað kröfu um að auglýsa skyldi útboðið á nýjan leik Aftur á móti lét nefndin uppi það álit að sóknaraðilar væru skaðabótaskyldir gagnvart kæranda og sóknaraðilar skyldu greiða 600.000 krónur í málskostnað.

Rökstuðningur kærunefndar útboðsmála í fyrrgreindum úrskurði var að útboðsskilmálar hefðu gert ráð fyrir að gæðakerfi næði til allra verka en ekki einungis hluta þeirra. Jafnvel þótt fallist yrði á að þau verkefni sem falin yrðu Bota Technik Sp. z o.o. væru stærstu verkefnin sem vinna ætti á grundvelli útboðsins væri þó óumdeilt að undirverktakinn tæki einungis að sér hluta verksins. Væri því ekki annað komið fram en að bjóðandinn Alkor Sp. z o.o. hefði sjálfur ætlað sér að vinna ýmsa þætti verksins án tilskilinnar vottunar. Tilboðið hafi því að þessu leyti verið í ósamræmi við útboðsskilmála. Nefndin tók fram að önnur gögn um Alkor Sp. z o.o. veittu ekki sambærilega sönnun fyrir því að fullnægjandi ráðstafanir hefðu verið gerðar með tilliti til gæðakrafna. Í tilboði Alkor Sp. z o.o. væri einungis vísað til þess að undirverktaki uppfyllti kröfu um vottaðan gæðastaðal og ekki hefðu önnur gögn verið lögð fram sem lytu að slíkum kröfum. Önnur tilboðsgögn sem vísað hefði verið til í málatilbúnaði fyrir nefndinni hefðu verið lögð fram undir öðrum lið tilboðsins þar sem sýna átti fram á tiltekna fagþekkingu en ekki gæðakerfi. Þá hefðu einnig verið lögð fram önnur gögn í málinu sem þó yrði ekki séð að hefðu fylgt tilboði Alkor Sp. z o.o. Taldi nefndin þannig að ekki hefðu verið leiddar líkur að því að þau gögn sem fylgdu tilboðinu hefðu veitt sambærilega sönnun fyrir því að fullnægjandi ráðstafanir hefðu verið gerðar með tilliti til þeirra gæðakrafna sem vísað var til í útboðsgögnum.

 II

Ákvæði 95. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup fjallar um meðferð mála hjá kærunefnd útboðsmála. Samkvæmt 8. mgr. 95. gr. laganna gilda stjórnsýslu­lög nr. 37/1993 um meðferð kærumála að öðru leyti en kveðið er á um í lögum um opinber innkaup. Um endurupptöku mála fyrir kærunefnd útboðsmála fer því eftir 24. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. greinarinnar á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný, eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun, ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 24. gr. laganna á aðili máls einnig rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í málinu er ekki byggt á 2. tölulið 1.. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga kemur því einungis til skoðunar hvort nefndin hafi byggt úrskurð sinn á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, sbr. 1. tölulið.

Það er meginregla opinberra innkaupa að öll gögn eiga að fylgja með tilboðum þegar þau berast innan tilboðsfrests. Nýti kaupandi svigrúm sitt til þess að óska eftir viðbótarupplýsingum skal engu að síður liggja fyrir með skýrum hætti hvaða upplýsingum og forsendum er byggt á við endanlega ákvörðun um gildi og val tilboða. Kaupandi verður að geta sýnt fram á hvernig mat á tilboðum fór fram þannig að aðrir bjóðendur og eftir atvikum kærunefnd útboðsmála geti kannað forsendur og lögmæti ákvörðunarinnar.

Hlutverk kærunefndar útboðsmála er að leysa úr ætluðum brotum gegn lögum og reglum um opinber innkaup. Þau málsatvik sem nefndin leggur til grundvallar við mat á lögmæti ákvarðana eru að jafnaði atvik eins og þau lágu fyrir þegar kaupandi tók ákvörðun sína. Við endurskoðun á ákvörðun kaupanda á vali tilboðs metur nefndin þannig fyrst og fremst þau gögn og upplýsingar sem kaupandinn studdist við þegar hann tók ákvörðun sína.

Eins og áður segir fylgdu ekki gögn með tilboði Alkor Sp. z o.o. sem sýndu fram á að bjóðandinn uppfyllti kröfur útboðsgagna, en óumdeilt er að bjóðandinn var ekki með ISO 9001 vottun heldur aðeins undirverktaki hans. Þær skýringar og viðbótargögn sem lögð voru fyrir nefndina undir rekstri málsins leiddu heldur ekki til þess að nefndin teldi sýnt fram á að Alkor Sp. z o.o. hefði uppfyllt kröfurnar með öðrum hætti.

Sóknaraðilar byggja endurupptökubeiðni sína á því að upphaflegur úrskurður hafi verið rangur þar sem tilboð Alkor Sp. z o.o. hafi í reynd verið gilt. Máli sínu til stuðnings hafa sóknaraðilar lagt fyrir nefndina ný gögn sem að meginstefnu hafa orðið til eftir að úrskurður í málinu var kveðinn upp. Í þessum gögnum, svo og skýringum sóknaraðila fyrir nefndinni, hefur hins vegar ekkert komið fram sem getur haggað þeirri niðurstöðu að við ákvörðun um val á tilboði hafi ekki legið fyrir fullnægjandi upplýsingar um að Alkor Sp. z o.o. fullnægði óundanþægum kröfum útboðsgagna þannig að heimilt væri að meta tilboð félagsins gilt. Samkvæmt þessu er ekki fram komið að úrskurður kærunefndar útboðsmála 17. maí 2016 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Er kröfu sóknaraðila um endurupptöku málsins því hafnað.

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Ríkiskaupa og Landhelgisgæslu Íslands, um endurupptöku á máli kærunefndar útboðsmála nr. 1/2016,  Stocznia Remontowa Nauta S.A. gegn Ríkiskaupum, Landhelgisgæslu Íslands og Alkor Sp. z o.o.

                                                                                     Reykjavík, 7. október 2016.

                                                                                     Skúli Magnússon

                                                                                     Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                     Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira